Einkavatn, 25.júlí

Ekki lék nú lánið við mig eins og konuna í kvöld. Við skruppum í vatn sem ekki má nefna eftir kvöldmat. Ekki leið á löngu þar til frúin tók einn vænan, ég aftur á móti missti tvo og sleppti tveimur unglingum. Kom samt nokkuð sáttur heim, frábært að komast út eftir erilsaman dag í vinnunni, tæma stressið og hlaða batteríið fyrir morgundaginn.

Fæðuvandamál

John Hurt sem Fílamaðurinn

Mýflugan er undirstöðufæða silungsins. Ég virðist vera ein af undirstöðufæðu mýflugunnar eða þannig leið mér í það minnsta eftir ferð upp að Úlfljótsvatni um daginn. Hefði endurgerð Fílamannsins verið á döfinni hefði ég örugglega komið sterklega til greina sem staðgengill John Hurt í aðalhlutverkið, slíkar voru bólgurnar sem tóku sig upp hjá mér eftir ferðina. Í gegnum tíðina hafa ýmiss húsráð orðið til gegn og fyrir meðhöndlun flugnabits. Hér eru nokkur dæmi:

  • B-vítamín: Ráðlagður dagskammtur skv. framleiðanda af B1 og/eða B6 er sagður draga fram ákveðinn ilm á hörundi sem á að fæla mýið frá.
  • Mentol: Margir mæla með kremi eða áburði sem inniheldur hátt hlutfall af mentol eða eucalyptus til þess að fæla flugur frá. Að sögn þarf ekki að bera á alla óvarða húð, vel dugar að setja eina og eina doppu hér og þar. Þekkt vörumerki; Tiger Balm, Vick‘s VapoRup, Deep Heat.
  • Betametason: Er virkt efni í fjölda krema og smyrsla sem ávísað er gegn bólgu- og ofnæmissjúkdómum, flest lyfseðilskyld á Íslandi en ferðamenn þekkja e.t.v. Calestoderm-V sem hægt er að kaup án lyfseðils erlendis. Krem sem innihalda betametasón eru sögð prýðis fróun eftir skordýrabit.
  • Sítrus ávextir: Sumir drekka mikið af fersku límónu- eða sítrónuvatni fyrir veiðiferðir og fullyrða að það dragi verulega úr ásókn flugu. Aðrir beinlínis rjóða andlit og hendur með límónu og segja það dugi mun betur.
  • Sítrónugras: Ekki bara krydd, heldur líka áburður eða kalt seiði til að bera á sig og/eða úða á föt og annan búnað til varnar flugu.
  • Myrta (Brúðarlauf / Bog Myrtle): Notað sem virkt efni í náttúrukremum sem menn rjóða á hendur og andlit til að stugga við mýflugum. Skotar hafa notað krem og olíur úr þessari jurt í margar aldir til þessara nota.
  • Tea Tree olía: Ilmkjarnaolía sem dregur úr ertingu eftir skordýrabit. Fyrirbyggjandi virkni ekki þekkt.
  • Neem olía: Krem og smyrsl sem innihalda þessa olíu eru talin halda skordýrum frá mönnum. Um er að ræða nokkrar vörur sem fundist gætu í verslunum hér á landi.
  • Hvítlaukur: Nokkuð stíf inntaka hvítlaukstaflna (1200 mg/dag) eða át hvítlauks fyrir veiðiferðir er talið draga verulega úr ásókn mýflugu. Svo er bara spurning hvort veiðifélagar fælist ekki líka.

Hvort eitthvað af þessu virkar er svo allt önnur saga, kannski eru þetta bara allt kerlingarbækur eins og ráð við kvefi. Öll notkun krema og olíu ætti samt að vera í hóf stillt, ekki viljum við smita lykt á veiðibúnað þannig að fiskurinn fælist. Eitt ráð að lokum; ekki nota ilmvatn eða rakspíra þegar þið haldið til veiða. Ólíkt fiskinum þá fælast flugur ekki slíka lykt, heldur þvert á móti.

Ónefndavatnið, 20.júlí

Við bræðurnir skruppum rétt út fyrir bæjarmörkinn í ónefnt vatn um kvöldmatarleitið. Smá gola, ekkert til að gera sér rellu út af og aðeins flugustangir með í för. Ég tók þrjá urriða á Pólskan PT fyrir ljósaskiptin og bætti svo þremur við á svartan Nobbler þegar fiskurinn leitaði upp á grunnið í kyrrðinni. Brósi hélt sig við fluguna, enda ekki um neitt annað að ræða og auðvitað tók hann einn á eigin flugu, svarta pöddu með silfurvöfum og rauðu skotti. Flottur skreppur í frábæru veðri.

Stærðin skiptir máli

Oftar en ekki heyrir maður áróður þess efnis að veiðimenn eigi að minnka flugurnar, við séum að egna fyrir silunginn með allt of stórum flugum. Auðvitað er töluvert til í þessu og sjálfur hef ég tekið undir þetta og sagt að við verðum að vera tilbúnir til að breyta út af vananum, vera sveigjanlegir. En við getum líka undirskotið stærðina á flugunum.

Vorflugulirfur og legglangur Peacock #8

Ég rakst á þessar vorflugulirfur um daginn, veiddi þær upp úr og bar nákvæmlega saman við púpuboxið mitt. Og viti menn, hefbundinn #10 var allt of stuttur, beinlínis rýr og ræfilslegur í samanburði við undrasmíð náttúrunnar. Loksins fann ég Peacock sem ég hafði hnýtt á legglangan #8 sem bar næstum við rétta lengd, en var langt því frá nógu bústinn.

Bústinn Peacock

Þegar heim var komið, hnýtti ég bústinn skratta á legglangan #8 með góðu undirlagi úr brúnni ull, þakti hann með 5 strimlum af peacock og styrkti með koparvír. Pínulítill rauður broddur, brúnn haus og Frankenstein var fullskapaður. Þetta var beinlínis tröll í púpuboxinu, en í vatn skyldi hann sem hann og gerði. Fyrir þessu trölli lágu fjórar fallegar bleikjur sem stóðust ekki þetta hlaðborð. Við litlum #10 og #12 leit ekki nokkur fiskur, einmitt þeim sem ég hefði trúlega byrjað á að prófa og minnkað síðan niður í #14 eða jafnvel #16 og svo afgreitt málið með fussi og fúlheitum; „Hér er ekki nokkur fiskur„.

Auðvitað skiptir stærðin máli, en ekki endilega á þann veg sem við höfum verið að temja okkur. Gefum lífinu gaum, metum okkur við það sem er til staðar í vatninu og fiskurinn er að snuddast í, þá og fyrst þá verðum við samkeppnishæfir við náttúruna.

Úlfljótsvatn, 16.júlí

Loksins, loksins. Úlfljótsvatn hefur verið lagt að velli. Við hjónin fórum í Úlfljótsvatnið í gær ásamt veiðifélögum okkar og tókst að brjóta múr gæftaleysis í vatninu með sjö bleikjum frá tæpu pundi og upp í eitt og hálft. Það var ekki fyrr en vel var liðið á kvöldið að fiskurinn gaf sig að einhverju ráði, allir á Rolluna og Peacock. Frúin skákaði mér með fjóra, ég með þrjá en það hefði getað orðið jafntefli hefði ég ekki asnast við að missa eina væna þegar ég ætlaði að grípa hana úti í vatni. Datt í hug nýr málsháttur; Ekki er bleikja í hendi fyrr en á bakkann er komin. Veiðifélagar okkar voru ekki eins lukkulegir þrátt fyrir lofsamlegar tilraunir með flugur á floti og flugustöng; það gengur bara betur næst.

Uppfærði kortið af álitlegum veiðistöðum í vatninu ásamt því að bæta Rollunni við sem flugu júlí-mánaðar, sjá Úlfljótsvatn.

Eftir töku

Þegar silungurinn hefur tekið og við höfum brugðist rétt við, reist stöngina upp og strengt á línunni er mikilvægt að við höfum fulla stjórn á henni. Örlítill slaki á línu gefur fiskinum færi á að losa sig af með því að skipta snögglega um stefnu í vatninu. Ég tel mig þekkja persónulega nokkra eldri og virtari silunga á Íslandi sem hafa reynslu af því að losa sig af flugu. Þeir eru útsjónarsamir, hægfara og rólegir í tíðinni, bíða eftir því að ég slaki örlítið á, kannski til að teygja mig eftir háfinum, en taka þá á rás að mér eða hnykkja hausnum til annarrar hliðarinnar, helst þeirrar sem er gagnstætt flugunni. Niðurstaðan; þeir halda áfram að lifa villtir í íslenskri náttúru og ég stend eftir með dúndrandi hjartslátt og adrenalínið á fullu. En hvað er þá til ráða? Jú, halda línunni alltaf strekktri og varist hausahnykki og loftköst. Enski frasinn tight lines er engin steypa, höldum línunni strekktri.

Slíta eða vaða

Ég hef áður birt smá hugleiðingar um viðbragð okkar við töku, en hvenær vitum við að fiskurinn hefur tekið? Sagt er að við missum af c.a. 75% alls áhuga silungs vegna þess að við finnum ekki tökuna eða stimplum hana sem krak í botni eða grjóti og sleppum línunni lausri í stað þess að halda henni strekktri. Vanir veiðimenn telja sig auðveldlega greina munina á töku og kraki við steina, ég er greinilega bara byrjandi vegna þess að ég treysti mér sjaldnast til að greina þarna á milli. Oftar en ekki kasta ég aftur á sama stað, dreg inn með sömu aðferð og bíð þess að kraka í sama steininn aftur. Nú, ef það gerist ekki þá fyllist ég von um fisk, kasta enn og aftur og breyti jafnvel aðeins inndrættinum. Ef ég festi aftur á móti í steini þá er um tvennt að velja; slíta fluguhnútinn og hnýta nýjan taum og flugu eða reyna öll ráð til að losa eins og t.d. að vaða aðeins út og húkka úr steininum. Kostir og gallar; ef ég slít, þá tapa ég flugu (mér finnst gaman að hnýta flugur þannig að þetta er ekki stór ókostur), ef ég veð út þá á ég á hættu að styggja þann fisk sem mögulega er á milli mín og flugunnar. Fyrir mér er þetta einfalt; ef ég næ ekki að losa fluguna með einföldu móti þá slít ég frekar. Að veiða við botninn kallar á fórnir, ein og ein fluga ásamt nýjum taumaenda vegna þess að þegar við slítum, þá tognar yfirleitt á taumendanum og við verðum að skipta honum út ef við viljum ekki taka sénsinn á að sá stóri slíti.

Langavatn 8.- 10.júlí

Næstum upp á sömu daga og í fyrra, brá veiðifélagið sér í Langavatn (sjá ferð 9.-11.júli 2010) og gerði bara ágætan túr. Vatnið er alveg að smella í gang, lífríkið að kvikna og fiskurinn að færa sig upp úr dýpinu. Í þetta skiptið komum við okkur fyrir á ströndinni undir sæluhúsinu við Réttarmúla, en hreint ekki á sama stað og 21.ágúst í fyrra því þá hefðum við þurft að draga vagnana með bátum. Vatnið kemur sem sagt vel inn í sumarið, í það minnsta 1 metra hærra í því en í fyrra, spá-ný brú yfir Beilá og mikið búið að gera við veginn þarna upp eftir. Töluvert af  fiski á ferðinni, mikið af smárri bleikjur og Murtu, en einnig vænar bleikjur á bilinu 1-2 pund, þar af 4 sem lentu í kæliboxinu hjá Reykjavíkur deildinni og 3 hjá Mosó. Reykjavíkur deildin tók alla sína á ofvaxinn Peacock, en Mosó á maðk. Allri Murtu og litlum tittum sleppt, eitthvað á bilinu 8-10 stk.

Magaskellur

‚Killing me softly‘ söng Roberta Flack um árið. Mér verður stundum hugsað til þessa lags þegar ég hef verið að berja vatnið í nokkurn tíma og er alveg að missa mig í að þenja köstin út til stóru fiskanna sem eru í dýpinu. Ósjálfrátt slaka ég á og næ köstunum mínum niður um nokkrar kaloríur, eyði minni orku og legg meiri áherslu á mýkt og ákveðni. Að detta svona úr takti þegar illa gengur í veiðinni er nokkuð sem fylgir mönnum víst og þá er um að gera að búa sér til einhvern varnagla sem slær á puttana á manni, færir köstinn aftur niður á það plan sem maður ræður við og framsetning línunnar verður aftur viðunandi. Fluga sem fellur mjúklega á vatnið er vænlegri til veiði heldur en sú sem skellir sér með skvampi í djúpu laugina og hræðir allt og alla frá sér. Snéri maður sér ekki alltaf undan þegar bekkjarfíflið sýndi magaskell í skólasundinu í gamla daga?

Hlíðarvatn, Hnappadal 4. – 7. júlí

Eftir nokkrar vegabætur reistu báðar deildir veiðifélagsins búðir sínar á bökkum Hlíðarvatns í landi Heggsstaða að kvöldi mánudagsins 4.júlí. Veðurspáin gerði ráð fyrir léttum vindi frá 0 – 8 m/sek. úr öllum áttum sem gekk eftir þannig að maðkastangirnar voru hafðar til taks.

Við höfðum frétt af lélegri veiði í vatninu vikuna á undan, fáir og litlir fiskar, þannig að væntingarnar voru lágstemmdar sem skilaði sér í gríðarlegum fögnuði yfir hverjum fiski sem kom á land. Mánudagskvöldið var rólegt, nýttum það helst til að ná áttum við vatnið sem hafði tekið miklum breytingum frá því í fyrra. Þriðjudagurinn var ágætur, hraðfleygt logn og mest veiði um kvöldið upp í ölduna við Tótutanga. Miðvikudagurinn rann upp með logni og glampandi sól, hreinni rjómablíðu þannig að eiginkonan stóðst ekki mátið heldur vatt sér í dressið og út í vatn með flugustöngina, fyrir morgunverð. Fljótlega fór Mosó-deildinn af stað og tók til við að landa hverjum fiskinum á fætur öðrum þannig að fljótlega varð útséð um hvor deildin ætlaði sér vinninginn. Kvennpartur Mosó deildarinnar fylltist þvílíku kappi rétt fyrir kvöldmat að nánast ekkert varð eftir af fiski í vatninu fyrir kvöldveiðina og ávann sér þannig inn eitt örnefnið enn við vatnið, Lárulág. Endanlegar aflatölur urðu þær að Reykjavíkur-deildin tók samtals 21 fisk á tvær stangir, þar af 1 á Beiki, 1 á Watson’s Fancy púpu, 2 á Peacock og 1 á svartan Toby, restina á maðk. Eins og við var búist átti Mosó-deildin vinninginn með 33 fiska, allt á maðk. Hef lúmskan grun um að kynjahlutfall hafi verið okkur bræðrum óhagstætt, ekki orð um það meir.

Smellið fyrir stærri mynd

Ég notaði tækifærið til smá náttúruskoðunar og myndatöku af nokkrum íbúum vatnsins, smá efnisöflun fyrir bloggið. Náði mjög góðum myndum af nokkrum vorflugupúpum sem ég hyggst nota í smá umfjöllun um litlar flugur og trú manna á þeim. Auðvitað verður fjallað um vinsælustu eftirlíkingu vorflugupúpunnar, Peacock sem sést hér til hliðar í hópi ‘original’ púpa úr Hlíðarvatni.

Að lokum er rétt að árétta að GPS hnit örnefna við vatnið; Tótutangi, Lárubotn, Lárulág, Pétursklettur og Stjánaströnd, verða ekki gefin upp að svo komnu máli.

Létt og lipurt

Þyngd og stærð veiðigræja er mörgum kappsmál; stærsta hjólið, lengsta stöngin, þyngsta línan. Svo eru til þeir sem segja; fiskurinn sér ekkert hvort ég sé með bensínsstöðvarstöng eða 11 feta tvíhendu. Ég er svolítið eins og síðari hópurinn; léttar græjur sem raska ekki vatninu of mikið. Snertiflötur veiðimanns og fisks er yfirborð vatnsins. Léttar græjur í vatnaveiði raska yfirborðinu minna en þungar línur sem skjótast fram úr ofvöxnum grafít sköftum. Auðvitað hafa þeir eitthvað til síns máls sem segja að Ísland og íslensk veðrátta bíður mönnum einfaldlega ekki upp á neitt annað en línur nr.7 eða 8 sökum vinds. En það má gera ýmsar leiðréttingar á kaststíl með léttri línu (nr.4 og 5) sem hjálpar til í vindi; skemmri köst, þrengri kasthringur. Léttari lína raskar yfirborðinu minna en þung, nokkuð sem getur gert gæfumuninn í vatnaveiði. Auðvitað verðum við að vera með góða línu sem rennur vel, hreina og mjúka. Svo er líka auðveldara að taka létta línu með löngum taumi upp í nýtt kast án þess að raska yfirborðinu eða hætta við upptöku. Ég hef oftar en ekki hætt við að taka upp línu í lok inndráttar vegna þess að í þessari ör-stuttu pásu á milli inndráttar og upptöku þá kemur högg og möguleg taka. Prófaðu að bæta einu takið við inndráttinn eftir stutta pásu, taktu síðan upp ef ekkert gerist. Það er ótrúlegt hve nærri fiskurinn eltir fluguna.

2 tbl. Veiðislóð

Annað tölublað Veiðislóðar er komið út hjá Vötn og veiði. Þeir félagarnir taka það fram að hér sé um tilraun að ræða og vonast til að hún gangi upp. Ég tek heils hugar undir það með þeim, þetta er flott tímarit og það væri synd ef þessi tilraun mistækist. Nú er bara að setjast niður, renna yfir blaðið og vona að umfjöllunin sé eitthvað annað en bara lax.

Veður og myndavélar

Ég tók mig til og setti inn nýjan valkost hér að ofan, Veður.  Auk hefðbundinna veðurathugana er fjöldi einstaklinga sem halda úti sjálfvirkum veðurstöðvum, jafnvel með vefmyndavélum, úti um allt land. Ég hef safnað nokkrum þeirra saman, helst í nágrenni þekktra veiðistaða á landinu í þeirri von að þetta gagnist einhverjum. Ef þið hafið upplýsingar um einhverjar fleiri svona stöðvar þætti mér vænt um að heyra af þeim þannig að ég geti bætt þeim hérna inn. Einfaldast er að nota kommenta kerfið á síðunni (Rita ummæli) eða senda mér tölvupóst.

Dagatal

Eins og tíðarfarið hefur verið upp á síðkastið þá sækir á mann nokkurs konar haust ró. Mannskepnan er þannig úr garði gerð að við hægjum ósjálfrátt á okkur þegar fer að hausta, leggjum frá okkur ákveðin verkfæri sem tekin voru fram síðasta vor (kannski aðeins of snemma) og búumst undir veturinn. Þetta á alls ekki við um silunginn. Þegar sumri fer að halla, ef það þá hefur komið yfir höfuð, tekur fiskurinn til við að fita sig fyrir veturinn. Oftast tekur fiskurinn kipp í áti rétt áður en hann fer í hrygningu, safnar forða sem hann viðheldur svo eins lengi fram eftir hausti og unnt er. Þessi áttími silungsins er oft gjöfulasti tími silungsveiðimannsins, hann tekur grimmt, nánast hvað sem er. Eitt af því sem getur truflað silungsveiðimanninn á þessum tíma er; dagatalið. Við fundum upp dagatalið og fylgjum því nokkuð stíft, kannski of stíft. Fiskurinn á sér ekkert dagatal annað en náttúruna. Ef náttúran seinkar sér eitthvert sumarið (eins og núna) þá færist dagatal hans til sem seinkuninni nemur, hann vaknar síðar til lífsins og safnar forða síðar á sumrinu, eða því sem næst. Látum ekki deigan síga og spáum alvarlega í að nýta sumarið í að prjóna okkur ullarvettlinga fyrir haustið, það getur orðið fjörugt.

Ónafngreint vatn, 30.júní

Það leynast margar veiði- og náttúruperlur á Íslandi. Mér stóð til boða að prófa eina svona perlu í gær í nágrenni Reykjavíkur. Um er að ræða vatn sem er í einkaeigu, hluti jarðar þar sem aðeins ábúandinn og fjölskylda hans hafa stundað veiði. Og þvílík perla. Vatnið tók á móti okkur með fínum pundara í þriðja kasti hjá konunni og áttunda kasti hjá mér, báðir á Pólskan PT.

Ef ekki hefði verið fyrir umferð á vatninu hefði ævintýrið haldið áfram, en við nýttum tímann vel og tókum fram kaffibrúsann og matarkexið (sem kemur við sögu á hverjum degi), góndum út í loftið og nutum umhverfisins. Þegar bátsverjar höfðu fengið nóg (14 stk. held ég) héldum við áfram og dagurinn endaði í sex fínum fiskum, allir á Pólskan PT þrátt fyrir tilraunir með aðrar flugur eins og t.d. Nobbler, Krókinn o.fl. Það verður nú annars ekki af þessari flugu skafið að hún skildi fanga þessa fiska, því næstum allir voru á fullu í síli og því hefði t.d. Nobbler eða Black Ghost átt að eiga betur við. Flottur staður og ég er alveg vís með að suða í góðum fjölskyldumeðlim um leyfi til að prófa hina veiðistaðina við vatnið, því aðeins einn þeirra (suðurbakkinn) var lagður að velli í gær.

Tunglið

Ég heyrði í útvarpinu um daginn að tunglið væri að fjarlægjast okkur um 4 sentímetra á ári. Það er ekki nóg með að sumarið hefur yfirgefið okkur heldur er tunglið að gera það líka. Hvoru tveggja eru slæmar fréttir því þegar þetta tvennt fer saman, sumarblíða og fullt tungl þá er virkilega von á skemmtilegri veiði. Þannig er að aðdráttarafl tunglsins hefur áhrif á fisk í vötnum og sjó þannig að þeir leita meira upp á yfirborðið og þá sérstaklega ef aðeins er tekið að rökkva og fullt tunglið nýtur sín á himninum. Í dag, 30.júní fæðist nýtt tungl og það verður orðið fullt aðfararnótt 15.júlí og því e.t.v. ekki úr vegi að taka seinni vaktina þann 14. og vaka aðeins lengur eða taka næst besta kostinn og vaka með fiskinum aðfararnótt laugardagsins 16.

Hítarvatn, 24. – 25. júní

Hér verður hvorki sögð frægðarsaga af veiðimönnum né konum. Við hjónin brugðum okkur bæjarleið á föstudaginn vestur í Hítarvatn. Veðurspáin sagði til um NA og A átt um helgina, létta metra á sekúndu og þokkalegasta hita. Við hreiðruðum um okkur í hraunjaðrinum austan við Hólm og vorum bara nokkuð heppinn að vera ekki alveg við vatnið, slík var nepjan sem stóð af vatninu. Brugðum okkur í vöðlurnar upp úr kl.21 og vorum að í Hrauntöngunum til að ganga eitt án þess að taka eitt einasta kvikindi á land. Jæja, laugardagurinn yrði bara betri.Við tókum daginn seint, notuðum morguninn í marga Latté og fylgdumst vel með þeim sem gengið höfðu inn fyrir hrauntunguna áður en við tókum okkur til. Þar sem töluverður asi virtist á veiðimönnum við vatnið og flest sem benti til að lítið væri um afla, ákváðum við að fara inn að víkinni undir Hólmanum. Höfðum farið í þá vík í fyrra og gengið ágætlega í svipaðri vindátt. Þrátt fyrir þokkalegar aðstæður var mjög lítið um líf, en eftir langa mæðu varð ég var með Orange Nobbler (stuttur) og það var einmitt lengdin á fiskinum sem ég krækti í og endaði pönnusteiktur með smjöri og sítrónupipar í kvöldverð. Síðar um kvöldið reyndum við aftur fyrir okkur, með spún sökum vinds, á töngunum undir Hólmi og tókum sitt hvorn fiskinn, ég áfram í smáfiskinum en konan tók tæplega pundara. Síðan ekki söguna meir, og líkur þar með veiðiþætti helgarinnar, ef undan eru skilin þau orð sem höfð eru eftir Finnboga í Hítardal að þetta vor væri það lélegasta í vatninu í það minnsta í fjögur ár. Okkur tókst að telja saman 12 fiska hjá þeim tæplega 20 veiðimönnum sem við sáum til og áttum orðastað við um helgina.

Heyrn

Ég er svo óheppinn að hafa ekki rakaraheyrn þ.e. geta skynjað hvað er sagt og brugðist við með réttum svörum án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað er verið að tala um. Ég annað hvort heyri allt eða ekkert, en ég er nú líka bara venjulegur maður. Fiskurinn aftur á móti heyrir og skynjar hvort sem honum líkar það betur eða verr. Buslugangur, steinaglamur og skellir í þungum flugum á yfirborðinu eru allt eitthvað sem fiskurinn heyrir með skynrákinni sem liggur eftir honum endilöngum og hann bregst við þessu. Stundandi vatnaveiði í grænu vöðlunum mínum (ég trúi því að grænt sjáist síður en grátt) hef ég oft upplifað það að fiskurinn syndir rétt við fætur mér án þess að skeyta nokkru um mig, svo fremi ég standi fastur í fæturna og ekki urgi í botngrjótinu. Já, allt í lagi, ef hann syndir rétt við fætur mér þá hef ég örugglega vaðið of langt en það er ekki punkturinn með þessu heldur sá að það er hægt að vaða varlega og af skynsemi þannig að fiskurinn fælist ekki, kasta létt þannig að flugan skelli ekki á yfirborðinu og skilja hundinn eftir heima (ef ég ætti hund). Við getum svo óhikað sest niður á bakkanum og rætt þetta frekar því fiskar heyra ekki mannamál niður í vatnið.

Ólýsanleg hegðun

Því hefur borið við að umgengni veiðimanna við vötn og ár hefur verið nokkuð ábótavant í gegnum tíðina og nú hafa borist fregnir af ólýsanlegri hegðun á Arnarvatnsheiði. Sjá frétt á Skessuhorni. Hér keyri algerlega um þverbak og hegðun sem þessi kastar rýrð á alla veiðimenn, því miður. Þessum veiðimönnum veitti ekki af smá tilsögn í mannasiðum og fiskflökun. Ef þessi aðilar skyldu slysast inn á þetta blogg mitt; vinsamlegast leitið ykkur aðstoðar sem allra fyrst. Fyrsta skrefið gæti verið að skoða neðangreint myndband á Youtube.

Meðalfellsvatn, 21.júní

Eins gott og veðrið var í höfuðborginni í gærkvöldi, var það ekki alveg eins stillt í Kjósinni. Þegar við hjónin mættum á svæðið upp úr kl.20 var strekkings vindur og ekki álitlegt að koma út flugu en við létum okkur hafa það og komum okkur fyrir rétt vestan við Hljóðasteina. Um leið og vindur fór að ganga niður tók fiskurinn við sér og frúin setti í flottan punds urriða með Pólskum Pheasant Tail. Sjálfur var ég í ungbarnaeftirlitinu, tók þrjá titti á Peacock, Pólskan PT og Rolluna. Töluvert af fiski að vaka en mér sýndist að við værum þau einu sem eitthvað tókum af þeim 3-4 sem voru á staðnum.