Eitt er víst, ég hef lesið þessa fyrirsögn mun oftar heldur en ég man eftir þessu þegar ég er að veiða. Það þýðir bara eitt; ég nota of mörg falsköst. Í þau fáu skipti sem ég man eftir þessu, þá slaka ég á og kasta markvissar, kannski örlítið styttra en áður en samt ekki, því með markvissari og yfirvegaðri köstum er miklu minna mál að einbeita sér að tví-togi, bæði í fram- og bakkasti.
Þótt þeir séu til sem kannast ekki við þreytu í veiðinni, þá er það nú svo að eftir langan dag og mörg falsköst fer þreytan aðeins að setja mark sitt á framsetningu flugunnar. Þetta skiptir ekki litlu máli þegar klukkan er ekki á veiðimönnum og þeir geta notið útiverunnar og veiðinnar eins lengi og hugur og hönd girnast. Ég er einn þeirra sem hef ótakmarkaða ánægju af því að veiða og veiði gjarnan langa daga. Ef ég hef ekki einhvern hemil á falsköstunum geta síðkvöldin orðið heldur fálmkennd í framsetningu og oftar en ekki óvíst hvar flugan lendir þegar mér tekst loksins að slæma henni út.

Á sama tíma og mér tekst miður til við framsetningu flugunnar vill það einnig gerast að títtnefndir vindhnútar geri vart við sig, meira að segja í blanka logni í ljósaskiptunum eða öllu heldur einmitt þá. Þegar dagur er að kveldi komin og kasthöndin búin að vera á fullu í falsköstum allan daginn, þá tapast ákveðin einbeiting sem verður jú alltaf að vera til staðar. Mistökum fjölgar, línan slæst niður í bakkastinu, fremra stoppið kemur allt of seint og vindhnútar hlaðast á tauminn.
Einhvern tímann las ég pistil þekkts kastkennara sem sagði einfaldlega að það væri ljótur siður að temja sér mörg falsköst. Lærðu bara að kasta eins og maður, færri falsköst, betra tví-tog og þá nærðu kasti á fiskinn þar sem hann er, ekki þar sem hann var fyrir tveimur köstum síðan. Það er einmitt þegar ég er í návígi við fiskinn að ég man eftir þessu, vanda mig betur við togið og þá er eins gott að ég sé ekki orðinn svo þreyttur eftir öll falsköstin að allt fari í tóma vitleysu hjá mér. Óþreyttur maður nær betri einbeitingu heldur en þreyttur.
Senda ábendingu