Það er löngu sannað að mannskepnan er ekki með fullum fimm. Ég vona að þetta sé ennþá viðurkenndur og þekktur frasi í íslensku máli þótt hann sé ættaður úr dönsku, ef ekki þá bara skjús mí.
Ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum ég fór að velta mér upp úr greinum sem fjalla um rannsóknir á sársaukaskyni og tilfinningagreind fiska. Já, þið heyrðuð rétt; tilfinningagreind fiska. Ætli kveikjan að þessu grufli mínu hafi ekki verið einhver umræða um veiða og sleppa, veiða og meiða, agnahald eða ekki.
Ég er nú ekki svo skyni skroppinn að ég hafi ekki álit á framangreindu, en ég er nú einu sinni þannig gerður að ég virðist vera hálfgerður frummaður í þessu öllu. Alla mína ævi hef ég meira eða minna verið að hamast við að tileinka með aukið umburðalyndi gagnvart mismunandi skoðunum manna og lífsviðhorfum. Á sama tíma og mér hefur orðið eitthvað ágengt í þessu, þá hef ég í auknu mæli tekið eftir ágengni og forsjárhyggju þeirra sem aðhyllast aðra skoðun en ég sjálfur geri. Eitt sinn las ég grein eftir einn af þessum pirrings púkum sem láta ýmislegt fara í taugarnar á sér. Hún var eitthvað á þá leið að ef maður segði ekki STOPP við sölumanninn í upphafi, þá reyndi hann að selja þér ömmu sína, jafnvel þó þú eigir þegar tvær sem flestum þykir nú nóg.
Í gegnum tíðina hef ég heldur hallast að því að sleppa því að veiða fiska sem eiga undir högg að sækja heldur en veiða þá og sleppa. Hér á Íslandi erum við svo dásamlega sett að það er enginn skortur á veiðistöðum þar sem fiskistofnar eru í góðu standi og umfram allt sjálfbærir. Það er ekki þar með sagt að ég snerti ekki á því að veiða og sleppa, en ég viðurkenni það fúslega að ég geri það yfirleitt með hálfum huga.

Nei, ég held ekki að fiskar séu með tilfinningagreind en þeir eru með eðlishvöt og hana ekki litla. Eðlishvöt fiska hefur ekki orðið fyrir áhrifum af skoðunum annarra og er því ómenguð og snýst fyrst og fremst um að éta til að stækka og ná því að viðhalda stofninum. Mitt einfalda álit er að ef einhverjar mannanna gjörðir hafa orðið til þess að stefna fiskistofni í hættu, þá ættum við að reyna að leiðrétta þær gjörðir og láta fiskinn í friði á meðan hann réttir úr kútnum.
Með þessu er ég ekki að segja að ég sé á móti sportveiðimönnum sem veiða og sleppa nær öllum fiski sem þeir setja í. Þetta er val hvers og eins og ég virði það val, en á sama tíma frábið ég mér að vera stimplaður sem annars flokks veiðimaður ef ég tek mér í soðið úr fiskistofni sem vel getur séð af nokkrum einstaklingum. Ég á enn eftir að öðlast þá visku að vita fyrir víst hvenær ég hef svo rétt fyrir mér að ég geti lagt öðrum lífsreglurnar út frá eigin skoðun, kannski kemur það ef ég borða meiri fisk. Á meðan verð ég víst að vera einn af þeim sem er ekki alveg með fullum fimm.
Senda ábendingu