FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Stöðuvötn

    7. maí 2019
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Þrátt fyrir heitið, þá eru stöðuvötn alls ekki kyrrstæð, ég bara varð að koma þessu að. Þegar áhugi minn á fluguveiði vaknaði og ég fór að leita mér að lesefni um sportið þá var mjög algengt að ég rækist á nákvæmar vísindalegar útlistanir á kostum andstreymisveiði umfram aðrar veiðiaðferðir í straumvatni. Ekki efaðist ég eitt einasta augnablik um ágæti þessara greina, en þegar áhugi minn tók fyrst og fremst að beinast að fluguveiði í vötnum, þ.e. þeim sem ekki renna, þá gleymdist þessi andstreymisboðskapur fljótlega og ósjálfrátt jarðaði ég þessar greinar í kollinum.

    Og þarna hefur hundurinn legið grafinn í mjög langan tíma, þ.e. í óminnisdjúpi lækja og stærri straumvatna. Eftir stendur nú samt sú staðreynd að vatn í stöðuvötnum er oft á töluverðri hreyfingu, jafnvel í stilltu veðri og vötnum sem ekkert sjáanlegt innstreymi hafa, hvað þá útstreymi. Mér skilst til dæmis að snúningu kúlunnar sem við lifum á hafi eitthvað með straum í stöðuvatni að segja. Ekki má heldur gleyma því að vatn sem hitnar á grynningum umfram dýpri hluta þess geymir oft ósýnilegan straum, straum sem fiskurinn finnur og snýr sér ósjálfrátt upp í. Ástæðan er nákvæmlega sú sama og verður til þess að hann snýr snjáldrinu upp í strauminn í læknum eða ánni, fæðuframboð.

    Smágerð krabbadýr eins og svifkrabbar og ýmislegt annað góðgæti berst um stöðuvötn með minnsta mögulega straumi og þessi dýr, sem eru vel að merkja smærri en svo að við getum hnýtt eftirlíkingar af, eru mikilvæg fæða silungs og því snýr hann sér oft upp í strauminn og étur það sem berst þó okkur virðist hann einfaldlega liggja í mestu makindum og ekki gera neitt. Ekki er allt sem sýnist og þess vegna ætti maður að bera lambalærið á veisluborðið beint fyrir framan hann, þótt hann sé á kafi í smáréttunum. Hver stenst gómsæta stórsteik þegar aðeins snittur eru í boði?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Loftbólur

    25. apríl 2019
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar skordýr rísa upp að yfirborðinu nýta þau sér oft loftbólur til hjálpar. Annað hvort hafa þau falið eina slíka undir skel eða vængstæði eða gripið um eina með framfótunum. Ég heyrði einhverju sinni að þegar hnýtarar setja stálkúla á flugu, þá væru þeir að líkja eftir þessari loftbólu. Hvað er satt í þessu, veit ég ekki en sjálfur hef ég sett glerperlur á nokkrar flugur og ímynda mér að þær líkist loftbólunni meira en stálið. En hvað veit ég, ekki er ég fiskur.

    Afbrigði af Watson’s Fancy púpu með glerperlu

    Eftir stendur að þær flugur sem ég hef hnýtt með glerperlu hafa verið mér gjöfular og þá sérstaklega þar sem eitthvert klak er í gangi. Púpurnar geta verið með ýmsu lagi og af mismunandi litum, því ekki eru allar pöddur eins á litin. Ég þykist raunar hafa séð að sama paddan getur verið af nokkuð mismunandi lit eftir því hvar hún óx úr grasi, bæði hvað varðar landshluta og jafnvel í sama vatni eftir því hvað hún lagði sér til munns. Það er því um að gera að leyfa sér að hnýta púpur í nokkrum litum eða afbrigðum og ekki gleyma því að lagið á pöddunum er alls ekki það sama. Stundum eru þær nokkuð beinar, en stundum eru þær bognar, jafnvel alveg krepptar.

    Mýpúpa með glerperlu
    Óræð púpa með glerperlu

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hrekkurinn sem klikkaði

    18. apríl 2019
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Tíminn flýgur hratt og mér finnst eins og það séu aðeins örfáir dagar síðan ég lagði í smá hrekk og setti inn á Febrúarflugur. Þannig var að ég var að dunda eitthvað við hnýtingarþvinguna og ég var kominn með einhverja byrjun að flugu að því ég hélt eftir eigin höfði. Hvort ég hafi staðið upp til að ná mér í kaffibolla eða svara símanum, þá atvikast það þannig að þegar ég kem aftur að þvingunni þá sé ég að flugan er í raun ljót útgáfa af þekktri laxaflugu sem ég ætlaði hreint ekkert að hnýta, Undertaker.

    Hrekkurinn sem klikkaði

    Ég lét slag standa og kláraði að setja einhvern ólögulegan væng á fluguna, tók mynd af henni og smellti inn í Febrúarflugur með þeim orðum að trúlega þekkti urriðinn ekki haus né sporð á muni laxaflugu og silungaflugu. Kerskni mín náði víst ekki alveg í gegn, því þekktir veiðimenn og hnýtarar vottuðu að þeir hefðu tekið bæði urriða og bleikju á Undertaker. Mér fannst eiginlega að brandarinn hefði snúist í höndunum á mér og rekið mér hressilegan löðrung.

    Undertaker (ekki hnýtt af undirrituðum)

    Núna er ég búinn að hnýta nokkra Undertaker í smærri stærðum og setja í boxið mitt fyrir sumarið. Þetta er falleg fluga og það væri synd og skömm að reyna hana ekki í silunginn fyrst hún hefur gefið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Votflugur að vori

    10. apríl 2019
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég fór yfir hvaða flugur gáfu mér best á síðasta ári, þá stóðu marabou flugur upp úr, nokkuð sem kom ekki neitt sérstaklega á óvart. Ég átti alveg eins von á að púpur væru í öðru sæti, en svo var nú ekki. Það voru votflugur, nánar tiltekið soft hackle flugur sem voru í öðru sæti, svona mitt á milli marabou flugna og púpa.

    Mér fannst þetta svolítið skemmtilegt, því fyrir ári síðan gat ég þess einhvers staðar að ég mér þætti þetta elsta form veiðiflugna ekki njóta sannmælis og ég ætlaði að leggja meiri áherslu á að nota þær. Algjörlega óháð því að þessar flugur hafa alltaf höfðar mikið til mín.

    Einmitt um þessar mundir er lífríkið að vakna af vetrardvalanum og einhver kann að segja að þá styttist í að votflugurnar fari aftur undir. Já, og þær ættu reyndar að vera farnar undir nú þegar, því soft hackle flugur eru ekkert síður góðar til síns brúks snemma vors, rétt áður en lífríkið smellur alveg í gang. Hvort sem það er hegðan hringvöfðu fjaðrarinnar í vatni eða eitthvað annað, þá virðast þessar flugur glepja fisk ekkert síður rétt áður en lirfur og púpur taka til við að umbreytast í fullvaxta skortdýr.

    Hringvafin fjöður um búk sem líkir að einhverju leiti eftir púpu getur líkt eftir hýði hennar þegar fluga er dregin. Að sama skapi getur þessi fjöður líkt eftir fálmurum eða fótum lirfunnar þegar hlé er gert á inndrætti og fjaðrirnar rétta úr sér. En hvers vegna virkar þetta jafnvel þótt engin skordýr eru komin á kreik? Mér skilst á þeim greinum votflugufræðinga sem ég hef lesið, og trúið mér að þær eru nokkrir á alnetinu, að silungurinn hugsi ekki endilega rökrétt. Svo lengi sem þeir hafi yfir höfuð vaxið úr grasi við skordýraát, þá sé það greypt í kvarnir þeirra að u.þ.b. svona eða svona lítið skorkvikindið út. Ekki það að ég telji fiska hugsa mikið, en þetta er eitthvað í líkingu við að ef dýrið lítur út eins og önd, gaggar eins og önd, vaggar eins og önd, þá hlítur það að vera önd. Ef flugan lítur út eins skordýr, hreyfir sig eins og skordýr, þá hlítur það að vera skordýr og þá er eins gott að smella skoltunum utan um það.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Léttur í botni

    3. apríl 2019
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Eins skemmtilegar og mér finnast púpur vera, þá fer því fjarri að mínar sverji sig í ætt við frænkur sínar frá Tékklandi, þessar sem eru í yfirvigt. Þegar ég byrjaði að hnýta flugur við eldhúsborðið hérna um árið, þá var ég alls ekki viss hve þungar, þungar púpur ættu að vera. Ég hafði til hliðsjónar einhvern bækling sem hét Euro Nymphing og í þeim bæklingi voru þær allar með kúlu í yfirstærð og öngulinn vandlega vafinn með blýþræði. Ég á einhverjar af þessum fyrstu púpum mínum ennþá, flestar hafa þó orðið steinum að bráð í gegnum tíðina, ef ekki úti í vatni, þá fyrir aftan mig á bakkanum.

    Þar sem ég bjó ekki svo vel að hafa aðgang að leiðbeinanda sem gat frætt mig um undirstöðuatriði púpuhnýtingar, kosti og galla og þá sér í lagi til hverra nota viðkomandi púpa væri ætluð, þá framleiddi ég einhvern ógjörning af púpum sem sverja sig meira í ætt við byssukúlur heldur en skordýr. Flestar af þessum púpum voru víst ætlaðar til veiða í stríðum straumi lækja og smááa þar sem það gilti umfram allt að koma þeim niður, fljótt og örugglega. Þessi misskilningur minn leiðréttist fljótlega og með tíð og tíma hafa púpurnar mínar tekið sig á og lést allverulega án þess að verða óþarflega horaðar.

    Hin síðari ár hef ég meira að segja verið að föndra flugur sem eru aðeins lítillega þyngdar ef þá eitthvað. Ég er kannski mjög smitaður af áhuga mínum á votflugum, þessum klassísku vængjuðu aflaklóm sem komu fram á sjónarsviðið löngu áður en elstu núlifandi menn urðu svo mikið sem blik í auga.

    Meira að segja blóðormurinn minn er ekki lengur þyngdur, ef undan er skilin glerperlan sem ég nota í hann. Öll lögmál um blóðorm sögðu mér í upphafi að gleyma þessari tilraun, blóðormurinn væri fastur á botninum og þar ætti ég að veiða hann, sérstaklega fyrripart sumars. En, viti menn þetta mótív að flugu hefur gefið mér ágætlega og smátt og smátt hefur hún farið oftar undir og því sífellt gefið betur. Flugur sem þessa veiði ég á intermediate línu í ekkert of löngum taumi. Kosturinn við þetta er að ég næ henni niður í vatnaveiðinni (á endanum), flugan verður síður viðskila við tauminn og tekur sjaldan upp ástríðufullt ástarsamband við botnfast grjót. Svo skemmir ekki að það er lítið mál að fá hana til að rísa alveg upp að yfirborðinu og veiða hana þar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Í föstum skorðum

    20. mars 2019
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það er spennuþrungið augnablik þegar tekið er í fluguna, adrenalínið flæðir og maður bregst við, stundum of seint, stundum mátulega og stundum að óþörfu. Já, það er hægt að bregðast við að óþörfu, til dæmis þegar maður hefur bara verið að krukka í stein eða annan ófögnuð sem leynist í vatninu.  En hvað gerir maður þegar flugan er föst? Er föst fluga sama sem töpuð eða má gera eitthvað til að losa hana?

    Ég hef ágæta skemmtun af því að hnýta mínar flugur sjálfur og því horfi ég ekki endilega fram á stórfellt tap þótt ég slíti, ekki nema þá að svo ólíklega vilji til að um síðustu fluguna í boxinu sé að ræða. Ég leyfi mér því að vega það og meta hvort ég bregðist við á einhvern annan hátt heldur en mögulega að slíta með því að taka á línunni. Það hefur alveg komið fyrir að ég geri ekkert annað heldur taka þéttingsfast í línu og slíta, það er þá helst undir þeim kringumstæðum að ég veit af eða sé fisk snudda í grennd við fluguna eða á milli mín og hennar sem ég vil ekki styggja.

    Allt fast eða er hann á?

    Það fer að vísu töluvert eftir línunni sem maður notar hvort maður geti skotið flugunni til baka, úr föstum skorðum eða af steini. Ef línan er með þokkalega góðri teygju, þá má beina stangartoppinum beint að staðnum þar sem línan sker vatnið, taka vel á og sleppa skyndilega. Ef vel tekst til, þá skýst flugan til baka og losnar.

    Að vaða eftir flugu er yfirleitt alltaf möguleiki en getur styggt fisk sé hann í grennd. Raunar þarf hann ekkert að vera mjög nálægt því bæði bylgjur í vatni og urg í grjóti undan vöðluskóm berast langt í kyrrstæðu vatni og fiskurinn er yfirleitt ekki lengi að bregðast við þessu með því að láta sig hverfa. Að vaða eftir flugu hefur lítið að segja nema þú komist með stangartoppinn beint yfir en helst fram yfir fluguna og náir að smokra henni úr festunni. Umfram allt, ekki byrja á því að veifa stönginni upp og niður, út og suður því þá máttu alveg eins eiga von á því að brjóta hana í látunum. Raunar eru það fæturnir sem duga oft best til að losa fluguna ef þér tekst að láta utanverðan sólann renna eftir tauminum, alveg niður að flugu. Það eiginlega bregst ekki að flugan losnar.

    Mín uppáhalds aðferð við að losa flugu er eftir sem áður að beita kasti, helst veltikasti beint yfir festuna þannig að flugan kippist til baka og losnar. Ef flugan losnar ekki í fyrstu atrennu, þá má alltaf leyfa línunni að liggja fyrir utan festu og einfallega draga hana inn. Stundum dugar dragið af línunni til að losa fluguna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 48 49 50 51 52 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar