Það er ekki svo langt síðan að Landmannaleið (F225) var opnuð frá Landvegi og inn að Landmannalaugum og það sást svo sannanlega þessa þrjá daga sem við hjónin eyddum við Framvötnin. Víða nær snjór niður að vegi og á nokkrum stöðum er beinlínis ekið þar sem enn bráðnar þannig að vegir geta verið blautir, skornir og varasamir.
Því miður virðast lokanir ekki hafa aftrað mönnum frá því að leggja af stað á þessar slóðir og því miður sést það víða að menn hafa lent í vandræðum, ekið utan vega og þannig húðflúrað móður jörð til framtíðar. Nýleg, djúp og ruddaleg bílför má sjá víða að Fjallabaki og fæst þeirra munu nokkurn tíma gróa alveg um heilt. Í samtali mínu við landvörð að Fjallabaki kom fram að mikil og góð hugarfarsbreyting hefur átt sér stað hjá okkur Íslendingum en sama er ekki hægt að segja um alla erlenda ferðamenn. Mér finnst túrisminn heldur vera farinn að verða okkur dýrkeyptur ef háar fjársektir duga ekki lengur til að fæla menn frá utanvegaakstri. Það eru víst til þeir ferðamenn sem líta orðið á háar fjársektir sem óhjákvæmilegan kostnað við jeppaferðir um Ísland og einfaldlega borga, brosa og halda áfram leið sinni um Ísland, sama hvort vegur sé til staðar eða ekki.

Við hjónin tókum stefnuna á Fjallabak á miðvikudaginn og auðvitað tók sól og blíða á móti okkur þegar í Landmannahelli var komið. Þar sem stubburinn frá Landmannahelli austan Sátu var lokaður vegna bleytu og skemmda eftir utanvegaakstur þurftum við að taka krókinn inn að Sauðleysu og niður á Landmannaleið til að komast í vötnin við Dómadal og þar fyrir austan. Það var síðan á föstudag að vegurinn austan Sátu var opnaður, blautur og heldur óásjálegur, en fær.

Við byrjuðum fimmtudaginn á því að fara inn á Hrafnabjargavatni sem okkur hefur langað til að taka stöðuna á alveg frá því í fyrra að við komum að því í heldur miklum strekkingi. Eins og kunnugir vita þá er farið að vatninu um sama veg og liggur að Sauðleysuvatni en haldið áfram til norð-vesturs um Hellismannaleið, yfir sandana til norðurs og er þá komið að þessu einstaklega fallega vatni. Það þarf ekki að orðlengja upplifun okkar hjóna af þessu vatni. Það, eins og mörg önnur vötn á svæðinu hefur orðið bleikjunni að bráð eða bleikjan orðið offjölguninni að bráð. Sama hvort er, þarna er fiskurinn smár, smærri og einstaklega óásjálegur. Eftir að hafa eytt töluverðum tíma við vatnið og sannfærst um lélegt ástand bleikjunnar héldum við til baka heldur döpur í bragði og lögðum leið okkar austur að Frostastaðavatni.

Að þessu sinni lögðum við leið okkar um Suðurnámshraun þar sem á okkur var kastað einhverri skemmtilegustu kveðju sem ég hef fengið um árabil; Hva, voðalega eruð þið sein á ferð? sagði kampakátur Ármaðurinn á milli þess sem hann landaði hverri fallegri bleikjunni á fætur annarar. Var þar á ferðinni enn annar undanfari Ármanna-hópsins sem væntanlegur var næsta dag. Eftir stutt spjall tókum við hjónin nokkuð hressilegan hring um hraunið og víkurnar. Það verður víst ekki sagt um Frostastaðavatnið að þar skorti fisk, en töluvert var hann nú samt á eftir áætlun hvað varðar holdafar og stærð. Það læddist að mér sá grunur að í víkunum að vestan væri meira af fiski sem væri nýkominn upp úr dýpinu, slæpingjar í lengri og mjórri kantinum sem enn ættu eftir að taka á sig nokkurt hold. Í víkunum að norðan og austan í hrauninu voru feitari og fallegri fiskar. Nokkuð meira af miðlungs og litlum fiski en færri stórir þannig að við enduðum í að setja 24 fiska í úrkast og tókum 34 til matar. Þessar tölur segja sitt um stærð fiskanna.
Föstudagurinn rann upp, bjartur og fagur eins og þeir gerast fallegastir að Fjallabaki. Við vorum svo sem ekkert að æsa okkur á fætur um morguninn, fengum okkur vel útilátinn morgun-hádegisverð og héldum síðan aftur í víkurnar við Frostastaðavatn. Að þessu sinni var ekkert mikið rápið á okkur, héldum okkur í nánast einni vík og spreyttum okkur á þurrflugum og púpum fram undir kvöldmat þegar tók fyrir alla veiði eins og svo oft áður. Við röltum þá til baka með afla dagsins en komum þó við í vatninu að norðan þar sem við höfum áður gert góða veiði. Sökum hárrar vatnsstöðu komumst við ekki að okkar þekktu veiðistöðum en tókum engu að síður nokkra fiska fram að hættumálum um 23:00 Það var einfaldlega ekki hægt að hætta þetta sem átti að verða síðasta kvöldið í þessari ferð. Af afla dagsins fóru 15 í úrkast og 50 til matar, heldur veglegri fiskar heldur en daginn áður.
Upphaflega höfðum við ætlað að fara heim þetta kvöld en við létum slag standa, skriðum sæl með daginn undir sæng og dreymdi farsæl viðbrögð á þurrflugu fram undir morgun þegar við vöknuðum við nokkuð hressilegan strekking úr norð-austri. Minnstu munaði að við létum undan, pökkuðum saman og héldum heim á leið en þegar 8 gallvaskir Ármenn höfðu farið af stað til veiða gátum við ekki annað en dregið vöðlurnar upp fyrir nafla og veitt líka. Ekki fórum við langt, kíktum á Löðmundarvatnið og lögðum leið okkar inn með bakkanum að norðan alveg að Tæpastíg. Um nokkurt skeið hefur bleikjan í vatninu legið undir því orði að vera heldur liðmörg og smá. Það er vissulega rétt, en í mér blundaði sú trú að stærri bleikja væri í vatninu en sú við vesturbakkann. Það kom einnig á daginn að það má gera ágæta veiði í vatninu því undan flötunum við Tæpastíg urðum við vör við töluvert af fiski og fyrsti fiskur konunnar var mjög falleg, tæplega punds bleikja, prýðilegur matfiskur. Að vísu var þetta aðeins lítill blettur sem vænlegur fiskur fannst á, meira af tittum inn að víkinni að norð-austan og svo tómir tittir við vesturbakkann eins og áður er getið. Það fór svo að við tókum 25 fiska samtals, þar af til matar 7 stk. sem er mun hærra hlutfall en áður hjá okkur. Það skildi þó aldrei vera að stofninn í vatninu sé að koma til, en grisjunar er þó greinilega þörf.
Eftir þessar vísindaveiðar í Löðmundarvatni, renndum við inn í Dómadal en stoppuðum heldur stutt þar sem vindurinn hafði aftur náð sér á strik. Við tókum því dótið okkar saman, endurnýjuðum ísinn í kæliboxin og héldum til byggða, sæl og ánægð með þessa fyrstu ferð okkar í Framvötnin á árinu. Það lágu ekki margir kílómetrar eftir okkur á malbikinu þegar við vorum farin að spá í hvenær við færum næst í vötnin, því eins og skáldið sagði; Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
72 / 81 | 88 / 104 | 0 / 0 | 16 / 27 | 8 / 11 |
Senda ábendingu