Þegar stór er spurt, verður oft fátt um svör. Um daginn var ég spurður að því af fjölskyldumeðlim hvernig ég færi að því að velja mér flugustöng. Áður en mér tókst að svara einhverju sem mér fannst gáfulegt kom framhaldsspurning; Eða velur flugurstöngin þig, svona eins og sprotinn valdi Harry Potter?
Ég játa það fúslega að mér þótti þetta ótrúlega sniðug samlíking og ég fann mig svolítið í sömu sporum og Harry. Að vísu hafa heilu hillurekkarnir aldrei tæmst þegar ég sveifla flugustöng í fyrsta skiptið, hvað þá að eitthvað hafi brotnað, en það hefur komið fyrir að mér hefur fundist ég hafa himinn höndum tekið þegar ég prófa stöng í fyrsta skiptið.
Annars er fátt meira fráhrindandi fyrir byrjendur heldur fá aðstoð við fyrstu kaupin frá einhverjum sem getur bara ekki hætt að segja þér allt milli himins og jarðar um eiginleika, kosti og dásemdir allra stanganna sem hann á. Þá er nú betra að lenda á fáorðum afgreiðslumanni eins og Ollivander sem pikkar prikið fram sem passar í örfáum tilraunum.
Þeir sem eru lengra komnir hafa margir hverjir sérstaklega gaman að því að prófa stangir, þakka fyrir sig og koma aftur og aftur til að prófa sömu eða einhverja aðra stöng. Það er bara eins og þeir smelli alls ekki við neina stöng og þá getur málið snúist um annars konar aðstoð.
Kannski þarf viðkomandi aðstoð frá einhverjum galdramanni sem getur lagfært kaststílinn eða í það minnsta sagt til um hvað þurfi að lagfæra.
Senda ábendingu