Hart í bak er ekki aðeins heiti á leikriti Jökuls Jakobssonar, það er líka snaggaraleg stefnubreyting til vinstri. Ef stefnubreytingin væri til hægri, þá væri það hart í stjór þar sem stjór væri stjórnborði. Eins og oft áður er inngangur þessa pistils aðeins eitthvað úr skúmaskotum hugar höfundar og þarf ekkert endilega að eiga við efni pistilsins, en alltaf þó einhver tenging.
Inndráttur er með ýmsu móti, hægur, hraður, stuttur, langur, rykkjóttur eða jafn, þetta og allt þarna á milli hefur komið fram á FOS og ég þóttist alveg vera búinn að dekka 90% af þessu, þangað til ég gerðist boðflenna á námskeiði um daginn og leiðbeinandinn spurði salinn hvernig hornsíli synda.
Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá tókst mér að þegja á meðan svörin röðuðust inn úr salnum sem tengdust mismunandi inndrætti eins og ég taldi hér upp að framan. Svo féll stóra bomban þegar leiðbeinandinn spurði hvort hornsíli syntu alltaf beint áfram. Aha, þarna var enn eitt atriðið sem vantaði inn í það sem fjallað hefur verið um inndrátt hérna; hornsíli geta sveigt af leið, beygt undan öldu, straumi og ekki síst undan rándýrinu í vatninu.
Hvernig væri nú að bæta enn einni breytunni inn í dæmið og færa stangartoppinn annað slagið til hliðar og ná þannig líf- og raunverulegri hreyfingu í straumfluguna? Við það að færa stangartoppinn til hliðar og taka í línuna, þá sveigir ‚hornsílið‘ af leið í vatninu.
Hornsíli eru af öllum stærðum. Fæst þeirra eru í þeim stærðum sem við notum yfirleitt, þó margir hafi smækkað nobblerana sína á undanförnum árum, kannski vegna þess að þeir hafa áttað sig á því að horsíli hafa í hundruðir ára verið fyrirmyndir margra klassískra votflugna sem sjaldnast eru hnýttar á stærri króka en #10.
Ein gömul og góð fluga hefur oft komið mér til bjargar á miðju sumri þegar massinn af hornsílum í vötnunum eru nýliðar sem enn eiga töluvert langt í land að vera í stærð #8. Umrædd fluga er Héraeyrað, sú klassíska sem enginn veit með vissu hver hannaði, en nýmóðins útfærsla hennar með örlitlu dassi af gyltu vafi er glettilega góð eftirlíking af ungviði hornsílis. Dregin inn með rykkjum og skrykkjum, beint eða með því sem ég hef áður gleymt að nefna; í sveig, þá hefur hún oft gefið mér fisk þegar allt annað brást.
Var ég kannski búinn að segja þetta allt áður? Kannski, en þetta er góð vísa og þær má kveða aftur og aftur.
Flugur veiða, það er ekki nokkur spurning, en til þess að þær veiði þá þurfa þær að vera á eða neðan yfirborðs vatnsins. Þessar sem eru á sífelldu sveimi í loftinu veiða sáralítið, nánast ekki neitt. Þessu lauma ég hér inn til að stoppa besservisserinn sem varð hugsað til myndanna af fiski taka flugu á lofti. Vissulega mikilfenglegt að sjá slíkt, en afar sjaldgæft.
Þegar vötnin okkar koma undan ís er ekki alltaf á vísan að róa hvar fiskurinn heldur sig eða er aðgengilegur og því þurfa veiðimenn stundum að hafa svolítið fyrir því að finna hann. Þá er stundum gott að vera vel skóaður og nenna að hreyfa sig úr stað og hafa nokkur smáatriði í huga.
Eitt það fyrsta er það sem ég tæpti á í inngangi þessa pistils, leyfa flugunni að veiða en ekki eyða tíma hennar í að svífa um í endalausum falsköstum. Veiðanlegur hluti dagsins er ekkert rosalega langur í upphafi tímabilsins og óþarfi að eyða stærstum hluta hans með fluguna á lofti, hún veiðir ekkert þar. Ef þú átt í vandræðum með að koma línunni út, athugaðu þá fyrst hvort þú hafir gleymt að þrífa hana áður en þú lagðir hana til svefns síðasta haust. Og fyrst þú ert að tékka á henni, athugaðu hvort það séu einhverjar sprungur í kápunni, brot eða beyglur sem hægja á henni í rennslinu. Ef allt virðist vera í lagi, athugaðu þá með að fá smá leiðsögn kastkennara, bara svona til vonar og vara ef köstin þín hafi vaknað eitthvað illa upp af vetrarblundinum.
Svo er náttúrulega betra að vera með réttu fluguna. Ef þú finnur nú fisk og hann bara sýnir enga viðleitni til að taka hana, sama á hvaða dýpi þú veiðir eða hvaða inndrætti þú beitir, þá er alveg eins víst að þú sért að eyða tímanum í ranga flugu.
Þú þverskallast mögulega við og hugsar til síðasta hausts þegar þú tókst fisk, einmitt á þessum slóðum, einmitt á þessa flugu. Þetta er rétta flugan. Allt í góðu, þetta er rétta flugan en er hún í réttri stærð og af réttu sköpulagi? Síðasta haust varst þú að veiða alveg spá nýja kynslóð af pöddum sem voru í stærð #16 eða minni. Að vori hafa flest þessara kvikinda eytt vetrinum í að éta, stækkað og fitnað, jafnvel tekið einhverri myndbreytingu (úr púpu yfir í lirfu t.d.) og líkjast flugunni þinn frá því í haust ekkert mjög mikið. Brjóttu nú odd af oflæti þínu og ástríðu fyrir litlum flugum, stækkaðu uppáhaldið þitt um eina eða tvær stærðir og prófaðu aftur. Góða skemmtun.
Það eru nokkur ár síðan FOS.IS lagði í raun af annan helming nafnsins (sköksögur) og hefur síðan þá haldið sig við að nota aðeins FOS. Enn eru þeir til sem muna eftir skröksögunum og beita þeim stundum í samtölum sínum við mig. Oftast er þetta í almennu spjalli, en það kemur þó fyrir að í miðju erindi heyrist í einhverjum; Nei, nú skrökvar hann og þá á maður stundum erfitt með sig.
Eitt af því sem vakti svona viðbrögð var skýring mín á því af hverju fiskurinn hættir algjörlega að taka 10 mín. fyrir miðnætti á ákveðnum veiðistað. Ég svaraði því einfaldlega til að trúlega væri fiskurinn farinn að sofa á þessum tíma, hann hefði vit á því að vera ekkert að gaufast þetta langt fram eftir. Ég held að nánast enginn sem til mín heyrði hafi trúað mér, en mér var í raun full alvara.
Það virðist vera útbreiddur misskilningur að fiskar sofi ekki, en þeir gera það nú samt. Að vísu er ekkert víst að þeir fari að sofa á ákveðnum tíma sólarhrings en oftast er það þó í einhvern tíma á nóttunni. Svefnástand fiska er misjafnt eftir tegundum, en flestir þeirra hægja á líkamsstarfseminni á meðan þeir hvílast en halda þó fullri meðvitund og eru á varðbergi. Leiða má að því líkum að urriðinn leiti út fyrir erilsamasta svæði vatnsins, þ.e. rétt út fyrir gróðurmörk og komi sér þar fyrir við botninn og taki smá blund. Hann kemst upp með að liggja nokkuð óvarinn við botninn því sú ógn sem að honum steðjar kemur ofan frá, en finni hann stóran stein eða gjótu, þá nýtir hann sér slíkt til skjóls.
Smávaxnari bleikjuafbrigði, murta og dvergbleikja eru í aðeins annarri aðstöðu. Þær þurfa að leita skjóls því þær eiga sér náttúrulega óvini í vatninu og þá getur verið heppilegt að koma sér fyrir í gjótum, á milli steina eða jafnvel inni í gróðri á meðan þeir blunda.
Og svona rétt aðeins til að koma í veg fyrir misskilning; silungar loka ekki augunum þegar þeir sofa, ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru ekki með augnlok.
Matreiðslu uppskrift? Nei, ekki frekar en um daginn þegar ég ritaði stuttlega um silung í híði. Þessi er af sama meiði og er unnin upp úr nokkrum heimildum og fjallar um heppilegt hitastig fyrir silung, því þegar allt kemur til alls þá er þetta víst ekki alveg eins kippt og skorið, eins og margir vilja halda.
Hengladalir við Skarðsmýrarfjall sunnan Hengils eru merkilegar gróðurvinjar á Hellisheiði. Þar voru á árunum 2004 til 2010 gerðar töluverðar rannsóknir á lífríki lindalækja sem finna má í dölunum, m.a. á urriða sem þar þrífst. Ekki dettur mér í hug að þar sé á ferðinni Hverasilungur Halldórs Kiljan Laxness sem hann ritaði um í grein sem birtist 1916 í Morgunblaðinu, en urriðinn í Hengladölum er þó merkilegur fyrir margra hluta sakir.
Lindárnar í Hengladölum eru upptakaár Hengladalsár sem rennur austur til Hveragerðis, en þessar lindár eru víða allt að 100°C heitar þó víðast séu þær til muna kaldari eða innan við 10°C. Eins og áður er getið, þá þrífst urriði í þessum ám sem hefur aðlagað sig hitastigi sem er almennt hærra en þekkist sem kjörhitastig urriða, um og yfir 20°C og ég kem örlítið að því hér síðar. Ég hef áður vísað til rannsókna á kjörhitastigi laxfiska, m.a. rannsókn J.M. Elliott og J.A. Elliott sem birt var í Journal of Fish Biology (2010) og við þá grein styðst ég í þessari stuttu samantekt.
Ef við byrjum á upphafinu, þá lifa hrogn urriða af allt niður að frostmarki og hæst upp að 13°C. Bleikju hrognin, eins og vænta mátti frá frostmarki og upp að 8°C. Þessi munur endurspegla allan lífsferil silunga eins og við vitum, bleikjan er heldur kuldasæknari heldur en urriðinn.
Þegar kemur að fullvaxta silungi er urriðinn upp á sitt besta þegar hitastigið er á bilinu 16.6 til 17.4°C sem kemur ef til vill einhverjum á óvart, en hér er verið að meta ákjósanlegasta hitastig urriða til að melta fæðu, þ.e. þegar framleiðsla meltingarensíma er í toppi og hann er hve skilvirkastur að umbreyta fæðu í vöxt / fituforða. Það laumast raunar að mér sá grunur að áður en hámarki hita séð náð, þá hægi urriðinn á sér í fæðuöflun, í það minnsta ef hitinn er svo hár í lengri tíma. Hér má skjóta því inn að urriðinn í Hengladölum leitar í vatn til fæðuöflunar sem er umtalsvert heitara, en þar erum við líka að tala um einangraðan stofn sem hefur aðlagast sérstökum aðstæðum, ekki ósvipað urriðanum í Þingvallavatni, rétt hinu megin við Hengilinn.
Blessuð bleikjan er að vonum heldur kulsæknari en urriðinn. Í Noregi er líkamsvirkni hennar mest í 14.4 til 15°C en í 15.2 til 17.2°C í Svíþjóð, hverju sem kann að sæta. Mestan hita þolir hún í Svíþjóð eða 23.2°C á móti 21.5°C í Noregi. Hér langar mig að taka það fram að ég sá niðurstöður svipaðrar rannsóknar fyrir bleikju á Grænlandi og þar voru töluvert aðrar tölur uppi á borum, mun lægri á öllum sviðum. Því miður auðnaðist mér ekki að vista þá skýrslu og virðist alveg fyrirmunað að finna hana aftur.
Og hvernig getum við svo notað okkur þetta? Tja, ef veiðimenn eru ekki með hitamæli sem þeir stinga niður í vatnið öðru hvoru, þá hefur þetta væntanlega lítið að segja, ekki nema innbyggður hitamæli fingra segi þeim nákvæmlega hvenær silungurinn er í besta formi, árásargjarn og til í smá tusk.
Hann er mættur, spámaðurinn Bölmóður úr Tinna bókunum. Ég hef stundum notað þessa persónu sem varúðarmerki í fyrirlestrum sem ég hef haldið hingað og þangað, sérstaklega ef ég er að nálgast eitthvað neikvætt umfjöllunarefni. Síðast í vetur notaði ég Bölmóð þegar ég gerði því skóna að það stefndi í að bleikjan hyrfi úr vötnum á láglendi Íslands innan tíðar. Ég veit alveg upp á mig sökina að tala stundum fjálglega og nota sterk lýsingarorð um ástand eða orsakir hnignunar fiskistofna, en stundum er gott að hafa samhengi orðanna í huga þegar þau eru sögð. Mér skilst að 10.000 ár séu augnablik í hugum jarðfræðinga og sé maður að fjalla um ættfræði bleikjunnar frá lokum ísaldar, þá getur ‘innan tíðar’ verið þó nokkur tími í árum, áratugum eða hundruðum talið.
En, það stendur þó óhaggað í mínum huga að bleikjunni er hætta búin og ef ekkert verður að gert, þá mun hún, fyrr eða síðar snúa endanlega baki við íslenskum vötnum. Okkur, sem höfum fylgst með bleikjustofnum á liðnum áratugum, er ljóst að henni fækkar í mörgum vötnum og í þetta skiptið styðja mjög margar rannsóknir við þetta álit okkar.
Það eru þó alltaf vötn sem eru undantekning frá þessari upplifun eins og til dæmis þau sem hafa haldið hitastigi sínu þrátt fyrir hlýnun jarðar. Vötn sem njóta kaldra linda, vatns sem hefur jafnvel fallið að vetri í formi snjókomu, bráðnað í rólegheitum á heiðum uppi og seytlað þannig annað hvort í gegnum jarðlög eða í lækjum til næstu lægðar þar sem það rennur fram ofan eða neðanjarðar í vatn sem myndast hefur. Verst þykir þó bleikjustofnum þeirra vatna reiða af sem hafa sannanlega hlýnað eða við tvífætlingarnir gert eitthvað það sem hefur haft áhrift á lífríkið, hnekkt á móður náttúru.
Það sem við getur gert á hlut bleikjunnar er ýmislegt. Nefnt hefur verið að einhverjir okkar sjá meiri hag í öðrum fiskum heldur en bleikjunni, friða vinsæla söluvöru sem étur bleikju eða jafnvel plantað frænda þeirra í búsvæði hennar í þeirri von að sá fiskur nái þeim vexti að hægt sé að selja hann, jafnvel nokkrum sinnum á lífsleiðinni.
Svo getum við til dæmis tekið upp á því að leggja veg í sveitinni, að sumarbústaðnum eða næsta bæ, og tekið upp á þeim óskunda í efnishallæri að moka upp botninum í næstu á eða læk án þess að spyrja kóng eða prest leyfis. Það er mjög skjótvirk leið til að hnekkja á einum eða tveimur árgöngum silungs, jafnvel óklöktum árgöngum komandi ára, en að sama skapi ekki vinsælt umræðuefni.
Meira að segja í sjónum er silunginum okkar ekki einu sinni óhætt fyrir strákapörum. Einhverjir okkar hafa komist upp með, jafnvel með leyfi kóngs og prests, að girða af farleiðir bleikju og urriða í sjó með fljótandi drullupollum sem dæla laxalús yfir silunginn í margföldun magni þess sem er eðlilegt er við Íslandsstrendur.
Smá innskot: þau rök að lágur sjávarhiti við stendur landsins takmarki viðkomu laxalúsar stenst ekki skoðun. Jafnvel á köldustu svæðum sjávar við stendur landsins hefur laxalús alltaf verið til staðar og þessir drullupollar fiskeldis gera ekkert annað en fjölga lúsinni.
Já, strákapörum okkar er ekki alls varnað og hann virðist vera nær botnlaus sá brunnur sem ausið er upp úr lélegum hugmyndum sem eiga eftir að koma okkur eða komandi kynslóðum í koll. Er ekki til eitthvert gott spakmæli sem segir manni að ganga vel um það sem okkur var gefið og skila því til komandi kynslóða í jafn góðu eða betra ásigkomulagi heldur en það var okkur fengið?
Nú geta lesendur botnað fyrirsögnina á þessum þankagangi mínum alveg eftir eigin höfði. Hvað kæmi þá upp úr hattinum er eflaust eins mismunandi og þið lesendur góðir eru margir en ef ég læt nú hugan reika um möguleg svör, þá gæti þessi grein þróast eitthvað á þessa leið;
… skítt – Já, það eru eflaust margar góðar og gildar ástæður fyrir því að hafa það skítt, en þegar öllu er á botninn hvolft og miðað við hvar þú ert staddur á netinu, þá eru mestar líkur á að þú sért orðinn þreytt(ur) á að bíða eftir vorinu og fyrstu vötnin fara að opna fyrir alvöru. Þraukaðu, það er að styttast. Hefur þú prófað að hnýta flugur til að stytta biðina?
… þokkalegt – Gott, það er miklu betra heldur sá sem svaraði hér á undan. Miðað við svarið, þá ert þú nú samt að bíða eftir því að komast í veiði en drepur tímann sem annars hefði farið í biðina með því að hnýta nokkrar flugur.
… bara gott – Það er bara ekkert annað, ánægjulegt að heyra. Ertu búinn að hnýta svona margar og ert bara klár í sumarið?
… alveg frábært – Nú, já. Við erum sem sagt fleiri sem erum svona jákvæð. Ég er líka svona rosalega góðu, sérstaklega eftir að ég var að klára að lesa enn einn af 10 nauðsynlegustu hlutunum sem ég fann á netinu.
Eftir að hafa lesið nokkra svona go-to lista fyrir veiðimenn víðsvegar að úr heiminum, þá var ég alveg gáttaður á öllum þeim mögulegum og ómögulegum hremmingum sem veiðimenn þurfa að gera ráð fyrr að lenda í og þurfa að vera undirbúnir með hinum og þessum græjum.
Hver tekur með sér flautu, svona neyðarflautu með þrýstiloftskút og hvers vegna? Jú, þú gætir villst í skóginum og beinlínis þvælst í endalausa hringi þar til allt þrek er uppurið og þú drepst úr vatns- og næringarskorti. Þá er gott að vera með svona þrýstiloftslúður til að kalla á hjálp. Ég ætla að bregða fyrir mig gömlum brandara og segja; Stattu bara upp og sjáðu hvar þú ert staddur. Skógar á Íslandi eru nú fæstir þannig að maður villist í þeim (hef nú reyndar gert það einu sinni í Borgarfirðinum og sá skógur var ekki stór).
Hver tekur með sér bjarnadýrafælu í veiðiferð á Íslandi (aðrir en þeir sem fara á Skagaheiðina)? Þetta er í alvörunni á gátlista veiðimanna í US, Kanada og Rússlandi. Sums staðar er það meira að segja skylda að vera með svona úðabrúsa með sér, annars færð þú ekki að fara inn á ákveðin svæðin. Ég þakka bara fyrir að þurfa ekki að vera með svona græju í bakpokanum mínum, hann er bara alltaf að léttast.
Vatnshreinsitæki (ég þurfti meira að segja að gúggla hvað þetta væri). Það er ekkert meira áríðandi en taka með sér vatnshreinsitæki í veiðiferð. Þú gætir mögulega ofþornað í skyndilegri hitabylgju og eina vatnið sem þú finnur er af ókunnum uppruna, að öllum líkindum þræl mengað og ódrekkandi. Enn hefur mér reyndar ekki orðið misdægurt að drekka vatn úr næsta læk á Íslandi, meira að segja þó ofar við lækinn sé veiðimaður sem nauðsynlega þarf að spræna út í lækinn, eins og það sé ekki nóg pláss í hina áttina. Eigum við að nefna dauðar rollur? Nei, það er óþarfi. Íslenskt lambakjöt er svo hreint að manni verður ekki einu sinni misdægurt af því að drekka það úldið og uppleyst úr einhverjum læk.
Adrenalín penna þurfa allir veiðimenn að hafa við hendina þegar haldið er til veiða. Hver veit hvaða skordýr sitja fyrir manni og bíða þess eins að stökkva upp á bera leggina, bíta og sjúga sig fasta, þamba blóðið úr manni og skilja eftir einhvern bráðdrepandi ófögnuð í sárinu? Ég ætla ekki að draga úr því að þeir eru vissulega til sem eru með bráðaofnæmi fyrir ýmsu skordýrabiti, en svona að öllu jöfnu geta flestir skilið EpiPen eftir heima, nema leiðsögumenn, þeir eiga að vera með svoleiðis á sér, alltaf.
Sjúkrakassa með 20 – 50 nauðsynlegustu tækjum og tólum til að sótthreinsa sár og fleiður, framkvæma minni skurðaðgerðir á staðnum og búa um beinbrot. Sko… nei ég ætla ekki alveg út í þessa umræðu. Ég er fæddur og uppalinn úti á landi fyrir rúmlega 50 árum síðan (lesist sem tæplega 60 ár) þar sem leiksvæðið var óbyrgður húsgrunnur, slippur með aflóga bátum og fjara. Já, fjara sem var full af stórhættulegum pollum og kviksyndi, klöppum og opin fyrir endalausu Atlantshafi alveg suður til Azoreyja. Ef maður fékk skeinu, þá brá maður einhverju grasi eða fjöruarfa á báttið, kláraði leikinn og fékk svo plástur þegar heim var komið, allt of seint í kvöldmat. Reyndar er ég með plástur í minni veiðitösku, smá gaffateip og svona hótel saumakitt til að rimpa saman stærri skurði ef blæðir í gegnum gaffateipið, það er svo leiðinlegt að fá blóð í veiðifötin. Hvað er ég eiginlega að segja? Ég veiði mér til matar og það er kvittun fyrir fisk í matinn að vera með smá blóð á vöðlunum, ég skola bara af þeim þegar heim er komið.
Ég hef það semsagt alveg frábært. Á heima á Íslandi þar sem ég þarf litlar áhyggjur að hafa af stórslysum, árásum stærri spendýra eða mér minni skordýra (lúsmý?) get drukkið vatn þar sem mig langar til og er í sára lítilli hættu að villast. Og hvað með það þótt ég villist? Það er örugglega einhver veiðistaður í þá átt sem ég villist í.