FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hefur þú hnýtt upp úr ruslinu?

    3. maí 2022
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Eftir nokkur skipti af góðum dögum við hnýtingarþvinguna er ýmislegt sem fellur til af afklippum, hálfnýttu hráefni og fleiru. Það eru mörg ár síðan ég kom mér upp ruslafötu við hnýtingarborðið og sú góða fata hefur gengið í gegnum einhverja endurnýjun (stækkun) á þeim árum sem liðið hafa síðan. Það var svo fljótlega að ég tók upp á því að hafa box á borðinu hjá mér fyrir það sem ég mögulega gæti notað síðar.

    Ekki alls fyrir löngu rakst ég á einhverjar pappaöskjur undir borðinu mínu og viti menn, þetta voru þessi box sem ég hef alltaf ætlað að mögulega nota síðar. Það hljóp í mig einhver kergja og ég ákvað að hnýta upp úr þessum boxum, bætti aðeins við þráð og krók eftir því sem passaði.

    Upphaflega ráðgerði ég að hnýta þekktar flugur, þ.e. einhverjar með nafni og eftir uppskrift, en fljótlega varð ljóst að ég yrði annað hvort að laumast í nýtt efni eða bregða verulega út frá uppskriftinni, þannig að ég hnýtti bara eitthvað.

    Það verður að viðurkennast að þær flugur sem ég hnýtti úr þessum afgöngum voru ekkert ósvipaðar þeim sem ég er vísvitandi hnýtti úr nýju hráefni með það eitt fyrir augum að fá útrás fyrir nýjungagirnina eða sköpunargáfuna. Hver um sig verður bara að dæma hvernig tókst til hjá mér, en það leynist ýmislegt nothæft í ruslinu og kannski rétt að kíkja oftar í það.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skemmtileg spurning

    5. apríl 2022
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Fyrir mörgum er það að tala um hnýtingarþvingur svipað og að tala um barnið sitt eða bílinn, svo ég tali nú ekki um veiðistangir. Það er fátt betra í heiminum og sumir hverjir skilja bara alls ekki hvers vegna allir eiga ekki jafn dásamlegt barn, pottþéttan bíl eða frábæra hnýtingarþvingu eins og þeir sjálfir.

    Um daginn fékk ég mjög skemmtilega spurningu frá fluguhnýtara sem var að spá í að endurnýja hnýtingarþvinguna sína. Mér skildist að hann hefði um árabil notað sömu þvinguna og verið afar sáttur, en nú langaði hann í eða þyrfti nýja þvingu og hafði augastað á eins þvingu og ég nota lang oftast. Spurninginn byrjaði á orðunum; getur þú sagt mér gallana við þvinguna þína? Mér fannst þetta frábær byrjun og sagði honum hreinskilningslega af þeim eina galla sem ég varð var við í upphafi, sem ég reyndar lagfærði með einni skinnu undir skrúfu og málið var dautt.

    Hefði hann byrjað á að spyrja mig um alla kosti þvingunnar, þá hefði ég trúlega fallið í sömu gryfju og margir aðrir sem spurðir eru álits á dótinu sínu. Þess í stað naut ég þess að standa með báða fæturna á barmi gryfjunnar sem svo margir hafa fallið í sem eiga bestu og flottustu þvingu sem framleidd hefur verið og þóttist geta svarað af fullri hreinskilni.

    Þvingan hans Lefty

    En það hafa ekki allir verið jafn ánægðir með sínar þvingur. Einhverju sinni varð Lefty Kreh svo pirraður á lélegum kjöftum hnýtingarþvinga, að hann beinlínis sauð saman sína eigin þvingu til að geta hnýtt stærri flugur en einhverjar títlur á krók #14. Ég hef stundum sagt að það séu forréttindi að hafa greinst jákvæður af veiði- og flugubakteríunni því það er svo margt misjafnt sem er fullkomlega rétt og eiginlega ekkert rangt í þessari dellu. Veiðimenn njóta þess að þurfa ekki að vera sammála um allt milli himins og jarðar, síst af öllu það sem á við veiði og flugur. Ég vona að umsögn mín um daginn standist og eigi jafn vel við kunningja minn eins og þvingan á við mig, allt snýst þetta jú um að finna það sem manni hentar best.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nýta, gefa, geyma?

    17. mars 2022
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það er kunnara en frá því þurfi að segja að veiðimenn eru (flestir) græjufíklar. Reglan um æskilegan fjölda af hinu eða þessu er núverandi fjöldi + 1 og virðist eiga alveg glettilega vel við flesta. Nýjar græjur eru auðvitað betri, nákvæmari, öflugri og allt það sem veiðimenn telja upp sem réttlætir kaup á einhverju nýju. En þessi grein fjallar ekki um nýjungagirni veiðimanna og þá einna helst fluguhnýtara, heldur hvað hægt er að gera við gamla dótið og þá helst hnýtingarþvinguna.

    Oftast er það svo að þegar hnýtarar kaupa sér nýja þvingu, þá er hún af annarri gerð, með annarri virkni eða einfaldlega úr betra hráefni heldur en sú gamla. Sú gamla fellur þá af vinsældalistanum og er aldrei tekin fram aftur. Án þess að upplýsa of mikið um fjölda þvinga sem ég á í mínum fórum, þá held ég að þær spanni ágætlega þróunarsögu hnýtara til nokkurra ára. Sú fyrsta var þvinga með kjálka með föstum halla og virkni hennar var einfaldlega sú að kjafturinn var annað hvort opinn eða lokaður. Kjálkinn er trúlega úr einhverju skriðdrekastáli frá Þýskalandi og enn þann dag í dag sér ekki á honum. Síðar kom svo ein sem var örlítið meiri um sig og ég gat (með sexkannt að vopni) breytt halla kjálkans eins og mig listi og kjaftinum gat ég snúið í 360° til að kíkja upp undir fluguna. Að vísu hoppaði flugan svolítið fyrir augunum á mér því snúningurinn var ekki það sem kallað er true rotation þ.e. eftir beinni línu, en þessa þvingu notaði ég í mjög mörg ár.

    Eftir þó nokkrum tíma og einhverjum þvingum síðar eignaðist ég netta og mjög ódýra 360° true rotation þvingu sem ég nota enn þann dag í dag þegar ég bregð mér af bæ, jafnvel í veiðitúra. Með árunum hef ég gert smá breytingar á henni, skipt föstum skrúfum út fyrir bolta með vængjaró þannig að ég get auðveldlega fellt hana saman og breytt hæð og halla eftir þörfum.

    Aðal tækið mitt í dag er ættað frá Ítalíu, lífstíðareign sem kostaði sitt, er ekki til sölu og verður ekki ánafnan neinum fyrr en að mér látnum og er því ekki til umfjöllunar í þessari grein.

    Að staðaldri nota ég, rétt eins og flestir aðrir, aðeins eina þvingu í einu en það getur verið gott að smella upp einni eða tveimur þvingum til viðbótar, því þegar maður hnýtir nokkur eintök af sömu flugunni getur það hentað ágætlega að festa krók í 3 – 4 þvingur og forvinna hnýtingu jafn margra flugna í röð. Flugur eins og t.d. Dog Nobbler og Mýslu er ágætt að taka í bulki til undirbúnings, þ.e. að festa niður vaskakeðjuna og lakka/líma yfir. Þetta er undirbúningsvinna sem gerir ekki miklar kröfur til þvingunnar, það er nóg að hún haldi króki og það stendur yfirleitt á endum að þegar maður klárar síðasta krókinn, þá getur maður tekið þann fyrsta úr og endurtekið leikinn eða farið að hnýta fluguna til enda.

    Önnur not fyrir gömlu þvinguna er einfaldlega að gefa hana einhverjum byrjanda í sportinu. Margir sem eru að byrja og vilja prófa að hnýta eigin flugur, veigra sér aðeins við því að fjárfesta í nauðsynlegum áhöldum, þ.á.m. þvingu. Vert er þó að geta þess að oft fylgir böggull skammrifi, því það vill stundum brenna við að gefnar þvingur eru orðnar svo slitnar að nýliðinn er í tómu basli með að festa krókinn í kjaftinum eða þvingan jagast öll til þegar hnýtt er. Slíkar græjur eru ekki sem best til þess fallnar að kynda undir áhuga á fluguhnýtingum og ætti bara að nota í varahluti.

    Hvað sem þú gerir við gömlu þvinguna þína, komdu henni í einhver not frekar en láta hana liggja óhreyfða í einhverjum kassa.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Euro flugur

    7. desember 2021
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Og áfram heldur þetta Euro dæmi, en nú kveður við aðeins annan tón. Euro flugur hafa þróast tiltölulega hratt frá því Pólverjar fóru að fikra sig áfram með mjög þyngdar flugur upp úr 1980. Sjálfur hnýtti ég nokkrar pólskar flugur hérna um árið en á nútíma mælikvarða eru þær trúlega ekki nógu þungar og alls ekki nógu straumlínulagaðar til að standast Euro viðmið í dag.

    Það eru nokkur lykilatriði sem vert er að hafa í huga ef hnýta skal flugur sem nota á við Euro Nymphing. Fyrir það fyrsta ættu þær að vera afskaplega mjóslegnar, nánast renglur þannig að straumur hafi sem minnst áhrif á þær og auðvelda þeim að sökkva hratt, hvoru tveggja er jú lykillinn að Euro Nymphing. Til að auka enn á hæfni flugunnar til að sökkva eru þær gjarnan hnýttar á þunga króka og til að toppa það nota menn tungsten kúlur, gjarnan í yfirstærð. Til að sporna við því að þessi grey festist í botninum, þá eru þær gjarnan hnýttar á s.k. skrykkkróka (e: jig) þannig að þær snúist við í vatninu og krækjast því síður í botni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvaða krók

    9. nóvember 2021
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það er ýmislegt sem lærist með tímanum en það getur vafist töluvert fyrir byrjandanum í fluguhnýtingum í hvaða flugur hvaða krókar eru ætlaðir, þó ekki væri nema svona rétt um það bil. Ef maður dregur nú þessa eldgömlu sögu af mismun lengdar og sverleika vírs með öllum hliðarskrefum sem einhverjum datt í hug að taka þegar krókar voru hannaðir, þá má með þokkalegri nálgun staðsetja ákveðnar tegundir flugna á skalanum LEGGUR vs. VÍR:

    Til glöggvunar á tegundum króka, þá eru númerin á myndinni skv. töflu frá Tiemco (TMC) en vert er að taka það fram að þessi númer eru alls ekki tæmandi yfir þeirra gerðir.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Aldrei hnýtt fleiri en tvær

    2. nóvember 2021
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Hver kannast ekki við að finna frábæra flugu, hnýta eina eða tvær og snúa sér síðan að einhverri allt annarri? Ef einhver kannast hreint ekkert við þetta, þá bara gott hjá þér. Athugið, þeir sem aldrei hafa hnýtt flugu hafa ekki atkvæðarétt.

    Fluguhnýtingar eru rétt eins og flest annað í lífinu, æfingin skapar meistarann, ef það er á annað borð markmiðið. Ég held raunar að ég sé ekki einn um að vera fullsáttur við að ná sæmilegum flugum og ber gjarnan fyrir mig að fiskurinn hefur aldrei séð uppskrift að flugu og veit því ekkert hvernig rétt fluga lítur út.

    En, það er samt eitthvað til í því hjá hnýtingarsnillingunum þegar þeir gefa nýliðum í föndrinu það ráð að velja sér flugu sem þeir hafi veitt á, setjast niður með öll nauðsynleg hráefni og hnýta kvikindið í 5 – 10 eintökum, jafnvel fleirum. Það að hnýta sömu fluguna aftur og aftur verður til þess að flugan verður einsleit, nokkurn veginn alltaf eins og af góðum gæðum. Þegar færninni er síðan náð, þá er aldrei að vita nema þú komir auga á eitthvað sem betur má fara í upprunalegu uppskriftinni eða þér hentar betur að gera með öðrum hætti heldur en höfundur flugunnar setti upprunalega niður á blað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 … 29
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar