Flýtileiðir

Vonir og væntingar

Rétt fyrir jólin 2017 laumaðist þessi grein inn um bréfalúguna með Veiðikortinu 2018. Smá samantekt og uppgjör veiðinnar sumarið 2017. Til að geta þeirra þá hafa nokkrar myndir frá mér verið lífseigar í fylgiriti Veiðikortsins í gegnum tíðina, þrjár þeirra eru hérna að neðan til hægri.

Vonir og væntingar eru órjúfanlegur hluti stangveiðinnar. Með vonina að vopni en eitthvað hófstilltari væntingar byrjaði mitt tímabil við Gíslholtsvatn á fyrsta degi aprílmánaðar. Kaffibrúsinn var fullur af rjúkandi heitu kaffi sem var eins gott því vorið var ekki alveg á næstu grösum í byrjun apríl. Reyndar kom kaffibrúsinn óvenju mikið við sögu í sumar, tíðafarið var einfaldlega þannig.

Þegar aðeins fór að rofa til í tíðarfari og sumardagurinn fyrsti rann upp höfðu vonir og væntingar tekið öll völd og ég fór nokkur skipti að nærumhverfi mínu, Elliðavatni. Það bar ekki á öðru en í vatninu væri nægur fiskur og mikið ólmaðist hann þarna, rétt utan kastfæris. Það var ekki fyrr en leið á sumarið og ég færði mig inn í Helluvatn að fiskur komst í kastfæri, feitar og fallegar bleikjur sem veltu sér í klakflugu.

Eins og nærri má geta hefur veðurfar mikil áhrif á stangveiðimenn og fátt jafn mikið notað sem afsökun fyrir lélegri veiði. Sökum síðkominna snjóaalaga s.l. vetur leysti snjó með nokkrum hvelli s.l. vor og mörg vötn stóðu snemma í hæstu stöðu. Svo rammt kvað að þessum vatnavöxtum að ný vötn urðu til og eldri flæddu lengi yfir bakka sína. Langavatn gældi þannig lengi við grasið á Beilárvöllum og virtist seint ætla að draga sig til baka í hefðbundna stöðu. Þannig varð til ný afsökun fyrir gæftaleysi, þetta er allt of mikið vatn.

Því miður fór væntingavísitala mín fyrir vötnin sunnan heiða heldur lækkandi þegar leið á sumarið. Mér fannst eins og veðurguðir og veiðigyðjur hefðu ekki komið sér sérstaklega vel saman um bestu lausn fyrir veiðimenn. Þegar veiðigyðjurnar tældu fiskinn upp að voru veðurguðirnir ekki alveg sammála og smelltu á roki eða kuldakasti, tóku jafnvel upp á því að blása úr vestri. Þannig var mín upplifun t.d. af Þingvöllum, bleikjan kom en gaf sig ekki þannig að þær urðu fáar, en vissulegar bragðgóðar, Þingvallableikjurnar sem enduðu á pönnunni þetta sumarið.

Norðanlands skaust Skagaheiði á toppinn um leið og fært varð og gerðu margir gott mót þar. Illu heilli fór ég ekkert norður þetta sumarið og varð því af ævintýrum norðlensku heiðanna. Ég held samt í vonina og stefni þangað næsta sumar, það hlýtur að koma að því að ég hitti á gott samkomulag guða og gyðja.

Vestfjarðakjálkinn ýtir reglulega við veiðibakteríunni og kemur örugglega til með að halda því áfram. Ekki skortir mig væntingarnar og vonin viðheldur markmiðinu að þræða vötnin frá Haukadal að Syðradal í einni góðri ferð. Það er jú vonin eftir ævintýrum sem heldur manni í þessu áhugamáli og ég vænti þess, eins og venjulega, að eiga gott veiðisumar í vændum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com