Létt og lipurt

Þyngd og stærð veiðigræja er mörgum kappsmál; stærsta hjólið, lengsta stöngin, þyngsta línan. Svo eru til þeir sem segja; fiskurinn sér ekkert hvort ég sé með bensínsstöðvarstöng eða 11 feta tvíhendu. Ég er svolítið eins og síðari hópurinn; léttar græjur sem raska ekki vatninu of mikið. Snertiflötur veiðimanns og fisks er yfirborð vatnsins. Léttar græjur í vatnaveiði raska yfirborðinu minna en þungar línur sem skjótast fram úr ofvöxnum grafít sköftum. Auðvitað hafa þeir eitthvað til síns máls sem segja að Ísland og íslensk veðrátta bíður mönnum einfaldlega ekki upp á neitt annað en línur nr.7 eða 8 sökum vinds. En það má gera ýmsar leiðréttingar á kaststíl með léttri línu (nr.4 og 5) sem hjálpar til í vindi; skemmri köst, þrengri kasthringur. Léttari lína raskar yfirborðinu minna en þung, nokkuð sem getur gert gæfumuninn í vatnaveiði. Auðvitað verðum við að vera með góða línu sem rennur vel, hreina og mjúka. Svo er líka auðveldara að taka létta línu með löngum taumi upp í nýtt kast án þess að raska yfirborðinu eða hætta við upptöku. Ég hef oftar en ekki hætt við að taka upp línu í lok inndráttar vegna þess að í þessari ör-stuttu pásu á milli inndráttar og upptöku þá kemur högg og möguleg taka. Prófaðu að bæta einu takið við inndráttinn eftir stutta pásu, taktu síðan upp ef ekkert gerist. Það er ótrúlegt hve nærri fiskurinn eltir fluguna.

2 tbl. Veiðislóð

Annað tölublað Veiðislóðar er komið út hjá Vötn og veiði. Þeir félagarnir taka það fram að hér sé um tilraun að ræða og vonast til að hún gangi upp. Ég tek heils hugar undir það með þeim, þetta er flott tímarit og það væri synd ef þessi tilraun mistækist. Nú er bara að setjast niður, renna yfir blaðið og vona að umfjöllunin sé eitthvað annað en bara lax.

Veður og myndavélar

Ég tók mig til og setti inn nýjan valkost hér að ofan, Veður.  Auk hefðbundinna veðurathugana er fjöldi einstaklinga sem halda úti sjálfvirkum veðurstöðvum, jafnvel með vefmyndavélum, úti um allt land. Ég hef safnað nokkrum þeirra saman, helst í nágrenni þekktra veiðistaða á landinu í þeirri von að þetta gagnist einhverjum. Ef þið hafið upplýsingar um einhverjar fleiri svona stöðvar þætti mér vænt um að heyra af þeim þannig að ég geti bætt þeim hérna inn. Einfaldast er að nota kommenta kerfið á síðunni (Rita ummæli) eða senda mér tölvupóst.

Dagatal

Eins og tíðarfarið hefur verið upp á síðkastið þá sækir á mann nokkurs konar haust ró. Mannskepnan er þannig úr garði gerð að við hægjum ósjálfrátt á okkur þegar fer að hausta, leggjum frá okkur ákveðin verkfæri sem tekin voru fram síðasta vor (kannski aðeins of snemma) og búumst undir veturinn. Þetta á alls ekki við um silunginn. Þegar sumri fer að halla, ef það þá hefur komið yfir höfuð, tekur fiskurinn til við að fita sig fyrir veturinn. Oftast tekur fiskurinn kipp í áti rétt áður en hann fer í hrygningu, safnar forða sem hann viðheldur svo eins lengi fram eftir hausti og unnt er. Þessi áttími silungsins er oft gjöfulasti tími silungsveiðimannsins, hann tekur grimmt, nánast hvað sem er. Eitt af því sem getur truflað silungsveiðimanninn á þessum tíma er; dagatalið. Við fundum upp dagatalið og fylgjum því nokkuð stíft, kannski of stíft. Fiskurinn á sér ekkert dagatal annað en náttúruna. Ef náttúran seinkar sér eitthvert sumarið (eins og núna) þá færist dagatal hans til sem seinkuninni nemur, hann vaknar síðar til lífsins og safnar forða síðar á sumrinu, eða því sem næst. Látum ekki deigan síga og spáum alvarlega í að nýta sumarið í að prjóna okkur ullarvettlinga fyrir haustið, það getur orðið fjörugt.

Ónafngreint vatn, 30.júní

Það leynast margar veiði- og náttúruperlur á Íslandi. Mér stóð til boða að prófa eina svona perlu í gær í nágrenni Reykjavíkur. Um er að ræða vatn sem er í einkaeigu, hluti jarðar þar sem aðeins ábúandinn og fjölskylda hans hafa stundað veiði. Og þvílík perla. Vatnið tók á móti okkur með fínum pundara í þriðja kasti hjá konunni og áttunda kasti hjá mér, báðir á Pólskan PT.

Ef ekki hefði verið fyrir umferð á vatninu hefði ævintýrið haldið áfram, en við nýttum tímann vel og tókum fram kaffibrúsann og matarkexið (sem kemur við sögu á hverjum degi), góndum út í loftið og nutum umhverfisins. Þegar bátsverjar höfðu fengið nóg (14 stk. held ég) héldum við áfram og dagurinn endaði í sex fínum fiskum, allir á Pólskan PT þrátt fyrir tilraunir með aðrar flugur eins og t.d. Nobbler, Krókinn o.fl. Það verður nú annars ekki af þessari flugu skafið að hún skildi fanga þessa fiska, því næstum allir voru á fullu í síli og því hefði t.d. Nobbler eða Black Ghost átt að eiga betur við. Flottur staður og ég er alveg vís með að suða í góðum fjölskyldumeðlim um leyfi til að prófa hina veiðistaðina við vatnið, því aðeins einn þeirra (suðurbakkinn) var lagður að velli í gær.

Tunglið

Ég heyrði í útvarpinu um daginn að tunglið væri að fjarlægjast okkur um 4 sentímetra á ári. Það er ekki nóg með að sumarið hefur yfirgefið okkur heldur er tunglið að gera það líka. Hvoru tveggja eru slæmar fréttir því þegar þetta tvennt fer saman, sumarblíða og fullt tungl þá er virkilega von á skemmtilegri veiði. Þannig er að aðdráttarafl tunglsins hefur áhrif á fisk í vötnum og sjó þannig að þeir leita meira upp á yfirborðið og þá sérstaklega ef aðeins er tekið að rökkva og fullt tunglið nýtur sín á himninum. Í dag, 30.júní fæðist nýtt tungl og það verður orðið fullt aðfararnótt 15.júlí og því e.t.v. ekki úr vegi að taka seinni vaktina þann 14. og vaka aðeins lengur eða taka næst besta kostinn og vaka með fiskinum aðfararnótt laugardagsins 16.

Hítarvatn, 24. – 25. júní

Hér verður hvorki sögð frægðarsaga af veiðimönnum né konum. Við hjónin brugðum okkur bæjarleið á föstudaginn vestur í Hítarvatn. Veðurspáin sagði til um NA og A átt um helgina, létta metra á sekúndu og þokkalegasta hita. Við hreiðruðum um okkur í hraunjaðrinum austan við Hólm og vorum bara nokkuð heppinn að vera ekki alveg við vatnið, slík var nepjan sem stóð af vatninu. Brugðum okkur í vöðlurnar upp úr kl.21 og vorum að í Hrauntöngunum til að ganga eitt án þess að taka eitt einasta kvikindi á land. Jæja, laugardagurinn yrði bara betri.Við tókum daginn seint, notuðum morguninn í marga Latté og fylgdumst vel með þeim sem gengið höfðu inn fyrir hrauntunguna áður en við tókum okkur til. Þar sem töluverður asi virtist á veiðimönnum við vatnið og flest sem benti til að lítið væri um afla, ákváðum við að fara inn að víkinni undir Hólmanum. Höfðum farið í þá vík í fyrra og gengið ágætlega í svipaðri vindátt. Þrátt fyrir þokkalegar aðstæður var mjög lítið um líf, en eftir langa mæðu varð ég var með Orange Nobbler (stuttur) og það var einmitt lengdin á fiskinum sem ég krækti í og endaði pönnusteiktur með smjöri og sítrónupipar í kvöldverð. Síðar um kvöldið reyndum við aftur fyrir okkur, með spún sökum vinds, á töngunum undir Hólmi og tókum sitt hvorn fiskinn, ég áfram í smáfiskinum en konan tók tæplega pundara. Síðan ekki söguna meir, og líkur þar með veiðiþætti helgarinnar, ef undan eru skilin þau orð sem höfð eru eftir Finnboga í Hítardal að þetta vor væri það lélegasta í vatninu í það minnsta í fjögur ár. Okkur tókst að telja saman 12 fiska hjá þeim tæplega 20 veiðimönnum sem við sáum til og áttum orðastað við um helgina.

Heyrn

Ég er svo óheppinn að hafa ekki rakaraheyrn þ.e. geta skynjað hvað er sagt og brugðist við með réttum svörum án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað er verið að tala um. Ég annað hvort heyri allt eða ekkert, en ég er nú líka bara venjulegur maður. Fiskurinn aftur á móti heyrir og skynjar hvort sem honum líkar það betur eða verr. Buslugangur, steinaglamur og skellir í þungum flugum á yfirborðinu eru allt eitthvað sem fiskurinn heyrir með skynrákinni sem liggur eftir honum endilöngum og hann bregst við þessu. Stundandi vatnaveiði í grænu vöðlunum mínum (ég trúi því að grænt sjáist síður en grátt) hef ég oft upplifað það að fiskurinn syndir rétt við fætur mér án þess að skeyta nokkru um mig, svo fremi ég standi fastur í fæturna og ekki urgi í botngrjótinu. Já, allt í lagi, ef hann syndir rétt við fætur mér þá hef ég örugglega vaðið of langt en það er ekki punkturinn með þessu heldur sá að það er hægt að vaða varlega og af skynsemi þannig að fiskurinn fælist ekki, kasta létt þannig að flugan skelli ekki á yfirborðinu og skilja hundinn eftir heima (ef ég ætti hund). Við getum svo óhikað sest niður á bakkanum og rætt þetta frekar því fiskar heyra ekki mannamál niður í vatnið.

Ólýsanleg hegðun

Því hefur borið við að umgengni veiðimanna við vötn og ár hefur verið nokkuð ábótavant í gegnum tíðina og nú hafa borist fregnir af ólýsanlegri hegðun á Arnarvatnsheiði. Sjá frétt á Skessuhorni. Hér keyri algerlega um þverbak og hegðun sem þessi kastar rýrð á alla veiðimenn, því miður. Þessum veiðimönnum veitti ekki af smá tilsögn í mannasiðum og fiskflökun. Ef þessi aðilar skyldu slysast inn á þetta blogg mitt; vinsamlegast leitið ykkur aðstoðar sem allra fyrst. Fyrsta skrefið gæti verið að skoða neðangreint myndband á Youtube.

Meðalfellsvatn, 21.júní

Eins gott og veðrið var í höfuðborginni í gærkvöldi, var það ekki alveg eins stillt í Kjósinni. Þegar við hjónin mættum á svæðið upp úr kl.20 var strekkings vindur og ekki álitlegt að koma út flugu en við létum okkur hafa það og komum okkur fyrir rétt vestan við Hljóðasteina. Um leið og vindur fór að ganga niður tók fiskurinn við sér og frúin setti í flottan punds urriða með Pólskum Pheasant Tail. Sjálfur var ég í ungbarnaeftirlitinu, tók þrjá titti á Peacock, Pólskan PT og Rolluna. Töluvert af fiski að vaka en mér sýndist að við værum þau einu sem eitthvað tókum af þeim 3-4 sem voru á staðnum.

Veiðidagur fjölskyldunnar 26. júní

Veiðidagur fjölskyldunnar verður haldinn næstkomandi sunnudag, 26. júní. Þá gefst landsmönnum kostur á að veiða án endurgjalds í fjölmörgum vötnum víðsvegar um landið. Nú er lag að fara með alla fjölskylduna í eitthvert af þeim 27 vötnum sem boðið er í, ókeypis þennan veiðidag. Allar nánari upplýsingar eru á vef Landssambands stangveiðifélaga og í bæklingi þeirra um veiðidaginn sem má nálgast hér.

..gættu þinna handa

Lyktarskyn okkar er mismunandi, alveg óháð því hvort okkur þykir einhver ákveðin lykt góð eða slæm. Ég sjálfur t.d. forðast þrjár deildir í stórmörkuðum; snyrtivörurnar, þvottaefnin og ilmkertin, sný snarlega við og kíki í kjötborðið eða nammilandið. Að þessu leiti er ég ekkert ólíkur silunginum. Þegar við förum til veiða, hvort heldur í á eða í stöðuvatni eru nokkur atriði sem við ættum að hafa í huga og stilla okkur um að nota. Öll lykt af gerviefnum; línuhreinsiefnum, lími (t.d. epoxíð), ilmvatni, sápu, rakspíra og taumýki gera lítið annað vara silunginn við því að einhver aðskotahlutur er á ferli í vatninu. Lyktarskyn fiska er töluvert næmara okkar og til að nálgast upplifun silungsins þyrftum við bæði að þefa og smakka á því sem við ætlum að dýfa í vatnið til að vera viss um að ofbjóða ekki fiskinum. Öll ertandi lykt eða bragð eru ávísun á það að fiskurinn snúi upp á sig og syndi í öfuga átt, verum spör á rakspírann og ilmvatnið í veiðiferðunum og notum lyktarlausan handáburð ef línubruninn er alveg að gera út af við okkur.

Hlíðarvatn & Kleifarvatn 16.-18.júní

Eftir vel ígrundaða yfirferð allra mögulegra og ómögulegra veðurspáa ákvað veiðifélagið að smella sér í Hlíðarvatnið í Hnappadal þann 16.júní upp á þá von að vindstyrkurinn yrði ekki alveg sá sami og spáð var. Í stuttu máli; spárnar gengu eftir og vel það. Þrátt fyrir afleit skilyrði tóks veiðifélögum að særa upp eina 9 fiska, bleikjur og urriða rétt um pundið í landi Hraunholts. Einn tekinn á svartan og gylltan Tóbý, ein á Pólska Pheasant Tail (með koparkúlu og rauðum kraga) og restin á maðk.

Ferðakort

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með enn meira roki þannig að ákveðið var að renna í Borgarnes og taka veðrið þar. Þar sem við höfðum engan áhuga á að taka það veður með okkur, skildum við það bara eftir og ókum sem leið liggur (á ská með krókum) yfir Draga og í Svínadalinn ef ske kynni að lognið ferðaðist ekki eins hratt yfir á þeim slóðum. En, nei ekki varð sú raunin þannig að haldið var áfram fyrir Hvalfjörðinn, inn Kjósina og upp að Þingvallavatni sem lofaði góðu megnið af Grafningum. Hvað sem segja má um nýja svæðið á Veiðikortinu, Ölfusvatnsvík, þá er þetta nú ekki hlýlegasta svæði landsins þannig að við héldum áfram að Úlfljótsvatni (stutt stopp, samlokur og djús) og þaðan niður á Suðurlandsveg í átt til Reykjavíkur, en… sagan er ekki öll. Það er nefnilega hægt að skjótast af Suðurlandsveginum yfir í Krísuvík um Bláfjöll, sem við og gerðum. Næstum logn og blíða, hlýtt og hið ákjósanlegasta veður þannig að við komum okkur fyrir við Lambahaga, Vatnshlíðarmeginn og settum út færi. Eftir smá tilraunir með einhverjar flugur, endaði ég á því að setja Rolluna undir og viti menn, fjögurra punda bleikja greip tækifærið og festi sig kyrfilega á hjá mér en þar með er líka sögum af veiði að mestu lokið fyrir utan tvo titti sem gáfu sig veiðimönnum á vald í dag (18.) annar á svartan Buzzer en hinn á maðk. Trúlega eru þessir fiskar einhverjir dýrustu fiskar sumarsins, sé allt talið; veiðileyfi í Hlíðarvatni og bensínkostnaður tveggja bíla með fellihýsi í eftirdragi um meira eða minna allt suðvestur horn landsins, en gaman var þetta nú samt.

Draugagangur

Vindhnútar og svipusmellir í framkasti eru eins og draugar sem fylgja fluguveiðimanninum. En draugar þurfa ekki alltaf að vera okkur til ama. Ef við viljum ekki í sífellu vera að snúa okkur úr hálsliðnum til að fylgjast með línunni í bakkastinu getum við framkallað draug með því að telja (í hljóði) frá því við hefjum framkastið og þangað til línan hefur rétt fyllilega úr sér. Ef við teljum upp á nýtt í bakkastinu og höldum í okkur þar til sömu tölu er náð, þá finnum við fyrir drauginum taka örlítið í stöngina okkar. Þessi draugur er að segja okkur að línan hefur rétt úr sér og okkur sé óhætt að hefja framkastið með mun minni líkum á vindhnút eða svipusmelli. Með tíð og tíma hættum við að telja en höldum áfram að finna fyrir drauginum. Galdurinn er að það tekur línuna jafn langan, stundum lengri tíma að rétta úr sér í bakkastinu eins og í framkastinu.

Að aðlagast línunni

Hingað til hef ég haldið mig við eina stöng í silunginn, 9′ 5/6 með WF6-F línu og komið púpunum mínum niður með því að þyngja þær eða bögglast við að nota sökktaum. Hef raunar alltaf átt í basli með köstin og sökktauminn þegar slynkurinn tekur öll völd og flugan slæst í línuna ef hún kemst þá á annað borð eitthvað fram úr 12 fetunum. En nú hef ég verið að fikra mig áfram með nýja stöng, eilítið léttari með flotlínu nr.5 og sökklínu nr.4. Þetta hefur kallað á nokkrar breytingar á kaststílnum, sérstaklega fyrir WF4-F/S3 línunni, víðari bugur og hægari köst. Sökklína nr.4 sem ætti að vera léttari heldur en flotlína nr.6 virkar bara hreint ekki þannig þegar maður kastar henni, en með ofangreindum breytingum á kaststílnum gengur mér samt betur en með WF6-F og sökktaum. Væntanlega hefur þetta eitthvað með samræmi línunnar og sökkendans að gera, nokkuð sem mér hefur reynst erfitt að ná fram með flotlínu og sökktaum. Ef þér hefur gengið illa með flotlínu og sökktaum, prófaðu þá framþunga, hægsökkvandi línu með allt að 12′ sökkenda í vatnaveiðina.

Kleifarvatn, 12.júní

Báðar deildir veiðifélagsins fóru í Kleifarvatnið í gær. Byrjuðum undir Syðristapa (Indjánanum) í rjómablíðu þar sem konan fékk eitt högg og ég setti í einn titt á stuttan svartan Nobbler, aðrir ekkert. Enn og aftur má kvarta yfir veðrinu, það var allt of bjart. Síðari hluta dags tókum við okkur upp og fórum undir Vatnshlíðina miðja þar sem ég setti í tvo titti, annan á stuttan orange Nobbler en hinn á mjónu með gylltum kúluhaus. Veiðifélagarnir tóku tvo á maðk. Ég gerði mér nokkrar vonir um að fiskurinn gæfi sig þegar sólin fór að setjast á bak við Hellutinda, en það brást. Þegar við tókum okkur saman upp úr kl.22 var töluverður fjöldi veiðimanna mættur undir Vatnshlíðina og alveg inn í botn víkurinnar við Lambhaga þar sem fiskurinn (væntanlega tittir) sýndi listir sínar í yfirborðinu af miklum móð. Við hjónin teljum fullreynt með veiði í Kleifarvatni upp úr hádegi og frameftir degi. Annað mál með kvöld og miðnæturveiði ef eitthvað er að marka allt það líf sem var í vatninu á þessum slóðum rétt fyrir kl.23 í gær. Kannski við laumust eitthvert kvöldið í stillunni? 

Kartöflukastið

Þegar tíðarfarið er hryssingslegt og lítið um að vera í veiðinni leitar maður aftur að hnýtingarbekknum eða fer í huganum yfir kasttæknina, nokkuð sem maður ætti víst frekar að vera að hugsa um síðla vetrar, rétt fyrir tímabilið. Inniæfingar í fluguköstum eru nokkrum annmörkum háðar eins og gefur að skilja, en þar með er ekki sagt að öll sund séu lokuð. Það eru til nokkrar æfingar sem hægt er að taka í bílskúrnum án þess að hætta á að brjóta toppinn af stönginni. Ein þessara æfinga er ‚kartöflukastið‘. Ef fremra og/eða aftara stopp er ekki alveg nógu ákveðið hjá þér er ágætt að taka venjulega kartöflu (ósoðna) og stinga henni á venjulegan matargaffal. Vertu staðsettur c.a. bíllengd frá bílskúrshurðinni og haltu á gafflinum eins og flugustöng með olnbogann upp að síðunni og reistu framhandlegginn þannig að kartaflan nemi við augnhæð. Færðu höndina í aftara stopp og taktu gott framkast með ákveðnu stoppi. Markmiðið með æfingunni er að reyna að losa kartöfluna af gafflinum með fremra eða aftara stoppinu einu saman. Þegar þér svo tekst það, settu hana aftur á og nú aðeins dýpra og endurtaktu leikinn. Þetta hljómar auðvitað allt frekar sauðslega en merkilegt nokk, virkar ágætlega til að skerpa á köstunum.

Ripp, Rapp & Rupp

Þótt aðeins einn eða tveir fjölskyldumeðlimir eigi sér stangveiði sem áhugamál þýðir það ekki að aðrir fjölskyldumeðlimir geti ekki tekið þátt í dellunni, það sannaðist um daginn þegar yngri sonur minn laumaði að mér mjög ítarlegum leiðbeiningum að flugum sem hann tók sig til og hannaði.

Ripp, Rapp og Rupp - Höf: Nökkvi Kristjánsson

Með því að sameina aðal lestrarefnið sitt, sköpunargleði sína og einbeittan vilja til að koma mér á rétta braut í fluguhnýtingum urðu þeir bræður Ripp, Rapp og Rupp til á pappírnum með greinargóðum leiðbeiningum. Auðvitað lét ég á uppskriftina reyna og hér að ofan gefur að líta afraksturinn. Efniviðurinn er sóttur í marglitar föndurperlur sem límdar voru með tonnataki á hefðbundinn nymphukrók með stíflökkuðu flosi. Þessar verða örugglega með í boxinu í sumar.

Hausaveiðar

Hver kannast ekki við eftir nokkur köst með nýrri flugu að hausinn á henni fer að láta á sjá, jafnvel rakna upp? Í verstu tilfellunum var eins og kötturinn hefði gripið fluguna og tætta af henni vængi og kinnar. Þannig var því nokkuð farið með mig í það minnsta þegar ég var að byrja fluguveiði. Fyrst í stað fannst mér líklegast að ég væri að ofbjóða flugunum, sérstaklega þeim ódýrari sem ég keypti, en síðar fór ég aðeins að skoða betur hvernig fráganginum á hausnum á þeim væri háttað.
Oftar en ekki var lakkið sparað og jafnvel stóðu endar lélegra hnúta út úr. Þegar ég svo fór að hnýta sjálfur, var kominn upp á lagið með alvöru endahnút, staðsetti hann rétt á hausnum (aftast) og lakkaði gaumgæfilega yfir, þá fóru flugurnar mínar að endast betur. Með tíð og tíma náði ég síðan lagi með fínni hnýtingarþráð og þá smækkuðu hausarnir enn meira og auðveldara var að ná þéttu yfirborði á þá með færri umferðum lakks.

Kleifarvatn, 2.júní

Þrír fjórðu veiðifélaganna fóru í Kleifarvatn í dag. Ekki hægt að segja að ákjósanlegustu skilyrði hafi verið fyrir hendi, töluverður vindur og ekkert sérlega hlýtt. Ákváðum að byrja við hverasvæðið við Lambatanga undan vindi en urðum ekki vör við fisk. Færðum okkur síðan undir Innristapa (Stefánshöfða) og þar setti ég í einn urriða (titt) sem sleit sig af við löndun, kannski eins gott. Eftir að hafa barið vatnið í nokkurn tíma ákváðum við að renna norður fyrir vatnið undir Vatnshlíðina. Vorum frekar innarlega í smá tíma án þess að verða frekar vör. Eins og karlinn sagði um árið, það gengur bara betur næst.

E.S. ég játa að það vantar nokkrar ferðir á bloggið sem hafa verið farnar á bilinu 7.maí til dagsins í dag; 2 x Vífilsstaðarvatn, Meðalfellsvatn og Kleifarvatn. Kannski vegna þess að aflabrögð voru eins léleg og þau geta orðið, núll.