FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Frostastaðavatn, 7. – 9. júlí

    11. júlí 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    „Nú er sumarið komið, þið eruð mætt“; svona heilsaði Tinna staðarhaldari okkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli á fimmtudaginn. Vegurinn inn að Landmannahelli (F225) var ekki mikið meira en þokkalegur og okkur varð á orði að Vegagerðin hefði getað gert betur í að hefla hann áður en ferðamannatraffíkin byrjaði fyrir alvöru. En hvað um það, við komum okkur fyrir á tjaldsvæðinu, gerðum okkur klár og vorum mætt í Frostastaðavatn rétt um kl.16. Veðrið lék við okkur og við áttum stefnumót við vík eina í hrauninu sem sjaldan hefur brugðist. Víkin sem slík brást okkur ekki og við höfðum úr nægu að moða, þ.e. það var nægur fiskur á svæðinu þótt hann væri ekki stór. Eins og oft áður datt veiðin á þessum slóðum niður laust eftir kvöldmat þannig að við röltum í rólegheitum til baka að bílastæðinu austan við vatnið, kipptum einum og einum upp á röltinu og vorum komin á skynsamlegum tíma aftur í vagninn.

    Það er nú svo merkilegt að það virðist aldrei vera slæmt veður við Framvötnin og það brást okkur ekki á föstudaginn og eftir að hafa hellt upp á könnuna og fengið okkur morgunverð, var haldið af stað í Frostastaðavatnið aftur. Í þetta skiptið ætluðum við örlítið lengra inn í hraunið (Suðurnámshraun) og taka stöðuna á fiskinum þar. Ekki skorti fjöldann og við eyddum lunganu úr deginum við að þræða víkina og nokkra tanga vestur af henni með góðum árangri. Það var nokkuð þétt í pokunum hjá okkur á leiðinni til baka um kvöldið, en vitaskuld var veitt á völdum stöðum, svona til að halda okkur við efnið og stytta gönguna.

    Við höfðum lengi haft hug á að kíkja í Eskihlíðarvatn og gerðum heiðarlega tilraun til að finna afleggjarann af F208 inn að vatninu að austan á laugardagsmorgun, án árangurs. Væntanlega er eini slóðinn inn að vatninu sem enn er fær sá sem liggur um Eskihlíðarhnausa að norðan, en þetta er sett fram án ábyrgðar því við könnuðum þann slóða ekki. Eins getur verið að slóði upp af Dómadal sé einnig fær, en hann höfum við aldrei prófað.

    Eftir þessa snautlegu afleggjaraleit okkar renndum við aftur að Frostastaðavatni , nú að norðan og röltum inn með vatninu að vestan. Og við gerðum meira en það. Þegar inn fyrir Dómadalshraun var komið ákváðum við að rölta áfram að Suðurnámum og þegar þangað var komið þá var helmingi vatnsins náð og eins gott að klára hringferð um vatnið. Þannig lágu 6,8 km. eftir okkur með mjög mörgum stoppum hér og þar, sýni tekin af fiski og dáðst að umhverfinu. Í stuttu máli; ég tók þokkalegan fisk við norðurenda Dómadalshrauns og væntanlega var einhver slæðingur af fiski á þeirri strönd en undan Dómadalshrauni var fiskurinn heldur smár. Sömu sögu er að segja af ströndinni undir Suðurnámum, smár en í miklu þurrflugustuði og hin besta skemmtun að reyna sig við hann. Það var ekki fyrr en við komum í fyrstu víkina undir Suðurnámshrauni að fiskurinn fór stækkandi og sá var nú einnig í stuði fyrir þurrflugu.  Ströndin að austan er flestum þekkt fyrir heldur smáan fisk en eins og við höfðum svo sem áður reynt, þá var fiskurinn undan Frostastaðahrauni nokkru stærri og vel nýtanlegur. Það var sem sagt stoppað við hverja vík og næstum hvern stein hringinn í kringum vatnið.

    Frostastaðavatn
    Frostastaðavatn

    Vatnshæð um þessar mundir er í meðallagi í Frostastaðavatni. Við höfum séð hana hærri og við höfum séð hana lægri. Vel fært út í sker og á tanga undan Suðurnámshrauni og Frostastaðahrauni og vel þess virði að leggja leið sína á báða staðina. Af fiskinum er það helst að frétta að það er ógrynni af bleikju í vatninu og henni fer því miður mjög fjölgandi. Við höfum sjaldan, ef í nokkurn tíma tekið jafn mikið af fiski sem var illa haldinn; magur eða í lélegum holdum. Þetta þýðir þó alls ekki að allur fiskur sé þannig. Í bestum holdum var fiskurinn á bilinu hálft til eitt pund og mikið af honum. Það er ekkert óeðlilegt að setja í mjög dökkan fisk á þessum árstíma í Frostastaðavatni, fiskurinn  er enn að koma upp úr dýpinu eftir veturlegu, en því miður voru nokkrir þessara fiska óttalegir slápar og töluvert um samgróninga í þeim sem er ekki góðs viti, hausstórir og ljótir. Almennt fannst okkur fiski hafa fjölgað mikið og hann var smærri en oft áður. Þegar allt er tekið saman, þá eru þetta ákveðnar (mjög ákveðnar) vísbendingar um að ekki sé seinna vænna en grisja þurfið vatnið með markvissari hætti en hingað til hefur verið gert.

    Af Malla er það helst að frétta að hann virðist hafa komið vel undan vetri, sprækur og hress og fylgdi okkur hvert fótmál þessa þrjá daga sem við eyddum við vatnið.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     82 / 92 103 / 119 0 / 0 8 / 19 10 / 12

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 5. & 6. sept.

    7. september 2015
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Eins og segir í ágætri bók sem ég var að glugga í um daginn; Ef tíðarfar er gott má fara í dags- og helgarferðir langt fram eftir mánuðinum ….. göngutúr með stöng á öxl og nesti í poka getur verið lykillinn að góðri veiði á þessum árstíma. Það er bara eins og þetta hafi verið mælt úr mínum munni og við tókum höfundinn á orðinu og brugðum okkur upp að Landmannahelli um helgina og áttum þar yndislega helgi við veiðar. Ef að líkum lætur þá var þetta síðasta ferð okkar hjóna í Framvötnin á þessu ári, eða hvað? Það verður jú opið í Landmannahelli til 25. sept. og ef veðrið helst eitthvað í líkingu við það sem var um helgina, þá er ekkert sem mælir gegn því að skreppa í haustlitaferð að Fjallabaki.

    Laugardagurinn var að vísu svolítið að flýta sér, nokkuð hressilegur andvari að vestan sem nægði til þess að innfæddir héldu sig heldur mikið til hlés. Malli lét t.d. ekki sjá sig þótt við værum á stjái í bakgarðinum hans við Frostastaðavatn og bleikjurnar voru svolítið tregar til töku. Okkur hjónum tókst samt að særa upp sitt hvora fimm fiskana, vænstu bleikjur plús tveir tittir sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum endað í Malla maga, en þar sem hann lét sig vanta fóru þeir í úrkast.

    Enn er forvitni okkar um vötnin og veiðistaði ekki að fullu svalað og því ákváðum við að gera okkur ferð á ókunnar slóðir við Frostastaðavatn á sunnudaginn. Fyrir þá sem þekkja til staðhátta lögðum við leið okkar að víkinni innan við hraunið að sunnan og gerðum prýðilega veiði þar. Fimm fiskar á stuttum tíma, allir vænir sem tóku hressilega á. Úr víkinni lögðum við síðan leið okkar út með hrauninu að vestan og norður fyrir og komum við á nokkrum völdum stöðum og bættum í bleikjusafnið. Það var svo ekki fyrr en við komum í aðra-víkina í hrauninu að Malli lét sjá sig eða sendi fulltrúa sinn öllu heldur. Eitthvað minni útgáfa af honum mætti á staðinn og gerði sig nokkuð heimakominn við fiskana mína á tímabili. Eftir smá umhugsun og fimmaura-orðaleiki varð úr að hann fékk viðurnefnið; Smalli og ég gaukaði að honum smælki sem annars hefði farið í ruslið.

    Veðurguðirnir ákváðu að reka ræknar sögusagnir af kulda og vosbúð á hálendinu af höndum sér og Frostastaðavatnið var baðað í blíðu og hitatölum sem hefðu sómt sér ágætlega á miðju sumri. Hreint dásamlegur dagur og það var með herkjum að maður hafði sig inn í bíl og héldi áleiðis í amstur hversdagsleikans. Það fór því svo að við vorum heldur síðar á ferðinni heim en ráðger var og einföld skilaboð voru send í vinnuna; Mæti seint í dag.

    Aflabrögð helgarinnar voru annars með ágætum. 35 fiskar í heildina á land, flestir um pundið, nokkrir stærri og fjórir í úrkast. Ég held að maður verði bara að una vel við þennan fjölda, sérstaklega í ljósi fregna sem við höfðum af netlaögnum bænda. Mér skilst að fjögur net hafi aðeins skilað 50 fiskum þessa tvo daga sem lagt var.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     14 / 21 117 / 144 0 / 0 17 / 27 15 / 19

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn, 22. & 23. ágúst

    24. ágúst 2015
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Síðla sumars og langt fram í haustið laða vötnin á hálendinu veiðimenn til sín eins lengi og veður leyfir. Framvötnin eru þar engin undantekning og við hjónin höfum gert einhverjar okkar bestu veiðiferða á þessum árstíma. Um leið og einhverja smugu er að sjá í kortunum, höldum við af stað og förum á fjöll.

    Við notuðum dagspartinn frá hádegi og fram undir myrkur á laugardaginn til að heimsækja Malla á Frostastöðum sem eins og venjulega lét sig ekki vanta á staðinn um leið og fyrsti fiskur var kominn á land. Við lögðum sem sagt leið okkar að Frostastaðavatni í víkurnar og gerðum alveg ágæta veiði á uppáhalds staðnum okkar og út af skerjunum til vesturs frá hrauninu. Þegar dagurinn var gerður upp voru 27 fiskar á landi og aðeins 5 þeirra undir matfiskstærð. Kunnugir mega geta sér til um hvað varð um þá fiska. Hvorki við né Malli fórum því fisklaus heim eftir þennan dag. Veðrið, þennan annars ágæta laugardag var svona upp of ofan, smá sýnishorn af flestum gerðum en heilt yfir mjög gott og kvöldið eins og það gerist fegurst á fjöllum.

    Horft yfir frá Frostastöðum að Löðmundi
    Horft yfir Frostastaðavatn, Löðmundur í síðustu sólargeislum dagsins

    Loksins, loksins kom að því að ég færi með veiðistöng í hönd að Kýlingavatni. Eftir hádegisskúri sunnudagsins renndum við inn að Kýlingum. Og þvílík fegurð. Veðrið var e.t.v. ekki það besta, en umhverfið skartaði þessu gullfallega vota litskrúði sem einkennir Landmannalaugar og fjöllin í grennd. Vanþekking undirritaðs var alger þegar við komum að vatninu og því ósköp lítið hægt að segja meira um þessa heimsókn, en ég á örugglega eftir að fara að Kýlingum aftur. Ósköp þætti mér vænt um að geta sett einhvern afla úr Kýlingavatni á veiðiskýrslu.

    Á leiðinni að Landmannahelli stoppuðum við í Frostastaðavatni að norðan þar sem enn var bætt á bleikjukvótan og að lokum kíktum við aðeins í Löðmundarvatnið þar sem frúin tók eina í mjög góðri matfiskstærð svona rétt til að setja punktinn yfir i-ið í þessari frábæru ferð.

    Kaffi, kleina og fiskur við Frostastaðavatn
    Kaffi, kleina og fiskar við Frostastaðavatn

    Ef veðurguðirnir leyfa er greinilega enn nóg eftir að veiðisumrinu á fjöllum og um að gera að nýta haustið til útiveru. Það gefst örugglega nógur tími til að húka inni við í vetur.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     14 / 16 103 / 123 0 / 0 17 / 27 13 / 17

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 16. – 18. júlí

    19. júlí 2015
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það er ekki svo langt síðan að Landmannaleið (F225) var opnuð frá Landvegi og inn að Landmannalaugum og það sást svo sannanlega þessa þrjá daga sem við hjónin eyddum við Framvötnin. Víða nær snjór niður að vegi og á nokkrum stöðum er beinlínis ekið þar sem enn bráðnar þannig að vegir geta verið blautir, skornir og varasamir.

    Því miður virðast lokanir ekki hafa aftrað mönnum frá því að leggja af stað á þessar slóðir og því miður sést það víða að menn hafa lent í vandræðum, ekið utan vega og þannig húðflúrað móður jörð til framtíðar. Nýleg, djúp og ruddaleg bílför má sjá víða að Fjallabaki og fæst þeirra munu nokkurn tíma gróa alveg um heilt. Í samtali mínu við landvörð að Fjallabaki kom fram að mikil og góð hugarfarsbreyting hefur átt sér stað hjá okkur Íslendingum en sama er ekki hægt að segja um alla erlenda ferðamenn. Mér finnst túrisminn heldur vera farinn að verða okkur dýrkeyptur ef háar fjársektir duga ekki lengur til að fæla menn frá utanvegaakstri. Það eru víst til þeir ferðamenn sem líta orðið á háar fjársektir sem óhjákvæmilegan kostnað við jeppaferðir um Ísland og einfaldlega borga, brosa og halda áfram leið sinni um Ísland, sama hvort vegur sé til staðar eða ekki.

    Utanvegaakstur í nágrenni Löðmundar
    Utanvegaakstur í nágrenni Löðmundar

    Við hjónin tókum stefnuna á Fjallabak á miðvikudaginn og auðvitað tók sól og blíða á móti okkur þegar í Landmannahelli var komið. Þar sem stubburinn frá Landmannahelli austan Sátu var lokaður vegna bleytu og skemmda eftir utanvegaakstur þurftum við að taka krókinn inn að Sauðleysu og niður á Landmannaleið til að komast í vötnin við Dómadal og þar fyrir austan. Það var síðan á föstudag að vegurinn austan Sátu var opnaður, blautur og heldur óásjálegur, en fær.

    Hrafnabjargavatn
    Hrafnabjargavatn

    Við byrjuðum fimmtudaginn á því að fara inn á Hrafnabjargavatni sem okkur hefur langað til að taka stöðuna á alveg frá því í fyrra að við komum að því í heldur miklum strekkingi. Eins og kunnugir vita þá er farið að vatninu um sama veg og liggur að Sauðleysuvatni en haldið áfram til norð-vesturs um Hellismannaleið, yfir sandana til norðurs og er þá komið að þessu einstaklega fallega vatni. Það þarf ekki að orðlengja upplifun okkar hjóna af þessu vatni. Það, eins og mörg önnur vötn á svæðinu hefur orðið bleikjunni að bráð eða bleikjan orðið offjölguninni að bráð. Sama hvort er, þarna er fiskurinn smár, smærri og einstaklega óásjálegur. Eftir að hafa eytt töluverðum tíma við vatnið og sannfærst um lélegt ástand bleikjunnar héldum við til baka heldur döpur í bragði og lögðum leið okkar austur að Frostastaðavatni.

    Tveir þeir stærstu úr Hrafnabjargavatni
    Tveir þeir stærstu úr Hrafnabjargavatni

    Að þessu sinni lögðum við leið okkar um Suðurnámshraun þar sem á okkur var kastað einhverri skemmtilegustu kveðju sem ég hef fengið um árabil; Hva, voðalega eruð þið sein á ferð? sagði kampakátur Ármaðurinn á milli þess sem hann landaði hverri fallegri bleikjunni á fætur annarar. Var þar á ferðinni enn annar undanfari Ármanna-hópsins sem væntanlegur var næsta dag. Eftir stutt spjall tókum við hjónin nokkuð hressilegan hring um hraunið og víkurnar. Það verður víst ekki sagt um Frostastaðavatnið að þar skorti fisk, en töluvert var hann nú samt á eftir áætlun hvað varðar holdafar og stærð. Það læddist að mér sá grunur að í víkunum að vestan væri meira af fiski sem væri nýkominn upp úr dýpinu, slæpingjar í lengri og mjórri kantinum sem enn ættu eftir að taka á sig nokkurt hold. Í víkunum að norðan og austan í hrauninu voru feitari og fallegri fiskar. Nokkuð meira af miðlungs og litlum fiski en færri stórir þannig að við enduðum í að setja 24 fiska í úrkast og tókum 34 til matar. Þessar tölur segja sitt um stærð fiskanna.

    Föstudagurinn rann upp, bjartur og fagur eins og þeir gerast fallegastir að Fjallabaki. Við vorum svo sem ekkert að æsa okkur á fætur um morguninn, fengum okkur vel útilátinn morgun-hádegisverð og héldum síðan aftur í víkurnar við Frostastaðavatn. Að þessu sinni var ekkert mikið rápið á okkur, héldum okkur í nánast einni vík og spreyttum okkur á þurrflugum og púpum fram undir kvöldmat þegar tók fyrir alla veiði eins og svo oft áður. Við röltum þá til baka með afla dagsins en komum þó við í vatninu að norðan þar sem við höfum áður gert góða veiði. Sökum hárrar vatnsstöðu komumst við ekki að okkar þekktu veiðistöðum en tókum engu að síður nokkra fiska fram að hættumálum um 23:00 Það var einfaldlega ekki hægt að hætta þetta sem átti að verða síðasta kvöldið í þessari ferð. Af afla dagsins fóru 15 í úrkast og 50 til matar, heldur veglegri fiskar heldur en daginn áður.

    Upphaflega höfðum við ætlað að fara heim þetta kvöld en við létum slag standa, skriðum sæl með daginn undir sæng og dreymdi farsæl viðbrögð á þurrflugu fram undir morgun þegar við vöknuðum við nokkuð hressilegan strekking úr norð-austri. Minnstu munaði að við létum undan, pökkuðum saman og héldum heim á leið en þegar 8 gallvaskir Ármenn höfðu farið af stað til veiða gátum við ekki annað en dregið vöðlurnar upp fyrir nafla og veitt líka. Ekki fórum við langt, kíktum á Löðmundarvatnið og lögðum leið okkar inn með bakkanum að norðan alveg að Tæpastíg. Um nokkurt skeið hefur bleikjan í vatninu legið undir því orði að vera heldur liðmörg og smá. Það er vissulega rétt, en í mér blundaði sú trú að stærri bleikja væri í vatninu en sú við vesturbakkann. Það kom einnig á daginn að það má gera ágæta veiði í vatninu því undan flötunum við Tæpastíg urðum við vör við töluvert af fiski og fyrsti fiskur konunnar var mjög falleg, tæplega punds bleikja, prýðilegur matfiskur. Að vísu var þetta aðeins lítill blettur sem vænlegur fiskur fannst á, meira af tittum inn að víkinni að norð-austan og svo tómir tittir við vesturbakkann eins og áður er getið. Það fór svo að við tókum 25 fiska samtals, þar af til matar 7 stk. sem er mun hærra hlutfall en áður hjá okkur. Það skildi þó aldrei vera að stofninn í vatninu sé að koma til, en grisjunar er þó greinilega þörf.

    Eftir þessar vísindaveiðar í Löðmundarvatni, renndum við inn í Dómadal en stoppuðum heldur stutt þar sem vindurinn hafði aftur náð sér á strik. Við tókum því dótið okkar saman, endurnýjuðum ísinn í kæliboxin og héldum til byggða, sæl og ánægð með þessa fyrstu ferð okkar í Framvötnin á árinu. Það lágu ekki margir kílómetrar eftir okkur á malbikinu þegar við vorum farin að spá í hvenær við færum næst í vötnin, því eins og skáldið sagði; Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     72 / 81 88 / 104 0 / 0 16 / 27 8 / 11

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 23. ágúst

    25. ágúst 2014
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Lái okkur hver sem vill, Framvötnin kölluðu enn og aftur á okkur hjónin á föstudaginn. Veðurspáin var reyndar í svalara lagi, en þá getur maður jú alltaf lagt land undir fót og prófað eitthvað nýtt. Fyrir valinu varð að prófa tvö vötn sem enn voru óreynd; Lifrarfjallavatn upp af Dómadal og Blautaver norðan Ljótapolls.

    Dómadalsvatn
    Dómadalsvatn

    Til að byrja með er rétt að nefna að vatnsborð Dómadalsvatns hefur lækkað verulega síðustu vikur. Meira að segja svo að vel má sjá hvar dýpið tekur við af grynningunum. Að sjá þessi skil kemur sér vel fyrir næsta ár því loftmyndir hafa hingað til ekki sýnt þessi skil nægjanlega vel að mínu mati.

    Spölurinn upp að Lifrarfjallavatni er töluvert á fótinn og fyrsti parturinn ekki sá auðveldasti. Brekkan upp frá bílastæðinu við Dómadalsvatn er nokkuð brött en versti partur hennar er ofarlega; laus möl á sorfinni klöpp þannig að festa undir sléttum vöðluskóm er ekki mikil. Þegar upp á Dómadalsháls er komið taka ávalar brekkur við þar til komið er að Lifrarfjallavatni sem liggur í skál við rætur Lifrarfjalla.

    Lifrafjallavatn séð af Dómadalshálsi
    Lifrarfjallavatn séð af Dómadalshálsi

    Þar sem þetta var fyrsta ferð okkar hjóna að vatninu getum við lítið annað en dregið ályktanir af ummerkjum og þannig sagt að yfirborð vatnsins hefur trúlega lækkað frá efstu stöðu um 1,5 metra í sumar. Auðvitað ætti þá að vera auðveldara að ná til fiskjarins sem þarna leynist, sérstaklega sé tekið mið af sérlega flötum botinum sem stóð nú á þurru (til vinstri á myndinni hér að ofan). Við komum okkur fyrir á álitlegum stað og ég varð fljótlega var við fisk. Sögur segja að oft sé hann mjög tregur en það liðu nú ekki margar mínútur þar til fyrsti fiskur var kominn á land og fljótlega tveir til viðbótar. Á meðan frúin reyndi að ná #2 lagði ég land undir fót og kannaði vesturbakka vatnsins og þá sérstaklega vísbendingar um eitthvert æti sem fiskurinn hefði úr að spila, án árangurs. Mér er enn hulin ráðgáta hvað urriðinn var að éta þarna í vatninu, þeir fiskar sem við tókum voru fullir af óræðu gumsi og lítið á því að græða. En mikið var holdið í þeim fallegt, rósrautt/bleikt, stinnt og fallegt. Þau eru ekki mörg vötnina sem hafa gefið okkur svona fallega fiska.

    Lifrafjöll
    Lifrarfjöll

    Það er satt að það er fallegt undir Lifrarfjöllum en persónulega finnst mér umhverfi Sauðleysuvatns fallegra. Á móti kemur að bleikjukóð Sauðleysu er eitt og sér eiginlega nóg til að skemma heildarmyndina. En það er sannanlega vel þess virði að staulast yfir hálsinn að Lifrarfjallavatni en farið varlega á leiðinni til baka, hér talar maður af slæmri reynslu. Það er ekki erfitt að missa fótanna efst í brekkunni ofan við Dómadalsvatn. Að vísu skemmdist ekkert eða rifnaði, en hér á mánudegi eftir byltuna er ég frá vinnu og eins og ég hafi elst um nokkur ár yfir helgina.

    Eftir stuttan stanz við Frostastaði þar sem við fengum okkur bita, héldum við áfram för að Blautaveri, öðru vatni innan Framvatna sem við áttum eftir að kynnast.

    Blautaver
    Blautaver

    Nokkuð misjöfnum sögum hefur farið af Blautaveri síðustu ár. Einhverjir hafa gert góða veiði á meðan aðrir hafa eingöngu sett í titti. Ég tilheyri þeim síðarnefndu, frúin situr enn eftir í hópi þeirra sem ekkert hafa fengið. Ég setti í þrjá fiska, náði tveimur þeirra að landi þannig að ég gat sleppt þeim aftur, missti einn (sem var auðvitað miklu stærri) áður en ég þurfti að losa fluguna úr honum.

    Að lokum röltum við inn í hraunið við Frostastaðavatn og nældum í örfáar bleikjur í matinn, ekki veitti nú af. Heilt á litið held ég að þetta hafi verið einhver skemmtilegasta ferð okkar hjóna í Framvötnin í sumar; ný vötn, frábært umhverfi og dásamlegt veður. Fjöldi fiska er alls ekki allt.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     5 / 4 120 / 121 1 / 5 17 / 27 21 / 27

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 17. ágúst

    18. ágúst 2014
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Veðurspár eru afstæðar, það er mín upplifun. Eigum við eitthvað að ræða veðurspá helgarinnar fyrir Veiðivatnahraun, Vatnsfell og Búrfell? Heilt yfir snérust þær um vind, vind og kulda. Þetta eru spástöðvarnar sem við hjónin horfðum til á laugardaginn fyrir vötnin sunnan Tungnaá, Framvötnin. Upp úr hádeginu á laugardag létum við allar spár lönd og leið, bókuðum tvö svefnpokapláss við Landmannahelli, tróðum veiðidótinu í bílinn og keyrðum austur.

    Jú, eitthvað blés hann af norðri, en ekkert í líkingu við það sem veðurspáin sagði. Við létum reyna á Herbjarnarfellsvatn um kvöldið og uppskárum sitt hvorn pundarann á móti vindi og glæsilegu sjónarspili kvöldsólarinnar á fjöllum og ásum í norð-austri.

    Við Herbjarnarfellsvatn
    Við Herbjarnarfellsvatn

    Sunnudagsmorguninn reif okkur framúr með sólskini og smá golu af norðri. Eftir staðgóðan morgunverð var haldið í Frostastaðavatn að norðan. Ég verð að játa að ég gerði ekki ráð fyrir miklum afla á þeim slóðum, en mikið hafði ég nú rangt fyrir mér. Við fikruðum okkur hægt og rólega til austurs við norðurendann þar til við lentum í tökum, endalausum tökum. Fram af hrauninu höfðu bleikjurnar greinilega fundið nokkrar víkur á botninum þar sem nóg var af æti og þar tóku þær grimmt.

    Nú er rétt að vara viðkvæma hófsemdarmenn við þeim lýsingum sem hér fara á eftir. Á þeim 4-5 klst. sem við eyddum við vatnið með einu matarhléi, komu 84 bleikjur á land sem vógu samtals 27 kg. Meðal þyngd þeirra var því 313 gr. Af þessum skrifast 25 stk. á grisjun vegna smæðar en flestar voru rétt innan við pundið en nokkrar 1,5 – 2 pund þó.

    Miðað við síðustu ferð okkar hjóna í Framvötnin, dagana 29. til 31. júlí og þann afla sem við bárum heim þá, er ekki nema von að einhverjum detti í hug orð eins og ‚græðgi‘ ‚hömluleysi‘ og þar fram eftir götunum. Á mörgum stöðum ættu þessi orð við, en í mínum huga eiga þau ekki við í Framvötnum þar sem stofnar bleikju hafa fengið að stækka hömlulaust síðustu árin, svo mikið að ákveðin vötn eru beinlínis ónýt sökum smábleikju á þeim slóðum. Þó ástundun stangveiðimanna hafi í raun sára lítið að segja um stóru myndina hvað varðar grisjun ofsetinna vatna, þá hjálpar allt til. Auðvitað kitlar samt að skoða veiðitölur Framvatna frá því í fyrra (sjá hér). Með þeim tveimur urriðum sem við náðum í Herbjarnarfellsvatni, þá erum við búinn að tvöfalda veiðina þar frá því í fyrra. Með báðum okkar ferðum í Frostastaðavatn í ár, þá erum við komin með 36% af heildarafla vatnsins í fyrra. Mér er til efs að veiðimenn hafi skilað veiðiskýrslum í fyrra eins og vera ber.

    Blautaver - Horft til norðurs
    Blautaver – Horft til norðurs

    Að endingu renndum við hjónin inn fyrir Ljótapoll og skyggndumst yfir Blautuver í átt til Veiðivatna. Enn eigum við eftir að prófa Verin, það bíður betri tíma. Það er nægur tími til stefnu, ef ekki fyrir 20.sept. þá kemur annað sumar eftir þetta.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     39 / 45 114 / 117 1 / 1 16 / 22 19 / 25

    Ummæli

    18.08.2014 – Siggi Kr.: Hvílík græðgi og hömluleysi… hjá bleikjunum í Frostastaðavatni 🙂 Sérdeilis glæsilegur túr sem þið hafið gert þarna og ekki laust við að maður öfundi ykkur smá. Hef sjálfur ekkert farið í Framvötnin þó það hafi verið á dagskrá í mörg ár en það er víst að þegar loks kemur að því máttu búast við beiðni um allskonar upplýsingar um þetta svæði (vötn, flugur,taktík o.fl.). Kv. Siggi Kr.

    Svar: Ekki máli Siggi, við tökum umræðu um þetta í vetur í Árósum 🙂

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 3 4 5 6
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar