FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Örstutt um dádýr

    26. janúar 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Dádýrshali (e: bucktail) er ekki óalgengt efni í straumflugur. Sjálfur lenti ég ítrekað í því í árdaga minna hnýtinga að hárin úr halanum vildu vefjast óþarflega mikið utan um krókinn þegar ég hnýtti þau niður. Það var alveg saman hve mikið ég vandaði mig, alltaf vildi vængurinn breytast í hringvaf. Það var ekki fyrr en ég las það í einhverju spjalli að  neðsti partur halahársins er holur og því vill hann vefjast svona í hring.

    Ef þú lendir í svipuðum vandræðum, prófaðu þá að klippa 1/3 neðan af hárunum, það sem eftir stendur eru massíf hár og henta betur í væng og skott á straumflugu og eru til friðs þegar þau eru hnýtt niður.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Niðurbrotin fluga

    23. janúar 2019
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Eitt er að vera óheppinn, annað er að vera svo nískur að tíma ekki að kaupa góða króka til fluguhnýtinga. Þegar ég segi góða króka, þá er ég alls ekki endilega að tala um einhver ákveðin vörumerki þó ákveðin merki séu oft trygging ákveðinna gæða, þó ekki algilt. Ég hef alveg prófað óþekkta króka frá honum Ali frænda í Kína sem hafa reynst mér alveg ágætlega, en ég hef líka lent í því að kaupa króka sem segja ekki ping þegar ég prófa þá í hnýtingarþvingunni minni, þeir segja plonk og brotna eða stein halda kjafti og svigna bara við minnsta átak.

    Ef krókurinn hefur aftur á móti staðist ping prófið mitt í þvingunni og ég klætt hann í allt það sem forskriftin segir til um til að verða að flugu, þá fer hann með mér í veiði. Ef krókur svíkur mig í veiði, þá skoða ég hvar hann brotna. Hafi hann brotnað við augað, þ.e. taumurinn er enn fastur í auganu en ekkert er lengur þar fyrir aftan, þá eru mestar líkur á að ekki sé við krókinn að sakast, sökin liggur hjá mér og lélegu bakkasti. En ef krókur brotnar á miðjum bug eða legg eru meiri líkur á að um galla eða lélegan krók sé að ræða. Nú er ég ekki að tala um ef ég hef fest fluguna í botni og náð henni upp með átaki, því þá getur krókurinn jú laskast.

    Síðastliðið sumar lenti ég ótrúlega oft í því að flugur brotnuðu hjá mér í veiði og vitaskuld voru það alltaf stórir, jafnvel risastóri fiskar sem sluppu þegar svo bar undir. Eins og kunnugt er, þá eru það aðeins stórir fiskar sem sleppa. Helst voru það krókar í stærri stærðum, í það minnsta á minn mælikvarða, sem brotnuðu og yfirgnæfandi meirihluti þeirra brotnuðu á miðjum bug eða mótum bugs og leggjar. Eins og gefur að skilja var ég ekki kátur og fór vandlega yfir ástand þeirra króka sem eftir voru í boxinu hjá mér á hnýtingarborðinu og viti menn.

    Ef ég festi krókinn í þvinguna skv. forskrift, þá stóðust nær allir venjulegt ping próf, en þegar ég færði krókinn til í þvingunni, festi hann í raun rangt þannig að pingið mitt víbraði ekki niður í buginn, aðeins í leggnum, þá kvað við annan tón. Án þess að beita átaki að ráði, þá tókst mér að brjóta helming þeirra króka sem ég prófaði. Til að sannreyna þessar prófanir mínar, tók ég á krókunum á mismunandi stöðum með venjulegum spóakjafti og niðurstaðan var því miður sú sama, þeir brotnuðu flestir nokkuð auðveldlega ef þeir nutu ekki fjöðrunarinnar í bugnum. Það er augljóst mál að áður en ég nota þær flugur sem hnýttar voru á þessa króka, þá verð ég að boða alla stórvaxna urriða á námskeið í tökum og kenna þeim hvar og hvernig má bíta á þannig að krókurinn brotni ekki.

    Að öllu gríni slepptu, þá prófa ég krókana mína aðeins betur núna og umfram allt, kaupi aðeins þær gerðir sem ég hef góða reynslu af og standast prófanir, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dauðadeildin

    5. nóvember 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Í vestinu mínu leynist ýmislegt, þó ekki allt sem ég vildi óska mér, bara þannig að því sé haldið til haga. Hér áður fyrr var þar m.a. að finna gamalt filmubox sem ég notaði undir sígarettustubba, nú þarf ég þess ekki lengur, en í staðinn hefur komið lítið álbox undan sælgæti sem ég nota fyrir flugur sem hafa gefið upp andann.

    Dauðadeildin

    Hvort sem rekja má andlát flugunnar til lélegra hnýtinga, efnis eða jafnvel brotinna króka, þá getur verið forvitnilegt að tæma boxið á hnýtingarborðið í lok sumars og kryfja málið. Við fyrstu yfirferð sá ég strax að ákveðin tegund tinsel sem ég notaði í skott á Nobbler var t.d. ekki alveg að gera sig. Sjaldan séð jafn upplitað og í raun glært tinsel eftir eitt sumar eins og það sem hékk í druslum aftan í nokkrum örþreyttum Nobblerum. Svona lærir maður, tekur þá gallað efni frá eða nýtir þar sem lakk eða UV lím leggst yfir til varnar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Lengdin skiptir máli

    21. mars 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Eitt lærðist mér fljótlega í fluguhnýtingunum og það var að hafa eins stuttan þráð fram úr keflishaldaranum eins og mér var unnt. Langur spotti lengir ekki aðeins þann tíma sem það tekur að hnýta hvern vafning heldur slaknar líka á vafningunum ef þráðurinn er of langur. Heppilegt fjarlægð keflishaldara frá flugu er á bilinu 2 – 6 sm. Allt umfram þetta mætti með einhverri kokhreysti segja að sé óþarfi.

    Það er líka auðveldara að ná markvissri staðsetningu á þræðinum ef manni lærist að nota keflishaldarann til að stýra staðsetningunni. Ég hef séð hnýtara sem hafa náð ótrúlegri lagni við að halda væng með tveimur fingrum og beita síðan tveimur til viðbótar til að stýra staðsetningu á þráðarins á flugunni. Þetta var mikil fingrafimi en algjörlega ónauðsynleg hefðu þeir stytt aðeins í þræðinum og notað keflishaldarann til þess sem hann er ætlaður; halda við og beina þræðinum á réttan stað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hættu að naga

    14. mars 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Ég ólst upp við tvær setningar í æsku, önnur þeirra hljómaði einfaldlega; Hættu að naga. Því miður hefur þessi setning fylgt mér alla ævi og gerir enn. Ég er sem sagt haldin þessum leiða ávana að naga á mér neglurnar og þess vegna er ég með ýmsar tangir og tól á hnýtingarborðinu mínu til að ná upp smágerðu hnýtingardóti; kúlum, krókum o.s.frv. En það er fleira sem tengist höndunum mínum sem getur verið til vandræða þegar kemur að fluguhnýtingum. Ýmsar rispur, hrufóttir fingur og slitin naglbönd eru eiginlega verkfæri djöfulsins þegar maður er með fíngerðan hnýtingarþráð eða floss í haldaranum.

    Eflaust dettur einhverjum pjatt í hug, en ég hef heyrt ákveðinn handáburð dásamaðan í hástert hjá hnýturum, Neutrogena Norwegian Formula er víst galdrameðal fyrir þurra og sprungna fingur hnýtarans. Kosturinn við þetta handkrem er helstur sá að það er án fitu, skilur ekki eftir sig fingraför og er einstaklega græðandi. Smá sletta á stærð við baun áður en þú byrjar að hnýta gerir víst kraftaverk.

    Fyrir þá sem eru með neglur, mér skilst að yfir hnýtingarmánuðina sé mjög gott ráð að halda nöglunum örlítið lengri heldur en að öllu jöfnu. Þá er til muna auðveldara að ná smágerða efninu upp úr koppum og kirnum, já eða bara beint af borðinu. Til ykkar sem eruð haldnir sömu áráttu og ég; Hættið að naga þannig að þið þurfið loksins að nota naglaklippurnar til einhvers annars heldur en klippa taumaefni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hnýtingarefni fyrir byrjendur

    7. febrúar 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Þegar mér datt í hug að setja hér inn örstutta samantekt á hnýtingarefni fyrir byrjendur, þá tóku hlutirnir aðeins að vefjast fyrir mér. Hvað, af öllu því dóti sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina, ætti ég að setja á þennan lista? Úr varð að ég tók nokkrar algengar silungaflugur sem eru hér á síðunni og setti hráefnið í þær á einn lista sem úr varð þetta:

    Krókar

    Tegundir og stærðir króka eru óteljandi og þá meina ég óteljandi en til að hnýta nokkrar góðar flugur má alveg komast af með tvær gerðir króka, plús önnur stærð innan sviga ef vel liggur á þér. Púpu og votflugukrók (B170) með stuttum legg í stærð #12 (#10) og straumflugukrók (B830) í stærð #10 (#8). Til viðmiðunar setti ég hér inn tegundarnúmer Kamazan öngla, en samanburðartöflu króka eftir framleiðendum má finna hér.

    Þetta er vitaskuld aðeins mitt val og ýmsar aðrar gerðir eru vissulega mögulegar; sverari vír, grennri eða þá lengri eða styttri leggur. Vel að merkja, þá er ýmsan fróðleik að finna hér á síðunni um króka, m.a. í þessari grein.

    Þráður

    Fyrir byrjendur mæli ég með nokkuð sverum hnýtingarþræði, en þó ekki svo að haus flugunnar verði einhver klumpur í lokinn. Nokkuð algengur þráður er UNI nylon þráðurinn og þá mæli ég með að nota 6/0 til að byrja með og eiga hann í svörtu, rauðu og brúnu. Þegar getan til að meðhöndla grennri þráð kemur með æfingunni, þá er einfalt að breyta til og auka við tegundirnar.

    Vír

    Margar flugur eru styrktar með vír sem annað hvort er gerður úr brass, kopar eða áli. Til að byrja með dugir ágætlega að eiga koparvír og silfraðan (ál) og þá alls ekki of fínan og ekki of sveran. Þá liggur beinast við að velja sér vír sem er medium.

    Kúlur

    Því er ekki ósvipað farið með kúlurnar eins og vírinn, þær eru til í nokkrum litbrigðum en þau helstu eru kopar, gyllt (brass) og silfur (ál/stál). Það eru til nokkrar töflur fyrir stærðum kúlna sem passa ákveðnum krókum, sbr. Kúlur í mm og tommum en sé miðað við krókana hér að ofan, þá væri ekki úr vegi að eiga kúlur í eftirfarandi stærðum; 3,2mm og 4,0mm. Ég mæli með gyltum og silfruðum til að byrja með, síðan má auka fjölbreytnina og taka inn kopar og litaðar kúlur.

    Vinyl rip

    Loksins kemur að einhverju einföldu, þ.e. miðað við krókastærðirnar hér að ofan. Svart medum vinyl rip og þá getur þú sett í nokkrar keimlíkar silungapúpur sem hafa alltaf gefið ágætlega.

    Floss

    Margar flugur eru með einhverjum kraga eða skotti í áberandi lit og þá er gott að eiga floss í stærðinni 2X. Af hverju 2X? Jú, það nýtist ágætlega í fíngerðan kraga því það má kljúfa þennan þráð og svo nýtist það einnig í skott ef maður leggur það tvö- eða þrefalt saman. Sjálfur mæli ég með neon lituðu flossi.

    Peacock

    Fjaðrir páfuglsins eru fíngerðar og stundum nokkuð erfiðar viðureignar fyrir byrjendur, en alveg bráðnauðsynlegar fyrir þá sem ætla að hnýta samnefnda flugu fyrir silunginn. Best er að leita eftir nokkuð löngum fjöðrum, heillegum og hraustlegum útlits. Þær eru flestar grænar en viljir þú nota brúnar, þá skaltu taka smá hluta þeirra og láta liggja úti í glugga í nokkra daga, þá verða þær brúnar og koparlitaðar.

    Pheasant tail

    Trúlega er stélfjöður fasanans ein notadrýgsta fjöður sem þú getur eignast. Annað tveggja hráefna í frægustu og að margra mati bestu silungaflugu allra tíma og svo notar maður hana í lappir og skott á óteljandi aðrar flugur.

    Hanafjaðrir

    Cock hackles eru nauðsynlegar í skegg og kraga, hringvafðar um búk og ýmislegt annað, meira að segja í vængi á vot- og straumflugur. Litir: svartar, rauðar, hvítar og gular, svona til að byrja með. Til að byrja með er óþarfi að kaupa fjaðrirnar á ham, þær eru einnig seldar lausar í pokum á mjög viðráðanlegu verði.

    Héri

    Nei, þú þarft ekki að kaupa heilt skinn af héra. Það er miklu meira en nóg að grímu af héra eða þá einfaldlega tilbúið dub sem búið er að tæta niður sem getur dugað í nokkur ár. Ef þú ætlar að hnýta Héraeyra, þá er þetta efnið og svo er það notað í kraga á ýmsar aðrar flugur.

    Tinsel

    Til að vekja flugur til lífsins og gera þær aðeins meira áberandi í vatninu er ekki úr vegi að eiga flatt og mögulega ávalt tinsel. Einn höfuðkosta þessa efnis, þ.e. þess flata, er sá að það er gyllt öðru megin og silfrað hinu megin, tvær flugur í einu höggi. Til að byrja með er fullkomlega nægjanlegt að eiga tinsel í medium.

    Garn og ullarband

    Mér finnst nauðsynlegt að eiga rautt og svart garn í fórum mínum. Notadrjúgt garn og þá helst ullarband má finna í öllum hannyrðaverslunum og þá sérstaklega ef það er spunnið saman úr tveimur eða fleiri þáttum, þá má rekja það sundur fyrir fíngerðari búk.

    Flugurnar sem þú getur hnýtt úr þessu efni eru; BAB (Babbinn, Kibbi), Black Ghost, Black Zulu, Butcher, Brassie, Buzzer, Copper John, Héraeyra, Hérinn, Killer, Koparmoli, Krókurinn, Mobuto, Mýpúpu, Peacock, Pheasant Tail, Pheasant, Red Tag og fjöldi annarra flugna. Ef eitthvert efni vantar í uppskriftina, þá er alltaf hægt að finna staðgengil þangað til þú hefur ánetjast fluguhnýtingum svo mikið að þú bætir hnýtingarefni í safnið eftir því sem þarf.

    Mikið af þessu hnýtingarefni, ef ekki allt, er einnig að finna í settum frá ýmsum framleiðendum og verslunum og því vel þess virði að kíkja á svona tilbúin sett ef þú rekst á þau. Mér hefur sýnst að verðið á svona settum og þá ekki síst magn efnisins sé mjög hentugt og oft hagstæðara heldur en kaupa það í stykkjatali.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 … 8
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar