Flýtileiðir

Hvað er verra en frumskógur?

Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir svo heppnir að vera boðið að fylla í hóp sem stundað hefur Veiðivötn í fjölda ára. Við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um og þáðum boðið. Það hefur lengi verið hugur til þess hjá okkur að komast innar í landið að sunnan heldur en Framvötnin og þarna bauðst gullið tækifæri. Eins og vera ber, leitaði ég til mér kunnugri manna eftir leiðbeiningum um útbúnað og aðferðir. Ekki stóð á góðum ráðum og helst nefndu menn; koma flugunni niður, djúpt. Já, ég þóttist nú kannast við einhverjar leiðir til þess. Langur taumur, þungar flugur, jafnvel sökktaumar sem eiga að húrra öllu dótinu niður á botn á innan við 20 sek. Vandamálið hefur bara alltaf verið að ég hef átt í bölvuðu basli með sökktauma í kastinu.

Eftir að hafa skeggrætt þetta á mínu heimili, þá varð úr að ég keypt hægsökkvandi línu #7 (intermediate) fyrir konuna og svo var ég svo lukkulegur að fá lánaða heldur hraðvirkari línu #8 á stöng #7 fyrir sjálfan mig. Menn geta svo rétt ímyndað sér hversu mikið stökk þetta var fyrir flotlínumanninn mig að höndla þessa hraðsökkvandi línu. En þetta er aðeins inngangurinn að því sem mér býr í brjósti.

Eftir þessa ferð og þá reynslu sem ég fékk af línunni sem ég hafði fengið að láni, fór ég á stúfana og kíkti á nokkrar línur. Var einhvern tímann talað um línufrumskóg? Hvað ætli það heiti þá sem ég rakst á varðandi sökklínur? Hvað sem það nú var, þá var það miklu þéttara heldur en frumskógur og mér tókst að villast strax í fyrstu skoðunarferð. Hvers vegna hefur framleiðendum ekki tekist að merkja línurnar sínar með sökkhraða sem er skiljanlegur? Þegar ég fór af stað, hafði ég í huga töflu yfir sökkhraða lína sem ég hafði nálgast hjá AFTM:

Class / Type

Sökkhraði (tommur á sek)

Dýpt (fet)

Intermediate

< 1

0-5

I

1 – 1 ¾

5-10

II

2 ½ – 3

10 – 20

III

3 ½ – 4

20 – 25

IV

4 ½ – 5

25 – 30

V

5 – 6

30

VI

6 ¼ – 7

> 30

Express

7 – 8

> 30

Lead core 450gr

7 – 8 ¾

> 30

Hér ætla ég að taka dæmi um línur frá þremur algengum framleiðendum; Airflo, Scientific Anglers og Rio. Eflaust eru eiginleikar lína frá þessum aðilum og jafnvel innan gerða eitthvað mismunandi sem getur alveg skýrt mismun þeirra á merkingum, en fyrir leikmann er alls ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hve hratt og djúpt hver þessara lína sekkur.

Airflo Jú, ég þóttist skilja intermediate hjá þeim en rak síðan í roga stans þegar kom að fast intermediate og Sink Rate 3, 5 og 7. Humm, sagði kunnugur við mig þegar ég spurði hvað tölurnar við Sink Rate ættu að segja mér. Ég komst síðar að því að þessi framleiðandi er ekkert að flækja málið; Sink Rate er einfaldlega tommur á sek. sem viðkomandi lína sekkur en ég veit enn ekki hvað fast intermediate stendur fyrir. Engar tölur uppgefnar um hámarksdýpi.

Scientific Anglers Þessar línur eru skilmerkilega stimplaðar með Type III, Type V o.s.frv. sem mér fannst lofa góðu. Eina vandamálið er að sökkhraði þessara lína stemmir hvorki við Airflo tölurnar né AFTM töfluna. Á heimasíðu SA fann ég að Type III sekkur 2 ½ – 3 ½ tommur á sek. og er gefin upp fyrir 5 – 10 feta dýpi. Type V sekkur 4 ½ – 6 tommur á sek. og er gerð fyrir 20+ feta dýpi.

Rio Type 3 sekkur 3 – 4 tommur á sek. og Type 4 sekkur 4 – 5 tommur. Ekkert meira um það að segja og litlar upplýsingar um hámarksdýpi að finna hjá þeim.

Ástæðan fyrir því að ég vildi bera saman línur frá þessum þremur framleiðendum er einföld; þeir nota sömu aðferð við að mæla sökkhraða sinna lína, en því miður virðist sú mælieining ekki alveg ná til kaupenda.

Ég reyndar endaði á því að kaupa mér samskonar línu og frúin er með, intermediate sem sekkur alveg mátulega fyrir alhliða notkun og rennur alveg glettilega vel. Vel að merkja þá er hún ekki frá neinum ofangreindra aðila og kostaði mig langt innan við helming af meðalverði þeirra og ég var einfaldlega guðs feginn að hafa ratað þokkalega óskemmdur út úr þessum skógi sökklína.

Flugulínur
Flugulínur

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com