Í gegnum árin hef ég barist við fastar flugur, bæði í botni og veiðijökkum. Þessir dásamlegu svampflipar eða frönsku rennilásar sem límdir eru á flesta veiðijakka hafa oft gert mér lífið leitt. Þeir hafa gripið svo óþyrmilega í flugurnar sem ég sting þar til þerris eða hvíldar að það þarf meiriháttar langa pásu til að losa þær, oft með töluverðum geðsveiflum og tilheyrandi formælingum.
Þegar svo þessir kubbar með eigin aðdráttarafli (segulmagni) komu á markaðinn, þá áskotnaðist með einn slíkur sem ég gerði nokkrar heiðarlega tilraunir til að nota, með afar misjöfnum árangri. Fyrir utan að mér fannst kubburinn heldur þungur, þá var ýmislegt annað dinglandi utan á mér (klippur, taumaspjald o.fl.) sem laðaðist heldur mikið að honum, þannig að ég húkkaði hann fljótlega úr.

Það var svo fyrir einhverju síðan að ég sá þessa einföldu lausn; gataður korktappi með spotta í gegn sem auðvelt var að húkka við hvað eina sem þegar dinglaði utan á mér. Ekkert segulmagn eða óþarfa festur.
Í leit minni að heppilegum spotta rakst ég á þetta samtengi úr hálsbandi, þessum sem maður fær á hverri einustu sýningu eða ráðstefnu sem maður sækir. Nú get ég húkkað korktappanum úr festingunni, náð flugunum auðveldlega úr og komið þeim fyrir í viðeigandi boxi eftir daginn.

Það þarf ekki alltaf að vera flókið og ef rétt er gengið frá spottanum að neðan, þá er ekkert mál að skipta um tappa þegar sá gamli er orðinn heldur götóttur.
Senda ábendingu