Eins skemmtilegar og mér finnast púpur vera, þá fer því fjarri að mínar sverji sig í ætt við frænkur sínar frá Tékklandi, þessar sem eru í yfirvigt. Þegar ég byrjaði að hnýta flugur við eldhúsborðið hérna um árið, þá var ég alls ekki viss hve þungar, þungar púpur ættu að vera. Ég hafði til hliðsjónar einhvern bækling sem hét Euro Nymphing og í þeim bæklingi voru þær allar með kúlu í yfirstærð og öngulinn vandlega vafinn með blýþræði. Ég á einhverjar af þessum fyrstu púpum mínum ennþá, flestar hafa þó orðið steinum að bráð í gegnum tíðina, ef ekki úti í vatni, þá fyrir aftan mig á bakkanum.
Þar sem ég bjó ekki svo vel að hafa aðgang að leiðbeinanda sem gat frætt mig um undirstöðuatriði púpuhnýtingar, kosti og galla og þá sér í lagi til hverra nota viðkomandi púpa væri ætluð, þá framleiddi ég einhvern ógjörning af púpum sem sverja sig meira í ætt við byssukúlur heldur en skordýr. Flestar af þessum púpum voru víst ætlaðar til veiða í stríðum straumi lækja og smááa þar sem það gilti umfram allt að koma þeim niður, fljótt og örugglega. Þessi misskilningur minn leiðréttist fljótlega og með tíð og tíma hafa púpurnar mínar tekið sig á og lést allverulega án þess að verða óþarflega horaðar.
Hin síðari ár hef ég meira að segja verið að föndra flugur sem eru aðeins lítillega þyngdar ef þá eitthvað. Ég er kannski mjög smitaður af áhuga mínum á votflugum, þessum klassísku vængjuðu aflaklóm sem komu fram á sjónarsviðið löngu áður en elstu núlifandi menn urðu svo mikið sem blik í auga.
Meira að segja blóðormurinn minn er ekki lengur þyngdur, ef undan er skilin glerperlan sem ég nota í hann. Öll lögmál um blóðorm sögðu mér í upphafi að gleyma þessari tilraun, blóðormurinn væri fastur á botninum og þar ætti ég að veiða hann, sérstaklega fyrripart sumars. En, viti menn þetta mótív að flugu hefur gefið mér ágætlega og smátt og smátt hefur hún farið oftar undir og því sífellt gefið betur. Flugur sem þessa veiði ég á intermediate línu í ekkert of löngum taumi. Kosturinn við þetta er að ég næ henni niður í vatnaveiðinni (á endanum), flugan verður síður viðskila við tauminn og tekur sjaldan upp ástríðufullt ástarsamband við botnfast grjót. Svo skemmir ekki að það er lítið mál að fá hana til að rísa alveg upp að yfirborðinu og veiða hana þar.
Senda ábendingu