Það veltur allt á haustinu

Það veltur allt á haustinu hvenær FOS.IS lifnar við eftir sumarfrí. Hvað sem segja má um sumarið, þá hefur haustið leikið við okkur hérna sunnan heiða en núna er það trúlega gengið í garð, þó stöku dagar séu enn með þeim betri sem komið hafa síðan í vor sem leið.

Um árabil hefur það verið siður FOS.IS að halda sig til hlés á meðan veiðimenn sinna meira áríðandi verkefnum heldur en lesa einhverjar hugleiðingar eða vangaveltur, en nú er friðurinn úti. Áætlun vetrarins tekur nú við á FOS.IS og greinar fara að birtast hér samkvæmt venju, tvær til þrjár í viku hverri fram til næsta vors.

Hver veit nema greinarnar verði fleiri í vetur en oft áður því töluverður efniviður hefur safnast saman í sumar sem eins gott er að koma í orð áður en hann rykfellur í hugarfylgsnum höfundar.

Þrátt fyrir að FOS.IS hafi ekki birt fréttir af veiðiferðum í sumar, þá eru þær nokkrar sem liggja eftir og fáein flök af fiski eru í frystinum sem bíða þess að verða bragðlaukum tryllir í haust og í vetur. Óhjákvæmilegur fylgifiskur veiðiferða, í það minnsta hjá höfundinum, eru mistökin, agnúarnir og vandamálin sem hann hefur upplifað í sumar. Þegar allt þetta safnast saman, þá verða til vangaveltur og uppástungur að lausnum sem lesendur vefsins fá að gæða sér á í vetur.

Fram að áramótum verður hér á ferðinni eitthvert bland í poka, héðan og þaðan um hitt og þetta, en skömmu eftir áramót förum við að hita upp fyrir Febrúarflugur 2023 og bætum nokkrum flugum í sarpinn sem hafa fengið að slíta barnskónum í sumar. Hver veit nema einu eða tveimur ráðum verði laumað inn fyrir hnýtara sem eru að fikra sig áfram eða rifja upp gamla takta.

Eftir sem áður er aldrei að vita hvað höfundi dettur í hug að bæta við í hefðbundin efnistök FOS.IS, svona þegar líða fer á veturinn. Eitt er víst að það er af nógu að taka, aldrei skortur á hugmyndum og eini hömlupinninn sem er til staðar eru þessir örfáu klukkutímar sem tilheyra hverjum sólarhring, fjöldi sólarhringa, vikna og mánuða til næsta vors þegar við drögum okkur aftur aðeins til hlés. Þessi vetur sem er framundan verður ekki nema örskotsstund að líða, vitiði bara til.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com