FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Það veltur allt á haustinu

    4. október 2022
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Það veltur allt á haustinu hvenær FOS.IS lifnar við eftir sumarfrí. Hvað sem segja má um sumarið, þá hefur haustið leikið við okkur hérna sunnan heiða en núna er það trúlega gengið í garð, þó stöku dagar séu enn með þeim betri sem komið hafa síðan í vor sem leið.

    Um árabil hefur það verið siður FOS.IS að halda sig til hlés á meðan veiðimenn sinna meira áríðandi verkefnum heldur en lesa einhverjar hugleiðingar eða vangaveltur, en nú er friðurinn úti. Áætlun vetrarins tekur nú við á FOS.IS og greinar fara að birtast hér samkvæmt venju, tvær til þrjár í viku hverri fram til næsta vors.

    Hver veit nema greinarnar verði fleiri í vetur en oft áður því töluverður efniviður hefur safnast saman í sumar sem eins gott er að koma í orð áður en hann rykfellur í hugarfylgsnum höfundar.

    Þrátt fyrir að FOS.IS hafi ekki birt fréttir af veiðiferðum í sumar, þá eru þær nokkrar sem liggja eftir og fáein flök af fiski eru í frystinum sem bíða þess að verða bragðlaukum tryllir í haust og í vetur. Óhjákvæmilegur fylgifiskur veiðiferða, í það minnsta hjá höfundinum, eru mistökin, agnúarnir og vandamálin sem hann hefur upplifað í sumar. Þegar allt þetta safnast saman, þá verða til vangaveltur og uppástungur að lausnum sem lesendur vefsins fá að gæða sér á í vetur.

    Fram að áramótum verður hér á ferðinni eitthvert bland í poka, héðan og þaðan um hitt og þetta, en skömmu eftir áramót förum við að hita upp fyrir Febrúarflugur 2023 og bætum nokkrum flugum í sarpinn sem hafa fengið að slíta barnskónum í sumar. Hver veit nema einu eða tveimur ráðum verði laumað inn fyrir hnýtara sem eru að fikra sig áfram eða rifja upp gamla takta.

    Eftir sem áður er aldrei að vita hvað höfundi dettur í hug að bæta við í hefðbundin efnistök FOS.IS, svona þegar líða fer á veturinn. Eitt er víst að það er af nógu að taka, aldrei skortur á hugmyndum og eini hömlupinninn sem er til staðar eru þessir örfáu klukkutímar sem tilheyra hverjum sólarhring, fjöldi sólarhringa, vikna og mánuða til næsta vors þegar við drögum okkur aftur aðeins til hlés. Þessi vetur sem er framundan verður ekki nema örskotsstund að líða, vitiði bara til.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nýr FOS.IS

    20. ágúst 2022
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Vefurinn tekur nokkrum hamskiptum um þessar mundir og rétt eins og önnur hamskipti, þá taka þau sinn tíma enda þarf að yfirfara 125 síður og rúmlega 2000 greinar og aðlaga nýju útliti. Það getur því verið að einhverjar síður og greinar aflagist lítillega eða komi einkennilega fyrir sjónir á meðan ég vinn mig í gegnum þennan stabba.

    Allt efni verður áfram á sínum stað og leitast var við að halda hönnun vefsins í stíl við það sem verið hefur síðustu 10 árin. Gömlu góðu hnapparnir fá andlitslyftingu til samræmis við nýtt einkennismerki FOS.IS sem hér eftir verður ríkjandi í öllu efni síðunnar og samfélagsmiðlum sem henni tengjast. Merkið á ættir að rekja til Febrúarflugna 2022 þar sem útfærsla þess kom almenningi fyrst fyrir sjónir.

    Með nýju útliti tekst FOS.IS að auka hraða síðunnar og öryggi hennar, ásamt því að stuðningur við snjalltæki og stærri skjái eykst verulega. Myndfletir verða almennt stærri þannig að ljósmyndir, kort og skýringarmyndir fái betur notið sín.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Engin veiði?

    15. júlí 2022
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Það er ein spurning sem stendur upp úr þeim sem FOS.IS hafa fengið í sumar og hún er Er engin veiði þetta sumarið?  Svarið er margþætt þó það felist aðeins í einu orði; Jú.

    Jú, þrátt fyrir að sumarið hafi eiginlega varla komið fyrir utan stöku dag og dag.

    Jú, og mér hefur bara gengið ágætlega í þeim ferðum sem ég hef farið.

    Jú, það er slatti af fiski sem liggur í kistunni og ég skammast mín ekkert fyrir það.

    Jú, en ég ákvað orðið í fyrra að halda veiðiferðum mínum út af fyrir mig og hætta að birta þær hér á vefnum.

    Það hefur lengi loðað við FOS.IS að tíðni pistla fellur nokkuð hratt yfir sumarmánuðina, svo er einnig þetta árið. Með haustinu gefst mér vonandi tími til að setjast niður og setja nokkrar greinar á blað, en fram að því safna ég í reynslu- og mistakabankann sem ég vinn síðan úr þegar fyrstu frost ganga í garð.

    Að tala um fyrstu frost er vitaskuld kaldhæðnisleg, þar sem ég er þegar búinn að upplifa fyrsta frostið í veiði eða var það síðasta frost síðasta vetrar? Eins og sumarið kom undan vetri (ef það gerði það þá) þá er ómögulegt að segja til um hvaða frost tilheyrði hvorum vetri. Blessunarlega hafa einhverjir dagar verið með eindæmum góðir og nú styttist í nýtt tungl sem oft færir okkur veðrabreytingar. Það væri óskandi að mánuðirnir til hausts verði langir, mildir og gjöfulir. Þar til það kemur í ljós, þá eru hér nokkrar svipmyndir úr ferðum mínum það sem af er.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fréttir af Febrúarflugum

    28. janúar 2022
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Föstudagurinn fyrir Febrúarflugur er nærri orðinn að föstum pósti á FOS.IS  Við höfum það fyrir satt að hnýtarar eru farnir að bíða nær jafn óþreyjufullir eftir 1. febrúar eins og við. Eins og undanfarin ár munum við kynna styrktaraðila átaksins formlega til leiks í fyrstu viku febrúar en dagskráin okkar verður létt og leikandi eins og endranær.

    FOS.IS verður með örútgáfu að hlaðvarpi (viðtalsþáttum) á föstudögum í febrúar, tveir fyrstu þættirnir eru klárir og við munum leita hófanna hjá þátttakendum Febrúarflugna þegar líður á mánuðinn fyrir þá tvo sem eftir er að taka upp. Þættirnir eru afar einfaldir og lítið fyrir þeim haft, rétt eins og átakinu sjálfu, lauflétt spjall í gegnum fjarfundabúnað sem er einfaldlega tekið upp og verður deilt á FOS.IS og Febrúarflugum.

    Tveir þemadagar verða í Febrúarflugum þar sem meðlimir verða hvattir til að hnýta ákveðna(r) flugu(r) en vitaskuld er ekkert skilyrði að taka þátt í slíku, en það gæti orðið skemmtileg tilbreyting fyrir hnýtara að bregða fyrir sig að hnýta eitthvað sem þeir gera ekki að öllu jöfnu.

    Þegar hefur kvisast út að Sigurður Héðinn (Haugur) stendur fyrir hnýtingakeppni í tengslum við Febrúarflugur þar sem keppt verður í fjórum flokkum; Meistaraflokki, Almennum flokki, Púpuflokki og Unglingaflokki. Haugur veitir vegleg verðlaun í öllum flokkum en fyrirkomulag keppninnar verður kynnt nánar 1. febrúar.

    Fyrir þá sem vilja stytta biðina eftir 1. febrúar, þá er hér brakandi nýr, beint úr þurrkaranum og sjóðandi heitur hlaðvarpsþáttur þeirra félaga Þrír á stöng, þar sem FOS.IS og Febrúarflugur koma heldur betur við sögu:

    Í aðdraganda átaksins setti FOS.IS könnun á netið og kunnum við öllum þeim 176 sem svöruðu henni bestu þakkir fyrir þátttökuna. Margt áhugavert koma fram í tillögum svarenda sem FOS.IS mun reyna að nýta eins og kostur er, sumt hefur þegar komið hér fram, annað er mögulega í deiglunni.

    Annars voru helstu niðurstöður könnunarinnar sem hér segir: Svarendur voru 176, þarf af ætluðu 91 að setja inn flugur, 64 voru ekki alveg vissir og 17 kusu að fylgjast bara með. Flestir sem svöruðu voru í SVFR (41) en fast á hæla þeirra voru Ármenn (39), önnur félög voru með 8 svör eða færri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gleðilega hátíð

    24. desember 2021
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    FOS.IS óskar ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári sem er rétt handan við hornið. Jólagjöfin frá okkur til ykkar að þessu sinni er hið árlega dagatal með helstu tillidögum, sólargangi og tímasetningum árdegis- og síðdegisflóða sem finna má hér á síðunni. Að þessu sinni hefur verið aukið lítillega við upplýsingarnar  á dagatalinu og nú má finna alla stærstu strauma ársins 2022 á einum stað í því.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nú meiga jólin koma fyrir mér … 

    20. desember 2021
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Fyrst að jólabókinni í ár hefur verið landað, þá meiga jólin koma fyrir mér. Árlegur glaðningur í póstkassanum í dag; kortið sem alltaf gleður og gefur fyrirheit um frábært veiðisumar 2022.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 5 6 7 8 9 … 81
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar