Flýtileiðir

Skjálfandi

Dyggum lesendum er það eflaust löngu ljóst að ég er kuldaskræfa og því var það með tilhlökkun að ég hlustaði vel og vandlega á alla spádóma um að hlýtt og notalegt sumar sem væri fram undan. Það eru einhverjar vikur síðar fjölmiðladyggur veðurviti lét þetta út úr sér og enn (þegar þetta er ritað) er hitastigið hér á landi ekki meira en svo að það snjóar reglulega í bæjarhólinn hér við Sundin. Það var nú bara um helgina síðustu að hætta varð við fyrirhugaða veiðiferð vegna allra slæmra veðurskilyrða sem upp komu; hávaða rok, ausandi rigning, skítakulda og snjókomu.

Ef fram heldur sem horfir, þá verð ég að rifja upp öll klækjabrögðin til að snúa á kalt vatnið og ofankomuna þannig að ég verði ekki skjálfandi á beinunum í fyrstu alvöru veiðiferðum sumarsins. Já, þetta er náttúrulega svolítið hirtu þinn helv… tjakk en það er öruggara að búa sig undir það versta þegar kemur að veðrinu heldur en það besta. Það er auðveldara að fækka fötum á veiðislóð heldur en bæta á sig.

Og hvað er það svo sem ég klæðist innan undir áður en ég smokra mér í vöðlunar? Jú, ull og helst í tveimur misþéttum lögum þannig að ekkert af líkamshitanum sleppi út í gerviefnið í vöðlunum. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að bómull er ekki ull og er langt því frá heppilegur undirfatnaður. Sjálfur reyni ég að forðast gerviefni, svo sem flís eða dacron, næst líkamanum einfaldlega vegna þess að þegar þessi efni blotna, jafnvel bara við það að svitna í hita augnabliksins þegar maður glímir við þann stóra, þá kólnar þessi fatnaður hratt og losar sig síður við raka heldur en náttúruleg ull. Ef ég dreg á mig gervibrækur, þá eru þær örugglega utan yfir ullina.

Nú er ég sem sagt klæddur og kominn á ról, þokkalega hlýtt og því eins gott að viðhalda því og þá reyni ég, ef mögulegt er, að klæða mig í vöðlurnar innandyra. Kannski er það bara ég en mér finnst eins og það gjóli stundum á Íslandi og þá getur kuldinn hæglega smokrað sér inn fyrir ullina. Já, ég er kuldaskræfa og mér er meinilla við að byrja daginn með kuldahroll þannig að ég vil helst vera kominn í hlýtt áður en ég sting nefinu út fyrir dyrnar, með húfuna á hausnum.

Áður en ég legg af stað, þá geng ég úr skugga um að handklæðið mitt sé til staðar í veiðitöskunni. Það getur munað miklu að geta þurrkað sér um hendurnar eftir að hafa skipt um flugu, lagað taum eða handfjatlað fisk. Þurrar hendur eru vænlegri í vettlingana heldur en blautar. Já, ég er alltaf með ullarvettlinga eða stúkur í veiði, tvennar frekar en stakar, þannig að ég geti skipt um ef það er einhver vosbúð. Ég gleymdi víst að nefna ullarsokkana, en þeir eru mér lífsnauðsynlegir. Þéttir og fíngerðir næst tám, grófari þar utan yfir. Passa mig bara að það verði ekki of þröngt um tærnar í vöðlusokkunum, mér kólnar fyrr því þrengra sem er um tærnar. Enn hef ég ekki prófað að taka með mér heitt vatn á brúsa til að hella niður í vöðluskóna ef mér kólnar, en þetta ku vera algengt í vorveiði norður í Kanada ef eitthvað er að marka veraldarvefinn. Sjáum til hvernig sumrinu vindur fram, ég get þá alltaf hitað mér vatn á prímusinum og prófað.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com