Coronation Bucktail

Það eru ekki margar flugur sem eins mikil rannsóknarvinna hefur verið lögð í eins og þessa. Puget Sound Anglers, sem er félagsskapur veiðimanna og starfar á norðanverðum Olympic skaga, rétt vestan við Seattle, lagði í töluverða rannsóknarvinnu á sjötta áratug síðustu aldar á fæðu Coho Kyrrahafslaxins sem gengur í árnar á þessu svæði.

Afraksturinn af vinnu þessa hóps var margþættur, m.a. öflugt starf sem snéri að umhverfivernd (langt á undan sinni samtíð), vernd sjógöngustofna, fiskirækt og rannsóknir á almennum lífsskilyrðum laxfiska á svæðinu. Skynsamleg nýting fiskistofna var leiðarljós þessa hóps og því ekkert því til fyrirstöðu að nýta fæðurannsóknirnar til að hanna t.d. þrjár flugur sem líktust fæðuframboðinu á svæðinu; Candelfish Bucktail, Herring Bucktail og þessarar, Coronation Bucktail. Allt eru þetta flugur sem hafa skipað sér í raðir vinsælustu sjóflugna um allan heim frá því þær komu fram.

Ein þessara flugna, þessi hér, hefur ratað inn á hnýtingarborð Íslenskra veiðimanna í nokkra áratugi og gert góða hluti í lax og ekki síður í sjóbirting. Þá er hún hnýtt úr hjartarhala (e: bucktail) og því sem næst í upprunalegri stærð, oft eftir uppskrift sem finna má í bók Joseph Bates, Streamer Fly Tying and Fishing sem kom út árið 1966. Þar gaf Bates upp hjartarhár sem hráefni flugunnar, að ósekju. Allar þessar flugur hafa frá upphafi verið kenndar við hjartarhala, sem er svolítið skondið, því það er ekki eitt einasta hjartarhalahár að finna í upprunalegu uppskriftinni. Allar voru þær upprunalega hnýttar úr ísbjarnarhárum.

Þó Coronation sé að öllu jöfnu réttilega eignuð Puget Sound Anglers sem hópverkefni, þá kom það í hlut Roy A. Patrick að klæða hugmyndir félagsmanna í búning flugu, rétt eins og hinar tvær sem hópurinn hannaði.

Eins og fram hefur komið, þá eru þessar flugur fyrst og fremst ætlaðar til laxveiði í sjó og hannaðar sem slíkar, hnýttar á stóra og þunga króka og þurftu engrar þyngingar við. Sjálfur hef ég sett þessa flugu saman í nokkuð smærri útgáfu og jafnvel leyft mér að nota allt annað efni en ísbjörn, hvað þá hjartarhala í þær. Ég leyfi mér að setja innan sviga í uppskriftina hér að neðan þær stærðir og efni sem ég hef prófað með ágætum árangri.

Höfundur: Puget Sound Anglers / Roy A. Patrick
Öngull: legglangur straumfluguöngull 2/0 (#6 – #10)
Þráður: 8/0 svartur (10/0 svartur)
Vöf: ávalt silfur tinsel
Búkur: flatt silfur tinsel
Vængur 1: hvítt ísbjarnarhár (hvítur refur)
Vængur 2: rautt ísbjarnarhár (rauður hestur)
Vængur 3: blátt ísbjarnarhár (blár hestur)
Haus: svartur lakkaður

Create a website or blog at WordPress.com