Hatch

Smá klippa úr væntanlegri mynd frá Gin Clear Media sem kemur á markaðinn innan skamms. Þetta er virkilega eitthvað sem mann hlakkar til að skoða í fullri lengd.

Knoll

Afbrigði, eða ekki, af Krókinum, Ölmu Rún eða hvað þær nú heita allar sem eru búnar til úr vinyl með einhvers konar skotti. Ég rakst á mynd af svipaðri flugu á netinu rétt upp úr 2008 og þar var hún sögð heita Krókurinn, sem var hreint ekki sá Krókur sem við þekkjum. Þegar ég leitaði eftir réttu nafni á þetta kvikindi á netspjallinu veidi.is (sem var og hét hér í denn) þótti góðum manni víst nóg um og lagði til að hún héti bara Knoll og annað kvikindi af sama meiði fengi heitið Tott. Nú er svo komið að Tott er löngu glataður, en Knoll hefur alltaf verið til í nokkrum eintökum í boxunum hjá mér og gefið nokkra fiska.

Það að setja hana hér inn er frekar fyrir mig sjálfan gert, bara þannig að ég gleymi ekki að hnýta nokkur eintök af þessari einföldu en virku flugu.

Höfundur: Kristján Friðriksson, þangað til annað kemur í ljós
Öngull: Hefðbundinn 10-12 púpukrókur
Þráður: Svartur 8/0
Skott: Neon UNI-Floss Hot Red
Vöf: Fínn koparvír
Búkur: Nymph Vinyl Rib (fínt)
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12 10

Black Zulu

Einhver sagði; Líkist öllu en samt engu. Klassísk silungafluga sem enginn í raun veit hvers vegna fiskurinn tekur, en við vitum nú ekki heldur hvers vegna urriðinn tekur orange nobbler. Þessi er beinlínis ómissandi í vatnaveiðina, ennþá uppáhalds fluga margra þrátt fyrir dvínandi vinsældir síðari ár.

Oftast sér maður hana hnýtta eins og hér er sýnt, því sem næst original, en svo hafa menn breytt henni eftir eigin höfði, eins og gengur.

Sjálfur á ég hana með orange skotti, meira að segja með peacock fjöðrum í búk og svo má lengi telja.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8 – 14
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Rauð ull
Búkur: Svört ull hringvafinn hanafjöður
Vöf: Ávalt silfur tinsel eða vír

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14 8,10,12,14

Hér gefur síðan að líta alveg ágætis leiðbeiningar að því hvernig hnýta skal Black Zulu:

Úlfljótsvatn, 7.ágúst

Meðan verkefnastjórinn gekk frá lausum endum eftir Sumar á Selfossi skapp ég í Úlfljótsvatnið frá kl.13:30 – 17. Gríðarlega flott veður, sólskin og steikjandi hiti og mér kom í raun ekki til hugar að fiskurinn mundir gefa sig í þessu veðri. En, það var nú öðru nær. Mikið líf með bleikjunni úti í dýpinu inn af Steingrímsstöð, nældi í eina um pundið en gekk erfiðlega að fá fleiri til að bíta fast. Flugan sem gaf er af nokkuð þekktum meiði; svart vínil rib á hefðbundinn öngul, ‘Hot Red’ neon floss skott, fíngerður koparþráður á milli vafninga og svo koparhaus til að setja punktinn yfir i-ið. Einhver lagði til að kvikindið fengi nafnið Knoll og svo sjáum við til hvort Tott komi ekki við sögu seinna. Mjög sáttur eftir daginn.

E.S. í þetta skiptið mundi ég eftir einhverju af húsráðunum og setti væna slummu af Vick’s VapoRup á bak við bæði eyrunn og undir nasirnar. Og viti menn, það dugði, ekki eitt einasta flugnabit.

Fluguna í ruslið

Að velja flugu, leggja hana fram og koma henni langt út eru allt gild atriði sem við viljum hafa í huga þegar við veiðum. Eitt atriði til viðbótar sem vill þó oft gleymast er; koma flugunni á réttan stað. Það geta verið margar ástæður fyrir því að við viljum koma flugunni okkar á einhvern ákveðinn stað. Kannski leynist fiskurinn við stein, kannski liggur hann þétt við gróðurfláka eða undir bakkanum þannig að við verðum að gæta vel að framsetningunni svo við eigum ekki á hættu að tapa flugunni, styggja fiskinn og þá missa af honum. Þá getur ruslakarfan komið að góðum notum. Prófaðu að fara út á grasflötina með ruslafötuna eða nýttu ferðina þegar þú ferð út með ruslið og gríptu stöngina með þér. Að stilla fötunni upp, merkja sér 4, 6, 8 & 10 metra fjarlægð frá henni, taka nokkur lauflétt köst þangað til að þú nærð því að láta fluguna detta niður í fötuna geta sparað þér mikið angur í veiðinni og gert hana enn meira spennandi en ella. Mundu bara að ofgera ekki æfingunum, oftar og stutt í einu er betra en lengi og sjaldan.

Göslarinn veiðir líka

Göslarinn veiðir líka þegar hann veður út frá bakkanum, hræðir fiskana á undan sér, hendir beitunni út og göslast aftur upp á bakkann, setur stöngina í letingjann og bíður, en…… svæðið sem fiskurinn heldur sig á meðan kyrrð og ró hvílir yfir vatninu er mjög lítið m.v. það svæði sem hann kýs sér sem öruggt skjól verði hann fyrir áreiti. Það er í eðli silungsins að leita út frá bakkanum, út í dýpið ef hann styggist. Hann víkur sér ekki til hliðar, færir sig um nokkra metra og leggst þar fyrir, hann leitar út í öryggið og þar með stækkar svæðið verulega sem hann getur leynst í og veiðimaðurinn þarf að auglýsa agnið sitt á. Nákvæmlega sömu reglur eiga við fluguveiði, við getum þurft að halda kyrru fyrir í töluverðan tíma þar til fiskurinn kemur aftur inn á yfirráðasvæði okkar ef við förum ekki varlega.

Langavatn, Borgarbyggð 30.-31.júlí

Þrátt fyrir frekar óheppilega veðurspá ákvaðum við hjónin að skreppa í Langavatnið á laugardaginn. Eitthvað lét ævintýraþráin á sér kræla þannig að við ákváðum að prófa vatnið að vestan í þetta skiptið, nokkuð sem okkur hefur langar í töluverðan tíma. Fyrir þá sem hug hafa á þessari leið, þá eru hér helstu tölur og lýsingar. Frá Borgnesi að afleggjaranum að Grímsstöðum [535] eru 9 km. Næstu 13 km. eru eftir [535] og inn á [536] að Grenjum þar sem beygt er inn á slóða við Fjallahlið. Frá hliðinu, meðfram Langá, framhjá Sandvatni og inn að stíflu við Langavatn eru síðan 11 km. eftir mis lélegum slóða þar sem skiptast á brekkur, óræstir lækir með nokkuð krappri aðkomu. 4×4 vegur þar sem lágadrifið kom sér vel með fellihýsið í eftirdragi. Þessi síðasti spotti tók 1 klst. í akstri.

Smelltu fyrir stærri mynd

Langavatn tók á móti okkur með blíðu sem hvergi var getið í veðurspá og við þóttumst himinn höndum tekið, en fljótlega gekk þó á með skúrum og nokkrum vindi þannig að flugu varð vart komið út.

Sunnudagurinn rann upp með töluverðum blæstri og ljóst að ef við ætluðum að krækja í einhvern fisk yrðum við að taka fram kaststangir og spún sem við og gerðum. Eftir nokkurn barning varð ég var við einhvern óróa á spúninum sem reyndist vera 15 sm. ungviði sem kokgleypti þríkrækjuna þannig að honum varð ekki hugað líf. Eitthvað dró þetta úr áhuga mínum en hélt þó áfram.

Smelltu fyrir stærri mynd

Næsta taka var heldur hressilegri, ákveðið, þungt og tekið vel út af hjólinu, bremsan sett á. Eftir 5 mín. sýndi fiskurinn sig og fór ég þá með bænirnar mínar að 6 punda girnið mitt héldi. Næstu 5-10 mín. fóru síðan í að skiptast á inndrætti og eftirgjöf á bremsu sem lauk með því að á land kom þessi líka flotti urriði, 8 pund og 65 sm. Nokkru síðar setti konan í smábleikju sem fékk líf og þar á eftir tók ég eina rúmlega pund.

Um kvöldið gáfum við upp alla von að vindinn, sem hafði aukist verulega lægði eitthvað, tókum saman og fikruðum okkur heim á leið. Hvorugt alveg sátt við að fara að svo komnu máli því við sáum til fleiri bolta urriða á svæðinu og hefðum gjarnan viljað spreyta okkur við þá með flugu. Já, talandi um flugu. Þegar lygndi var nóg af flugu á svæðinu og ég fékk eins og venjulega að kenna á því. Í þetta skiptið hefði ég getað leikið staðgengil Rocky með bólgið auga eins og eftir hnefaleikakeppni. Já, það er til einhvers að telja upp öll möguleg ráð gegn flugnabiti og gleyma svo öllu draslinu heima.

Bitch Creek Nymph

Bitch Creek Nymph

Engin smá fluga á ferðinni hérna. Þó þessi fluga hafi upphaflega verið hönnuð sem eftirlíking steinflugulirfu hefur hún sannað sig allan ársins hring bæði í silung og lax. Fyrir laxinn er hún að vísu hnýtt stór #2 og #4 en fyrir silunginn í stærðum 10 – 16.

Sérstakar hreyfingar flugunnar vegna gúmmílappanna eru sagðar trylla silunginn og æsa hann til töku.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Legglangur 10 – 16
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Tvær hvítar gúmmílappir
Búkur: Samofið brúnt og orange chenille (splittað fyrir minni flugur)
Frambúkur: Svart chenille vafið með brúnni söðulfjöður
Haus: Tvær hvítar gúmmíræmur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Hafðu augun hjá þér

Að vera vel glerjaður er eitt af lykilatriðum veiðinnar. Góð polaroid gleraugu eru ekki aðeins til varnar afvegaleiddum veiðiflugum, heldur og gefa okkur möguleika á að sjá niður í vatnið. Þeir sem nota styrkt gleraugu geta keypt polaroid clips á venjuleg gleraugu eða veiðigleraugu með styrk. En það er ekki allt fengið með gleraugunum. Ef við látum það eftir okkur að hætta að skima eftir fiskinum sjálfum þá eru nokkrar líkur á því að við komum enn frekar auga á hann. Hljómar svolítið öfugsnúið en við eigum trúlega mun auðveldara með að koma auga á skugga fisksins heldur en hann sjálfan. Skyggnumst niður í vatnið og svo aðeins neðar, leitaðu á botninum að skugga sem hreyfist, eða ekki. Ef fiskurinn tekur snöggan kipp þá fer það ekkert framhjá þér, glampi, skuggi á botninum og þú nærð miði á hann.

Beykir

Hvort Gylfi Kristjánsson hafi haft geitung í huga eða ekki þegar hann hannaði þessa flugu þori ég ekki að fullyrða, en einhverjir veiðimenn fullyrða að þar sem geitungur er á ferðinni, þar virki Beykir best. Hitt veit ég að aflatölur úr nokkrum vötnum gefa til kynna að hér sér á ferðinni afskaplega veiðin fluga sem er vel þess vert að prófa.

Þegar horft er á þessa flugu, þá er eiginlega eitt, en þó tvennt sem vekur eftirtekt. Skegg flugunnar er óvenjulega langt, það nær eiginlega jafn lagt aftur og skottið á Krókinum, þ.e.flugunni. Hitt sem er eftirtektrarvert er einfaldlega það að skeggið er bara hreint ekki skegg, það er eiginlega vængur því það er hnýtt á hlið flugunnar, ekki undir.

Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Svartur 8/0
Búkur: Svart vínil rib
Vöf: Gulur / grænn silkiþráður
Kragi: Brúnleitt dub (krystal anthron)
Skegg: löng, svört gæsafjöður
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14,16

Eiður Kristjánsson útbjó mjög svo heiðarlega útgáfu af Beyki og setti á netið:

Pólskur Pheasant Tail

Hér er alveg bráðskemmtilegt afbrigði af Pheasant Tail flugunni víðkunnu sem Skotinn Davie McPhail setti á netið fyrir nokkrum árum (sjá klippu hér að neðan). Þessi fluga hefur heldur betur gert góða hluti og ég mæli eindregið með því að menn prófi þessa. Sjálfur legg ég mikla áherslu á að nota kúlu úr kopar, ekki gyllta, því flugan virðist veiða því betur sem meira samræmi er í lit hennar og auðvitað verður koparvírinn að ráða. Ég hef verið óhræddur að yfirspekka kúluna um eina stærð til að þyngja hana vel.

Að veiða þessa flugu eins og venjulega votflugu hefur gefið konunni minni flesta fiska, mér gefur hún best ef ég dreg hana lötur hægt eftir botninum, stutt í hverju togi.

Höfundur: Davie McPhail
Öngull: Hefðbundin 8 – 16
Þráður: Rauður 8/0
Skott: Fanir í stélföður hringfasana
Vöf: Koparvír
Kragi: Brúnleitt dub úr héra
Haus: Koparkúla

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
10,12,14,16 10,12,14

Peacock og bræður hans

Þegar kemur að eftirlíkingum vorflugulirfunnar (Caddis) eru fáar sem standast Peacock Kolbeins Grímssonar snúninginn. Ég ætla ekkert að fara út í fæðingarsögu Peacock, það hefur verið gert oft og víða. Þess í stað langar mig aðeins að skoða fyrirmyndina, vorflugulirfuna og mismunandi birtingarmyndir hennar.

Caddis on the rock a`la Hlíðarvatn

Af Peacock Kolbeins hafa með tíð og tíma orðið til ótal afbrigði, öll með það að markmiði að líkja eftir lirfunni á mismunandi vaxtaskeiði. Þannig er að lirfan skiptir mjög um lit eftir vaxtaskeiði og efnisvali í hús sitt. Efnisvalið er jafn fjölbreytt og vötnin eru mörg, helst notar lirfan þó smásteina og jurtaleyfar sem finnast á botninum en einstaka sinnum tekur hún þó til handargagns kuðunga og skeljar í næsta nágrenni.

Jurtaleyfar

Það hafa fleiri góðir hnýtarar spreytt sig á Caddis eftirlíkingum. Í þeirri ágætu bók, Silungaflugur í íslenski náttúru má finna frábærar eftirlíkingar Engilberts Jensens (Fellspúpan, Cased Caddis), Sigurbrands Dagbjartssonar (Vorflugulirfa) og Sveins Þórs Arnarssonar (Vorflugulirfan).

Og hver segir að Héraeyrað eða Pheasant Tail með kúluhaus séu ekki líkar vorflugupúpu ef því er að skipta?

Skeljar

Hvort sem menn hnýta ígildi lirfunnar sjálfrar, þ.e. appelsínugula/rauða rönd á hann eða ekki, þá virðist galdurinn oft vera sá að eiga nokkur afbrigði. Sjálfur hef ég veitt á afbrigði sem skorti alla litadýrð, enginn kragi, ekkert skott, aðeins hvítur broddur. Hvítur broddur?

Jú, á ákveðnu vaxtarstigi er lirfan í húsinu hvít, ekki rauð eða appelsínugul og það veit silungurinn mun betur en við.

Móberg

Við getum aðeins leikið okkur að litasamsetningum með því að byggja undir búkinn með litaðri ull og spara þá fjölda Peacock fjaðranna m.v. original Peacock. Litur undirlagsins kemur þá aðeins í gegnum fjaðrirnar og breytir hinum klassíska græn-brúna lit Peacock í léttari eða skærari litatón.

Ef við svo veljum upp úr fluguboxinu okkar m.v. sandinn á botnum, smásteinana eða jurtaleifarnar, þá erum við e.t.v. nokkru nær því að plata silunginn.

Líparít

Þó Peacock sé hér heima þekktasta eftirlíking vorflugupúpunnar, þá hafa menn úti í hinum stóra heimi auðvitað líka hermt eftir henni. Afbrigðin og efnisvalið er svo fjölbreytt að stofna mætti sérstakt blogg um samsetningarnar einar og sér. En allar eiga þær þó sömu fyrirmyndina, eftirhermur mismunandi byggingarefnis og þess hvort lirfan sé að kíkja út úr húsinu eða ekki.

Og ekki gleyma því að vorflugan verpir ekki aðeins í stöðuvötnum heldur einnig ám og lækjum; Peacock veiðir alls staðar.

Einkavatn, 25.júlí

Ekki lék nú lánið við mig eins og konuna í kvöld. Við skruppum í vatn sem ekki má nefna eftir kvöldmat. Ekki leið á löngu þar til frúin tók einn vænan, ég aftur á móti missti tvo og sleppti tveimur unglingum. Kom samt nokkuð sáttur heim, frábært að komast út eftir erilsaman dag í vinnunni, tæma stressið og hlaða batteríið fyrir morgundaginn.

Fæðuvandamál

John Hurt sem Fílamaðurinn

Mýflugan er undirstöðufæða silungsins. Ég virðist vera ein af undirstöðufæðu mýflugunnar eða þannig leið mér í það minnsta eftir ferð upp að Úlfljótsvatni um daginn. Hefði endurgerð Fílamannsins verið á döfinni hefði ég örugglega komið sterklega til greina sem staðgengill John Hurt í aðalhlutverkið, slíkar voru bólgurnar sem tóku sig upp hjá mér eftir ferðina. Í gegnum tíðina hafa ýmiss húsráð orðið til gegn og fyrir meðhöndlun flugnabits. Hér eru nokkur dæmi:

  • B-vítamín: Ráðlagður dagskammtur skv. framleiðanda af B1 og/eða B6 er sagður draga fram ákveðinn ilm á hörundi sem á að fæla mýið frá.
  • Mentol: Margir mæla með kremi eða áburði sem inniheldur hátt hlutfall af mentol eða eucalyptus til þess að fæla flugur frá. Að sögn þarf ekki að bera á alla óvarða húð, vel dugar að setja eina og eina doppu hér og þar. Þekkt vörumerki; Tiger Balm, Vick‘s VapoRup, Deep Heat.
  • Betametason: Er virkt efni í fjölda krema og smyrsla sem ávísað er gegn bólgu- og ofnæmissjúkdómum, flest lyfseðilskyld á Íslandi en ferðamenn þekkja e.t.v. Calestoderm-V sem hægt er að kaup án lyfseðils erlendis. Krem sem innihalda betametasón eru sögð prýðis fróun eftir skordýrabit.
  • Sítrus ávextir: Sumir drekka mikið af fersku límónu- eða sítrónuvatni fyrir veiðiferðir og fullyrða að það dragi verulega úr ásókn flugu. Aðrir beinlínis rjóða andlit og hendur með límónu og segja það dugi mun betur.
  • Sítrónugras: Ekki bara krydd, heldur líka áburður eða kalt seiði til að bera á sig og/eða úða á föt og annan búnað til varnar flugu.
  • Myrta (Brúðarlauf / Bog Myrtle): Notað sem virkt efni í náttúrukremum sem menn rjóða á hendur og andlit til að stugga við mýflugum. Skotar hafa notað krem og olíur úr þessari jurt í margar aldir til þessara nota.
  • Tea Tree olía: Ilmkjarnaolía sem dregur úr ertingu eftir skordýrabit. Fyrirbyggjandi virkni ekki þekkt.
  • Neem olía: Krem og smyrsl sem innihalda þessa olíu eru talin halda skordýrum frá mönnum. Um er að ræða nokkrar vörur sem fundist gætu í verslunum hér á landi.
  • Hvítlaukur: Nokkuð stíf inntaka hvítlaukstaflna (1200 mg/dag) eða át hvítlauks fyrir veiðiferðir er talið draga verulega úr ásókn mýflugu. Svo er bara spurning hvort veiðifélagar fælist ekki líka.

Hvort eitthvað af þessu virkar er svo allt önnur saga, kannski eru þetta bara allt kerlingarbækur eins og ráð við kvefi. Öll notkun krema og olíu ætti samt að vera í hóf stillt, ekki viljum við smita lykt á veiðibúnað þannig að fiskurinn fælist. Eitt ráð að lokum; ekki nota ilmvatn eða rakspíra þegar þið haldið til veiða. Ólíkt fiskinum þá fælast flugur ekki slíka lykt, heldur þvert á móti.

Ónefndavatnið, 20.júlí

Við bræðurnir skruppum rétt út fyrir bæjarmörkinn í ónefnt vatn um kvöldmatarleitið. Smá gola, ekkert til að gera sér rellu út af og aðeins flugustangir með í för. Ég tók þrjá urriða á Pólskan PT fyrir ljósaskiptin og bætti svo þremur við á svartan Nobbler þegar fiskurinn leitaði upp á grunnið í kyrrðinni. Brósi hélt sig við fluguna, enda ekki um neitt annað að ræða og auðvitað tók hann einn á eigin flugu, svarta pöddu með silfurvöfum og rauðu skotti. Flottur skreppur í frábæru veðri.

Stærðin skiptir máli

Oftar en ekki heyrir maður áróður þess efnis að veiðimenn eigi að minnka flugurnar, við séum að egna fyrir silunginn með allt of stórum flugum. Auðvitað er töluvert til í þessu og sjálfur hef ég tekið undir þetta og sagt að við verðum að vera tilbúnir til að breyta út af vananum, vera sveigjanlegir. En við getum líka undirskotið stærðina á flugunum.

Vorflugulirfur og legglangur Peacock #8

Ég rakst á þessar vorflugulirfur um daginn, veiddi þær upp úr og bar nákvæmlega saman við púpuboxið mitt. Og viti menn, hefbundinn #10 var allt of stuttur, beinlínis rýr og ræfilslegur í samanburði við undrasmíð náttúrunnar. Loksins fann ég Peacock sem ég hafði hnýtt á legglangan #8 sem bar næstum við rétta lengd, en var langt því frá nógu bústinn.

Bústinn Peacock

Þegar heim var komið, hnýtti ég bústinn skratta á legglangan #8 með góðu undirlagi úr brúnni ull, þakti hann með 5 strimlum af peacock og styrkti með koparvír. Pínulítill rauður broddur, brúnn haus og Frankenstein var fullskapaður. Þetta var beinlínis tröll í púpuboxinu, en í vatn skyldi hann sem hann og gerði. Fyrir þessu trölli lágu fjórar fallegar bleikjur sem stóðust ekki þetta hlaðborð. Við litlum #10 og #12 leit ekki nokkur fiskur, einmitt þeim sem ég hefði trúlega byrjað á að prófa og minnkað síðan niður í #14 eða jafnvel #16 og svo afgreitt málið með fussi og fúlheitum; „Hér er ekki nokkur fiskur„.

Auðvitað skiptir stærðin máli, en ekki endilega á þann veg sem við höfum verið að temja okkur. Gefum lífinu gaum, metum okkur við það sem er til staðar í vatninu og fiskurinn er að snuddast í, þá og fyrst þá verðum við samkeppnishæfir við náttúruna.

Úlfljótsvatn, 16.júlí

Loksins, loksins. Úlfljótsvatn hefur verið lagt að velli. Við hjónin fórum í Úlfljótsvatnið í gær ásamt veiðifélögum okkar og tókst að brjóta múr gæftaleysis í vatninu með sjö bleikjum frá tæpu pundi og upp í eitt og hálft. Það var ekki fyrr en vel var liðið á kvöldið að fiskurinn gaf sig að einhverju ráði, allir á Rolluna og Peacock. Frúin skákaði mér með fjóra, ég með þrjá en það hefði getað orðið jafntefli hefði ég ekki asnast við að missa eina væna þegar ég ætlaði að grípa hana úti í vatni. Datt í hug nýr málsháttur; Ekki er bleikja í hendi fyrr en á bakkann er komin. Veiðifélagar okkar voru ekki eins lukkulegir þrátt fyrir lofsamlegar tilraunir með flugur á floti og flugustöng; það gengur bara betur næst.

Uppfærði kortið af álitlegum veiðistöðum í vatninu ásamt því að bæta Rollunni við sem flugu júlí-mánaðar, sjá Úlfljótsvatn.

Eftir töku

Þegar silungurinn hefur tekið og við höfum brugðist rétt við, reist stöngina upp og strengt á línunni er mikilvægt að við höfum fulla stjórn á henni. Örlítill slaki á línu gefur fiskinum færi á að losa sig af með því að skipta snögglega um stefnu í vatninu. Ég tel mig þekkja persónulega nokkra eldri og virtari silunga á Íslandi sem hafa reynslu af því að losa sig af flugu. Þeir eru útsjónarsamir, hægfara og rólegir í tíðinni, bíða eftir því að ég slaki örlítið á, kannski til að teygja mig eftir háfinum, en taka þá á rás að mér eða hnykkja hausnum til annarrar hliðarinnar, helst þeirrar sem er gagnstætt flugunni. Niðurstaðan; þeir halda áfram að lifa villtir í íslenskri náttúru og ég stend eftir með dúndrandi hjartslátt og adrenalínið á fullu. En hvað er þá til ráða? Jú, halda línunni alltaf strekktri og varist hausahnykki og loftköst. Enski frasinn tight lines er engin steypa, höldum línunni strekktri.

Slíta eða vaða

Ég hef áður birt smá hugleiðingar um viðbragð okkar við töku, en hvenær vitum við að fiskurinn hefur tekið? Sagt er að við missum af c.a. 75% alls áhuga silungs vegna þess að við finnum ekki tökuna eða stimplum hana sem krak í botni eða grjóti og sleppum línunni lausri í stað þess að halda henni strekktri. Vanir veiðimenn telja sig auðveldlega greina munina á töku og kraki við steina, ég er greinilega bara byrjandi vegna þess að ég treysti mér sjaldnast til að greina þarna á milli. Oftar en ekki kasta ég aftur á sama stað, dreg inn með sömu aðferð og bíð þess að kraka í sama steininn aftur. Nú, ef það gerist ekki þá fyllist ég von um fisk, kasta enn og aftur og breyti jafnvel aðeins inndrættinum. Ef ég festi aftur á móti í steini þá er um tvennt að velja; slíta fluguhnútinn og hnýta nýjan taum og flugu eða reyna öll ráð til að losa eins og t.d. að vaða aðeins út og húkka úr steininum. Kostir og gallar; ef ég slít, þá tapa ég flugu (mér finnst gaman að hnýta flugur þannig að þetta er ekki stór ókostur), ef ég veð út þá á ég á hættu að styggja þann fisk sem mögulega er á milli mín og flugunnar. Fyrir mér er þetta einfalt; ef ég næ ekki að losa fluguna með einföldu móti þá slít ég frekar. Að veiða við botninn kallar á fórnir, ein og ein fluga ásamt nýjum taumaenda vegna þess að þegar við slítum, þá tognar yfirleitt á taumendanum og við verðum að skipta honum út ef við viljum ekki taka sénsinn á að sá stóri slíti.