Sumar flugulínur virðast eiga erfitt með að segja skilið við fortíðina. Þetta á við nýjar línur og gamlar sem hefur verið spólað út af veiðihjólunum yfir á geymsluspólur. Þessar fortíðarlínur eiga það sameiginlegt að vilja endilega liggja á fluguhjólinu nákvæmlega eins og þær lágu á geymsluspólunum. Þetta orsakar auðvitað tómar flækjur og vesen og ekki skánar það þegar þær lenda síðan úti í vatni. Þær hrökkva til baka, rúlla sig upp eins broddgöltur og mynda einhvers konar skrúfu í vatninu.

En það er til nokkuð einfalt ráð við þessu. Prófaðu að vinda ofan af geymsluhjólinu niður í eldhúsvask sem hefur verið fylltur af ilvolgu vatni, um það bil 37°C og leyfðu línunni að liggja þar í nokkra stund áður en þú spólar henni inn á veiðihjólið. Í svona notalegu baði gleyma flugulínur yfirleitt alveg hvernig þær lágu á geymsluspólunni og spólast beinar og stilltar inn á veiðihjólið að baði loknu. Ekki sakar að nýta tilefnið og spólast línunni inn í gegnum gleraugnaklút sem haldið er þéttings fast utan um hana. Þá er hún hrein og fín, tilbúinn í slaginn.