
Nyrsta Hraunvatnið
Nyrsta Hraunvatnið er, eins og nafn þess ber með sér, nyrst þeirra vatna sem í daglegu tali eru talin til Veiðivatna. Vatnið á samgang við Stóra Hraunvatn um Draumavík undir Hraunafelli. Akfært er að vatninu frá Jökulheimaleið að norðan.
Eins og önnur Hraunvötn var vatnið fisklaust allt fram undir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, en þá voru sleppingar reyndar á kviðpokaseiðum á þessum slóðum. Reynslan hefur síðan kennt mönnum að vænlegra sé að sleppa nokkuð stálpaðri fiski í þessi vötn og reglulega er sleppt töluverðum fjölda fiska í vatnið. Vatnið er kalt og heldur hrjóstrugt og urriðinn þar á heldur erfiða daga, en alltaf veiðast þar nokkrir vænir fiskar. Svo virðist vera sem helst sé von á fiski vestan við miðju vatnsins, næsta Draumavík, fáum sögum fer af veiði í austurhelmingi þess, en fyrir náttúruunnendur er sá helmingur vatnsins þó vel þess virði að skoða.
Tenglar
Flugur
Myndir
