Vatn vikunnar – Skálavatn

Veiðivatn vikunnar heitir ekki Stóra Skálavatn, það heitir hér einfaldlega Skálavatn eins og það hefur heitið frá því vatnakarlar byrjuðu að leggja leið sína í Veiðivötn. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Skálavatn í Veiðivötnum

Eins og áður hefur verið getið, þá má finna öll vötnin sem hafa komið fram með því að smella hérna.

Þriðja hnýtingarkvöldið

Þriðja, en þó í raun fjórða hnýtingarkvöld Febrúarflugna verður haldið n.k. mánudagskvöld 18. febrúar í Árósum, Dugguvogi 13 og hefst að venju kl.20:00.  Undanfarin mánudagskvöld og síðasta miðvikudagskvöld hafa áhugmenn og hnýtarar kíkt við, smellt í nokkrar eða fylgst með öðrum hnýta flugur sem síðar hafa slegist í hóp þeirra 210 flugna sem þegar hafa komið fram í mánuðinum á Fésbókinni. Allar flugurnar má einnig sjá á einum stað hér á síðunni.

Bara þannig að það sé áréttað, þessi hnýtingarkvöld eru öllum opin og þar er öruggt athvarf og aðstaða fyrir þá sem vilja prófa fluguhnýtingar og mögulega njóta smá leiðsagnar í fyrstu skrefunum. Það eru alltaf einhverjir vanir hnýtarar á staðnum sem eru reiðubúnir að miðla af reynslu sinni.

Vatn vikunnar – Rauðigígur

Vatn vikunnar er Rauðigígur, eitt af Veiðivötnunum. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Rauðigígur í Veiðivötnum

Í næstu viku höldum við uppteknum hætti, því það er ekki enn komið vor og ekkert annað að gera en teikna kort og hnýta flugur fyrir næsta sumar.

Auka hnýtingarkvöld

Nú eru tvenn hnýtingarkvöld Febrúarflugna að baki og það hefur verið ágæt mæting í Árósa, félagsheimili Ármanna, þessi kvöld. FOS.IS hafa borist ábendingar um að nokkrir áhugasamir eigi ekki heimangengt á mánudagskvöldum og því höfum við tekið þá ákvörðun að á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar verður skotið inn auka-hnýtingarkvöldi Febrúarflugna í Árósum, Dugguvogi 13.

Að venju opnar félagsheimilið kl. 20:00 og auðvitað eru allir velkomnir. Tvö síðustu kvöld hafa ný andlit kíkt inn og það er mál manna að þær flugur sem hrotið hafa af hnýtingarþvingum þeirra beri miklum metnaði vitni og það sé greinilegt að fluguhnýtingar eigi sér bjarta framtíð.

Við viljum einnig vekja athygli á að nú hefur myndasafnið með Febrúarflugum ársins verið uppfært með þeim 168 flugum sem þegar hafa verið settar inn á Fésbókarsíðu Febrúarflugna. Safnið má nálgast með því að smella hér.

Sýnishorn af flugum ársins – smellið á myndina til að skoða þær allar

Fréttir af Febrúarflugum

Á umliðnum árum hefur umhverfisvitund veiðimanna, rétt eins og annarra, aukist stórum. Þar kemur Mistur sterkt inn og bíður útivistarfólki og innipúkum upp á umhverfisvæna kosti í ferðavörum, hreinlætis- og heimilisvörum. Að vera útbúinn góðu nesti í veiðiferðina er nauðsyn og ekki skemmir fyrir að taka það með sér í umhverfisvænum og endingargóðum nestisboxum með rjúkandi kaffi á stálbrúsa sem þolir slark og hnjask í misjöfnu veðri.

Mistur styrki Ferbrúarflugur nú fjórða árið í röð og eflaust búa heppnir hnýtarar enn að þeim viðurkenningum sem þeir hafa hlotið í nafni Misturs.

Fréttir af Febrúarflugum

Þegar kemur að föstum póstum í styrktaraðilum Febrúarflugna, þá kemur JOAKIM‘S einna fyrst upp í hugann. Í gegnum árin hefur verslunin stutt dyggilega við átakið, meira að segja fyrsta árið sem hugmyndin varð að veruleika.

Hjá JOAKIM‘S fá finna allt frá smæstu krókum, kúluhausum og ormalöppum upp í stangveiðigræjur fyrir stórlaxa sem ekkert gefa eftir.

Hnýtingarkvöld Febrúarflugna

Annað hnýtingarkvöld Febrúarflugna og Ármanna verður haldið á morgun, mánudagskvöldið 11. febrúar kl. 20:00 í Árósum, Dugguvogi 13. Síðasta mánudag mætti eitthvað á þriðja tug gesta og nú er bara stóra spurningin hvort það verða á fjórða tug eða þann fimmta sem mæta í kvöld.

Ármenn

Ármenn bjóða hverjum þeim sem vilja prófa að hnýta flugur að setjast niður við einhvern af þeim þremur hnýtingarbásum sem settir hafa verið upp og eru boðnir og búnir að leiðbeina óreyndum í fyrstu skrefunum. Hvernig væri nú að láta langþráðan draum rætast, stíga fram og mæta á hnýtingarkvöld Febrúarflugna og láta reyna á að smella í eins og eina flugu, það er alltaf miklu skemmtilegra að veiða á flugu sem veiðimaðurinn hefur hnýtt sjálfur.

Fréttir af Febrúarflugum

Annar af nýjum styrktaraðilum Febrúarflugna þetta árið er Veiðihornið. Með stór aukinni áherslu á fluguhnýtingarvörur hefur Veiðihornið stimplað sig enn frekar inn inn hjá fluguhnýturum og ef að líkum lætur má ganga að góðum vörum vísum í Veiðihorninu.

Aukið úrval hnýtingarvara er til marks um það að fluguhnýtingar eru langt því frá á undanhaldi hér á landi og rétt eins og vöruúrvalið eykst, þá fjölgar ungum og upprennandi hnýturum enn frekar.

Fréttir af Febrúarflugum

Veiðikortið þarf ekki að kynna fyrir stangveiðimönnum á Íslandi, svo tryggilega hefur það fest sig í sessi sem kortið sem skila veiðimönnum hagnaði ár eftir ár. Og Febrúarflugur hafa notið stuðnings Veiðikortsins frá upphafi og þeir skipta nú tugum sem hafa hlotið viðurkenningu kortsins fyrir þátttökuna í Febrúarflugum.

Þetta árið eru það 34 vötn sem eru innan vébanda Veiðikortsins, sum rótgróin en önnur ný og fersk, en öll eiga þau það sameiginlega að vera spennandi kostur fyrir stangveiðimenn.

Vatn vikunnar – Pyttlur

Veiðivötn vikunnar eru tvö, Skeifupyttla og Stórapyttla. Allar upplýsingar um vötnin getur þú nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Pyttlur (Stórapyttla) í Veiðivötnum

Að viku liðinni munum við bregða okkur til norðurs og kynnast einu af gígvötnunum sem þar eru.

Fréttir af Febrúarflugum

Einn dyggasti styrktaraðili Febrúarflugna í gegnum árin er Árvík. Fyrirtækið hefur skapað sér fastan sess í hugum stangaveiðimanna á undanförum áratugum, rótgróið og öflugt. Meðal vörumerkja Árvíkur má nefna flugustangir frá Scott, breiða vörulínu Loon, töskur og vesti frá Fishpond, hnýtingaráhöld frá Stonfo og Griffin að ógleymdum Kamasan önglunum sem allir fluguveiðimenn þekkja.

Það er vart til sá stangaveiðimaður á Íslandi sem ekki hefur snert á og reynt einhverjar af vörum Árvíkur í gegnum tíðina.

Fréttir af Febrúarflugum

Veiða.is er með stærstu söluvefjum veiðileyfa á Íslandi og kemur nú sterkur inn sem styrktaraðili Febrúarflugna í fyrsta skiptið. Á vefnum er hægt að nálgast upplýsingar um fjölmörg veiðisvæði en jafnframt kappkosta þeir að bjóða uppá fjölbreytt úrval veiðileyfa, bæði í lax og silung, hvort sem er í vötn eða ár.

Á Veiða.is er að finna fjöldann allan af veiðileyfum fyrir komandi sumar og sífellt bætast ný veiðileyfi við í viku hverri.

Fréttir af Febrúarflugum

Í gærkvöldi var fyrsta hnýtingarkvöld Febrúarflugna þetta árið haldið í Árósum. Eitthvað á þriðja tug gesta mætti á staðinn og stemmingin var létt og leikandi. Töluverður fjöldi mætti með eigin hnýtingargræjur og FOS.IS til óblandinnar ánægju voru uppsett hnýtingarsett ekki látin standa ónotuð og töluvert skrafað um hinar og þessar flugur. Nokkrir þeirra sem þegar hafa sett inn flugur mættu, aðrir sem enn eiga eftir að leyfa okkur hinum að njóta voru líka meðal gesta, greinilega að vega og meta hvaða flugur þeir ættu að setja inn á hópinn í vikunni.

Vesturröst hefur verið dyggur styrktaraðili Febrúarflugna frá fyrstu tíð. Í Vesturröst fást allar stangaveiðivörur og þar er að finna mikið úrval hnýtingaefnis og einmitt á þessum tíma árs berst þeim hver sendingin á fætur annarri af nýju og hefðbundnu efni til fluguhnýtinga.

Það er því vel þess virði fyrir áhugamenn um fluguhnýtingar að kíkja reglulega við í Vesturröst á Laugaveginum.

Fréttir af Febrúarflugum

Febrúarflugur eru nú á sínum fjórða degi þetta árið og undirtektirnar hafa verið hreint út sagt frábærar. Fjöldinn allur af flugum hafa komið inn á Fésbókarhópinn og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá mörg ný nöfn meðal hnýtara. Við reynum eftir föngum að uppfæra síðuna okkar hér á FOS.IS þar sem við söfnum öllum flugunum þannig að þeir sem ekki eru á Fésbókinni geti líka fylgst með. Flugurnar má sjá með því að smella hérna.

Og það eru ekki aðeins flugurnar sem streyma inn. Nýir félagar í hópnum eru nú orðnir 30 á þessum fjórum dögum og fylgjendur átaksins því að renna í 300 auk þeirra ríflega 800 sem fylgjast með á Fésbókarsíðu FOS.IS og hér á síðunni.

Rétt eins og endranær næði FOS.IS ekki langt með að veita heppnum þátttakendum viðurkenningar ef ekki væri fyrir ómetanlegan stuðning styrktaraðila átaksins. Þetta árið eru það 9 aðilar sem styðja við átakið með ýmsum hætti og meðal þeirra er Flugubúllan í Hlíðarsmára. Flugubúllan hefur stutt dyggilega við átakið á undanförnum árum og það gera þeir ennþá. Við þökkum Flugubúllunni kærlega fyrir stuðninginn.

 

Að lokum langar okkur að vekja athygli á því að í kvöld, mánudagskvöldið 4. febrúar er fyrsta hnýtingarkvöld Febrúarflugna í samstarfi við Ármenn. Félagsheimili Ármanna, Árósar opnar kl. 20:00 og það eru allri velkomnir, reyndir sem óreyndir. Of það sem meira er, gestir þurfa ekki að eiga hnýtingargræjur því það hafa verið settir upp þrír hnýtingarbásar með helstu verkfærum og efni ef áhugasamir vilja prófa. Við mælum með einföldum og gjöfulum flugum fyrir byrjendur; Peacock og Pheasant Tail, en vilji menn spreyta sig á einhverju öðru þá má alltaf fletta í hnýtingabókum Ármanna í hugmyndaleit og láta reyna á færnina.

Vatn vikunnar – Ónýtavatn fremra

Veiðivatn vikunnar er Ónýtavatn fremra. Allar upplýsingar um vatnið má finna með því að smella á myndina hér að neðan.

Ónýtavatn fremra í Veiðivötnum

Í næstu viku bregðum við undir okkur betri fætinum og smellum hér inn tveimur vötnum á verði eins. Ef þú hefur misst af einhverjum Veiðivatnanna, þá getur þú vitaskuld alltaf kíkt á safnið okkar af veiðivötnum með því að smella hérna.

Fleiri styrktaraðilar

Þegar þetta fer í loftið eru sléttar 5 klst. þar til Febrúarflugur 2019 hefjast formlega. Ég þekki einn aðila sem bíður spenntur eftir því að setja fyrstu fluguna sína inn á Fésbókarhópinn á slaginu 00:01 í kvöld. Þetta er að vísu ég sjálfur, en ég viðurkenni að ég er er virkilega spenntur. Það hefur verið þannig frá því ég fékk þá hugmynd árið 2014 að draga hnýtara Íslands betur fram í dagsljósið, þó ekki nema einn mánuð ársins, að ég hef sífellt orðið meira og meira hissa á þeim undirtektum og athygli sem þetta átak hefur fengið ár hvert.

Frá upphafi hafa mörg fyrirtæki stutt við bakið á þessu átaki og við höfum þegar kynnt hér 7 aðila sem styðja átakið þetta árið. Nú kynnum við tvo aðila til viðbótar sem styðja okkur og það eru Flugubúllan og Vesturröst sem báðir hafa stutt við átakið með ráðum og dáð á umliðnum árum. Þar með eru það níu aðilar sem leggja átakinu lið að þessu sinni með ýmsu móti.

Líkt og endranær munu allir styrkir renna til heppinna fulltrúa þeirra sem setja flugur inn á Fésbókarhópinn í febrúar.

Febrúarflugur 2019

Nú stendur undirbúningur Febrúarflugna 2019 sem hæst. Þótt þetta sé sára einfaldur viðburður í eðli sínu, þá er að ýmsu að hyggja í undirbúningi, meðal annars að útvega styrktaraðila og setja saman dagskrá fyrir hnýtingarkvöldin sem að venju verða fjögur í mánuðinum.

Sem endranær höfum við ekki verið í vandræðum með styrktaraðila og nú þegar hafa 7 fyrirtæki og félagasamtök staðfest þátttöku sína og munu styrkja átakið myndarlega. Þeir sem hafa staðfest stuðning sinn nú þegar eru; Ármenn, Árvík, JOAKIM’S, Mistur.is, Veiða.is, Veiðihornið og Veiðikortið. Á meðal þessara aðila eru tveir nýir styrktaraðilar og bjóðum við þá velkomna í hópinn. Hafir þú lesandi góður, áhuga á að styrkja þetta átak er þér bent á að senda okkur tölvupóst á fos(hjá)fos.is eða skilaboð hér á síðunni. Það er ekki seinna vænna að leggja sitt að mörkum því allir styrktaraðilar verða auglýstir rækilega hér á FOS.IS og í Facebook hópinum Febrúarflugur og það eru ekki nema fjórir dagar þar til átakið hefst formlega.

 

Eins og áður segir þá eru áformuð fern hnýtingarkvöld í febrúar þar sem gestum og gangandi er boðið í Árósa, félagsheimili Ármanna, Dugguvogi 13 frá kl. 20:00 – 22:00. Á liðnum árum hefur oft á tíðum skapast hin skemmtilegasta stemming á þessum hnýtingarkvöldum og reynt hefur verið að höfða jafnt til reyndra sem óreyndra hnýtara. Margir nýliðar í sportinu hafa gripið þetta tækifæri til að prófa hnýtingar og nýtt sér auðfengna aðstoð reyndari hnýtara við þau fyrstu skref.

Tveir aðrir viðburðir eru á döfinni í febrúar, en dagskrá þeirra er enn ekki að fullu frágengin. Allar nánari upplýsingar um viðburðinn þetta árið, sem og fyrri ára, má nálgast hér á síðunni og auðvitað á Fésbókarhópinum þar sem þungi átaksins fer fram eins og venjulega.

Vatn vikunnar – Ónýtavatn

Vatn vikunnar er Ónýtavatn í Veiðivötnum. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Ónýtavatn í Veiðivötnum

Á sama tíma, í næstu viku, kemur hér enn eitt vatnið á síðuna og það er þessu ekkert síðra, jafnvel fremra. Missið ekki af því.

Vatn vikunnar – Nýrað

Vatn vikunnar er eitt af minni vötnum Veiðivatnasvæðisins, Nýrað. Þótt vatnið renni oft saman við nágranna sinn, Rauðagíg, þá fær það nú samt að fljóta hér með undir eigin nafni. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Nýrað í Veiðivötnum

Á sama tíma í næstu viku er kominn enn einn föstudagurinn og það þýðir aðeins eitt, þá kemur enn eitt vatnið fram á síðunni.