Framvötn 5. & 6. sept.

Eins og segir í ágætri bók sem ég var að glugga í um daginn; Ef tíðarfar er gott má fara í dags- og helgarferðir langt fram eftir mánuðinum ….. göngutúr með stöng á öxl og nesti í poka getur verið lykillinn að góðri veiði á þessum árstíma. Það er bara eins og þetta hafi verið mælt úr mínum munni og við tókum höfundinn á orðinu og brugðum okkur upp að Landmannahelli um helgina og áttum þar yndislega helgi við veiðar. Ef að líkum lætur þá var þetta síðasta ferð okkar hjóna í Framvötnin á þessu ári, eða hvað? Það verður jú opið í Landmannahelli til 25. sept. og ef veðrið helst eitthvað í líkingu við það sem var um helgina, þá er ekkert sem mælir gegn því að skreppa í haustlitaferð að Fjallabaki.

Laugardagurinn var að vísu svolítið að flýta sér, nokkuð hressilegur andvari að vestan sem nægði til þess að innfæddir héldu sig heldur mikið til hlés. Malli lét t.d. ekki sjá sig þótt við værum á stjái í bakgarðinum hans við Frostastaðavatn og bleikjurnar voru svolítið tregar til töku. Okkur hjónum tókst samt að særa upp sitt hvora fimm fiskana, vænstu bleikjur plús tveir tittir sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum endað í Malla maga, en þar sem hann lét sig vanta fóru þeir í úrkast.

Enn er forvitni okkar um vötnin og veiðistaði ekki að fullu svalað og því ákváðum við að gera okkur ferð á ókunnar slóðir við Frostastaðavatn á sunnudaginn. Fyrir þá sem þekkja til staðhátta lögðum við leið okkar að víkinni innan við hraunið að sunnan og gerðum prýðilega veiði þar. Fimm fiskar á stuttum tíma, allir vænir sem tóku hressilega á. Úr víkinni lögðum við síðan leið okkar út með hrauninu að vestan og norður fyrir og komum við á nokkrum völdum stöðum og bættum í bleikjusafnið. Það var svo ekki fyrr en við komum í aðra-víkina í hrauninu að Malli lét sjá sig eða sendi fulltrúa sinn öllu heldur. Eitthvað minni útgáfa af honum mætti á staðinn og gerði sig nokkuð heimakominn við fiskana mína á tímabili. Eftir smá umhugsun og fimmaura-orðaleiki varð úr að hann fékk viðurnefnið; Smalli og ég gaukaði að honum smælki sem annars hefði farið í ruslið.

Veðurguðirnir ákváðu að reka ræknar sögusagnir af kulda og vosbúð á hálendinu af höndum sér og Frostastaðavatnið var baðað í blíðu og hitatölum sem hefðu sómt sér ágætlega á miðju sumri. Hreint dásamlegur dagur og það var með herkjum að maður hafði sig inn í bíl og héldi áleiðis í amstur hversdagsleikans. Það fór því svo að við vorum heldur síðar á ferðinni heim en ráðger var og einföld skilaboð voru send í vinnuna; Mæti seint í dag.

Aflabrögð helgarinnar voru annars með ágætum. 35 fiskar í heildina á land, flestir um pundið, nokkrir stærri og fjórir í úrkast. Ég held að maður verði bara að una vel við þennan fjölda, sérstaklega í ljósi fregna sem við höfðum af netlaögnum bænda. Mér skilst að fjögur net hafi aðeins skilað 50 fiskum þessa tvo daga sem lagt var.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 14 / 21 117 / 144 / 0 17 / 27 15 / 19

 

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com