Hlé varð á greinum mínum í fylgirit Veiðikortsins árið 2016, eitthvað annað stúss í gangi þá, en árið 2017 kom þessi grein inn um bréfalúguna með Veiðikortinu.

Þótt Ísland teljist seint með stærstu löndum jarðkúlunnar, þá er landið margbreytilegt og auðugt. Einn stærsti auður okkar er náttúran og þess auðs gera sífellt fleiri sér far um að njóta. Stangveiði er ein vinsælasta afþreying Íslendinga og síðasta sumar lék við vatnaveiðimenn hér á landi.
Ár hvert skríða veiðimenn varlega undan feldi í fyrstu viku apríl, kíkja út og taka veðrið, ætli vorið hafi komi í nótt? Vorið 2016 var með besta móti, mun hlýrra en árin á undan og fyrstu fiskar vorsins voru vel haldnir. Að vísu teygðist aðeins á vorinu, það kom rólega og víða átti gróður erfitt uppdráttar framan af og heldur fáar fiskisögur sagðar fyrstu vikur sumars.
En svona er nú stangveiðin, það er aldrei á vísan afla að róa. Það vatnið sem gaf vel í fyrra, gaf síður í ár og svo öfugt. Reyndar er því þannig farið að náttúrulegar sveiflur í tíðarfari ráða mestu í vatnaveiðinni og þá alls ekki endilega hvort vötnin gefa, heldur hvert veiðimenn sækja. Þegar maður býr svo vel að vera með V-kortin við höndina, Veiðikortið og veðurkortið, þá má alltaf finna eitthvert vatn til að skjótast í án þess að þurfa að klæða af sér rigningu, rok eða kulda.
Eins duglegur og ég var að fara í Hraunsfjörðinn árið 2015, þá var eins og hann dytti út af kortinu hjá mér þetta sumarið. Ég fór þangað snemma í maí og átti þar frábæra daga, en svo ekki söguna meir þótt veiði hefði verið þar með ágætum allt sumarið. Þess í stað hélt ég mig töluvert innar á nesinu, m.a. við Hítarvatn og Langavatn sem kom skemmtilega á óvart eftir nokkur ár í hvíld hjá mér.
Ef vesturlandið kom síður út á veðurkortinu, þá brá maður sér bara á suðurlandið, m.a. í Gíslholtsvatn sem alltaf stendur fyrir sínu og er hreint frábært fjölskylduvatn og vinnur sífellt á meðal fjölskyldufólks.
En það er fleira en veðrið sem hefur áhrif á það hvaða vötn við veljum okkur. Fréttir af dyntum bleikjunnar á Þingvöllum urðu því miður til þess að ég fór aðeins einu sinni í Þjóðgarðinn í sumar sem leið. Ég á síður von á því að stofninn þar sé í einhverri lægð, enda heyrði maður síðar að ekki hefði allur afli ratað í fréttir og gerðu margir góða veiði þá daga sem allt var sagt dautt.
Frábærar fréttir úr Úlfljótsvatni af fallegum bleikjum höfðu því miður ekki nægjanleg áhrif á mig þetta sumarið en ég kíki þangað næsta sumar, það er alveg öruggt, enda vatnið eitt af mínum uppáhalds.
Vötnin norðan heiða skutust af stað í júní og útlitið lofaði góðu en heldur dró úr bjartsýni á annesjum norðan í júlí sem mögulega hafði einhver áhrif á veiðimenn. Ég kíkti þó á Skagaheiðina og átti þar góðar, en svolítið svalar stundir rétt um það bil sem Bjössi kíkti í heimsókn. Segið svo að það sé ekki spennandi að stunda vatnaveiði á Íslandi, maður veit aldrei hvað gerist.
Senda ábendingu