FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Fetaðu alla slóða

    31. mars 2024
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Sumir veiða í bunkum, margar flugur eða fjöldann allan af krókum í röð. Þeir sem beita á marga króka í einu eru sagðir veiða á slóða, þ.e. ef þeir eru þá ekki beinlínis að leggja línu frá bát. Slóðar eru misvel þokkaðir meðal veiðimanna, sumir líta þá svo miklu hornauga að þeir þurfa að skyrpa og afneita djöflinum ef þeir svo mikið sem taka sér slóði í munn. Þetta gætu verið þeir sem fundu upp á orðinu afleggjari (e: dropper) yfir það að veiða á fleiri en eina flugu í einu, sem er náttúrulega allt annað mál en veiða á slóða. Skyndilegur hrollur fór um mig vegna kaldhæðninnar í þessum orðum, en hvað um það. Mig langar ekkert til að blanda mér í kýting um slóða og droppera, enda fjallar þessi stúfur heldur ekkert um það. Ekki nema þá slóða sem liggja að veiðislóðum.

    Við könnumst við þetta gamla, góða að sækja vatnið yfir lækinn og græna grasið sem er hinu megin. Vissulega getur grasið verið grænna hinu megin, bara svona af náttúrulegum ástæðum. En, það getur líka verið að það sé grænna í augum veiðimannsins vegna þess að hann sjálfur hefur farið þangað oft og mörgum sinnum og þannig ræktað það. Þetta er auðvitað sagt í óeiginlegri merkingu og verðskuldar skýringar. Það sem ég á við er einfaldlega það að því oftar sem veiðimaður leggur leið sína á ákveðna veiðislóð, hvort sem hún er í læknum sem hoppað er yfir eða í vatninu sem sest er niður við, þá lærir veiðimaðurinn á aðstæður. Hann fer að þekkja á hvaða tíma fiskurinn gefur sig á ákveðnum stað, skoðar málið kannski betur og kemst þá að raun um að ætið gerir helst vart við sig þar þegar ákveðnum hita er náð, í ákveðinni vindátt og allt þar fram eftir götunum. Kannski kemst veiðimaðurinn að raun um að í stefnu á ákveðinn girðingarstaur, ákveðið langt út með tiltekna flugu, þá tekur fiskur, yfirleitt. Staðurinn verður leynistaður sem enginn annar veit af, en veiðimaðurinn veit kannski ekkert af hverju staðurinn gefur. Ekki fyrr en hann kemur á allt öðrum árstíma eða skoðar hann frá öðru sjónarhorni, t.d. frá girðingarstaurnum. Þá rennur ljósið upp fyrir honum. Það er kannski steinn á botninum, gróðurfláki eða önnur frábær skilyrði fyrir skordýr sem gera þennan stað að tökustað.

    Fiskur milli steina

    Ef veiðimaðurinn hefur smá tilhneigingu til ræktunarstarfa, smá græna fingur, þá gæti hann tekið upp á því að rækta þessa veiðislóð með því að kanna hvort þar séu ekki fleiri staðirnir sem líkjast leynistaðnum. Þar sem er einn steinn, þar geta verið fleiri. Það er varla til sá staður á Íslandi sem skortir steina þó þeir sjáist ekki alls staðar. Steinninn veitir fiski skjól og því fleiri steinar, því meira skjól, sem aftur leiðir til fleiri veiðistaða. En það er ekkert víst að fiskurinn komi alltaf upp um þessa staði með því að sýna sig og því er alveg eins víst að við löbbum fram hjá þegar við færum okkur til á milli þekktra veiðistaða. Stundum er gott að hafa það í huga þegar maður var í feluleik sem barn. Ekki datt manni í hug að teygja fót eða hendi út úr felustaðnum á meðan einhver annar var hann, hann gæti þá komið auga á mann. Það sama á við um fiskinn, ef hann er í feluleik á bak við stein, þá er hann ekkert að sýna ugga eða sporð, ekki nema ætið komi syndandi fram hjá.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nei, nú skrökvar hann

    13. apríl 2023
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Það eru nokkur ár síðan FOS.IS lagði í raun af annan helming nafnsins (sköksögur) og hefur síðan þá haldið sig við að nota aðeins FOS. Enn eru þeir til sem muna eftir skröksögunum og beita þeim stundum í samtölum sínum við mig. Oftast er þetta í almennu spjalli, en það kemur þó fyrir að í miðju erindi heyrist í einhverjum; Nei, nú skrökvar hann og þá á maður stundum erfitt með sig.

    Eitt af því sem vakti svona viðbrögð var skýring mín á því af hverju fiskurinn hættir algjörlega að taka 10 mín. fyrir miðnætti á ákveðnum veiðistað. Ég svaraði því einfaldlega til að trúlega væri fiskurinn farinn að sofa á þessum tíma, hann hefði vit á því að vera ekkert að gaufast þetta langt fram eftir. Ég held að nánast enginn sem til mín heyrði hafi trúað mér, en mér var í raun full alvara.

    Það virðist vera útbreiddur misskilningur að fiskar sofi ekki, en þeir gera það nú samt. Að vísu er ekkert víst að þeir fari að sofa á ákveðnum tíma sólarhrings en oftast er það þó í einhvern tíma á nóttunni. Svefnástand fiska er misjafnt eftir tegundum, en flestir þeirra hægja á líkamsstarfseminni á meðan þeir hvílast en halda þó fullri meðvitund og eru á varðbergi. Leiða má að því líkum að urriðinn leiti út fyrir erilsamasta svæði vatnsins, þ.e. rétt út fyrir gróðurmörk og komi sér þar fyrir við botninn og taki smá blund. Hann kemst upp með að liggja nokkuð óvarinn við botninn því sú ógn sem að honum steðjar kemur ofan frá, en finni hann stóran stein eða gjótu, þá nýtir hann sér slíkt til skjóls.

    Smávaxnari bleikjuafbrigði, murta og dvergbleikja eru í aðeins annarri aðstöðu. Þær þurfa að leita skjóls því þær eiga sér náttúrulega óvini í vatninu og þá getur verið heppilegt að koma sér fyrir í gjótum, á milli steina eða jafnvel inni í gróðri á meðan þeir blunda.

    Og svona rétt aðeins til að koma í veg fyrir misskilning; silungar loka ekki augunum þegar þeir sofa, ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru ekki með augnlok.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Soðinn silungur

    11. apríl 2023
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Matreiðslu uppskrift? Nei, ekki frekar en um daginn þegar ég ritaði stuttlega um silung í híði. Þessi er af sama meiði og er unnin upp úr nokkrum heimildum og fjallar um heppilegt hitastig fyrir silung, því þegar allt kemur til alls þá er þetta víst ekki alveg eins kippt og skorið, eins og margir vilja halda.

    Hengladalir við Skarðsmýrarfjall sunnan Hengils eru merkilegar gróðurvinjar á Hellisheiði. Þar voru á árunum 2004 til 2010 gerðar töluverðar rannsóknir á lífríki lindalækja sem finna má í dölunum, m.a. á urriða sem þar þrífst. Ekki dettur mér í hug að þar sé á ferðinni Hverasilungur Halldórs Kiljan Laxness sem hann ritaði um í grein sem birtist 1916 í Morgunblaðinu, en urriðinn í Hengladölum er þó merkilegur fyrir margra hluta sakir.

    Lindárnar í Hengladölum eru upptakaár Hengladalsár sem rennur austur til Hveragerðis, en þessar lindár eru víða allt að 100°C heitar þó víðast séu þær til muna kaldari eða innan við 10°C. Eins og áður er getið, þá þrífst urriði í þessum ám sem hefur aðlagað sig hitastigi sem er almennt hærra en þekkist sem kjörhitastig urriða, um og yfir 20°C og ég kem örlítið að því hér síðar. Ég hef áður vísað til rannsókna á kjörhitastigi laxfiska, m.a. rannsókn J.M. Elliott og J.A. Elliott sem birt var í Journal of Fish Biology (2010) og við þá grein styðst ég í þessari stuttu samantekt.

    Ef við byrjum á upphafinu, þá lifa hrogn urriða af allt niður að frostmarki og hæst upp að 13°C. Bleikju hrognin, eins og vænta mátti frá frostmarki og upp að 8°C. Þessi munur endurspegla allan lífsferil silunga eins og við vitum, bleikjan er heldur kuldasæknari heldur en urriðinn.

    Þegar kemur að fullvaxta silungi er urriðinn upp á sitt besta þegar hitastigið er á bilinu 16.6 til 17.4°C sem kemur ef til vill einhverjum á óvart, en hér er verið að meta ákjósanlegasta hitastig urriða til að melta fæðu, þ.e. þegar framleiðsla meltingarensíma er í toppi og hann er hve skilvirkastur að umbreyta fæðu í vöxt / fituforða. Það laumast raunar að mér sá grunur að áður en hámarki hita séð náð, þá hægi urriðinn á sér í fæðuöflun, í það minnsta ef hitinn er svo hár í lengri tíma. Hér má skjóta því inn að urriðinn í Hengladölum leitar í vatn til fæðuöflunar sem er umtalsvert heitara, en þar erum við líka að tala um einangraðan stofn sem hefur aðlagast sérstökum aðstæðum, ekki ósvipað urriðanum í Þingvallavatni, rétt hinu megin við Hengilinn.

    Blessuð bleikjan er að vonum heldur kulsæknari en urriðinn. Í Noregi er líkamsvirkni hennar mest í 14.4 til 15°C en í 15.2 til 17.2°C í Svíþjóð, hverju sem kann að sæta. Mestan hita þolir hún í Svíþjóð eða 23.2°C á móti 21.5°C í Noregi. Hér langar mig að taka það fram að ég sá niðurstöður svipaðrar rannsóknar fyrir bleikju á Grænlandi og þar voru töluvert aðrar tölur uppi á borum, mun lægri á öllum sviðum. Því miður auðnaðist mér ekki að vista þá skýrslu og virðist alveg fyrirmunað að finna hana aftur.

    Og hvernig getum við svo notað okkur þetta? Tja, ef veiðimenn eru ekki með hitamæli sem þeir stinga niður í vatnið öðru hvoru, þá hefur þetta væntanlega lítið að segja, ekki nema innbyggður hitamæli fingra segi þeim nákvæmlega hvenær silungurinn er í besta formi, árásargjarn og til í smá tusk.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Silungur í híði

    4. apríl 2023
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Fyrirsögn þessarar greinar gæti verið heitið á uppskrift að gómsætum fiskrétti. Hugsið ykkur bara; ferskur silungur, innbakaður í einhverjum gourmet jurtum á grillinu eða í fiskiklemmu yfir varðeldi. En, nei. Þetta er ekki uppskrift, þetta er grein þar sem mig langar að leitast við að leiðrétta algengan misskilning eða samslátt á tegunda sem borin hefur verið undir mig í nokkur skipti.

    Byrjum bara á grundvallar útskýringu; birnir eru spendýr sem lifa á landi. Nær allar tegundir bjarna leggjast annað hvort í híði eða dvala yfir köldustu mánuði ársins. Það er töluverður munur á að leggjast í dvala eða leggjast í híði, sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

    Silungur er fiskur sem lifir í vatni og leggst hvorki í híði né í dvala. Jafnvel yfir köldustu mánuði ársins þegar hitastig vatns fer alveg niður að frostmarki, þá eru þeir með fullri meðvitund, ef það má þá segja það um fiska. Þeir hægja verulega á allri líkamsstarfsemi, en þeir hætta ekki að borða og þeir hreyfa sig meðvitað eftir æti, leita þess og neyta.

    Fiskar eru með kalt blóð og þegar líkamshiti þeirra fellur til samræmis við vatnshita, þá hægist sjálfkrafa á framleiðslu meltingarensíma og þar með meltingu þannig að þeim er í raun nauðugur sá kostur að spara orku. Raunar benda rannsóknir til þess að melting urriða stöðvast við hitastig 2.9 til 3.6°C og bleikju 0.0 til 3.3°C. Sömu rannsóknir leiddu í ljós að bæði urriði og bleikja lifa af þótt vatnshiti fari alveg niður að frostmarki og báðar tegundir geta þrauka töluverðan tíma án virkrar meltingar. Að vísi mjókka fiskarnir verulega undir þessum kringumstæðum, þeir eru jú ekki í dvala eða híði og ganga því á orkuforða sinn á meðan melting liggur niðri eða er í lágmarki.

    Rannsóknar heimild: Journal of Fish Biology (2010), J.M. Elliott and J.A. Elliott

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Lengd og þyngd

    10. maí 2022
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Ef ég veiði urriða sem er 45 sm að lengd og eðlilegur í holdafari, hvað ætli hann sé þá gamall og þungur? Ef urriðinn hefur veiðst í Stóra Fossvatni í Veiðivötnum, þá getur hann verið á bilinu 7 til 9 ára, nákvæmar er nú ekki sem hægt er að skjóta á aldur hans. Að sama skapi getur þyngd hans getur verið frá 800 og upp 1.100 gr. eða jafnvel meiri ef hann er sérlega vænn.

    Aldursgreining hreisturs og kvarna úr frænda Veiðivatnaurriðans, þ.e. þess sem gotið var á Þingvöllum, sýna ágætlega vaxtarhraða eftir árum en gefa því miður litlar upplýsingar um þyngd hans:

    Aldur (ár)Meðallengd (sm)Lenging á milli ára (sm)Vaxtarstuðull á milli ára
    14,21,00
    29,65,41,29
    317,37,70,80
    425,380,46
    535,910,60,42
    647,411,50,32
    759,912,50,26
    870,810,90,18
    973,62,80,04
    1076,12,50,03
    Heimild: Aldursrannsóknir á urriða úr Öxará 1999 – VMST-S/00006X

    Skyndilegur samdráttur í vexti 8 – 9 ára urriða skýrist væntanlega af því að þegar urriðinn verður kynþroska, þá dregur verulega úr vexti hans.

    Afkomendur Þingvallaurriða sem sleppt var í Skorradalsvatn á áttunda áratug síðustu aldar víkur í nokkrum atriðum frá rannsóknum á Þingvöllum:

    Aldur (ár)Meðallengd (sm)Meðalþyngd (gr)Lenging á milli ára (sm)Þynging á milli ára (gr)
    31980––
    43139712317
    533,54552,558
    641,38677,8412
    751,8161510,5748
    Heimild: Fiskirannsóknir í Skorradalsvatni 2008-2009 – Jón Kristjánsson 2010

    Verulegt frávik er í vexti 4 til 5 ára urriða í þessari rannsókn, snögglega dregur úr vexti sem tekur þó aftur við sér þegar fiskurinn nær 6 ára aldri. Þess ber að geta að fjöldi fiska í hverjum árgangi var ekki mjög mikill og um meðaltal er að ræða þar sem eitt sýni getur aflagað niðurstöður.

    Það eru til ýmsar góðar töflur um þyngd urriða út frá lengd hans, en það er líka til ágæt formúla Fulton’s (1911) sem gefur þokkalega nálgun á þyngd fiska m.v. lengd. Formúlan styðst við ákveðin stuðul ástands (holdafars) þannig að hana má auðveldlega aðlaga mismunandi tegundum að undangengnum nokkrum mælingum og vigtun. Þumalputtaregla fræðinga hefur verið að urriði í venjulegum holdum sé með stuðul 1.0, sá magri 0.8 og sá væni 1.2

    Lengd (sm)Magur (gr)
    stuðull 0.8
    Eðlilegur (gr)
    stuðull 1.0
    Vænn (gr)
    stuðull 1.2
    15,0273441
    17,5394959
    20,0648096
    22,591106128
    25,0125156188
    27,5166208250
    30,0216270324
    32,5275343412
    35,0343429515
    37,5422527633
    40,0512640768
    42,5614768921
    45,07299111.090
    47,58571.0701.290
    50,01.0001.2501.500
    52,51.1601.4501.740
    55,01.3301.6602.000
    57,51.5201.9002.300
    60,01.7302.2002.600
    62,51.9502.4002.900
    65,02.2002.7003.300
    67,52.5003.1003.700
    70,02.7003.4004.100
    72,53.0003.8004.600
    75,03.4004.2005.100
    77,53.7004.7005.600
    80,04.1005.1006.100
    82,54.5005.6006.700
    85,04.9006.1007.400
    87,55.4006.7008.000
    90,05.8007.3008.700
    92,56.3007.9009.500
    95,06.9008.60010.300
    97,57.4009.30011.100
    100,08.00010.00012.000
    102,58.60010.80012.900
    105,09.30011.60013.900
    107,59.90012.40014.900
    110,010.64813.31015.972
    Útreikningar skv. Fulton (1911)

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Styggur fiskur

    5. október 2021
    Fiskurinn, Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar vetur gengur í garð þá vinnur maður úr því sem maður hefur safnað í sarpinn yfir sumarið. Eitt af því sem ég geymdi í sarpinum er umræða sem ég átti s.l. sumar við afar lunkinn veiðimann um ljót köst. Einhverra hluta vegna var ég fullur afsakana og sagði eitthvað á þá leið að ljót köst veiða líka. Ég var leiðréttur hið snarasta og sagt að þetta ætti að vera ljótar flugur veiða líka. Jú, ég kannaðist eitthvað við þetta um ljótu flugurnar og fór að klóra í bakkann með köstin, var greinilega umhugað um réttlæta eitthvað.

    Við vorum sammála um ljótu köstin geta styggt fisk ef þau verða til þess að línan skellur niður á vatnið. Einmitt þetta getur verið ókosturinn við framþungar skotlínur í dag. Hraði þeirra er mikill, þær vaða út og eiga það til að skella niður á vatnið. Skothausinn er oft tiltölulega þungur og stuttur þannig að línan er svolítið eins og svipa þegar hún lendir á vatninu. Góð skotlína í höndum þokkalegs kastara á yfirleitt ekki í vandræðum með að vaða fram úr stangartoppinum þannig að það má alveg leyfa sér að tempra hraða hennar í framkastinu rétt nóg til að taumurinn leggist beint fram og hvorki lína né taumur skelli á yfirborðinu. Með því að halda örlítið við línuna þegar framkastið hefur náð hámarkshraða, þá hægir línan á sér, það réttist betur úr tauminum og hvoru tveggja leggst rólegar niður. Hver og einn veiðimaður verður að finna sinn takt í þessu viðhaldi línunnar en með smá æfingu er leikandi hægt að ná þessu þokkalega.

    En hvað með þennan stygga fisk ef línan hefur nú lagst rólega fram, taumurinn rétt vel úr sér og flugan er ekki með ógnar læti þegar hún lendir? Verður fiskinum virkilega jafn brugðið við tauminn eins og margir vilja vera láta? Já, trúlega eru til þau vötn sem eru svo tær og laus við allt fljótandi að taumurinn sker sig úr öllu því sem fiskurinn hefur vanist, að hann styggist. En, það kemur veiðimönnum eflaust á óvart hve margt og misjafnt er á ferðinni og flækist um í vatninu að öllu jöfnu. Gróður og gróðurleifar, aðskotahlutir sem fokið hafa út í vatnið og að ógleymdum skuggum þess sem flýtur á yfirborðinu. Allt þetta og fleira til er líklegra til að skjóta fiskinum skelk í bringu heldur en taumurinn. Eitt er það þó sem styggir fisk, meira að segja þann ódauðlega sem hefur náð meira en 1 metra og það er allt sem getur orðið honum skeinuhætt og erfðir hans hafa kennt honum að varast, m.a. maðurinn eða réttara sagt; fótatak hans og skuggi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar