Flýtileiðir

Augnablik í lífi hnýtara

Það er alls ekki jafn sjálfsagt að koma frá sér flugu eins og margur heldur. Flott fluga sem maður rekst á eða rekur augun í er ekki endilega töfruð fram á einu augabragði. Í byrjun vetrar getur verið sérstaklega erfitt að setja í fyrstu fluguna.

Nú lýsi ég eigin reynsluheimi og aðstæðum. Ég á mér afdrep þar sem hnýtingarefni og tól eiga að vera innan seilingar. Já, þau eiga að vera innan seilingar, en stundum er eins og sprengja hafi fallið á hnýtingarborðið, ekkert er þar sem það á að vera og sumt er bara alls ekki til staðar. Þá þarf að taka til, taka aðeins meira til og finna það sem mann vantar í fluguna. Skjótast út í búð og kaupa það sem ekki finnst. Finna stað fyrir það sem maður keypti og þá þarf stundum að færa eitthvað annað til, sem sagt að laga aðeins meira til. Og hvað gerist þá? Jú, maður finnur það sem maður hélt alveg örugglega að maður ætti, en fann ekki.

Hnýtingarborðið fyrir tiltekt

Svo kemst maður loksins í þau spor að geta farið að hnýta, þ.e. þegar maður er búinn að taka aðeins meira til og búa til pláss fyrir flugurnar sem þó eru ekki enn sprottnar fram úr hnýtingarþvingunni. Jæja, loksins er komið að því að setja í fyrstu fluguna. Kemur þá ekki í ljós að algengustu áhöld og efni eru ekki lengur innan seilingar. Þá þarf maður að færa aðeins til í hillunni og raða upp á nýtt.

Loksins kemur fyrsta flugan. Æ, hún var nú ekkert sérstaklega vel gerð, eitthvað skökk og skæld og hreint ekkert lýk fyrirmyndinni. Best að hnýta aðra og ef tími gefst til, þá hnýtir maður þau fimm eintök sem vantar þannig að við veiðifélagarnir höfum í það minnsta þrjú eintök í boxinu, hvort um sig.

Hnýtingarborðið eftir tiltekt

Þá er að öllum líkindum komið að því að kveikja undir kvöldmatnum og …. æ, best að kveikja líka á fréttunum, kannski vill svo illa til að enn einn hefur fengið viðbótarkvóta fyrir sjókvíaeldi og þá er dagurinn ónýtur. Ég get þó í það minnsta huggað mig við að það eru komnar 6 nýjar flugur í boxin okkar og ég hef gert enn eina tilraun til að hafa allt á sínum stað, sem ku vera til mikilla bóta fyrir hnýtarann.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com