FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Morgunkossar

    2. nóvember 2016
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Ég er svolítill veikur fyrir rómantískum gamanmyndum, tek þær gjarnan framyfir hasarmyndir eftir langa vinnuviku og nýt þess að glápa og glotta yfir þeim á meðan ég tæmi hugann. Eitt er það samt sem ég skil ekki í þessum myndum og það er þegar ástfangna parið vaknar að morgni með hárið óaðfinnanlegt, hún með varalitinn ennþá á sínum stað og ekki vottur af krumpu á gæjanum, og svo kyssast þau. Hvað er eiginlega að mér, ég vakna yfirleitt sem ein allsherjar andfúl krumpa þannig að mér dettur ekki til hugar að leggja það á konuna að kyssa hana svona í morgunsárið. Svo veit ég líka að hún mundi frekar kjósa svona kossa eins og sjá má í morgunstillunum á vötnunum þegar silungurinn er að pikka eina og eina flugu af yfirborðinu. En hvað er þetta eiginlega sem fiskurinn er að éta?

    fos_frostastadavatn_vokur2

    Þessar örfínu uppitökur að morgni eru yfirleitt kallaðar kiss upp á enska tungu eða nebbing sem er eiginlega réttara, því það er rétt aðeins snjáldrið á fiskinum sem kemur upp að yfirborðinu. Ég hef reynt við svona morgunkossa með þurrflugum í ætt við þær flugur sem ég sá í lofti. Það voru væntanlega fyrstu og stærstu mistökin sem ég gat gert. Ég horfði á toppflugu, rykmý eða aðrar ágengar flugur og valdi mér þurrflugu í samræmi; Black Gnat, Adams eða Blue Quill. Allt vel hærðar, vængjaðar þurrflugur sem sátu fallega á vatninu og nutu akkúrat engrar athygli silungsins. Það var svo ekki alls fyrir löngu að ég rakst á skýringuna í erlendu tímariti. Í mörgum tilfellum er fiskurinn bara alls ekkert á höttunum eftir fullvaxta flugu, hann er að pikka upp óþroska einstaklinga sem hafa orðið eftir í yfirborðinu þegar klakið var um garð gengið. Mér hefði verið nær að velja flugu eins og Bibio Hopper með topp, einhverja sem hangir hálf niður úr vatnsfilmunni og leikur sig alveg steindauða eða örmagna. Svona hef ég nú alveg misskilið þessa morgunkossa í gegnum tíðina.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þetta situr allt í hausnum

    20. apríl 2016
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Stundum velti ég því fyrir mér hvenær komi að því að ég nái fullorðinsaldri þegar kemur að flugukasti. Smátt og smátt og með nokkrum flugum (sem aldrei koma fyrir nokkurs manns sjónir) tókst mér að komast upp á lagið með hnýtingar. Ég er ekki neinn afburða hnýtari, en ég reyni og mér tekst yfirleitt að fylla á boxin fyrir sumarið. Ég var reyndar spurður að því um daginn hvort ég ætti ekki orðið einhverjar þúsundir flugna, ég væri alltaf að hnýta eitthvað. Stutta svarið er; kannski. Ég veit ekki hvað ég á margar flugur, sumum týni ég og sumar lifa einfaldlega ekki sumarið, trúlega vegna þess að þær eru ekki nægjanlega vel hnýttar.

    Ég hef líka með tíð og tíma náð að þroska með mér áhuga á lífríkinu, hvenær hvaða pöddur eru á ferli, hvernig þær haga sér og líta út, þannig að ég er þokkalega nálægt því að velja rétta flugu miðað við aðstæður. Ég hef aftur má móti aldrei náð alveg að setja mig í spor fisksins sem tekur grimmt einn daginn, ákveðnar flugur á ákveðnu dýpi með ákveðnum inndrætti, en svo næsta dag vill hann eitthvað allt annað með allt öðrum hætti. Kannski verður mér það aldrei gefið að setja mig í spor fisksins, ég verð þá bara að spila þann part eftir eyranu hverju sinni.

    Flugustangir
    Flugustangir

    En aftur að flugukastinu. Kastið er framkvæmt með tæki sem heitir flugustöng; prik sem sveigist og bognar, hleðst og afhleðst og eftir henni rennur lína sem ber fluguna mína fyrir fiskinn. Sumar stangir eru mjúkar, hlaðast frá toppi og niður að handfangi. Aðrar eru millistífar og hlaðast niður að miðju og svo eru kústsköft sem bogna rétt aðeins í toppinn og flengja línunni út, langt út. Til að ná einhverju samspili í þetta þarf maður að hreyfa kasthendina með ákveðnum hætti sem ekki ofbíður stönginni og línunni, passa upp á að línan hreyfist eftir ákveðnum ferli, fram og til baka eða út og til hliðar. Þarna finnst mér ég alltaf vera hálfgerður unglingur, ekki náð fullum þroska. Þegar ég vanda mig, þá á ég það til að ofhugsa kastið. Þegar ég gleymi mér þá hugsa ég ekki neitt og kasta bara eins og mér sýnist. Og vitiði hvað? Ég er bara nokkuð sáttur við þá leið.

    Að finna sjálfan sig í fluguveiðinni er hið besta mál, eða eins og Mike Heritage sagði; Ef allar þessar reglur í flugukasti væru nauðsynlegar, þá væru aðeins 10-20 manns sem stunduðu fluguveiði í heiminum. Þetta er allt í hausnum á þér og meðan hann er rétt fyrir ofan búkinn og þú notar hann ómeðvitað, þá ertu í góðum málum. Hann klikkir síðan út með að hvetja veiðimenn til að slaka á, njóta þess að veiða og rembast ekkert of mikið við flugukast skv. einhverjum reglum, þetta er allt þarna inni og það síast fram þegar þess er þörf. Ég er mjög sáttur við Mike, sem er vel að merkja FFF flugukastkennari frá Bretlandi. Reyndar nefnir Mike líka þann kost að sækja sér af og til smá leiðbeiningar frá kastkennara þannig að hægt sé að viðhalda heilbrigðri heilastarfsemi. Ég viðurkenni að hann hefur töluvert til síns máls.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Slakar línur

    23. mars 2016
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Sumar flugulínur virðast eiga erfitt með að segja skilið við fortíðina. Þetta á við nýjar línur og gamlar sem hefur verið spólað út af veiðihjólunum yfir á geymsluspólur. Þessar fortíðarlínur eiga það sameiginlegt að vilja endilega liggja á fluguhjólinu nákvæmlega eins og þær lágu á geymsluspólunum. Þetta orsakar auðvitað tómar flækjur og vesen og ekki skánar það þegar þær lenda síðan úti í vatni. Þær hrökkva til baka, rúlla sig upp eins broddgöltur og mynda einhvers konar skrúfu í vatninu.

    Sultu slakar línur
    Sultu-slakar línur

    En það er til nokkuð einfalt ráð við þessu. Prófaðu að vinda ofan af geymsluhjólinu niður í eldhúsvask sem hefur verið fylltur af ilvolgu vatni, um það bil 37°C og leyfðu línunni að liggja þar í nokkra stund áður en þú spólar henni inn á veiðihjólið. Í svona notalegu baði gleyma flugulínur yfirleitt alveg hvernig þær lágu á geymsluspólunni og spólast beinar og stilltar inn á veiðihjólið að baði loknu. Ekki sakar að nýta tilefnið og spólast línunni inn í gegnum gleraugnaklút sem haldið er þéttings fast utan um hana. Þá er hún hrein og fín, tilbúinn í slaginn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að rífa hann upp

    15. desember 2015
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Það hefur lengi verið talað um að rífa upp fisk þegar mikið er um að vera, handagangur í öskjunni. Að sama skapi hefur mönnum stundum tekist að særa upp fisk þegar lítið hefur verið að gerast og aðeins einn og einn fiskur hleypur á snærið. Það var kannski einhver spéhræðsla í mér en þegar ég hóf mína fluguveiði, þá dró ég mig gjarnan nokkuð afsíðis og reyndi að framkalla þessi fallegu markvissu köst sem ég hafði séð í myndböndum á internetinu. Þannig varð það að ég blandaði ekki miklu geði við aðra fluguveiðimenn til að byrja með, var svolítið að pukrast einn með þetta.

    Ég gleymi seint þeirri undran minni þegar ég síðar varð fyrst vitni að því þegar veiðimenn í grennd við mig beinlínis rifu línu og taum upp úr vatninu, löngu áður en hilla fór undir fluguna. Bíddu nú salla rólegur, hvað er þetta? Ég hafði vanið sjálfan mig á að draga fluguna inn, næstum að topplykkju og lyfta stönginni rólega upp, raska yfirborði vatnsins sem minnst. Reyndar hafði ég ofar en ekki einmitt fengið fisk þegar ég lyfti stönginni eftir síðasta inndrátt, en það er önnur saga. Ekki varð undrun mín minni þegar ég sá þessa veiðimenn leggja fluguna strax út í næsta kasti, rífa línu og taum umsvifalaust upp úr vatninu, beint í bakkastið og leggja fluguna enn og aftur út. Jæja, hef ég bara alltaf verið að gera þetta vitlaust?

    Þeir koma líka á í rólegheitum
    Þeir koma líka á í rólegheitum

    Ákveðnar kastaðferðir beinlínis þurfa á mjög mikilli hleðslu stangarinnar að halda, helst sem fyrst og þá hafa menn þann hátt á að flýta fyrir með því að reisa stöngina löngu áður en farið er að hilla undir taum eða flugu, nýta vatnið sem mótstöðu og ná þannig meiri hleðslu á skemmri tíma. Flest þessara kasta eiga uppruna sinn að rekja til breiðra og mikilla áa þar sem straumur flytur fluguna langt úr færi við fiskinn og því lítil hætta á að fæla hann með aðförum sem þessum.

    Ég hef nokkrum sinnum orðið vitni að því að menn noti þessa tækni til að ‚ná lengra‘ í vatnaveiði, en mér er til efs að þeir nái fleiri fiskum með þessum hætti heldur en þeir veiðimenn sem reyna að raska yfirborði vatnsins sem minnst, dragi línu og taum þannig upp að flugan haldi áfram að veiða alveg inn að efstu lykkju. Ég ætla í það minnsta að halda áfram að trúa því að fiskur leiti inn að bakka vatnanna sé hann á annað borð í ætisleit, elti fæðuna alveg upp í grjót ef því er að skipta. Og svo held ég að honum sé ekkert vel við einhvern buslugang, tauma og flugur sem taka upp á því að æða áfram og upp úr vatninu og koma síðan aftur augnabliki síðar og skella með látum á yfirborðinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Færri falsköst

    26. nóvember 2015
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Eitt er víst, ég hef lesið þessa fyrirsögn mun oftar heldur en ég man eftir þessu þegar ég er að veiða. Það þýðir bara eitt; ég nota of mörg falsköst. Í þau fáu skipti sem ég man eftir þessu, þá slaka ég á og kasta markvissar, kannski örlítið styttra en áður en samt ekki, því með markvissari og yfirvegaðri köstum er miklu minna mál að einbeita sér að tví-togi, bæði í fram- og bakkasti.

    Þótt þeir séu til sem kannast ekki við þreytu í veiðinni, þá er það nú svo að eftir langan dag og mörg falsköst fer þreytan aðeins að setja mark sitt á framsetningu flugunnar. Þetta skiptir ekki litlu máli þegar klukkan er ekki á veiðimönnum og þeir geta notið útiverunnar og veiðinnar eins lengi og hugur og hönd girnast. Ég er einn þeirra sem hef ótakmarkaða ánægju af því að veiða og veiði gjarnan langa daga. Ef ég hef ekki einhvern hemil á falsköstunum geta síðkvöldin orðið heldur fálmkennd í framsetningu og oftar en ekki óvíst hvar flugan lendir þegar mér tekst loksins að slæma henni út.

    Fallegt kast á fallegum degi
    Fallegt kast á fallegum degi

    Á sama tíma og mér tekst miður til við framsetningu flugunnar vill það einnig gerast að títtnefndir vindhnútar geri vart við sig, meira að segja í blanka logni í ljósaskiptunum eða öllu heldur einmitt þá. Þegar dagur er að kveldi komin og kasthöndin búin að vera á fullu í falsköstum allan daginn, þá tapast ákveðin einbeiting sem verður jú alltaf að vera til staðar. Mistökum fjölgar, línan slæst niður í bakkastinu, fremra stoppið kemur allt of seint og vindhnútar hlaðast á tauminn.

    Einhvern tímann las ég pistil þekkts kastkennara sem sagði einfaldlega að það væri ljótur siður að temja sér mörg falsköst. Lærðu bara að kasta eins og maður, færri falsköst, betra tví-tog og þá nærðu kasti á fiskinn þar sem hann er, ekki þar sem hann var fyrir tveimur köstum síðan. Það er einmitt þegar ég er í návígi við fiskinn að ég man eftir þessu, vanda mig betur við togið og þá er eins gott að ég sé ekki orðinn svo þreyttur eftir öll falsköstin að allt fari í tóma vitleysu hjá mér. Óþreyttur maður nær betri einbeitingu heldur en þreyttur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að halla undir flatt

    13. janúar 2015
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Það hefur ekkert farið framhjá þeim sem séð hafa að ég er enginn kastsnillingur, en mér er svo sem ekki alls varnað heldur, held ég. Síðast þegar ég leitaði mér aðstoðar og fékk slatta af skömmum var mér bent á að kasta undir flatt, þ.e. kasta fram og til baka með stöngina í láréttu plani. Galdurinn við þessa æfingu er sá að horfi maður ofan á línubogann sem myndast í fram- og afturkastinu gerir maður sér betri grein fyrir því hvenær og hvernig kasthjólið myndast. Þegar maður hefur náð tökum á þessu kasti; lárétt, fram og til baka, þá má færa sig og kastið upp á skaftið þangað til maður er farinn að kasta nokkuð ‚eðlilega‘ með stöngina í lóðrétta. Til að auka enn meira á færnina má færa úr láréttu kasti frá hægri hlið, upp og yfir á þá vinstri þar til stöngin er aftur í láréttu plani.

    Ef eitthvað hefur hjálpað mér að ná stjórn á stærð kasthjólsins, þá er það þessi æfing. En fyrr átti ég á dauða mínum von heldur en notað þetta kast í veiði. Jú, ég hef svo sem fært stöngina í lárétt plan til að ná undir vind en í sumar fannst mér ég endilega þurfa að ná kasti meðfram bakkanum mér á hægri hönd. Vandamálið var bara að ég eini staðurinn sem ég gat tyllt niður fæti á var smá bleðli á milli hárra steina sem gengu alveg fram í vatnið.

    Lágrétt kast til hægri
    Lárétt kast til hægri

    Undir þessum kringumstæðum kom sér vel að geta laumað stangarendanum út fyrir steinana og kastað með landi þangað sem ég taldi fiskinn vera. Það var að vísu enginn fiskur þarna þegar til kom, en ég var samt sem áður nokkuð sáttur við kastið og ekki síst að hafa munað eftir æfingunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 6 7 8 9 10 … 19
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar