Það sem ræður mestu um það efni sem er að finna á þessum vef er eigið grúsk. Það sem ræður næst oftast því sem ég skrifa um eru fyrirspurnir og spjall sem ég á við aðra veiðimenn. Eitt af því sem ber mjög oft á góma eru taumar. Það laumast að mér grunur að nokkuð margir veiðimenn telja sig vera í vandræðum með val á taumum og spyrja um hina gullnu, einföldu reglu fyrir besta tauminum. Því miður kann ég ekki þessa gullnu reglu og ég leyfi mér að efast um að hún sé til. Af samtölum mínum við veiðimenn, ræð ég það nú samt að margir gera grundvallar mistök í vali á kónískum taum.
Það eru þrír þættir sem menn þurfa að huga að við val á taum, ekki tveir. Mjög margir spá fyrst og fremst í lengd taums. Á hann að vera 7 fet, 8 fet, 9 fet eða miklu lengri? Aðrir spá fyrst og fremst í þeim sverleika taums sem hann endar í.
Í upphafi skildi taumaendann skoða en það er ekki nóg, ekki heldur að spá í lengd taumsins. Það eru ekki aðeins tveir þættir sem ættu að ráða vali á taum og þá er ég ekki að bæta eiginleikum taumsins við, þ.e. hvort hann er flot, hæg- eða hraðsökkvandi. Þegar maður velur taum, þ.e. kónískan taum þá byrjar maður á sverari endanum. Hve sver er endi línunnar? Sverari endi taumsins ætti að vera sem næst 2/3 af sverleika línunnar þannig að flutningur aflsins úr kastinu skili sér.
Senda ábendingu