Haust eða vor

Það er þrennt sem mér finnst skemmtilegast að gera; veiða silung að vori, veiða silung að hausti og svo þess á milli. Oft hefur veiðinni að vori og hausti verið líkt saman, fiskurinn fer sér hægt og svipaðar flugur virka einna best á þessum árstíma. Hvað veðráttuna varðar þá er svo sem allur gangur á því hvernig það hagar sér.

Tökum til dæmis veðrið síðasta vor. Þegar leið á apríl hlýnaði heldur í veðri, að vísu með smá úrkomu, en almennt góð skilyrði fyrir veiði. En með hlýindunum jukust líka leysingar og vötnin sem þegar höfðu rifið af sér ísalög, kólnuðu aftur. Þegar slíkt gerist, þá kemur nokkurs konar bakslag í fiskinn og vorið í honum hægir á sér. Maí kom sterkur inn, hitastigið reis allsnarlega og fiskurinn tók aftur við sér. Það var samt hrollur í mér og það leiddi til stuttra, árangurslausra veiðiferða.

Ég var svo bjartur að spá góðu sumri og löngu mildu hausti. Kannski réði þar mestu að mér finnst skemmtilegra og veiða langt inn í haustið heldur en snemma vors. Oft hef ég gert ágæta veiði í vötnunum á haustin, svona á milli þess að bleikjan hefur hrygnt og urriðinn fer í hrygningu. Þetta er auðvitað að því gefnu að hitastigið falli ekki mjög skart og vindar blási ekki af miklum móð.

Veiðispáin mín gekk alveg eftir, svona til helminga í það minnsta. Eitt besta veiðisumar í langan tíma. Um haustið er allt aðra sögu að segja. Í mínu nær umhverfi var eins og skrúfað hefði verið fyrir þá litlu sól sem sumarið annars færði okkur og nokkrar snarpar lægðir gengu helst til snemma yfir landið og blésu heldur hressilega. Að sama skapi kólnuðu vötnin fyrr en ella og veiðin einfaldlega datt niður þótt vel hafi gefið í ám og lækjum langt að vetri. Langa milda haustið sem ég spáði varð sem sagt heldur stutt í annan endann.

Þetta kallast sveiflur í náttúrunni og ekkert við þeim að segja né gera. Einn þrálátasti misskilningur mannskepnunnar er sá að hún geti stjórnað náttúrunni, en ekki öfugt. Að vísu getum við gert ýmislegt til að raska náttúrunni, jafnvel dælt fiski í ár og vötn sem vart ber hann. En slíkar ráðstafanir skila sér sjaldnast sem dempari á eðlilegar sveiflur náttúrunnar. Þó eitt og eitt haust, jafnvel heilu sumrin bregðist í veiði, þá þarf nú eitthvað meira til ef hrun á að kallast. Náttúrlegar sveiflur í tíðarfari, fiskgengd og afkomu stofna eru einfaldlega eitthvað sem veiðimenn þurfa að lifa við og kannski fyrst og fremst, þeir þurfa að læra að lifa við. Köld vötn að vori eða hausti eru bara eðlileg, ekki förum við að leggja hitaveitu í vötnin okkar, eða hvað? Það er kannski efni í annan pistil.

Haust eða vor?
Haust eða vor?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.