Flýtileiðir

Votflugur að vori

Þegar ég fór yfir hvaða flugur gáfu mér best á síðasta ári, þá stóðu marabou flugur upp úr, nokkuð sem kom ekki neitt sérstaklega á óvart. Ég átti alveg eins von á að púpur væru í öðru sæti, en svo var nú ekki. Það voru votflugur, nánar tiltekið soft hackle flugur sem voru í öðru sæti, svona mitt á milli marabou flugna og púpa.

Mér fannst þetta svolítið skemmtilegt, því fyrir ári síðan gat ég þess einhvers staðar að ég mér þætti þetta elsta form veiðiflugna ekki njóta sannmælis og ég ætlaði að leggja meiri áherslu á að nota þær. Algjörlega óháð því að þessar flugur hafa alltaf höfðar mikið til mín.

Einmitt um þessar mundir er lífríkið að vakna af vetrardvalanum og einhver kann að segja að þá styttist í að votflugurnar fari aftur undir. Já, og þær ættu reyndar að vera farnar undir nú þegar, því soft hackle flugur eru ekkert síður góðar til síns brúks snemma vors, rétt áður en lífríkið smellur alveg í gang. Hvort sem það er hegðan hringvöfðu fjaðrarinnar í vatni eða eitthvað annað, þá virðast þessar flugur glepja fisk ekkert síður rétt áður en lirfur og púpur taka til við að umbreytast í fullvaxta skortdýr.

Hringvafin fjöður um búk sem líkir að einhverju leiti eftir púpu getur líkt eftir hýði hennar þegar fluga er dregin. Að sama skapi getur þessi fjöður líkt eftir fálmurum eða fótum lirfunnar þegar hlé er gert á inndrætti og fjaðrirnar rétta úr sér. En hvers vegna virkar þetta jafnvel þótt engin skordýr eru komin á kreik? Mér skilst á þeim greinum votflugufræðinga sem ég hef lesið, og trúið mér að þær eru nokkrir á alnetinu, að silungurinn hugsi ekki endilega rökrétt. Svo lengi sem þeir hafi yfir höfuð vaxið úr grasi við skordýraát, þá sé það greypt í kvarnir þeirra að u.þ.b. svona eða svona lítið skorkvikindið út. Ekki það að ég telji fiska hugsa mikið, en þetta er eitthvað í líkingu við að ef dýrið lítur út eins og önd, gaggar eins og önd, vaggar eins og önd, þá hlítur það að vera önd. Ef flugan lítur út eins skordýr, hreyfir sig eins og skordýr, þá hlítur það að vera skordýr og þá er eins gott að smella skoltunum utan um það.

5 svör við “Votflugur að vori”

  1. ragnarvidarsson Avatar

    Rakst á japanskar flugur um daginn, mjög minimalístiskar og fallegar. Kallaðar Tenkara eða Kebari flugur oftast. Hefurðu heyrt um þær eða jafnvel reynt?

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Ef ég man rétt, þá eru Kebari flugur eins og Spider Soft Hackle flugur, nema að fjöðrin er ekki látin leggjast aftur með leggnum, heldur fram á við. Nei, hef aldrei prófað það viljandi, en til að byrja með voru sumar af mínum votflugum eitthvað í þessa áttina ef ég klúðraði hringvafinu.
    kv. Kristján

    Líkar við

  3. Árni Avatar
    Árni

    Ég hef alltaf undrast yfir því hvað votflugur eiga að líkja eftir, en alltaf hallast að því að þær líkjast eftir litlum sílum eða álíka. Hinsvegar “meikar sense” ef maður slettir aðeins að þær líkjast hýði púpunnar.
    En svo er það það, hvernig veiðir þú með þessar flugur? Er það hægsökkvandi eða flotlína með hægum eða hröðum drætti?
    Ég er mikill púpu veiðimaður en finnst oft gaman að setja hlussu straumflugu undir og strippa hratt, er hægt að fara milliveginn með votflugunum?

    Bestu Kveðjur,
    Árni

    ps. Frábært að lesa pistlana þína alltaf!

    Líkar við

  4. Kristján Friðriksson Avatar

    Sæll Árni og takk fyrir þetta.
    Það er mitt álit á votflugum að þær spanna einna víðasta svið flugna sem mögulegt er. Undir ákveðnum kringumstæðum er votflugan einmitt eins og þú nefnir, ímynd horsílis og þá veiði ég hana gjarnan nokkuð hratt með rykkjum, leyfi henni að skjótast til á nokkuð löngum taumi (stangarlengd og vel það). Undir öðrum kringumstæðum leyfi ég votflugunni að sökkva vel (jafnvel sömu flugunni) og dreg hana með hægum, stuttum togum þannig að hún lyftist ofar í vatnsbolnum og þá ímynda ég mér að hún líkist meira lirfu eða púpu. Þannig veiði ég hana gjarnan með hægsökkvandi (intermediate) og get þá ráðið nokkuð hvar í vatnsbolnum hún sveimar. Svo er hægt að veiða votfluguna á dauða-reki á flotlínu.
    Ég samsvara mig alveg með ‘hlussu staumflugu á hröðu stippi’, þannig hef ég líka leyft mér að nota litskrúðuga votflugu (t.d. Watson’s Fancy eða Kate McLaren) og þeir eru ekki margir urriðarnir sem standast þannig blöndu. Ég veit að þurrflugusnillingar fussa og sveia, en ég hef líka tekið votflugu, smurt hana með þurrflugukremi og leyft henni að skauta aðeins á yfirborðinu með flotlínu, það er líka góð skemmtun.
    Vonandi gefur þetta þér einhverja hugmynd um mína aðferðir með votflugu, annars er von á ítarlegri grein á síðunni um mismunandi aðferðir með votflugu, stay tuned eins og þeir segja í sjónvarpinu.
    Kveðja,
    Kristján

    Líkar við

  5. Árni Avatar
    Árni

    Snillingur, takk kærlega fyrir þetta Kristján!

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com