Í lok árs 2019

Það er óhætt að segja að árið sem er að líða hefur ekki verið nein flugeldasýning hjá öllum þeim sem stunda stangveiði á Íslandi. Ég kvarta þó ekki yfir sumrinu, það var með ágætum hjá mér og mínum veiðifélaga enda engum alvarlegum vatnsskorti fyrir að fara í vatnaveiðinni. Þetta árið eyddum við þó nokkuð fleiri dögum en áður upp á hálendi við ýmis störf og veiðar. Aflatölurnar bera það e.t.v. ekki alveg með sér, en á því er sú skýring að umtalsverðum fjölda daga var varið í fiskiræktarstarf sem ekki er talið með í aflatölum hér á síðunni.

Að þessu sinni skipti ekki máli hvort meðaltal veiðiferða væri reiknað á milli bláu eða rauðu talnanna, þær bláu voru nokkuð hærri; 115 fiskar á móti 78 hjá rauða liðinu. Að vanda var júlí fengsælasti mánuðurinn, júní sérlega rólegur og veiði hætt snemma í september þar sem haustið gerði heldur snemma vart við sig uppi á hálendi.

Eins og sjá má hafa árin verið nokkuð brokkgeng hjá okkur veiðifélögunum og heldur hefur dregið úr afla hin síðari ár, en það stendur auðvitað til bóta á komandi sumri. Þannig að allrar sanngirni sé gætt, þá taka tölurnar hér að ofan ekki tillit til fjölda veiðidaga, aðeins afla.

Árið sem er að líða hefur fært tæplega 117.000 gesti inn á FOS.IS og sífellt fjölgar þeim sem fylgjast með því efni sem hér er matreitt að hætti veiðinördsins. Þetta er svipaður fjöldi eins og verið hefur á síðustu árum, síðan heldur sínum fasta hópi lesenda og fyrir það færum við ykkur okkar bestu þakkir.

Hin síðari ári hefur mest aukning í heimsóknum verið yfir sumarið og svo var einnig á þessu ári. Væntanlega má rekja það til aukinnar áherslu á umfjöllun um veiðistaði hér á síðunni, þótt flugur og fluguhnýtingar eigi ennþá vinninginn í fjölda greina. Það fer ekkert á milli mála þegar aðsóknin að síðunni er skoðuð að efnið er mis vinsælt eftir árstíma; flugur að vetri og veiðistaðir að vori og sumri.

Að vanda stóðum við fyrir Febrúarflugum á árinu og þar bar helst til tíðinda að fjöldi fylgjenda tók enn og aftur stökk á milli ára. Það verður spennandi að sjá hvað Febrúarflugur 2020 bera í skauti sér og með hvaða sniði þær verða næst.

Á ári komanda verður efnisval á vefnum með svipuðum hætti og verið hefur. Fjöldi greina verður sömuleiðis svipaður rétt um þrjár greinar á viku um ýmislegt það sem höfundi þykir skipta máli eða hann hefur áhuga á. Ein breyting verður þó strax og hún snertir einn vinsælasta hlekk síðunnar; dagatal ársins. Frá og með deginum í dag breytist útlit dagatalsins þannig að það líkis meira hefðbundinni flóðatöflu. Með þessu vonumst við til að koma til móts við þá sem notast við snjalltæki því eldra útlit var ekki sérlega vænt til aflestrar á smærri skjám. Flóðatöfluna má nálgast með því að smella hérna eða úr valmynd síðunnar Töflur – Flóðatafla.

Að þessu sögðu vil ég þakka öllum lesendum mínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þeim gæfuríks nýs árs með ósk um enn fleiri samverustundir á vefnum á nýju ári og ánægjulegra veiðidaga á komandi sumri.

Í lok árs 2018

Enn og aftur er komið að áramótum. Það er víst merki um eigin aldur þegar manni finnst árin líða hraðar og hraðar eftir því sem þeim fjölgar. Mér finnst nefnilega eins og það hafi verið fyrir örfáum vikum síðan að ég sat hérna og setti saman þetta árlega yfirlit mitt um síðuna og veiðitölur.

Þetta ár hefur verið merkilegt hjá FOS.IS að ýmsu leiti. Árið leiddi rétt tæplega 115 þúsund heimsóknir inn á vefinn sem er enn og aftur aukning frá fyrra ári. Fjöldi heimsókna á vefinn er tæplega 700 þúsund á þessum átta árum sem hann hefur verið í loftinu. Það væri dónaskapur að þakka ekki fyrir tryggðina sem lesendur sýna þessu vefbrölti mínu.

Aldrei þessu vant var það ekki febrúar sem var vinsælasti mánuðurinn á vefnum. Þetta árið sló júlí honum við með 22.250 heimsóknum, eitthvað sem ég átti ekki von á. Febrúar átti samt sem áður sitt eigið met þetta árið. Aldrei áður hafa jafn margir fylgst með Febrúarflugum, aldrei áður hafa jafn margar flugur komið þar fram. Þetta árið fylgust 247 einstaklingar með viðburðinum á Facebook, 523 flugur komu fyrir sjónir lesenda og það voru 62 hnýtarar sem lögðu sitt að mörkum. Þeim sem bíða í ofvæni eftir næsta febrúar, þá skal það tekið fram að Febrúarflugur 2019 eru þegar á dagskrá.

Ég hef ekki nákvæman tölu yfir þær greinar sem hafa komið inn á vefinn, þær eru trúlega eitthvað um 170 því mér hefur tekist að standa við það markmið mitt að setja þrjár greinar inn á síðuna í viku hverri, auk annarra tilfallandi greina. Það er ekki alltaf auðvelt að skrifa um eitthvað sem vakið getur athygli eða áhuga lesenda, vonandi hefur það tekist þokkalega þetta árið.

Síðari hluta ársins tók ég saman nokkrar upplýsingar um veiðiferðir mínar síðustu níu árin og birti í nokkrum greinum hér á síðunni. Nú er komið að lokapunktinum þar sem ég horfi eingöngu til eigin veiði, enginn metingur á milli mín og veiðifélaga míns.

Með þessari samantekt þakka ég öllum lesendum mínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þeim gæfuríks nýs árs með ósk um enn fleiri samverustundir á vefnum á nýju ári.

Heildarafli 2010 til 2018

Síðustu ár hafa verið nokkuð brokkgeng í aflatölum og það þarf að leita nokkuð langt aftur til að finna verri tölur heldur á árinu 2018. Sem fyrr er uppistaða aflans bleikja (rauðu súlurnar) og þar eru mestar sveiflur á meðan fjöldi urriða (bláu súlurnar) hefur verið á svipuðu róli og sveiflast mun minna.

Apríl

Apríl mánuður hefur verið í gegnum tíðina verið afskalega rýr þrátt fyrir töluverðan fjölda veiðidaga. Með tíð og tíma hefur dregið verulega úr þessum ferðum mínum í apríl enda ekki eftir miklu að slægjast eins og tölurnar bera með sér.

Maí

Maí hefur lengi verið bundinn við Hlíðarvatn í Selvogi sem skýrir fjölda bleikja (rauðu súlurnar) á meðan einn og einn urriði (bláu súlurnar) slæðist með úr öðrum vötnum.

Júní

Ef undan eru skilin árin 2015 og 2018, þá hefur júní ekki verið neitt rosalegur veiðimánuður síðust ár. Ég er þó fyllilega sáttur við það sem komið hefur á land. Árið í ár sker sig nokkuð úr því þá kom ekki einn einasti urriði á land.

Júlí

Það var nú eins og mig grunaði, júlí var ekkert rosalega góður þetta árið og spilaði veðrið einna mest inn í færri veiðiferðir en mörg undafarin ár.

Ágúst

Eins dásamlegur og ágúst mánuður getur verið, þá er hann einna sveiflukenndasti mánuður veiðinnar. Árin 2014 og 2016 skera sig úr þar sem bleikjan á hálendinu var í banastuði. Öll árin einkennast af heldur minni urriða heldur en mánuðina á undan.

September

Óvanalegur toppur í urriðum árið 2010 skýrist af einni veiðiferð það ár í Hlíðarvatn í Hnappadal. Mjög eftirminninleg ferð þar sem urriðinn fór hamförum á hrygningarslóðum bleikjunnar. Bleikjuskotið 2017 er ofan af hálendi, eins og svo oft áður.

Október

Ef einhver mánuður einkennist af sorglegum aflatölum, þá er það október. Þrátt fyrir einhvern fjölda af ferðum þessi ár, þá eru það aðeins 2010 og 2011 sem færa einhvern fisk, urriða bæði árin.

Veiði 2018 – samantekt

Ekki verður nú sagt að sumarið sem leið hafi verið stangveiðimönnum hagstætt, sérstaklega þeim sem hafa tekið ástfóstri við hálendið. Þar var eiginlega bara skítaveður þetta sumar, svo notað sé hreinræktað kjarnyrt íslenskt mál.

Eitthvað geyma bláu súlurnar fleiri fiska en þær rauðu, en enn og aftur kemur að þessu meðaltali veiðiferða og þá snýst dæmið aðeins við. Rauðu eiga vinninginn enn og aftur.

Veiði 2016 – samantekt

Hver man ekki eftir 2016, sumrinu sem var einstaklega gott uppi á hálendi og veiðitölurnar bera það með sér.

Þótt bláu súlurnar eigi vinninginn í heildarafla, þá vinna þær rauðu í raun þegar tekið er tillit til meðaltalsveiði í ferðum.

Veiði 2015 – samantekt

Þrátt fyrir heldur kalt sumar árið 2015, þá varð veiði ársins töluvert yfir því sem var fyrri ár. Ræður þar enn og aftur aukin skráning á veiði í Framvötnum.

Hér ber svo einkennilega við að bláu súlurnar eiga vinninginn, bæði í heildarafla og afla að meðaltali.

Veiði 2014 – samantekt

Árið 2014 var einfaldlega tóm sól og blíða allt sumarið, í það minnsta í huga mér svona eftirá. Toppurinn var í júlí þar sem fjöldi fiska tók stökk vegna skráningar á veiði í Framvötnum og sama svæði skýrir alveg þokkalegan ágúst mánuð.

Rauðu súlurnar hafa víst vinninginn þetta sumarið með samtals 137 fiska á meðan þær bláu ná 148 fiskum. Vinningurinn liggur í því að veiðiferðir félaga míns voru nokkuð færri þetta árið og meðalveiði því miklu betri heldur en hjá mér.

Veiði 2013 – samantekt

Árið 2013 verður seint talið til betri ára þessa áratugar. Maí var kaldur, júní þokkalegur en heldur blautur og júlí sást varla fyrir rigningu, í það minnsta hér sunnanlands.

Þetta er eitt af fáum síðustu ára þar sem bláu súlurnar eru hærri allt sumarið heldur en þær rauðu. Helgast það einna helst af þrákelkni undirritaðs að fara til veiða þrátt fyrir leiðinlegt veður.

Veiði 2012 – samantekt

Áfram heldur samantekt áranna 2010 – 2018. Komið er að 2012 sem var eitt af betri árum áratugarins þegar kemur að veðurfari, ef undan er skilinn maímánuður sem var nokkuð kaldur.

Auðu súlurnar eru hennar, bláu eru mínar og hér má glögglega sjá að heldur er tekið að halla á mínar veiðitölur og hefur sú þróun haldist, nær óslitið síðan.

Veiði 2011 – samantekt

Árið 2011 var annað árið sem ég safnaði skipulega saman upplýsingum um veiði okkar félaganna. Veðurfar sumarsins var með ágætum, þótt júní hafi verið heldur hráslagalegur.

Sem fyrr eru rauðu súlurnar veiðifélaga míns og þær bláu mínar eigin.

Veiði 2010 – samantekt

Undanfarin átta ár hef ég skráð nokkuð nákvæmlega veiði mína og veiðifélaga míns og birt hér á síðunni. Vegna smá verkefnis sem ég var að vinna að um daginn, þá tók ég veiðitölur þessara ára og setti upp í súlurit og datt þá í hug að setja þetta hér inn á síðuna til að fylla inn í fyrri samantektir sem ég hef gert í loks flestra ára.

Elstu gögnin sem mark er takandi á eru frá árinu 2010. Rauðu súlurnar tákna afla veiðifélaga míns, en þær bláu tákna minn afla. Þetta ár lögðum við leið okkar helst í Hlíðarvatn í Hnappadal í nokkur skipti og er júlí áberandi þar.

Árið í hnotskurn

Árið sem nú er að líða var að mörgu leiti sérstakt. Veiðiferðir mínar í sumar sem leið voru innan við tuttugu og það eru einhver ár síðan ég hef farið jafn fáar ferðir í veiði. Ég hafði það lengi vel á tilfinningunni að aflinn væri í samræmi við ferðirnar, en þegar upp var staðið þá var hann hreint ekki svo slæmur, þannig að ég get víst ekki verið annað en sáttur eftir árið.

Því verður aftur á móti ekki á móti mælt að veðráttan var ekki upp á marga fiska. Þegar ég lít til baka, þá finnst mér eins og þetta sumar hafi verið frekar sólarlítið og kalt. Að vísu náði ég flestum dögum þurrum í veiði eða kannski var það bara vatnsheldi jakkinn sem ég keypti mér í vor sem gerði það að verkum að ég var tiltölulega þurr þetta sumar.

Á vefnum var þetta viðburðaríkt ár. Aldrei hafa fleiri heimsóknir komið inn á síðuna á einu ári, tæplega 115.000 og viðburðaríkasti dagurinn skaust upp í 1.538 heimsóknir. Annars hefur meðaltalið verið þetta um 300 heimasóknir á dag, ekkert ósvipað og undanfarin ár en dreifist með öðrum hætti á árið.

Flestir sem heimsótt hafa síðuna hafa verið að sækjast í Grúskið, næst koma Flugur, þar næst Vötnin og Veiðiferðir. Hvort það er framboð efnis eða áhugi sem ræður þessari dreifingu veit ég ekki en efnistökin á næsta ári verða í það minnsta svipuð, þetta virðist svala einhverjum fróðleiksþorsta þeirra sem fylgjast með síðunni. Já, vel að merkja, fylgjendur. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt og áskrifendur eru nú 85 á síðunni sjálfri, 436 á Facebook og rúmlega 450 á Instagram. Ég hef verið spurður að því hvort gjaldtaka sé á döfinni og svarið er alltaf það saman; svo lengi sem ég sé mér fært að fjármagna fastan kostnað síðunnar og þeirra viðburða sem henni tengjast, þá verður þetta ókeypis öllum sem vilja. Með góðra manna hjálp hefur það tekist hingað til og ég sé engin merki þess að það breytist í bráð. Á bak við þessa síðu standa allt aðrar hvatir en þær að afla fjár.

Á þessu ári hafa rúmlega 200 færslur komið fram á vefnum og ef vel tekst til þá verða færslur næsta árs eitthvað á svipuðu róli. Fyrir dyrum stendur að vekja fasta liði til lífsins á ný, Febrúarflugur verða auðvitað á dagskrá og þess má geta að þær hafa eignast sinn eigin hóp á Facebook þar sem þær munu eiga sitt heimili til framtíðar og auðvitað er öllum heimilt að skrá sig í þann hóp. Á þessu ári tóku 85 manns þátt í viðburðinum og lögðu fram ótrúlegan fjölda flugna. Ellefu þátttakendur voru dregnir út og hlutu þeir veglegar viðukenningar frá styrktaraðilum viðburðarins sem ég þakka sérstaklega vel fyrir stuðninginn.

Í lok árs vil ég þakka öllum fyrir samfylgdina á árinu, sérstaklega þeim sem sent hafa mér fyrirspurnir og ábendingar, við sjáumst á næsta ári sem er jú rétt handan við hornið.

Í lok árs 2016

Í lok árs er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og geta þess sem gert hefur verið. Inn á fos.is slæddust tæplega 85.000 gestir á árinu. Ef síðan hefði náð 90.000 heimsóknum hefði hún náð hálfri milljón gesta á þeim árum sem hún hefur verið í loftinu, en það náðist ekki alveg nú fyrir áramót. Þessi aðsókn verður samt að teljast nokkuð góð fyrir einn grúskara að ná. Takk, öll þið sem heimsóttuð grúskið mitt á árinu, ég vonast til að geta haldið þessu áfram á næsta ári og reyni sífellt að gera betur.

fos_nytt2017

Það væri reyndar ekki úr vegi að þakka gestum síðunnar á fleiri tungumálum heldur en íslensku því töluverður fjöldi heimsækir hana reglulega frá Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Þýskalandi, Danmörku og Bretlandi svo eitthvað sé nefnt. Margir þessara gesta fylgjast með síðunni á samfélagsmiðlum, s.s. Twitter (64), Facebook (378), G+ (234) og Instagram (125) auk þeirra 58 sem eru áskrifendur að síðunni og fá tölvupóst í hvert skipti sem nýjar færslur birtast.

Á árinu birtust hér tæplega 300 færslur og nú þegar bíða 100 birtingar á næsta ári. Þar á meðal eru nokkrar spennandi flugur til að hnýta, umfjöllun um nokkur vötn og svo ýmislegt annað grúsk. Hér eftir sem hingað til verður allt efni síðunnar aðgengilegt lesendum án endurgjalds. Síðunni hefur aldrei verið ætlað að skapa tekjur og yfirleitt hefur hún þurft einhverja meðgjöf úr vasa eigandans eða velviljaðra auglýsenda sem hafa hlaupið undir bagga og styrkt úthaldið við og við.

fos_feb2017

Á þessu ári stóð fos.is fyrir viðburði á Facebook sem heitir Febrúarflugur þar sem hnýtarar lögðu til 390 flugur á 29 dögum og kepptu um fjölmörg vegleg verðlaun. Með viðburðinum fylgdust á annað hundrað manns og eftir því sem ég hef hlerað þá þótti flestum þetta hin besta skemmtun og því hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn 2017. Áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks á Facebook með því að smella hérna. Endanlegt fyrirkomulag viðburðarins er að taka á sig mynd og verður kynnt von bráðar.

Nokkrar tilraunir voru gerðar á árinu sem er að líða til að kalla eftir efni frá áhugasömum; fréttum, upplýsingum um unga og efnilega veiðimenn eða hverju því sem stangveiðifélög og klúbbar vildu koma á framfæri. Undirtektir voru fáar en góðar og því er líkt um þessa síðu og fleiri sem fjalla um veiði, aðstandendur verða mest að útbúa efnið sjálfir. Eftir sem áður er einstaklingum, stangveiðifélögum og fyrirtækjum velkomið að senda mér efni til umfjöllunar eða kynningar, svo fremi það eigi erindi til stangveiðimanna, flugugrúskara og aðra þá sem heimsækja vefinn.

Að lokum vil ég enn og aftur þakka gestum mínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og megi komandi ár verða ykkur öllum farsælt veiðiár.

Kristján Friðriksson

2015

Það er nokkuð öruggt merki um ánægjulega vertíð þegar maður verður hissa á fæð veiðiferða á árinu, aðeins 20 ferðir. Í minningunni voru þær til muna fleiri, kannski ræður það einhverju að dagar í hverri ferð voru nokkur fleiri, eða rétt um 35 talsins.

Eins og hjá flestum var vorið langt, kalt og vindasamt. Það náði eiginlega alltof langt inn í sumarið svo viðunandi væri. En undan aflabrögðum var svo sem ekkert hægt að kvarta; 172 fiskar sem gera 8,6 í ferð hjá mér. Veiðifélagi minn var með 136 fiska í 17 ferðum sem gera 8 að meðaltali í ferð. Þetta var gott sumar og við náðum, að okkur fannst, tökum á svæðum sem áður höfðu eiginlega fallið út af vinsældarlistanum. Má þar nefna Hraunsfjörðinn sem við tókum í sátt eftir nokkur mögur ár.

Smellið fyrir stærri mynd
Smellið fyrir stærri mynd

Annars var árið viðburðaríkt í meira lagi. Í febrúar efndi vefurinn til viðburðar á Facebook sem fékk nafnið Febrúarflugur. Það er víst óhætt að segja að þátttakan hafi farið fram úr vonum; 225 flugur frá 26 hnýturum og margfalt fleiri fylgdust með. Fljótlega var afráðið að leikurinn yrði endurtekin að ári og skráning fyrir 2016 er þegar hafin hérna.

Langþráður dagur rann síðan upp þann 24. júní þegar ég fagnaði útkomu bókarinnar Vatnaveiði –árið um kring. Heldur seint að því mörgum þótti, en þar kemur á móti að efni bókarinnar er ekki stimplað með síðasta neysludegi eins og mjólkin okkar og hún eldist vel um ókomna mánuði, hér er engin dægurfluga á ferðinni. Viðtökur bókarinnar hafa verið með eindæmum góðar og ef að líkum lætur hefur hún verið undir nokkrum jólatrjám þessi jól.

Síðasta skrefið í endurhönnun vefsins var stigið nú í desember með nokkrum breytingum sem auðvelda notkun hans á farsímum og spjaldtölvum. Aðsóknin jókst enn og aftur á milli ára, tæplega 100.000 heimsóknir 2015 á móti 85.000 árið 2014. Á vefinn bættust tæplega 140 greinar og fréttir og nú þegar er efni tilbúið fyrir fyrstu 3 mánuði næsta árs. Það er ekkert lát á ástríðu höfundar á stangveiði og tengdum málefnum. Sífellt fleiri gestir nýta sér tilkynningar um nýtt efni á tölvupósti og fylgjendum FOS á Facebook vex einnig fiskum um hrygg og nú nýverið settum við á fót spjallvef á Facebook þar sem hægt er að leggja fram fyrirspurnir um veiði og veiðitengd málefni sem meðlimir geta þá veitt svör við eftir bestu vitund og þekkingu.

Öllum fylgjendum vefsins, aðilum að spjallsvæðinu og lesendum Vatnaveiði –árið um kring sendi ég mínar bestu þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða með von um óteljandi fiska á nýju ári.

2014

Heilt yfir má segja að sumarið 2014 hafi verið eitt besta ár í veiðinni sem komið hefur í langan tíma hjá mér. 25 ferðir færðu mér 121 bleikju og 27 urriða. Meðalveiði í ferð voru því tæplega 6 fiskar. Munar þar lang mestu um úthald okkar hjóna í Framvötnum í júlí og ágúst. Frúin endaði sömuleiðis í 121 bleikju, en urriðarnir voru eilítið færri eða 18. Aftur á móti var meðalveiði hennar í ferð ríflega 6 stk. þannig að enn og aftur hefur hún vinninginn og er vel að honum komin.

Smellið á myndina til að stækka
Smellið á myndina til að stækka

Um tíðafar sumarsins er það helst að segja að mér fannst eiginlega alltaf vera sól og blíða, nema þá helst þegar hausta tók. Þvert ofan í mínar spár um langt og milt haust var líkt og botnin hefði verið sleginn úr einhverri tunnu á himnum og veðurguðirnir byrstu sig örlítið meir heldur en ég átti von á. Hvað um það, vertíðin var gjöful og margra góðra stunda að minnast frá bökkum vatnanna okkar.

2013

Sumarið 2013 var mörgum veiðimönnum, þ.e. silungsveiðmönnum erfitt. Tíðarfar var heldur dapurt lengi fram eftir sumri og haustið skall snemma á okkur. Eftir því sem ég hef heyrt af mönnum má ég víst nokkuð vel við una með mína 50 fiska í því sem ég vil nú samt meina að sé lélegasta veiðisumar frá því ég byrjaði að skrá aflan með skipulögðum hætti.

Smelltu fyrir stærri mynd
Smelltu fyrir stærri mynd

ATH: hér urðu mér á þau mistök að gleyma einni ferð; Arnarvatnsheiði 15.- 16. júní þar sem frúin setti í tvo og ég í þrjá. Þar á meðal var minn stærsti sumarsins; 8 punda urriða í Austurá. Árið endaði sem sagt í 50 fiskum hjá mér sem var bróðurlega skipt 25/25 á milli urriða og bleikja. Frúin endaði í 28 stk. 19 bleikjum og 9 urriðum.

2012

Hér er svo uppgjör ársins 2012 hjá okkur hjónum. Enn og aftur sannast það hvað hitastigið hefur mikið að segja, þ.e. ef maður leyfir sér að horfa fram hjá eigin klúðri sem auðvitað hefur mikið að segja í veiðinni. Það er svo sem ekki mikils fiskjar að vænta þegar meðalhitinn nær vart 5°C sem sannar  sig yfirleitt í apríl.

Smelltu fyrir stærri mynd
Smelltu fyrir stærri mynd

2011

Þegar meðalhiti mánaða er skoðaður í samhengi við afla, þá má glögglega sjá að upp úr 8-9°C hita í nokkra daga fer aflinn aðeins upp á við. Að vísu hefur hitinn ekki aðeins áhrif á fiskinn, sjálfur er maður oft óttalegur innipúki þegar kalt er í veðri og fer lítið á stjá. Svona verkaðist árið 2011 hjá okkur hjónum.

Smelltu fyrir stærri mynd
Smelltu fyrir stærri mynd

Eins og venjulega  á ég bláu línurnar og frúin þær rauðu.

2010

Fyrsta árið sem ég tók upp á þeim óskunda að skrá veiðiferðirnar inn á þetta blogg var árið 2010. Að vísu vantar einhverjar ferðir í upphafi sumars hér inn. Bláu línurnar er afli undirritaðs en þær rauðu eru ættaðar frá eiginkonunni.

fos_upp2010
Smelltu fyrir stærri mynd

Upplýsingar um veður og tíðarfar eru fengnar frá Veðurstofu Íslands.