Flýtileiðir

Eins og smurt

Kvöld eitt fyrir skemmstu skaust það upp í kollinn á mér að þegar ég bleytti í færi síðast, þá fannst mér einhver stirðleiki væri í öllu. Það brakaði í beinum, hjólið tifaði ekki eins og venjulega þegar ég dró út af því og köstin voru hreint ekki upp á marga fiska. Þetta kvöld ákvað ég því að kveikja ekki á Netflix. Þess í stað kveikti ég á streymisveitunni og hlustaði á nokkur góð veiðispjöll, tók fram vaskafatið og fyllti það með ilvolgu vatni og setti línurnar mínar í bað.

Á meðan ég var að baða línurnar, strjúka af þeim með mjúkum klút, þerra og fríska upp á þær með örþunnu lagi af línubóni, þá ráfaði hugsunin til veiðihjólsins. Af hverju tifaði það ekki þegar ég dró út af því? Ætli það séu einhverjar leifar af gróðri eða sandkorn að þvælast inn í því? Þannig teygðist á streymishlustuninni og ég tók spólurnar af öllum hjólunum mínum, vætti tusku með maskínuolíu og þurrkaði öll óhreinindi, smurði legur og herti upp á því sem losnað hafði. Tikk, tikk, tikk og línan rann út af hjólinu og inndrátturinn var jafn og átakalaus.

Það var svo næsta kvöld að ég kveikti á Netflix, en eftir skamma stund var ég hreint ekki með hugann lengur við það sem rúllaði yfir skjáinn. Hausinn var kominn eitthvert allt annað og ég bakkaði til baka, kveikti á næsta þætti veiðispjallsins, fór fram í geymslu og náði í vöðlurnar mínar og veiðijakkann. Hvaða rennislás var það nú sem var farinn að stirðna? Best að yfirfara þá alla og bursta úr þeim með gömlum tannbursta og renna létt yfir þá með þéttikanntastifti eins og maður gerir við bílinn á haustinn. Þessi skollans plastrennilásar, alltaf þarf eitthvert sandkorn að þvælast í þeim og vera til vandræða. Rétt eins og sandkorn sem þvælst hefur inn í vöðluskó og byrjar að merja hælinn á sokkunum eða leggjast undir ilina. Best að kíkja aðeins á sokkana, kannski þarf ekki nema setja einn dropa af fljótþornandi hnútalími í fleiðrið til að forða því að þeir fari að leka. Já, hvernig var það með aukavöðlurnar, var ekki farið að trosna við sauma í klofinu, best að tékka aðeins á þeim líka.

Já, svona geta kvöldi orðið til gagns og gamans á meðan að maður bíður eftir því að veðrið skáni aðeins, smá hiti geri vart við sig og maður geti opnað ferðavagninn, þrifið og gengið úr skugga um að allt sé eins og það á að vera. Hvernig var það annars með þessa gasleiðslu, var ekki kominn tími á að endurnýja hana?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com