Um þetta leiti árs er flest allt það sem úti grær fallið í dvala, veturinn genginn í garð og flugurnar gengnar til náða. Þá vaknar FOS.IS úr dvala nördismans og tekur til við að dæla út hugleiðingum sem hafa verið að grassera í kolli mínum í sumar.
Sem endranær er efnið sem hér birtist úr eigin kolli, en nokkuð af því er í raun frá lesendum komi í formi fyrirspurna og hugmynda sem þeir hafa gaukað að mér á liðnum mánuðum. Sumar þessara hugmynda hafa reynst mér heldur ofviða þekkingarlega séð eða mér hefur ekki gefist tími til vinna úr þeim eins og ég hefði viljað þannig að einhverjar þeirra hvíla enn í skilaboðaskjóðunni. Fjöldi greinarkorna í vetur verður á bilinu 60 – 70 eins og endranær, allt eftir efnum og ástæðum en þegar eru 50 greinar klárar og bíða birtingar.
Á liðnum vikum hef ég tekið aðeins til á vefnum, lagfært ýmislegt smálegt sem betur hefur mátt fara og vonandi tekist að auðvelda gestum síðunnar að nálgast upplýsingar um það sem þeir sækja í. Meðal þess sem ég bætti við er listi við hverja grein yfir aðrar greinar sem fjalla um sama eða svipað efni. Þetta auðveldar vonandi gestum að velja sér lesefni úr þeim tæplega 1.700 pistlum sem þegar eru á vefnum.
Einn af föstu liðum vetrarins verður á sínum stað, en það eru Febrúarflugur. Formið verður með svipuðu sniði og áður, þátttakendur leggja fram myndir og upplýsingar um flugur sem þeir hnýta inn á fésbókarhópinn sem nú telur 350 meðlimi og vitaskuld er öllum frjáls þátttaka. Mig hefur lengi langað að færa þetta skilgetna afkvæmi FOS meira út á netið, fá enn meira líf í hópinn, t.d. með því að tengja það t.d. stangaveiðifélögum, hnýtingarklúbbum og hópum þennan mánuð sem það stendur. Hvernig það tekst á næsta ári verður að koma í ljós, en ég mun bráðlega auglýsa eftir áhugasömum aðilum sem vilja nýta sér þetta átak eða taka þátt í því með öðrum hætti. Umfram allt, þá vil ég halda í það form sem hingað til hefur verið, þ.e. þetta á ekki að vera flókið, bara gaman og þannig að því staðið að allir geti tekið þátt.
Annars verður veturinn nokkuð hefðbundinn í efnisvali, hinar og þessar hugleiðingar og eitthvað úr reynslubankanum. Einhverjar nýjar flugur koma inn á síðuna og efni eftir því sem verkast vill. Nú hljóma ég eins og ég viti ekki nákvæmlega hvað kemur inn á vefinn í vetur, en það er nú bara skröksaga. Allt efnið er löngu klárt og tilbúið eins og áður segir, en það er nú alltaf svigrúm fyrir skyndihugdettur eða alvarlegar fréttir.
Senda ábendingu