Það er óhætt að segja að árið sem er að líða hefur ekki verið nein flugeldasýning hjá öllum þeim sem stunda stangveiði á Íslandi. Ég kvarta þó ekki yfir sumrinu, það var með ágætum hjá mér og mínum veiðifélaga enda engum alvarlegum vatnsskorti fyrir að fara í vatnaveiðinni. Þetta árið eyddum við þó nokkuð fleiri dögum en áður upp á hálendi við ýmis störf og veiðar. Aflatölurnar bera það e.t.v. ekki alveg með sér, en á því er sú skýring að umtalsverðum fjölda daga var varið í fiskiræktarstarf sem ekki er talið með í aflatölum hér á síðunni.
Að þessu sinni skipti ekki máli hvort meðaltal veiðiferða væri reiknað á milli bláu eða rauðu talnanna, þær bláu voru nokkuð hærri; 115 fiskar á móti 78 hjá rauða liðinu. Að vanda var júlí fengsælasti mánuðurinn, júní sérlega rólegur og veiði hætt snemma í september þar sem haustið gerði heldur snemma vart við sig uppi á hálendi.
Eins og sjá má hafa árin verið nokkuð brokkgeng hjá okkur veiðifélögunum og heldur hefur dregið úr afla hin síðari ár, en það stendur auðvitað til bóta á komandi sumri. Þannig að allrar sanngirni sé gætt, þá taka tölurnar hér að ofan ekki tillit til fjölda veiðidaga, aðeins afla.
Árið sem er að líða hefur fært tæplega 117.000 gesti inn á FOS.IS og sífellt fjölgar þeim sem fylgjast með því efni sem hér er matreitt að hætti veiðinördsins. Þetta er svipaður fjöldi eins og verið hefur á síðustu árum, síðan heldur sínum fasta hópi lesenda og fyrir það færum við ykkur okkar bestu þakkir.
Hin síðari ári hefur mest aukning í heimsóknum verið yfir sumarið og svo var einnig á þessu ári. Væntanlega má rekja það til aukinnar áherslu á umfjöllun um veiðistaði hér á síðunni, þótt flugur og fluguhnýtingar eigi ennþá vinninginn í fjölda greina. Það fer ekkert á milli mála þegar aðsóknin að síðunni er skoðuð að efnið er mis vinsælt eftir árstíma; flugur að vetri og veiðistaðir að vori og sumri.
Að vanda stóðum við fyrir Febrúarflugum á árinu og þar bar helst til tíðinda að fjöldi fylgjenda tók enn og aftur stökk á milli ára. Það verður spennandi að sjá hvað Febrúarflugur 2020 bera í skauti sér og með hvaða sniði þær verða næst.
Á ári komanda verður efnisval á vefnum með svipuðum hætti og verið hefur. Fjöldi greina verður sömuleiðis svipaður rétt um þrjár greinar á viku um ýmislegt það sem höfundi þykir skipta máli eða hann hefur áhuga á. Ein breyting verður þó strax og hún snertir einn vinsælasta hlekk síðunnar; dagatal ársins. Frá og með deginum í dag breytist útlit dagatalsins þannig að það líkis meira hefðbundinni flóðatöflu. Með þessu vonumst við til að koma til móts við þá sem notast við snjalltæki því eldra útlit var ekki sérlega vænt til aflestrar á smærri skjám. Flóðatöfluna má nálgast með því að smella hérna eða úr valmynd síðunnar Töflur – Flóðatafla.
Að þessu sögðu vil ég þakka öllum lesendum mínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þeim gæfuríks nýs árs með ósk um enn fleiri samverustundir á vefnum á nýju ári og ánægjulegra veiðidaga á komandi sumri.