Þegar skordýr rísa upp að yfirborðinu nýta þau sér oft loftbólur til hjálpar. Annað hvort hafa þau falið eina slíka undir skel eða vængstæði eða gripið um eina með framfótunum. Ég heyrði einhverju sinni að þegar hnýtarar setja stálkúla á flugu, þá væru þeir að líkja eftir þessari loftbólu. Hvað er satt í þessu, veit ég ekki en sjálfur hef ég sett glerperlur á nokkrar flugur og ímynda mér að þær líkist loftbólunni meira en stálið. En hvað veit ég, ekki er ég fiskur.

Eftir stendur að þær flugur sem ég hef hnýtt með glerperlu hafa verið mér gjöfular og þá sérstaklega þar sem eitthvert klak er í gangi. Púpurnar geta verið með ýmsu lagi og af mismunandi litum, því ekki eru allar pöddur eins á litin. Ég þykist raunar hafa séð að sama paddan getur verið af nokkuð mismunandi lit eftir því hvar hún óx úr grasi, bæði hvað varðar landshluta og jafnvel í sama vatni eftir því hvað hún lagði sér til munns. Það er því um að gera að leyfa sér að hnýta púpur í nokkrum litum eða afbrigðum og ekki gleyma því að lagið á pöddunum er alls ekki það sama. Stundum eru þær nokkuð beinar, en stundum eru þær bognar, jafnvel alveg krepptar.


Senda ábendingu