Það hefur lengi verið talað um að rífa upp fisk þegar mikið er um að vera, handagangur í öskjunni. Að sama skapi hefur mönnum stundum tekist að særa upp fisk þegar lítið hefur verið að gerast og aðeins einn og einn fiskur hleypur á snærið. Það var kannski einhver spéhræðsla í mér en þegar ég hóf mína fluguveiði, þá dró ég mig gjarnan nokkuð afsíðis og reyndi að framkalla þessi fallegu markvissu köst sem ég hafði séð í myndböndum á internetinu. Þannig varð það að ég blandaði ekki miklu geði við aðra fluguveiðimenn til að byrja með, var svolítið að pukrast einn með þetta.

Ég gleymi seint þeirri undran minni þegar ég síðar varð fyrst vitni að því þegar veiðimenn í grennd við mig beinlínis rifu línu og taum upp úr vatninu, löngu áður en hilla fór undir fluguna. Bíddu nú salla rólegur, hvað er þetta? Ég hafði vanið sjálfan mig á að draga fluguna inn, næstum að topplykkju og lyfta stönginni rólega upp, raska yfirborði vatnsins sem minnst. Reyndar hafði ég ofar en ekki einmitt fengið fisk þegar ég lyfti stönginni eftir síðasta inndrátt, en það er önnur saga. Ekki varð undrun mín minni þegar ég sá þessa veiðimenn leggja fluguna strax út í næsta kasti, rífa línu og taum umsvifalaust upp úr vatninu, beint í bakkastið og leggja fluguna enn og aftur út. Jæja, hef ég bara alltaf verið að gera þetta vitlaust?

Þeir koma líka á í rólegheitum
Þeir koma líka á í rólegheitum

Ákveðnar kastaðferðir beinlínis þurfa á mjög mikilli hleðslu stangarinnar að halda, helst sem fyrst og þá hafa menn þann hátt á að flýta fyrir með því að reisa stöngina löngu áður en farið er að hilla undir taum eða flugu, nýta vatnið sem mótstöðu og ná þannig meiri hleðslu á skemmri tíma. Flest þessara kasta eiga uppruna sinn að rekja til breiðra og mikilla áa þar sem straumur flytur fluguna langt úr færi við fiskinn og því lítil hætta á að fæla hann með aðförum sem þessum.

Ég hef nokkrum sinnum orðið vitni að því að menn noti þessa tækni til að ‚ná lengra‘ í vatnaveiði, en mér er til efs að þeir nái fleiri fiskum með þessum hætti heldur en þeir veiðimenn sem reyna að raska yfirborði vatnsins sem minnst, dragi línu og taum þannig upp að flugan haldi áfram að veiða alveg inn að efstu lykkju. Ég ætla í það minnsta að halda áfram að trúa því að fiskur leiti inn að bakka vatnanna sé hann á annað borð í ætisleit, elti fæðuna alveg upp í grjót ef því er að skipta. Og svo held ég að honum sé ekkert vel við einhvern buslugang, tauma og flugur sem taka upp á því að æða áfram og upp úr vatninu og koma síðan aftur augnabliki síðar og skella með látum á yfirborðinu.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.