Ég á mjög góðan kunningja sem aldrei hefur brotið stöng og það sem meira er, hann er virkur og mjög lunkinn veiðimaður þannig að stangirnar hans eru ekki bara upp á punt. Einu sinni var ég svona líka, en svo braut ég stöng, braut síðan aðra og enn aðra og nú er ég hættur að muna nákvæmlega hve marga stangarparta ég hef brotið í gegnum árin. Síðastliðið sumar slapp ég við stangatjón, en það er óhætt að segja að ekki hafi allir verið svo heppnir. Fastir liðir eins og venjulega dúkkuðu upp á samfélagsmiðlum; Hvert nær ábyrgð seljanda?
Margir framleiðendur selja stangir sínar með ábyrgð, sumir ævilanga, aðrir aðeins í einhverja áratugi og svo eru náttúrulega líka þeir sem ábyrgjast aðeins að þú getur keypt varahluti í þær gegn hóflegu gjaldi. Lengi vel var ég í töluverðum vafa um mat manna á ábyrgð framleiðanda og þar með seljanda. Ég gat vel sett mig í þau spor að meta gæði ábyrgðar og/eða þjónustu út frá tíma, þ.e. hve langan tíma það tæki að fá part í stöngina mína. En þegar kom að því að meta kostnað við umstangið, þá datt ég aðeins út. Ég heyrði nokkrar tölur sem nefndar voru í setningum eins og; Ég fæ alltaf nýjan part, þarf bara að borga sendingarkostnaðinn …. 4.000 kr. og hann kemur á innan við 4 vikum. Annar nefndi að hann væri til í borga meira fyrir ákveðna tegund stangar, á henni hvíldi lífstíðarábyrgð og ekkert borgað. Enn annar staðhæfði að hann ætti bestu stöng í heimi; Ég þarf aldrei að borga neitt, stöngin mín er svo góð að hún bilar aldrei. Mér lá við að grípa í þennan gamla góða frasa aldrei að segja aldrei en ég þagði og hugsaði frekar um þennan 4.000 kall. Fyrir nákvæmlega þá upphæð hafði ég nefnilega fengið þann part sem ég braut fyrst og nokkrum sinnum í viðbót. Ég skaust út í bæ með þessa upphæð og sótti partinn, málið dautt og ég þurfti ekki að bíða í 4 vikur. Viðkomandi stöng var ekki seld með ábyrgð umfram hið sjálfsagða að hún væri í lagi þegar ég tók hana úr pokanum. Síðan þetta var, þá hef ég þurft á nokkrum pörtum að halda, bæði í stöng með ábyrgð og líka án ábyrgðar. Hvoru tveggja tók álíka tíma og kostaði mig næstum það sama þegar upp var staðið en ég kvarta ekki.
Af umræðu sem ég varð vitni að er nokkuð ljóst að sumir kaupendur vita ekki nákvæmlega hvað þeir voru að kaupa. Ábyrgð ákveðins vörumerkis nær ekki alltaf til ódýrari tegunda hennar, þetta er þekkt hjá vel flestum framleiðendum í meira eða minna mæli. Eftirársmódel eða ódýrari framleiðsla eru oft seld með skertri ábyrgð og kaupandinn þarf því að vera vakandi yfir því hvað fellst í kaupunum. Þetta á ekki síst við um kjarakaup sem bjóðast reglulega á netinu þar sem búið er að pakka eldra módeli í pakka með ódýru hjóli, línu og taum. Græjurnar sjálfar standa alveg fyrir sínu, svo lengi sem vel er farið með þær, en kaupandinn getur ekki vænst þess að á settinu sé lífstíðar- eða áratuga ábyrgð. Kaupandinn ætti eftir sem áður að geta vænst þess að seljandi taki skýrt fram að viðkomandi pakki falli ekki undir langtímaábyrgð sem viðkomandi vörumerki er þekkt fyrir.
Ábyrgð eða ekki ábyrgð, þá liggur nú sökin á stangarbrotum eftir sem áður (næstum) alltaf hjá eigandanum. Það getur t.d. aldrei talist léleg eða gölluð framleiðsla ef maður brýtur stöngina með því að stíga á hana eða skellir á hana hurð. Hvað þá ef maður leggur af stað í kast með þungri flugu í allt of miklum vindi, snýr sér í vitlausa átt og slæmir flugunni í stöngina. Þá getur maður alveg eins skotið á stöngina með haglabyssu. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst líftími stanga fyrst og fremst um meðferð og umönnun eigandans, ef undan eru skilin hrein og klár óhöpp. Við óhöppum getur maður tryggt sig með því að kaupa stöng í árlangri, fullri ábyrgð eða þá gengið úr skugga um að varahlutakostnaður sé hóflegur og sé ávalt fyrirliggjandi.
Senda ábendingu