Það er spennuþrungið augnablik þegar tekið er í fluguna, adrenalínið flæðir og maður bregst við, stundum of seint, stundum mátulega og stundum að óþörfu. Já, það er hægt að bregðast við að óþörfu, til dæmis þegar maður hefur bara verið að krukka í stein eða annan ófögnuð sem leynist í vatninu. En hvað gerir maður þegar flugan er föst? Er föst fluga sama sem töpuð eða má gera eitthvað til að losa hana?
Ég hef ágæta skemmtun af því að hnýta mínar flugur sjálfur og því horfi ég ekki endilega fram á stórfellt tap þótt ég slíti, ekki nema þá að svo ólíklega vilji til að um síðustu fluguna í boxinu sé að ræða. Ég leyfi mér því að vega það og meta hvort ég bregðist við á einhvern annan hátt heldur en mögulega að slíta með því að taka á línunni. Það hefur alveg komið fyrir að ég geri ekkert annað heldur taka þéttingsfast í línu og slíta, það er þá helst undir þeim kringumstæðum að ég veit af eða sé fisk snudda í grennd við fluguna eða á milli mín og hennar sem ég vil ekki styggja.

Það fer að vísu töluvert eftir línunni sem maður notar hvort maður geti skotið flugunni til baka, úr föstum skorðum eða af steini. Ef línan er með þokkalega góðri teygju, þá má beina stangartoppinum beint að staðnum þar sem línan sker vatnið, taka vel á og sleppa skyndilega. Ef vel tekst til, þá skýst flugan til baka og losnar.
Að vaða eftir flugu er yfirleitt alltaf möguleiki en getur styggt fisk sé hann í grennd. Raunar þarf hann ekkert að vera mjög nálægt því bæði bylgjur í vatni og urg í grjóti undan vöðluskóm berast langt í kyrrstæðu vatni og fiskurinn er yfirleitt ekki lengi að bregðast við þessu með því að láta sig hverfa. Að vaða eftir flugu hefur lítið að segja nema þú komist með stangartoppinn beint yfir en helst fram yfir fluguna og náir að smokra henni úr festunni. Umfram allt, ekki byrja á því að veifa stönginni upp og niður, út og suður því þá máttu alveg eins eiga von á því að brjóta hana í látunum. Raunar eru það fæturnir sem duga oft best til að losa fluguna ef þér tekst að láta utanverðan sólann renna eftir tauminum, alveg niður að flugu. Það eiginlega bregst ekki að flugan losnar.
Mín uppáhalds aðferð við að losa flugu er eftir sem áður að beita kasti, helst veltikasti beint yfir festuna þannig að flugan kippist til baka og losnar. Ef flugan losnar ekki í fyrstu atrennu, þá má alltaf leyfa línunni að liggja fyrir utan festu og einfallega draga hana inn. Stundum dugar dragið af línunni til að losa fluguna.
Senda ábendingu