Ónefnda vatnið, 6.maí

Já, merkið við greinina segir að ég hafi núllað (eitt skiptið enn), en ég er samt mjög sáttur. Brá mér rétt út fyrir bæjarmörkin í dag og varð vitni að ótrúlega skemmtilegum aðförum urriða sem fór um í hópum, örugglega 10 stk. sem úðuðu í sig steinflugum sem voru nýbúnar að klekjast út og leituðu aftur út á vatnið að verpa. Ég hef aldrei orðið vitni að þessu áður, urriðarnir minntu helst á höfrunga; snjáldrið upp úr, bakugginn og svo sporðurinn, og svona endurtóku þeir leikinn fram og til baka þar til þeir höfðu hreinsað yfirborðið af flugum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  10 8

Kleifarvatn, 29.apríl

Veiðifélagið eins og það lagði sig skrapp í Kleifarvatnið í dag.

Svo mörg voru þau orð.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  9 7

Ummæli

G. Hjálmar 29.04.2012Ég kannast svo sannarlega við það sem þú ert að ganga í gegnum! Fjórar ferðir og enginn afli, ekki gott fyrir sjálfstraustið það.

Kleifarvatn, 28.apríl

Nokkuð erfiðar aðstæður; rok, rigning og kalt með köflum. Ágætis kastæfingar undir klettum Indjánans rétt fyrir kvöldmat og svo smá æfing á móti vindi undir Hverahlíðinni. Við erum sammála um það hjónin að framsetningar okkar með nýju línunum eru alveg að detta inn, skemmtilegar línur á móti vindi. Ekki eitt einasta orð um fisk. Það er nú farið að þyngjast í mér hljóðið núna.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  8 6

Ummæli

Urriði 29.04.2012: Það er búið að opna Reynisvatn ;)

Kristján 29.04.2012: Úps, hér brestur mig bara orð. Eigum við bara ekki að segja að ég hef aldrei komist upp á lagið með að veiða eldisfisk :-)

Kleifarvatn, 22.apríl

Og enn bætum við hjónin við í ‘núll’ ferðir okkar þetta vorið. Brugðum okkur í Kleifarvatnið og ætluðum nú aldeilis að láta reyna á hina marg rómuðu kvöldveiði. Vorum mætt upp úr kl.20 við syðrihluta vatnsins þar sem tveir veiðimenn höfðu barið það í nokkurn tíma en ekkert fengið. Þrátt fyrir nokkurn vind létum við okkur hafa það að særa út flugur af hinum ýmsustu gerðum allt fram í myrkur án þess að verða vör við einn einasta fisk. Annars gekk vindurinn niður og brast á með hinu fallegasta veiðiveðri og það greip um sig þessi yndislega tilfinning að fátt er betra en standa á vatnsbakka í blíðunni og velja spekingslega upp úr boxunum. Ágæt sárabót í ‘núllinu’.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  7 5

Meðalfellsvatn, 21.apríl

Tókum á okkur smá krók á heimleiðinni og bleyttum færi í Meðalfellsvatninu. Voru seint, en ekki nógu seint á ferðinni til að ná í kvöldveiðina og stoppið var stutt. Ekki margir veiðimenn á stjái, sáum til einhverra þriggja sem voru á förum. Höfðum engar fréttir af veiði, og stoppuðum sjálf frekar stutt.

Eitt vorum við hjónin þó sammála um; Vífilsstaðavatn er kaldast af þeim vötnum sem við höfum farið í þetta vorið sem er einkennilegt því það stendur alls ekki hæst þeirra. Miðað við útrennsli, en það er mest í Vífó miðað við stærð, þá gæti það verið skýringin á þessum kulda. Vatnið sem streymir inn í það kælir væntanlega mest. Meðalfellsvatnið hefur vinninginn í þroska, þar eru felstar flugurnar komnar á stjá og eitthvað segir mér að gróðurinn sé komin lengst.

Já, eins og ég sagði í fyrri grein í dag, þá er þetta frekar snautlegt, aðeins tveir fiskar í sex ferðum, en það var gott að komast aftur í veiðina.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  6  4

Ummæli

22.apríl 2012 – Gústaf Ingvi: Er að lenda í svipuðu og þið hjónin, er búinn að núlla nokkrum sinnum við vötn sem maður var vanur að fá fiska á þessum árstíma. En að góðu fréttunum þá er maður búinn að ná af sér hrollnum og er til búinn fyrir steinsmýrina í næstu viku.

22.apríl 2012 – SvarTakk fyrir þetta, hughreystandi að heyra. Var farinn að halda að við værum algjörlega búin að missa taktinn. Ég datt auðvitað í grúskið og bar saman hitatölur frá því í fyrra og hitteðfyrra og fann stóran mun: Þegar hitastigið náði loksins þetta 3-8 °C að deginum í fyrra (voraði seint og illa) var nánast ekkert næturfrost. Sömu sögu má segja um 2010, en þá voraði um svipað leiti og í ár. Núna (2012) er aftur á móti búið að vera stöðugt næturfrost alveg frá því í byrjun apríl. Ætli fiskurinn fari sér bara ekki hægar þegar sveiflurnar eru svona miklar á milli dags og nætur.

23.04.2012 – Árni JónssonEkki ertu einn í þessu, né tvö, því almennt er ansi dræm veiði á syðri endanum samkvæmt öllum sem að ég hef rætt við. Sjálfur er ég búinn að reyna Vatnamót, Varmá, Víkurflóð, Vífó & Meðalfellsvatn og allur aflinn telur 1 saklausa bleikju, sem að fékk líf. Fisk hef ég þó séð í Víkurflóði & Grímsstaðarlæk, en ekki í neinu magni. Ég bíð ólmur eftir því að uppáhaldið mitt Þingvellir opni, enda farinn að vopnbúast bókstaflega!

Einkavatn, 21.apríl

Fyrsta ferð vorsins enda vatnið alveg nýkomið undan ís. Ennþá smá íshröngl við útfallið og ekkert líf að sjá. Gátum samt ekki stillt okkur um að bregða nokkrum flugum á taum en útkoman varð heldur snautleg, enginn fiskur. Nú er heldur farið að halla á veiðimennskuna, höfum núllað í þremur af fimm ferðum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  5  3

Vífó, 20.apríl

Ósköp lítið um þessa ferð að segja, vatnið ennþá mjög kalt og afkaplega lítið líf komið af stað. Vorum sunnan megin í vatninu, tókum bakkann frá útfalli og næstum inn að læk í nokkrum áföngum. Heldur bjart yfir og tók fljótlega að anda köldu að vestan þannig að veiðimenn stoppuðu stutt.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  4  2

Vífó, 9.apríl

Smelltu fyrir stærri mynd

Það er spurning hvort maður viljið nokkuð viðurkenna þessa ferð sem veiðiferð, kannski var þetta bara kastæfing. Annars skartaði vatnið sínu fegursta rétt fyrir hádegið í dag, nokkrir veiðimenn á stjái en lítið um fisk. Lofthiti var í lægra lagi, vindur nokkur á köflum og vatnið hreinlega skítkalt. Við hjónin komum okkur fyrir undir bökkunum að norðan og þreifuðum fyrir okkur frá miðju vatni og austur eftir. Lítið líf, sá til tveggja fiska sem héldu sig nokkuð djúpt, ef það er þá hægt að tala um dýpi í Vífó.  Svolítið af flugu komin á stjá, en vatnið mjög kalt og því kaldara sem utar og nær suðurbakkanum dró. Af þeim veiðimönnum sem við tókum tali hafði enginn orðið varð, hvorki að sunnan, austan né norðan, en einhverjar fregnir voru af tveimur bleikjum sem komu á lang snemma í morgun. Jæja, það gengur bara betur næst.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 – 2 1  3  1

Ummæli

12.04.2012 – Veiði #1:  Sæll, mig langar bara að hrosa þer fyrir þessa frabæru siðu, eg dett her inn a hverjum degi. Þetta er sennilega eina siðan a islandi sem segir fra veiði i votnum. Og er froðleikurinn sem kemur her inn alveg frabær.  Takk fyrir mig og haltu afram að gera goða hluti.

Svar:  Takk fyrir þetta. Ég væru auðvitað að ljúga ef ég viðurkenndi ekki að mér þætti hrósið gott. Og, jú, ég reyni að halda áfram eins lengi og mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa

Bestu kveðjur og takk fyrir innlitið,

Kristján

Meðalfellsvatn, 8.apríl

Til að rýma til fyrir meira súkkulaði brugðum við hjónin okkur í Kjósina upp úr kl.15 í dag. Veðrið var alveg ágætt, gekk á með sólarglennum og örlítilli golu. Hitastigið var þetta rétt rúmlega 3°C á mæli en virkaði alls ekki svo svalt. Þar sem vindáttinn var af vest-suðvestan komum við okkur fyrir undir hlíðinni að sunnan, einu veiðimennirnir á staðnum. Og til að gera langa sögu stutta, frúin kvittaði í veiðibók ársins með tæplega punds urriða sem hún tók á svarta mjónu með gyltum kúluhaus. Að þessu sinni var fiskurinn settur undir smásjánna og magainnihald skoðað; eitthvað af lirfum (lítið þó) en aðallega kuðungur.

Annars virðist lífríkið vera að taka svolítið við sér, hettumáfurinn mættur á staðinn ásamt sílum og seiðum sem héldu til við bakkana. Sko, ég sagði að sumarið yrði snemma á ferðinni, mér er alveg sama hverju veðurfræðingar spá fyrir næstu daga.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
2 1  2

Meðalfellsvatn, 1.apríl

Oft hefur nú fyrsti dagur í veiði verið hráslagalegri heldur en dagurinn í dag. Veiðifélagið tók sig til í allri sinni mannmergð og tróð sér, stöngum, vöðlum og öðrum græjum í jepplinginn og tók stefnuna á Kjósina þennan fyrsta dag í vertíð. Miðað við árstíma getur víst enginn kvartað undan veðrinu, þokkalega hlýtt og gola með köflum.

Mannmergðin við vatnið var slík að engu var líkara heldur en Bubbi sjálfur væri með útitónleika á staðnum. Menn sitt hvoru megin við Bugðuós og alveg inn eftir ströndinni að norðan. Það var líka staðið þétt undir hlíðinni að sunnan þannig að við ákváðum að koma okkur fyrir á tánni gengt syðri bátaskýlunum og dreifðum úr okkur eins og kostur var. Ég hrökklaðist aðeins undan suð-vestanáttinni út á grynningarnar utanvert í víkinni. Hefði viljað koma flugu upp í vindinn en var ekki alveg að ná þeim köstum sem ég vildi svo ég lét bara vaða undan vindi út í dýpið. Prófaði Héraeyra, Pheasant Tail en tók svo loksins einn rúmlega pundara (urriða) á Svarta og rauða mjónu (Buzzer) sem hann hefur væntanlega tekið í misgripum fyrir mýlirfu. Samkvæmt venju fékk fyrsti fiskur ársins líf og ég sá ekki betur en hann hafði verið frelsinu feginn.

Ekki fór neitt meira fyrir veiði í okkar hópi, raunar held ég að lítið hafi komið á land þennan fyrsta dag. Vonandi þó nóg til að viðhalda áhuga manna þangað til fiskurinn fer að gefa sig að ráði.

Aðeins eitt að lokum: Það er ekki oft sem maður er óhress með traffíkina á blogginu, en mér finnst nú eins og þeir 203 (þegar þetta er skrifað) sem höfðu ekkert annað að gera í dag heldur en kíkja inn hefðu átt að láta slag standa og skella sér í veiði í stað þess að vafra á netinu 🙂  Nei, annars, takk fyrir öll innlitin á árinu; 14.082 fyrstu þrjá mánuðina.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
1 1  1

Ummæli

Árni Jónsson 03.04.2012 – Fór Vífilstaðarvatn og þótt að fjöldi hafi verið, þá var það þolanlegt. Urðum ekkert varir, en aðeins ein bleikja rétt yfir pundi var kominn á land. Veðrið var fallegt með lítilli golu, og ekki laust við að þungu fargi vetrar sé af manni létt.

Leynivatnið, 22.okt.

Við hjónin stóðumst ekki mátið í dag og skutumst rétt út fyrir bæjarmörkin, veðrið var eins gott og hugsast getur að hausti. Eitthvað hafði vatnið kólnað lítillega frá síðustu helgi, en lífsmörk voru samt sem áður meiri en þá; vorflugur í tugatali á vatninu og silungurinn að vaka og úða í sig fyrir veturinn. Ég tók tvo í tveimur köstum á orange Nobbler og frúin einn á Peacock, þokkalegir fiskar á bilinu 1 – 1/2 pund. Hængurinn var ekkert farinn að skrýðast riðbúningi og hryggnurnar voru langt frá hryggningu, þéttar en ókynþroska ef marka má hrognabrækurnar sem voru afskaplega litlar. Líkt og um síðust helgi virtist fæðan samanstanda af sílum og lirfum, eitthvað af kuðungi líka.

 

Vísindaveiði – 16.okt.

50sm hængur, tæp 2 pund

Það er lengi von á einum, miður október og enn gefa vötnin. Við hjónin brugðum okkur rétt út fyrir bæjarmörkin í ónefnt vatn eftir hádegið í dag. Lofthiti aðeins um 3°C, stinningskaldi en vatnið langt því frá farið að kólna neitt að ráði. Urðum fljótlega vör við, og þótti miður, að alveg nýverið hefðu veiðimenn verið á ferð og ekki hirt um að urða eða taka með sér slóg úr í það minnsta fjórum fiskum. En hvað um það, ferðin var farin í þeirri trú að enn væri urriði á ferð og það reyndist rétt. Fljótlega setti ég í einn um pundið með bústnum Peacock en sá slapp með ótrúlegri sporðatækni og hnykkjum. Beið ekki boðanna, þóttist reikna út hvert hann hafði stefnt þegar hann losnaði og smellti á reitinn. En þá var annar mættur á staðinn, tæp tvö pund sem lék svipaðar kúnstir á sporðinum en í þetta skiptið var ég viðbúinn og náði að halda strekktu í honum þar til hann var kominn á land, glæsilegur fiskur. Leið og beið nokkur stund þar til ég varð aftur var við ágætan fisk á orange Nobbler, en sá tók heldur naumt og slapp.

Hornsíli, kuðungur og lirfur

En hvað er svo fiskurinn að éta þegar svona langt er liðið á haustið? Jú, í stuttu máli alveg nákvæmlega það sama og hann hefur verið að gera í allt sumar; hornsíli, kuðung og …. lirfur. Já, við nákvæma athugun á magainnihaldi komu í ljós 10 hornsíli, slatti af kuðung og nokkrar vorflugulirfur auk auðvitað sands og smásteina. Sem sagt, vatnið enn í fullu fjöri og ekkert sem bendir til að hrygning sé að fara af stað, fiskurinn ekkert að dökkna né dröfnur að stækka. Ætli viðmið okkar beggja, fisksins og mín sé ekki bara náttúran og veðurfarið frekar en dagatalið?

Sléttuhlíðarvatn – 7.okt.

Þetta var svo sannarlega dagur veiðifélaga míns, konunnar. Hún átti erindi norður að Hólum í Hjaltadal til að taka við Diploma í viðburðastjórnun frá Háskólanum að Hólum og ég fékk að fljóta með. Og auðvitað var athugað með veiði í leiðinni. Já, þótt það sé komið vel fram á haustið þá er enn hægt að komast í veiði, t.d. hjá bændunum að Hrauni á Sléttuhlíð rétt norðan Hofsóss. Við mættum á staðinn eftir glæsilega útskriftarveislu að Hólum upp úr kl.17 svo það var ljóst að ekki gæfist langur tími til veiða. Og það var eins og fiskurinn vissi þetta líka því ekki liðu nema örfá köst þar til konan fékk ágæta töku, en missti. Leið og beið nokkur stund og lítið urðum við vör við fisk, en vissum þó af honum. Eyddum mestum tíma í að brjóta ísinn reglulega úr lykkjunum, það var helv…. kalt en fallegt veður. Rétt um það bil sem síðustu geislar sólar náðu til okkar fékk ég ágæta töku rétt við vatnsbakkann og á sama augnabliki varð ég var við fisk á hina höndina, urriðinn var kominn upp á grunnið. Að vísu missti ég af fiskinum en frúin tók tvo væna hænga í tveimur köstum og bætti síðan um betur með einni hryggnu þegar við sáum í raun ekkert lengur til. Sem sagt; frúin með eitt diploma og þrjá urriða á Dentist, ég ekki með neinn fisk en mjög montinn af henni. Haustið getur verið fallegt og engin ástæða til að hætta veiðum strax, ullarföt og stúkur hjálpa svo til við að halda hita á manni.

Þess má til gaman geta að hryggnan var vel hrognafull, en ekkert los komið í hrognin þannig að væntanlega eru enn einhverjir dagar í hryggningu í vatninu.

Kleifarvatn – 25.sept.

Ég get svo svarið það að veðrið var hreint ekki eins og spáin sagði til um. Ef það sem kom ofan úr loftinu við Kleifarvatnið fyrir hádegi í dag var lítilsháttar rigning og vindurinn aðeins 1-3 m/sek. þá er eitthvað farið að slá útí fyrir mér. Ásetningurinn var að komast í það minnsta í eina veiði áður en dagatalið segði mönnum að nú væri mál að hætta og það tókst. Að vísu var lítið um aflabrögð hjá okkur þremur sem fórum, aðeins einn veiðimaður varð var við fisk undir Vatnshlíðinni, aðrir ekkert. Nú eru aðeins 5 dagar eftir af dagatalinu og ef veðurspámenn ljúga ekki þeim mun meira, þá eru nú ekki miklar líkur á að maður fari meira þetta haustið.

Úlfljótsvatn, 3.sept.

Eftir erilsama viku í vinnunni er fátt betra heldur en smeygja sér í vöðlurnar, taka nokkur skref útí og baða flugur. Svona getur maður tekið jákvæða pólinn í hæðina þegar enginn fiskur kemur á land, ekki eitt einasta högg, en veðrið leikur við mann og haustlitirnir farnir að gægjast fram í náttúrunni. Annars hef ég grun um að Mosó gengið hafi bara gert nokkuð góða ferð í Hlíðarvatn í Hnappadal þrátt fyrir nokkurn vind og eru þau örugglega komin með tæplega 30 fiska á land þegar þetta er skrifað, og kvöldið eftir.

Uppfært kl.22:30 – Lokatölur Mosó gengisins í Hlíðarvatni urðu 78 stk. mest bleikja, allt tekið á maðk. Já, Hlíðarvatn í Hnappadal lætur ekki að sér hæða.

Langavatn, 27. ágúst

Jæja, ekki varð dagsferð veiðifélagsins nein frægðarför, en ágæt samt. Í stuttu máli; fjórar bleikjur á land, tvær hjá kvennadeild Mosó á maðk (eins ræfilslegan og unnt var) og sitt hvor hjá okkur hjónunum, Héraeyra og Dentist þ.e. flugurnar ekki við hjónin. Vorum staðsett vestan við vatnið, nærri útfalli Langár og skimuðum allt svæðið frá útfalli og inn að syðri enda Langavatnsmúla. Hvorki smár né stór urriði lét sjá sig þannig að alvöru tilraunaveiði með hrognaflugur verður að bíða betri tíma. Áhrif vatnsmiðlunar í Langá og þar með lífríkið í vatninu voru nokkuð sláandi, yfirborðið hefur lækkað um hátt á annan metra frá því að við voru við vatnið í lok júlí enda vatni veitt ótæpilega í ánna. Slíkar sveiflur í vatnshæð verða eflaust til þess að fiskurinn færir sig um set og velur sér síður hentug búsvæði heldur en ella. Kjörlendi stórurriða og kuðungableikju stóðu nánast á þurru og maður fer að hallast að því að ‘Langavatn var eyðilagt með vatnsmiðlunarstíflunni’ eins og kemur fram í Stangaveiðihandbókinni 2.bindi, bls.95 .

Smá uppfærsla á leiðarlýsinguna inn að vatninu að vestan; án fellihýsis vorum við ekki nema 40 mín. frá Fjallgirðingunni inn að vatninu. Munaði þar mestu um að búið er að lagfæra veginn á verstu köflunum ofan við vaðið á Langá. Væntanlega hefur veiðifélagið annast þessar lagfæringar þar sem slóðinn þjónar veiðistöðum 81 og uppúr.

Hlíðarvatn, Hnappadal 20. & 21. ágúst

Það er viss hefð fyrir því hjá veiðifélaginu að taka eina helgi í ágúst við Hlíðarvatn og nú sem áður varð Menningarnæturhelgin fyrir valinu. Mosó mætti á staðinn síðdegis á föstudag og tók til óskiptra málanna fram í myrkur við að særa upp fiska með maðk á floti. Alveg þokkaleg viðbrögð og nokkrir fallegir fiskar lágu í kæli eftir kvöldið. Reykjavíkurdeildin mætti það seint á staðinn að stangirnar voru bara látnar hvíla sig eftir ferðalagið.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Laugardagurinn rann upp, ekki alveg eins fagur og hér á myndinni en þokkalegur samt. Nokkur vindur þannig að flugunum var leyft að sofa frameftir. Ekki var alveg eins mikið líf í tuskunum og kvöldið áður, en mér tókst samt að særa upp þrjá urriða á spún við Stjánaströnd. Þegar vind stillti eftir hádegið voru flugurnar vaktar og þær settar í vinnu. Við hjónin tókum svolítið bland í poka á Peacock og græna og orange Nobbler, bleikjur og urriða fram að og eftir kvöldmat en brósi fór alveg á kostum með hrogn á floti og reif upp rúmlega 20 urriða á stuttum tíma inn af Tótutanga. Úrræðagóður strákurinn í maðkaleysinu. Nú er bara að kynna sér hrognafræðin.

Sunnudagurinn, eða Stóri-Bleikjudagurinn eins og hann verður kallaður hér eftir, rann upp fyrir okkur hjónum um 7:30 með yndislegu veðri, hita, algjöri stillu og fiskum að vaka undan Lárulág. Jú, við hjónin drifum okkur í vöðlurnar og ætluðum aðeins að stríða þessum tittum sem voru að vaka, en svo kom áfallið. Þetta voru bara ekkert einhverjir tittir, heldur heilu torfurnar (50-80 stk. pr. torfu) af bleikju sem dreifðu sér með reglulegu millibili við ströndina í aðeins ökkladjúpu vatni. Við fyrstu skref út í vatnið varð það eins og suðupottur á að líta þegar styggð komst að fiskinum. Bleikjan var greinilega farinn að hópa sig fyrir hryggningu enda flestir fiskarnir farnir að taka á sig riðbúning, misjafnlega mikið þó og fáir svo mikið að þeir sýndu flugu ekki áhuga. Svo mikill var atgangurinn og veiðin að við hjónin vorum fljót að fá nægju okkar og settum okkur því reglu; aðeins mátti taka tvo fiska á hverja tegund flugu, þá varð að skipta. Með þessu náðum við ágætri yfirsýn og reynslu með misjafnar flugur í bleikjuna; flestar gáfu í 1 – 3 kasti, fáar ekki. Stuttur listi yfir þær flugur sem gáfu gæti verið; Peacock í öllum mögulegum stærðum og útfærslum (yfirburðir), Ripp, Rapp, Rupp, Davy Jones, Knoll, Connemara Black, Watson’s Fancy púpa, Mobuto, Tailor, hefðbundið og flashback Héraeyra. Þegar svo Mosódeildinn reis úr rekkju toppaði mágkonan ferðina með því að taka sína fyrstu fiska á flugu og þótti það sko ekki leiðinlegt. Allir prófuðu eitthvað nýtt, gerðu tilraunir með flugur, breytilegan inndrátt og æfðu sig í að bregðast við naumum tökum bleikjunnar; sannkallaður fluguveiðiháskóli.

Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að aðeins fór að draga úr veiðinni og maður þurfti að hafa aðeins meira fyrir hverjum fiski en veiðin hélst alveg fram undir kvöldmat þegar mál var komið að pakka saman og koma sér heim. Eitthvað fór talning afla á milli daga í rugl, en samtals afli var eitthvað á þá leið að Mosó var með 42 fiska, mest urriða og töldu þar mest 25 stk. á hrogn. Reykjavíkurdeildin var með 7 urriða og 54 bleikjur, samtals 61 fisk. Allt fiskar af ágætri ‘matfiska stærð’, tæpt pund og upp í tvö. Hér eru ótaldir allir fiskar sem var sleppt eða sluppu. Toppur sumarsins.

Kleifarvatn, 13. ágúst

Það var engin frægðarför hjá veiðifélaginu í Kleifarvatnið í dag, allir núlluðu fyrir utan frúnna sem tók einn titt undir Lambhaganum á Peacock. Annars byrjuðum við á nokkuð skemmtilegum stað innan við Geithöfða en stoppuðum stutt þar sem töluverður vindur setti öll köst úr lagi. Eigum samt örugglega eftir að prófa þann stað síðar, stutt í dýpið þar sem spekingarnir segja að þeir stóru haldi sig.

Úlfljótsvatn, 9.ágúst

Skyndiákvörðun og skreppur í Úlfljótsvatnið rétt fyrir kvöldmat hjá okkur hjónunum. Ákváðum að prófa inn af Steingrímsstöð og ekki sveik staðurinn mig. Tók eina hálfs annars punda bleikju á Knoll og svo tvo titti sem fengu líf. Einn mínus í ferðinni, það gerði nokkuð góðan austan strekking sem eyðilagði aðeins köstin hjá okkur þannig að við færðum okkur í sunnanvert vatnið gengt Brúarey á leiðinni heim. Töluvert líf á þeim slóðum og nokkrir veiðimenn. Frúin setti í einn titt á Pólskan PT, en meira varð nú ekki úr veiðinni.

Úlfljótsvatn, 7.ágúst

Meðan verkefnastjórinn gekk frá lausum endum eftir Sumar á Selfossi skapp ég í Úlfljótsvatnið frá kl.13:30 – 17. Gríðarlega flott veður, sólskin og steikjandi hiti og mér kom í raun ekki til hugar að fiskurinn mundir gefa sig í þessu veðri. En, það var nú öðru nær. Mikið líf með bleikjunni úti í dýpinu inn af Steingrímsstöð, nældi í eina um pundið en gekk erfiðlega að fá fleiri til að bíta fast. Flugan sem gaf er af nokkuð þekktum meiði; svart vínil rib á hefðbundinn öngul, ‘Hot Red’ neon floss skott, fíngerður koparþráður á milli vafninga og svo koparhaus til að setja punktinn yfir i-ið. Einhver lagði til að kvikindið fengi nafnið Knoll og svo sjáum við til hvort Tott komi ekki við sögu seinna. Mjög sáttur eftir daginn.

E.S. í þetta skiptið mundi ég eftir einhverju af húsráðunum og setti væna slummu af Vick’s VapoRup á bak við bæði eyrunn og undir nasirnar. Og viti menn, það dugði, ekki eitt einasta flugnabit.