Killer

Ef efnt yrði til landsmóts flugna þá yrði Killer Þórs Nielsen á heimavelli á Þingvöllum. Um árabil hefur þessi fluga verið nefnd fyrst allra þegar spurt er um flugur í Þingvallavatn. Upphaflega hönnuð árið 1975 og síðan hafa komið jafnt og þétt nýir litir af henni þannig að nú þekkist hún svört, rauð, hvít, grá, orange, brún o.s.frv. Fjölbreytnin í kúlum er síðan óendanleg; gylltar, silfraðar, svartar, nefndu það bara og prófaðu.

Að veiða þessa flugu á Þingvöllum á að kosta afföll því ef þú veiðir hana ekki svo hægt að hún kraki í botninum annars lagið, þá ertu að veiða hana of hratt.

Killer – Rauður
Killer - Svartur: Júní,Júlí
Killer – Svartur

Höfundur: Þór Nielsen
Öngull: Hefðbundinn 8 – 10
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfurvír, fínn
Bak: Hvítt árórugarn (ull)
Búkur: Svart árórugarn
Kragi: Rautt globrite og svartur þráður
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
8,10 8,10

Hér að neðan gefur að líta myndband frá Ívari í Flugusmiðjunni þar sem hann hnýtir Killer:

Úlfljótsvatn, 3.sept.

Eftir erilsama viku í vinnunni er fátt betra heldur en smeygja sér í vöðlurnar, taka nokkur skref útí og baða flugur. Svona getur maður tekið jákvæða pólinn í hæðina þegar enginn fiskur kemur á land, ekki eitt einasta högg, en veðrið leikur við mann og haustlitirnir farnir að gægjast fram í náttúrunni. Annars hef ég grun um að Mosó gengið hafi bara gert nokkuð góða ferð í Hlíðarvatn í Hnappadal þrátt fyrir nokkurn vind og eru þau örugglega komin með tæplega 30 fiska á land þegar þetta er skrifað, og kvöldið eftir.

Uppfært kl.22:30 – Lokatölur Mosó gengisins í Hlíðarvatni urðu 78 stk. mest bleikja, allt tekið á maðk. Já, Hlíðarvatn í Hnappadal lætur ekki að sér hæða.

Kopar Moli

Koparflugur hafa sótt töluvert í sig veðrið síðustu ár og að sama skapi hefur útgáfum og útfærslum þeirra fjölgað verulega. Þekkt erlend er vitaskuld Copper John sem finnst í ótal afbrigðum, en íslenska koparflugan er vitaskuld Kopar Moli.

Koparflugur hafa gefið vel í vatnaveiði og andstreymis í straumi.

Flestar koparflugur eru tiltölulega einfaldar í byggingu og efnisvalið hreint og beint; öngull, koparvír, thorax-efni og kúla, ef vill.

Höfundur: Gísli J. Þórðarson
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Svartur/brúnn 8/0
Búkur: Koparvír
Kragi: Héri
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Opið í Hlíðarvatni

Sú skemmtilega nýbreytni stendur ungum veiðimönnum til boða að reyna fyrir sér í Hlíðarvatni í Selvogi núna á sunnudaginn, 4.sept. í boði veiðirétthafa vatnsins; Stangaveiðifélag Selfoss, Stangveiðifélag Hafnarfjarðar og Ármenn. Hlíðarvatnið hefur um margra ára skeið verið eitt gjöfulasta bleikjuvatnið í nágrenni Reykjavíkur og því tilvalið fyrir unga veiðimenn að reyna sig í vatninu. Fyrir þá sem hyggjast kíkja í vatnið er auðvitað tilvalið að renna yfir prýðis góða umfjöllun Ármanna frá árinu 2009 um vatnið sem má nálgast hér eða kíkja á mun styttri útgáfu hér á blogginu. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðum veiðirétthafa hér að ofan.

Krókurinn

Enn eitt meistarastykkið úr smiðju Gylfa Kristjánssonar. Einhver vinsælasta silungafluga hér á landi, veidd hvort heldur ein sér eða sem afleggjari (dropper). Hef heyrt því fleygt að hún hafi verið skírð í höfuðið á Jóni ‘Krók’ Bjarnasyni frá Húsavík sem fékk að sögn fyrstur að prófa þessa flugu.


Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Fasanafjaðrir
Stélkragi: Rautt dubbing (Crystal antron)
Búkur: Medium svart vinyl rib
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Á vormánuðum 2020 rættist langþráður draumur margra þegar Eiður Kristjánsson útbjó myndband af hnýtingu Króksins, hér að neðan má sjá Eið fara vel og vandlega yfir ferlið:

Langavatn, 27. ágúst

Jæja, ekki varð dagsferð veiðifélagsins nein frægðarför, en ágæt samt. Í stuttu máli; fjórar bleikjur á land, tvær hjá kvennadeild Mosó á maðk (eins ræfilslegan og unnt var) og sitt hvor hjá okkur hjónunum, Héraeyra og Dentist þ.e. flugurnar ekki við hjónin. Vorum staðsett vestan við vatnið, nærri útfalli Langár og skimuðum allt svæðið frá útfalli og inn að syðri enda Langavatnsmúla. Hvorki smár né stór urriði lét sjá sig þannig að alvöru tilraunaveiði með hrognaflugur verður að bíða betri tíma. Áhrif vatnsmiðlunar í Langá og þar með lífríkið í vatninu voru nokkuð sláandi, yfirborðið hefur lækkað um hátt á annan metra frá því að við voru við vatnið í lok júlí enda vatni veitt ótæpilega í ánna. Slíkar sveiflur í vatnshæð verða eflaust til þess að fiskurinn færir sig um set og velur sér síður hentug búsvæði heldur en ella. Kjörlendi stórurriða og kuðungableikju stóðu nánast á þurru og maður fer að hallast að því að ‘Langavatn var eyðilagt með vatnsmiðlunarstíflunni’ eins og kemur fram í Stangaveiðihandbókinni 2.bindi, bls.95 .

Smá uppfærsla á leiðarlýsinguna inn að vatninu að vestan; án fellihýsis vorum við ekki nema 40 mín. frá Fjallgirðingunni inn að vatninu. Munaði þar mestu um að búið er að lagfæra veginn á verstu köflunum ofan við vaðið á Langá. Væntanlega hefur veiðifélagið annast þessar lagfæringar þar sem slóðinn þjónar veiðistöðum 81 og uppúr.

Hrognaflugur

Þegar haustið nálgast og silungurinn fer að taka á sig riðbúning opnast alveg nýr heimur fyrir veiðimanninum. Atferli fisksins tekur breytingum, urriðinn verður grimmari og bleikjan hópar sig í vötnunum.  Fram að hrygningu er urriðinn sérstaklega sólginn í hrogn, jafnt eigin tegundar og annarra.

Hrognafluga úr antron

Í nýlegri veiðiferð varð ég vitni að þessu atferli svo um munaði og varð hugsað til þess að lítið hefur farið fyrir svo kölluðum hrognaflugum hér á Íslandi. Erlendis hafa menn notað léttar, í það minnsta léttari stangir og flotlínu í þessa veiði og auðvitað flugur. Þær flugur sem ég hef skoðað eru allar nokkuð keimlíkar; appelsínugulur hár/garn bolti á hefðbundnum stuttum öngli, þyngdar eða ekki. Auðvitað eru síðan til listaverk sem menn hafa dundað sér við að útbúa úr plastefnum, fljótandi eða föstum sem ná ótrúlegri líkingu við hrogn.

Hrognafluga úr plastefni

Hvort þessar flugur höfði eitthvað til urriðans í líkingu við raunverulegar hrognabrækur þori ég ekki að fullyrða en sjálfsagt er að hnýta nokkrar svona og taka með í veiðina þar sem urriða er von núna í haust. Nú, ef maður nær ekki tökum á svona hárboltum, þá má alltaf taka með sér stuttan orange Nobbler. Kannski er hér einmitt komin skýringin á því að urriðinn tekur það ólíkindatól. Eins og ég gat um áður er nokkuð misjafnt hvort menn þyngja hrognaflugur eða veiða þær við yfirborðið, en það er tiltölulega auðvelt að fela þyngingu undir bústnum búk hennar. Stærðirnar eru, sýnist mér frá #10 og niður í #16.

Red Tag

Merkileg fluga sem á uppruna sinn að rekja til Englands kringum 1850, hálft skordýr, hálft viðrini. Frá fyrstu tíð hefur þessi fluga verið veiðimönnum hin besta skemmtun og silunginum banvæn. Það er nokkuð misjafnt eftir heimshornum hvaða skordýri menn telja hún líkjast helst; Ástralir segja hana líkjast ákveðinni bjöllu sem þar finnst, Bandaríkjamenn flugu sem ég þori ekki að nefna á íslensku en Skotar segja hana líkjast lífvörðum hennar hátignar, Englandsdrottningar.

Hvað sem þessu líður hefur þessi fluga gefið vel í gegnum tíðina og sjálfsagt að koma uppskrift af henni hér inn.

Höfundur: Martyn Flynn
Öngull: Hefðbundin 10 – 18
Þráður: Svartur/brúnn 8/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Peacock herl
Kragi: Ljós-rauð hanafjöður, hringvafin
Haus: Lítill

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hlíðarvatn, Hnappadal 20. & 21. ágúst

Það er viss hefð fyrir því hjá veiðifélaginu að taka eina helgi í ágúst við Hlíðarvatn og nú sem áður varð Menningarnæturhelgin fyrir valinu. Mosó mætti á staðinn síðdegis á föstudag og tók til óskiptra málanna fram í myrkur við að særa upp fiska með maðk á floti. Alveg þokkaleg viðbrögð og nokkrir fallegir fiskar lágu í kæli eftir kvöldið. Reykjavíkurdeildin mætti það seint á staðinn að stangirnar voru bara látnar hvíla sig eftir ferðalagið.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Laugardagurinn rann upp, ekki alveg eins fagur og hér á myndinni en þokkalegur samt. Nokkur vindur þannig að flugunum var leyft að sofa frameftir. Ekki var alveg eins mikið líf í tuskunum og kvöldið áður, en mér tókst samt að særa upp þrjá urriða á spún við Stjánaströnd. Þegar vind stillti eftir hádegið voru flugurnar vaktar og þær settar í vinnu. Við hjónin tókum svolítið bland í poka á Peacock og græna og orange Nobbler, bleikjur og urriða fram að og eftir kvöldmat en brósi fór alveg á kostum með hrogn á floti og reif upp rúmlega 20 urriða á stuttum tíma inn af Tótutanga. Úrræðagóður strákurinn í maðkaleysinu. Nú er bara að kynna sér hrognafræðin.

Sunnudagurinn, eða Stóri-Bleikjudagurinn eins og hann verður kallaður hér eftir, rann upp fyrir okkur hjónum um 7:30 með yndislegu veðri, hita, algjöri stillu og fiskum að vaka undan Lárulág. Jú, við hjónin drifum okkur í vöðlurnar og ætluðum aðeins að stríða þessum tittum sem voru að vaka, en svo kom áfallið. Þetta voru bara ekkert einhverjir tittir, heldur heilu torfurnar (50-80 stk. pr. torfu) af bleikju sem dreifðu sér með reglulegu millibili við ströndina í aðeins ökkladjúpu vatni. Við fyrstu skref út í vatnið varð það eins og suðupottur á að líta þegar styggð komst að fiskinum. Bleikjan var greinilega farinn að hópa sig fyrir hryggningu enda flestir fiskarnir farnir að taka á sig riðbúning, misjafnlega mikið þó og fáir svo mikið að þeir sýndu flugu ekki áhuga. Svo mikill var atgangurinn og veiðin að við hjónin vorum fljót að fá nægju okkar og settum okkur því reglu; aðeins mátti taka tvo fiska á hverja tegund flugu, þá varð að skipta. Með þessu náðum við ágætri yfirsýn og reynslu með misjafnar flugur í bleikjuna; flestar gáfu í 1 – 3 kasti, fáar ekki. Stuttur listi yfir þær flugur sem gáfu gæti verið; Peacock í öllum mögulegum stærðum og útfærslum (yfirburðir), Ripp, Rapp, Rupp, Davy Jones, Knoll, Connemara Black, Watson’s Fancy púpa, Mobuto, Tailor, hefðbundið og flashback Héraeyra. Þegar svo Mosódeildinn reis úr rekkju toppaði mágkonan ferðina með því að taka sína fyrstu fiska á flugu og þótti það sko ekki leiðinlegt. Allir prófuðu eitthvað nýtt, gerðu tilraunir með flugur, breytilegan inndrátt og æfðu sig í að bregðast við naumum tökum bleikjunnar; sannkallaður fluguveiðiháskóli.

Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að aðeins fór að draga úr veiðinni og maður þurfti að hafa aðeins meira fyrir hverjum fiski en veiðin hélst alveg fram undir kvöldmat þegar mál var komið að pakka saman og koma sér heim. Eitthvað fór talning afla á milli daga í rugl, en samtals afli var eitthvað á þá leið að Mosó var með 42 fiska, mest urriða og töldu þar mest 25 stk. á hrogn. Reykjavíkurdeildin var með 7 urriða og 54 bleikjur, samtals 61 fisk. Allt fiskar af ágætri ‘matfiska stærð’, tæpt pund og upp í tvö. Hér eru ótaldir allir fiskar sem var sleppt eða sluppu. Toppur sumarsins.

Mobuto

Þegar ég hóf fluguveiði heyrði ég mikið tala um Mobuto, Móbútú, Móbútó og svo mætti lengi telja. Þegar á hólminn var komið og ég ætlaði að versla mér kvikindið sem svo mikið var dásamað, þá kom babb í bátinn. Næstum allar flugur sem búnar voru til úr vínil rippi með einhvers konar kraga, með og án kúlu hétu Mobuto.

Til að lauma hér inn lýsingu og festa einhvera mynd á dýrið, þá ákvað ég að taka mark á ‘Silungaflugur í náttúru íslands’ og halda mig við þá flugu sem Mobuto. Aftur á móti hef ég fengið þau skilaboð frá þekktum veiðimönnum hér á síðuna að allt sem útbúið er úr vinil sé Mobuto, einfalt og gott.

Höfundur: Skúli Kristinsson
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Svart vínil rib
Kragi: Svart dub
Vængur: Hvítar antron lufsur
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Mýsla

Mýsla Gylfa Kristjánssonar er sífellt að vinna sér fastari sess hjá veiðimönnum. Hún er sögð fyrsta kúpuflugan sem er hönnuð á Íslandi og sé það rétt þá er hún væntanlega kominn nokkuð til ára sinna.

Í fyrstu var hún aðeins fáanleg á einkrækju fyrir silunginn en hefur síðan stækkað og er nú fáanleg á þríkrækju fyrir laxinn sem hún ku æsa óhóflega. Lag Mýslunnar er þannig að hún snýr öfug í vatninu og festist því síður í botni heldur en ella.

Lita samsetning flugunnar er nokkuð kunnugleg, þegar kemur að silungi; svart, rautt og silfrað.

Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Rauður 8/0
Broddur: Silfur tinsel vafið beint á öngulinn
Vængur: Svört andarfjöður*
Kragi: Rautt dub
Haus: Vaskakeðja í yfirstærð m.v. öngul

* Hér verð ég víst að setja varan á, ég nota svarta andarfjöður án þess að vita fyrir víst að Gylfi hefði samþykkt það.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Ívar í Flugusmiðjunni tók þessa flugu til kostanna, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan:

Urriði á þurrflugu

Það eru tvennir tímar þegar maður leggst í flakk um YouTube og Vimeo; þegar veðrið er leiðinlegt og á meðan veturinn ríkir. Hér er ansi skemmtileg klippa frá Hrafni Ágústssyni sem ég rakst á í dag og sjálfsagt að vekja smá athygli á henni.

Chromie

Þessi fluga á að líkja eftir því lífsstigi lirfunnar þegar hún býr sig undir að losa festar og syndir upp að yfirborði vatnsins og umbreytist í flugu. Silfuráferð hennar líkir eftir glampa húðar lirfunnar ný skriðinnar út, sannkallað ferskmeti fyrir silunginn.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Grupper 8 – 20
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Silfur tinsel
Vöf: Brúnt silki eða fínn ullarþráður
Kragi: Peacock herl utan um vænan skammt af blýþræði
Haus: Hvít plastkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Kleifarvatn, 13. ágúst

Það var engin frægðarför hjá veiðifélaginu í Kleifarvatnið í dag, allir núlluðu fyrir utan frúnna sem tók einn titt undir Lambhaganum á Peacock. Annars byrjuðum við á nokkuð skemmtilegum stað innan við Geithöfða en stoppuðum stutt þar sem töluverður vindur setti öll köst úr lagi. Eigum samt örugglega eftir að prófa þann stað síðar, stutt í dýpið þar sem spekingarnir segja að þeir stóru haldi sig.

Buzzer

Hér er ekki um einhverja eina flugu að ræða, heldur flóru af flugum sem eiga í 95% tilfella allt sameiginlegt. Svartur er hann trúlega einhver öflugastur buzzera, þ.e. flugna sem apa eftir púpustigi mýflugunnar. Þessi fluga er afskaplega einföld í hnýtingu; þráður, vír, kinnar og lakk. Ef þú vilt vera örlátur þá getur þú bætt við kúluhaus.

Þegar ég byrjaði fluguveiðar fannst mér ótrúlegt að þetta litla kvikindi gæti veitt eitthvað þannig að ég lét alveg eiga sig að prófa hana. En svo lærir lengi sem lifir og þegar ég gaf henni sjéns í upphafi vertíðar (kalt vor) þá sannaði hún sig fyllilega fyrir mér.

Höfundar: óteljandi
Öngull: Legglangur, jafnvel grubber 10 – 18
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Silfur eða koparvír
Kinnar: Tinsel / biots
Haus: Kopar- eða stálkúla eftir geðþótta, eða bara ekkert.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Hér gefur svo að líta leiðbeiningar frá Davie McPhail hvernig hann hnýtir Buzzer:

Úlfljótsvatn, 9.ágúst

Skyndiákvörðun og skreppur í Úlfljótsvatnið rétt fyrir kvöldmat hjá okkur hjónunum. Ákváðum að prófa inn af Steingrímsstöð og ekki sveik staðurinn mig. Tók eina hálfs annars punda bleikju á Knoll og svo tvo titti sem fengu líf. Einn mínus í ferðinni, það gerði nokkuð góðan austan strekking sem eyðilagði aðeins köstin hjá okkur þannig að við færðum okkur í sunnanvert vatnið gengt Brúarey á leiðinni heim. Töluvert líf á þeim slóðum og nokkrir veiðimenn. Frúin setti í einn titt á Pólskan PT, en meira varð nú ekki úr veiðinni.

Hatch

Smá klippa úr væntanlegri mynd frá Gin Clear Media sem kemur á markaðinn innan skamms. Þetta er virkilega eitthvað sem mann hlakkar til að skoða í fullri lengd.

Knoll

Afbrigði, eða ekki, af Krókinum, Ölmu Rún eða hvað þær nú heita allar sem eru búnar til úr vinyl með einhvers konar skotti. Ég rakst á mynd af svipaðri flugu á netinu rétt upp úr 2008 og þar var hún sögð heita Krókurinn, sem var hreint ekki sá Krókur sem við þekkjum. Þegar ég leitaði eftir réttu nafni á þetta kvikindi á netspjallinu veidi.is (sem var og hét hér í denn) þótti góðum manni víst nóg um og lagði til að hún héti bara Knoll og annað kvikindi af sama meiði fengi heitið Tott. Nú er svo komið að Tott er löngu glataður, en Knoll hefur alltaf verið til í nokkrum eintökum í boxunum hjá mér og gefið nokkra fiska.

Það að setja hana hér inn er frekar fyrir mig sjálfan gert, bara þannig að ég gleymi ekki að hnýta nokkur eintök af þessari einföldu en virku flugu.

Höfundur: Kristján Friðriksson, þangað til annað kemur í ljós
Öngull: Hefðbundinn 10-12 púpukrókur
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Neon UNI-Floss Hot Red
Vöf: Fínn koparvír
Búkur: Nymph Vinyl Rib (fínt)
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12 10

Black Zulu

Einhver sagði; Líkist öllu en samt engu. Klassísk silungafluga sem enginn í raun veit hvers vegna fiskurinn tekur, en við vitum nú ekki heldur hvers vegna urriðinn tekur orange nobbler. Þessi er beinlínis ómissandi í vatnaveiðina, ennþá uppáhalds fluga margra þrátt fyrir dvínandi vinsældir síðari ár.

Oftast sér maður hana hnýtta eins og hér er sýnt, því sem næst original, en svo hafa menn breytt henni eftir eigin höfði, eins og gengur.

Sjálfur á ég hana með orange skotti, meira að segja með peacock fjöðrum í búk og svo má lengi telja.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8 – 14
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Svört ull hringvafinn hanafjöður
Vöf: Ávalt silfur tinsel eða vír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 8,10,12,14

Hér gefur síðan að líta alveg ágætis leiðbeiningar að því hvernig hnýta skal Black Zulu:

Úlfljótsvatn, 7.ágúst

Meðan verkefnastjórinn gekk frá lausum endum eftir Sumar á Selfossi skapp ég í Úlfljótsvatnið frá kl.13:30 – 17. Gríðarlega flott veður, sólskin og steikjandi hiti og mér kom í raun ekki til hugar að fiskurinn mundir gefa sig í þessu veðri. En, það var nú öðru nær. Mikið líf með bleikjunni úti í dýpinu inn af Steingrímsstöð, nældi í eina um pundið en gekk erfiðlega að fá fleiri til að bíta fast. Flugan sem gaf er af nokkuð þekktum meiði; svart vínil rib á hefðbundinn öngul, ‘Hot Red’ neon floss skott, fíngerður koparþráður á milli vafninga og svo koparhaus til að setja punktinn yfir i-ið. Einhver lagði til að kvikindið fengi nafnið Knoll og svo sjáum við til hvort Tott komi ekki við sögu seinna. Mjög sáttur eftir daginn.

E.S. í þetta skiptið mundi ég eftir einhverju af húsráðunum og setti væna slummu af Vick’s VapoRup á bak við bæði eyrunn og undir nasirnar. Og viti menn, það dugði, ekki eitt einasta flugnabit.