Black and Orange Marabou

Þessa flugu þekkja margir, en ekki endilega undir upprunalegu heiti sínu. Í dag sést þessi fluga gjarnan í boxum veiðimanna og aðspurðir segja þeir hana vera Orange Dentist. Þegar vel er að gáð er þetta skiljanlegur misskilningur, flugunum svipar glettilega mikið saman, þó Dentist sé að vísu rauður og með hárvæng. Black and Orange Marabou er hugarfóstur Taff Price og ef mig misminnir ekki, þá kom hún fyrst fram í þeirri góðu bók Fly Patterns: An International Guide sem kom út árið 1986. Íslenskir hnýtarar hafa eflaust séð þessari flugu bregða fyrir í kjöreigninni Straumflugur sem Sigurður Pálsson og Lárus Karl Ingason unnu að í sameiningu að árið 2008.

Fyrst hnýtti ég þessa flugu einmitt sem afbrigði af Dentist og hef gert ágæta veiði með hana í þessum búningi, en þykir rétt að koma henni formlega á framfæri undir réttu nafni. Sjálfur hef ég hana gjarnan í smærri stærðum, en hún er svo sem til hjá mér á #6 eins og Taff mælti með. Þótt Jim Misiura hnýti hana þyngda hér að neðan, þá hef ég ekki lagt það í vana minn hingað til.

Höfundur: Taff Price
Öngull: straumfluguöngull 6 – 12
Þráður: svartur 8/0 eða 70
Skott: appelsínugular fanir
Vöf: gyllt ávalt tinsel
Búkur: gyllt flatt tinsel
Vængur: svart marabou
Skegg: appelsínugular fanir
Kinnar: frumskógarhani
Haus: svartur

Create a website or blog at WordPress.com