Stundum velti ég því fyrir mér hvenær komi að því að ég nái fullorðinsaldri þegar kemur að flugukasti. Smátt og smátt og með nokkrum flugum (sem aldrei koma fyrir nokkurs manns sjónir) tókst mér að komast upp á lagið með hnýtingar. Ég er ekki neinn afburða hnýtari, en ég reyni og mér tekst yfirleitt að fylla á boxin fyrir sumarið. Ég var reyndar spurður að því um daginn hvort ég ætti ekki orðið einhverjar þúsundir flugna, ég væri alltaf að hnýta eitthvað. Stutta svarið er; kannski. Ég veit ekki hvað ég á margar flugur, sumum týni ég og sumar lifa einfaldlega ekki sumarið, trúlega vegna þess að þær eru ekki nægjanlega vel hnýttar.

Ég hef líka með tíð og tíma náð að þroska með mér áhuga á lífríkinu, hvenær hvaða pöddur eru á ferli, hvernig þær haga sér og líta út, þannig að ég er þokkalega nálægt því að velja rétta flugu miðað við aðstæður. Ég hef aftur má móti aldrei náð alveg að setja mig í spor fisksins sem tekur grimmt einn daginn, ákveðnar flugur á ákveðnu dýpi með ákveðnum inndrætti, en svo næsta dag vill hann eitthvað allt annað með allt öðrum hætti. Kannski verður mér það aldrei gefið að setja mig í spor fisksins, ég verð þá bara að spila þann part eftir eyranu hverju sinni.

Flugustangir
Flugustangir

En aftur að flugukastinu. Kastið er framkvæmt með tæki sem heitir flugustöng; prik sem sveigist og bognar, hleðst og afhleðst og eftir henni rennur lína sem ber fluguna mína fyrir fiskinn. Sumar stangir eru mjúkar, hlaðast frá toppi og niður að handfangi. Aðrar eru millistífar og hlaðast niður að miðju og svo eru kústsköft sem bogna rétt aðeins í toppinn og flengja línunni út, langt út. Til að ná einhverju samspili í þetta þarf maður að hreyfa kasthendina með ákveðnum hætti sem ekki ofbíður stönginni og línunni, passa upp á að línan hreyfist eftir ákveðnum ferli, fram og til baka eða út og til hliðar. Þarna finnst mér ég alltaf vera hálfgerður unglingur, ekki náð fullum þroska. Þegar ég vanda mig, þá á ég það til að ofhugsa kastið. Þegar ég gleymi mér þá hugsa ég ekki neitt og kasta bara eins og mér sýnist. Og vitiði hvað? Ég er bara nokkuð sáttur við þá leið.

Að finna sjálfan sig í fluguveiðinni er hið besta mál, eða eins og Mike Heritage sagði; Ef allar þessar reglur í flugukasti væru nauðsynlegar, þá væru aðeins 10-20 manns sem stunduðu fluguveiði í heiminum. Þetta er allt í hausnum á þér og meðan hann er rétt fyrir ofan búkinn og þú notar hann ómeðvitað, þá ertu í góðum málum. Hann klikkir síðan út með að hvetja veiðimenn til að slaka á, njóta þess að veiða og rembast ekkert of mikið við flugukast skv. einhverjum reglum, þetta er allt þarna inni og það síast fram þegar þess er þörf. Ég er mjög sáttur við Mike, sem er vel að merkja FFF flugukastkennari frá Bretlandi. Reyndar nefnir Mike líka þann kost að sækja sér af og til smá leiðbeiningar frá kastkennara þannig að hægt sé að viðhalda heilbrigðri heilastarfsemi. Ég viðurkenni að hann hefur töluvert til síns máls.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.