Þessi greinarstúfur er sérstaklega tileinkaður letipúka sem hefur fylgt mér í ótal mörg ár, sjálfum mér. Það er alveg sama hve oft ég einset mér að hugsa betur um flugulínurnar mínar, þá gerist það allt of sjaldan. Góð umhirða flugulínu lengir nefnilega líftíma hennar og þá verður hinn púkinn minn miklu ánægðari, nískupúkinn í mér.
Ég var spurður að því um daginn hve lengi línurnar mínar entust. Ég satt best að segja gat ekki svarað því nákvæmlega, eina sem ég veit að sumar hef ég átt lengi á meðan aðrar hafa lifað skemur. Kunnáttumaður sagði mér að góð flugulína, þar sem góð ræðst oftar en ekki af verðmiðanum, eigi að endast þetta 250 veiðidaga. Sami maður sagði mér að með góðri línu eigi maður að geta verið svona keppnis þótt flugustöngin sé langt því frá að vera í verðflokki keppnisstanga. Þessar línur kosta í dag á bilinu 12 – 16 þ.kr. Hér verð ég að taka það fram að ég hef átt línur sem kosta aðeins fjórðung af þessu verði og ég hef ekki fundið mikinn mun á þeim og dýrari línum og þær hafa enst mér ágætlega. Þetta síðasta var til að friða nískupúkann í mér.
En til að ýta aðeins við letipúkanum þá eru hér nokkrar línur um þrif og meðhöndlun flugulína:
Sum sumur er það sem hefur mest áhrif á plastið í flugulínunum ekkert vandamál á Íslandi, sólin. Of mikið sólarljós í of langan tíma styttir líftíma flugulínunnar verulega. Þótt nýjustu flugulínurnar séu merktar UV resistance þá hefur sólarljósið samt mjög mikil áhrif á þær. Mér liggur við að segja að þessi merking sé nærri jafn áreiðanleg og Anti age formula í hinum og þessum húðkremum. Þegar hiti og sólarljós fer saman, t.d. þegar veiðihjólið þitt liggur í aftursætinu og bakast þar í sólinni, þá fer niðurbrot plastsins fyrst af stað fyrir alvöru.
Það að þrífa línuna reglulega er ekkert svo mikið mál. Flestir mikla það eitthvað fyrir sér að láta ylvolgt vatn í skál eða fötu, bæta smá handsápu (ilmefnalausri) út í og leyfa línunni að liggja þar í 15 – 25 mín. Tíminn ræðst af því hvort menn hafa vanist á að nota eitthvert sleipiefni á línuna eða ekki. Því oftar sem sleipiefni er notað, því meiri leifar verða eftir á línunni sem gera lítið annað en safna í sig skít og óhreinindum sem hægja á henni í kasti. Fyrir alla muni, ekki freistast til þess að nota svamp eða grófan skrúbb á línuna þótt hún sé mjög skítug. Mjúkur bómullarklútur er alveg tilvalinn, eftir að línan hefur legið í vatninu og áður en skolað er af henni og hún hengd upp til þerris. Já, þú last rétt. Það verður að leifa línunni að þorna þokkalega áður en henni er spólað aftur inn á hjólið.
Það er líka mikilvægt að hugsa um línuna á milli þvotta. Það er ekki bara nóg að þvo hana að hausti og bíða síðan til næsta hausts að hugsa þá um hana. Það eru til ýmsar vörur sem eru ætlaðar til þess að næra flugulínuna á milli þvotta. Ég hef ekki hugmynd um hver fann upp á þessum frasa, en hann hafði ekki mikið vit á efnafræði og þá sér í lagi fjölliðum eins og í plasti. Í eitt skipti fyrir öll (er reyndar búinn að segja þetta svo oft áður); þau efni sem eiga að næra flugulínuna þína eru í flestum tilfellum bón eða sílikon og hafa ekkert næringarfræðilegt gildi fyrir plast.
Vissulega er hægt að nota bón til að ná betra rennsli í línuna og þá skiptir í raun engu máli hvaða bón þú notar. Allt bón inniheldur leysiefni af einhverri gerð og leysiefni er ekki besti vinur flugulínunnar þannig að því oftar sem þú notar bón, því oftar þarftu að nota það. Húð línunnar fer því hraðar af henni því oftar sem þú dregur hana í gegnum bónklútinn sem er mettaður af leysiefni. Að mínu mati ætti bónið að fá að hvíla sig alveg þangað til línan er kominn að gjörgæslu og lífdagar hennar eru í raun taldir, sem sagt aðeins nota bón í neyðartilfellum.
Sleipiefni sem hönnuð eru fyrir flugulínur innihalda fyrst og fremst sílikon sem geta fjarlægt minniháttar óhreinindi af línunni, en fyrst og fremst skilja þau eftir sig örþunna filmu sem hrindir frá sér vatni og óhreinindum. Þetta hjálpar vissulega við aukið rennsli til að byrja með, en við endurtekna notkun án þess að þrífa línuna á milli þykknar þessi hús á köflum og fer að draga að sér óhreinindi í stað þess að hrinda þeim frá sér. Ekki gleyma að þrífa línuna á milli þess að þú berð á hana, annars endar þú með verra rennsli í línunni heldur áður.
Jæja, púkarnir mínir, nú eruð þið búnir að lesa þetta og þá er eins gott að taka sig saman í andlitinu og þrífa línurnar eftir sumarið.
Senda ábendingu