Þegar ég fór yfir hvaða flugur gáfu mér best á síðasta ári, þá stóðu marabou flugur upp úr, nokkuð sem kom ekki neitt sérstaklega á óvart. Ég átti alveg eins von á að púpur væru í öðru sæti, en svo var nú ekki. Það voru votflugur, nánar tiltekið soft hackle flugur sem voru í öðru sæti, svona mitt á milli marabou flugna og púpa.
Mér fannst þetta svolítið skemmtilegt, því fyrir ári síðan gat ég þess einhvers staðar að ég mér þætti þetta elsta form veiðiflugna ekki njóta sannmælis og ég ætlaði að leggja meiri áherslu á að nota þær. Algjörlega óháð því að þessar flugur hafa alltaf höfðar mikið til mín.
Einmitt um þessar mundir er lífríkið að vakna af vetrardvalanum og einhver kann að segja að þá styttist í að votflugurnar fari aftur undir. Já, og þær ættu reyndar að vera farnar undir nú þegar, því soft hackle flugur eru ekkert síður góðar til síns brúks snemma vors, rétt áður en lífríkið smellur alveg í gang. Hvort sem það er hegðan hringvöfðu fjaðrarinnar í vatni eða eitthvað annað, þá virðast þessar flugur glepja fisk ekkert síður rétt áður en lirfur og púpur taka til við að umbreytast í fullvaxta skortdýr.
Hringvafin fjöður um búk sem líkir að einhverju leiti eftir púpu getur líkt eftir hýði hennar þegar fluga er dregin. Að sama skapi getur þessi fjöður líkt eftir fálmurum eða fótum lirfunnar þegar hlé er gert á inndrætti og fjaðrirnar rétta úr sér. En hvers vegna virkar þetta jafnvel þótt engin skordýr eru komin á kreik? Mér skilst á þeim greinum votflugufræðinga sem ég hef lesið, og trúið mér að þær eru nokkrir á alnetinu, að silungurinn hugsi ekki endilega rökrétt. Svo lengi sem þeir hafi yfir höfuð vaxið úr grasi við skordýraát, þá sé það greypt í kvarnir þeirra að u.þ.b. svona eða svona lítið skorkvikindið út. Ekki það að ég telji fiska hugsa mikið, en þetta er eitthvað í líkingu við að ef dýrið lítur út eins og önd, gaggar eins og önd, vaggar eins og önd, þá hlítur það að vera önd. Ef flugan lítur út eins skordýr, hreyfir sig eins og skordýr, þá hlítur það að vera skordýr og þá er eins gott að smella skoltunum utan um það.
Senda ábendingu