FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Þurrt, blautt eða dautt

    12. janúar 2014
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Ég þekki engan, en hef heyrt að þeir séu til sem halda því fram að það sé aðeins til ein fluga og hún sé þurr. Ég get alveg unnt veiðimönnum að hafa sínar skoðanir og í laumi dáist ég að þeim sem halda fast við sitt og sjá í einlægni ekki neinn tilgang í að prófa eitthvað annað. Dáist er e.t.v. ekki alveg rétta orðið, ég hef frekar lúmskt gaman að þeim. Það sem einum þykir sjálfsagt, þykir öðrum dyntir. Ég á t.d. kunningja sem veiðir aldrei bleikju á Nobbler, hann bara bíður henni ekki upp á svoleiðis, segir hann. Ég veit svo sem að hann veiðir ýmislegt annað á Nobbler og kann flestum öðrum að hnýta hann fallega, en bleikjunni bíður hann ekki Nobbler.

    Aftur á móti hef ég aldrei heyrt af veiðimanni sem harðneitar að veiða á þurrflugu, nema þá þeir sem bara treysta sér ekki í hana. Ég treysti mér alveg í hana, á bara svolítið erfitt með að ná tökum á henni. Það er trúlega ástæðan fyrir því að mér finnst ennþá skemmtilegast að veiða púpur og straumflugur, en mikið langar mig að ná tökum á þeirri þurru. Það eru trúlega allt of litlir fordómar í mér til að ég geti tekið einarða afstöðu til einhverrar einnar flugu.

    Ég þekki aftur á móti veiðimenn sem snerta helst ekki á púpum, veiða bara straumflugu, geta alveg spreytt sig á þurrflugunni en sleppa því jafnvel þótt allt sé í gangi á yfirborðinu. Ég hef líka lúmskt gaman að þessum gaurum. Ætli þeir séu ekki líka til sem veiða bara á þurrflugu eða púpu. Flóra okkar er næstum endalaus. Við höfum misjafnar ástæður fyrir sérvisku okkar en væntanlega skipar vanin okkur oftast til sætis eða dregur okkur í dilka.

    Eina sögu heyrði ég þó af veiðimanni sem aldrei veiddi á neitt annað en þurrflugu. Sá þótti reyndar sérlega lunkinn og fær með þá þurru. Einhverju sinni uppskar hann þó tóma ördeyðu á meðan félagi hans reif upp hvern fiskinn á fætur öðrum á púpu. ‚Þú verður að fara niður‘ sagði félaginn ítrekað en fékk engar undirtektir. Að lokum virti sá þurri félaga sinn viðlits og svaraði ‚Nei, vinur minn. Sjáðu til, þá gæti ég tapað flugunni‘. Þær geta verið ýmsar ástæðurnar fyrir vali manna á eftirlæti.

    Misheppnir félagar
    Misheppnir félagar

    Ummæli

    12.01.2014 – Veiði-Eiður: Ætli ég sjái nú ekki sjálfan mig þarna. Ég nota helst ekki straumflugur. Það er allra síðasta úrræði hjá mér, ef ekkert annað hefur virkað.

    Ástæðan fyrir því er þó einungis sú að ég hef aldrei náð almennilegum árangri með straumflugu og hef þ.a.l. mun meiri trú á púpunum eða votflugunum.

    15.01.2014 – Urriði: Ég skora á þig að nota straumflugu. Ég fullyrði að það er ekkert meira sexy en að sjá stóran urriða koma á fullri ferð upp úr dýpinu og velta sér yfir straumflugu sem er strippuð í yfirboðinu. Eða þá að sjá þá elta straumfluguna þvert yfir hylinn áður en þeir ákveða hvort þeir taki hana eða ekki, og allan tímann ertu með hjartað í buxunum. Ég næ oft betri árangri með púpum, en ég veiði örugglega jafn mikið á straumflugu af því að það er bara svo gaman og spennandi.
    Þess vegna er örugglega mest notaða flugan mín millistig milli nobblers og púpu, get bæði veitt hana andstreymis sem púpu og sem straumflugu.

    05.02.2014 – Siggi Kr.: Nú er ég aldeilis sammála félaga Urriða! Straumflugur eru lang mest notaða vopnið í mínu vopnabúri en ætli það sé ekki líka að hluta til því mér finnst svo svaðalega gaman að hnýta þær. Svo er takan líka oft svo svakaleg, liggur við að maður segi ofbeldishneigð. Reyndar fannst mér nokkuð gaman að nota þurrflugu síðasta sumar í Elliðavatni og ég hef alltaf notað púpurnar eitthvað líka og kem líklega til með að nota þær í meira mæli eftir að ég fór að fikra mig áfram í evrópsku púpuveiði-aðferðunum en samt er strímerinn enn í mestu uppáhaldi hjá mér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Full af kátínu

    9. janúar 2014
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Kátína
    Kátína

    Því hefur svo sem brugðið við að kaststíl veiðimanna sé lýst með orðum eins og ‚hann veifaði prikinu þarna fram og til baka, upp og niður‘. Í rituðu máli er óskaplega erfitt að gera sér grein fyrir hljómfalli orða og því auðvelt að yfirsjást galsi eða góðlátlegt grín í orðum sem þessum. Sjálfur hef ég notað öfgafullar lýsingar á eigin kaststíl og ekki legið á því að lýsa aðferðum mínum sem einhverju káfi út í loftið með flugustönginni. En, viti menn, það er alveg til í dæminu að veiða fluguna eins og maður viti bara ekkert hvernig eigi að halda á stönginni. Þetta snýst nánast um að hrista fluguna fram af toppinum og láta hana skoppa í loftinu, skittering upp á enska tungu. Aðferðin er helst notuð þegar menn veiða undan vindi eða léttri golu og felst í því að veiðimaðurinn heldur stönginni, aldrei þessu vant, töluvert hátt á lofti, nánast beint upp í loftið og leyfir flugunni að dansa til og frá í vindinum. Annars lagið er slakað á stönginni þannig að flugan sest á yfirborðið, rétt tyllir niður fótunum en tekur sig síða upp aftur og byrjar að flögra rétt við yfirborðið á ný. Auðvitað hafa menn hér í huga athafnir ýmissa flugna þegar þær verpa í yfirborð vatna eða eru ný klaktar og flögra heldur máttvana af stað eftir að hafa þurrkað vængina á yfirborðinu. Ætli ég gæti ekki betur að mér í framtíðinni þegar ég útmála eigin aulaskap, einhver gæti tekið upp á því að halda að ég sé einhver kátínu snillingur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Yaris eða rúta?

    6. janúar 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Aftur til fortíðar
    Aftur til fortíðar

    Er mikill mismunur á því að veiða í litlum læk og stórri á? Sumir segja að það sé svona álíka og að leita að Yaris eða rútu á bílastæði. Ég er alin upp við eina af stærri ám landsins, Ölfusá. Nánar tiltekið við ósinn í landi Eyrarbakka. Austan þorpsins er síðan önnur á, Hraunsá. Ölfusá er ekkert smáræði þarna við ströndina, ósinn svo breiður að ekki sér bakkanna á milli og vatnsmagnið gríðarlegt og því e.t.v. ekkert óeðlilegt við það að spræna eins og Hraunsá skildi hverfa algjörlega í skugga Ölfusár. Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn þá leit ég bara aldrei á Hraunsá sem á, þetta var í besta falli einhver skítugur skurður sem rann úr dælum ofan Stokkseyrar. Fyrir þá sem ekki þekkja orðið dæla, þá er rétt að taka það fram að orðið í þessu samhengi á ekkert skylt við áhald notað til að færa vatn úr stað, helst ná því úr iðrum jarðar. Dæla er vatn, oft kyrrstöðuvatn sem safnast saman í jaðri mýrar, oft skolað eða leirugt.

    Ég stundaði Ölfusánna reglulega sem stráklingur og fram á unglingsárin, lítið eftir það. Algengast var að veiða með pungsökku og ánamaðk sem dúndrað var út í ósinn, eins langt og mögulegt var og þar var einfaldlega látið liggja þar til einhver urriðinn, já eða smálaxinn ánetjaðist agninu og tók hressilega í. Ég held bara að ég hafi aldrei séð nokkurn mann með flugu á þessum árum en því fleiri með stórar kaststangir sem voru jafnvel notaðar í sjónum vestan þorpsins og vestur að ósi. Þar var ekki verið að eltast við neinn urriða.

    En hvers vegna er ég að rifja þetta upp? Jú, í sumar sem leið smakkaði ég svolítið aftur á veiði í straumvatni. Ég fór í litlar ár, sem alveg eins hefðu getað heitið lækir og ég fór í stærri á sem minnti um margt á ós Ölfusár. Án þess að ég sé að gera eitthvað upp á milli, þá verð ég nú að játa að mér líkaði miklu betur við litlu lækina/árnar heldur en þessar breiður af rennandi vatni þar sem ég gat ómögulega gert mér grein fyrir hvar fiskurinn héldi sig. Ætti ég svona ‚Back to the future‘ græju, myndir ég trúlega veiða í Hraunsánni í dag.

    Ummæli

    07.01.2014 – Þorvarður Árni: Spennandi varðandi Hraunsá, en hvar kaupir maður veiðileyfi og hvað kostar það. Sá umræðu að búið væri að skemma svæðið svo það henti betur kajakfólki, er eitthvað til í því?

    Svar: Nú þori ég ekki alveg að fullyrða um leyfi. Í gamla daga var nú ekkert spurt um leyfi í Hraunsá, ekki frekar en Ölfusá Eyrarbakka-megin, en það er nú breytt. Ef til vill væri best að spyrjast fyrir á skrifstofu Árborgar. Ég heyrði af þessari umræðu árið 2010 um stíflugerð ofan við þjóðveg en hef ekki skoðað áhrif hennar sjálfur. Stefán F. B. Nielsen (Stefán Freyr Barðason) á Selfossi þekkti vel til árinnar á sínum tíma og e.t.v. ráð að setja sig í samband við hann.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Flugur í farteskinu

    2. janúar 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Aðeins of?
    Aðeins of?

    Hefur fjöldi flugna í farteskinu eitthvað breyst hjá mér með tíð og tíma? Jú, til að byrja með var fjöldinn nákvæmlega sá sem buddan leyfði og því var sjaldnast ofsetið í boxinu. Svo fór ég að hnýta sjálfur og fjöldin óx og óx og öllu troðið í boxið og svo annað box og síðan enn annað. Þegar veiðivestið var síðan álíka orðið ofsetið og bleikjuvatnið uppi á hálendi fór allt of mikill tími í að ‚reyna‘ allar flugurnar.

    Með tíð og tíma hafa áherslurnar breyst. Ætli ég sé ekki farinn að leggja meira í að veiða hverja flugu á marga mismunandi vegu frekar en vita nákvæmlega hvar allar tegundirnar eru í boxunum mínum. Það er ekki þar með sagt að ég sé ekki alltaf að prófa eitthvað nýtt, en í sumar sem leið stóð ég mig að því að vera með aðeins fjórðung af úrvalinu í púpuboxinu án þess nokkurn tímana að sakna einhverrar flugu. Þar að auki fór miklu minni tími í að skipta um flugur þegar illa gekk, en því meiri tími í að prófa mismunandi framsetningu, inndrátt og hraða. Svei mér ef ég hef ekki bara hafst álíka gaman að veiðinni í sumar sem leið eins og undanfarin ár, þrátt fyrir minni afla, vegna þess að ég var sífellt að prófa eitthvað nýtt án þess að drekkja mér og öðrum í fjölda flugna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Án leiðbeinanda

    29. desember 2013
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hvernig ætli það sé að byrja á fluguveiði án þess að eiga sér leiðbeinanda eða það sem kallað er mentor upp á enska tungu? Eins og málum er háttað í dag, þá er það í sjálfu sér ekkert mikið mál. Næstu setningu má ekki taka sem sjálfbirgishátt: Ég er sjálflærður í fluguveiði, hef ekki notið þess munaðar að eiga mér mentor, en ég held að ég sé alveg þokkalega vel að mér og þetta hefur tekist alveg bærilega hingað til. Ef eitthvað má út á mig og mína veiðimennsku setja þá er æfingaleysi um að kenna. Ég er alveg eins latur við að æfa mig eins og hver annar.

    Það er af sem áður var að einn kennir öðrum, maður á mann. Framboð efnis á netinu, í bókum og á mynddiskum er slíkt í dag að menn geta nánast aflað sér allra upplýsinga með einu eða öllu framan greindra. Auðvitað hefði ég getað stytt mér ýmsa þrautargöngu í sportinu með því að finna ‚réttu‘ bókina fyrr eða horfa á ‚réttu‘ myndina oftar. Sumt verður þó aldrei af mannlegum samskiptum tekið. T.d. þegar kemur að því að greina villurnar í kastinu og fá leiðbeiningar við að lagfæra þær. Aðspurður sagði Stefán Hjaltested um daginn að flugukastkennsla fælist í ‚stöðugum skömmum‘ og þessar skammir geta ekki átt sér stað í gegnum netið eða á bók.

    Hættan við að það að vera sjálflærður er sú að maður taki upp einhverja vitleysu og festist í henni og þá er eins gott að finna svona gaura eins og Stefán eða Börk Smára og Himma FFF flugukastkennara. Þú getur fundið þá alla hér á síðunni undir Tenglar / Kastkennsla. Eins og Tom Rosenbauer nefnir í The Orvis Guide To Beginning Fly Fishing þá er góður leiðbeinandi gulls ígildi og hann er örugglega ekki sá sem heldur áfram að vera kurteisin uppmáluð eftir að þú hefur mælt þér mót við hann og hrósar öllu sem þú gerir. Má ég þá frekar biðja um gráglettnar athugasemdir í stað þess að borga einhverjum gaur fyrir að ljúga að mér um frammistöðuna. Það er hægt að byggja upp sjálfstraust nemanda án þess að ljúga að honum. Ég geri mér alveg ljóst að ég á langt í land með að vera einhver listamaður í fluguköstum. Svo er það allt annað mál hvort maður vill endilega verða þessi listamaður, hvort þokkalega snyrtileg köst séu ekki nóg ásamt úthaldi til að veiða samfleytt í 8 klst. án þess að verða verulega þreyttur eða skaða sjálfan sig til frambúðar.

    Veiðitæknina er hægt að lesa um, horfa á myndbönd og prófa sig áfram með. Samt er hætt við að eitthvað vanti alltaf aðeins uppá. Ég get ekki stoppað DVD diskinn og spurt Kirk Dieter að einhverju sem mér datt í hug einmitt á tilteknu augnablikinu. Ég gæti að vísu smellt skilaboðum á hann í gegnum Facebook, en það er algjörlega óvíst hvort svarið sé nákvæmlega við spurningunni sem brann á mér einmitt á því augnabliki. Góður mentor er líka gulls ígildi, hann getur sagt þér til undir hinum ýmsu kringumstæðum, á einmitt rétta augnablikinu og oftar en ekki með vísdóm sem gengið hefur í arf frá einum mentor til annars.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bakföll

    26. desember 2013
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þegar flugan tekur bakföll í framkastinu þá er eitthvað að. Nú er ég ekki að vísa til þess að hún taki bakföll af hlátri, heldur þessi leiðindi þegar flugan dettur niður á tauminn sjálfan í stað þess að leggjast fram og út á vatnið.

    Þessi hegðun kemur oftast í kjölfarið þess að þú hefur skipt um flugu, valið þér flugu sem er örlítið þyngri eða ekki eins straumlínulöguð og sú fyrri (aukin loftmótstaða). Það fyrsta sem vert er að athuga er hvort þú getir ekki stytt taumaendann um eins og eitt fet eða skipta honum út fyrir einu X-i sverari. Stundum þarf raunar að gera hvoru tveggja. Málið snýst einfaldlega um það að krafturinn í kastinu nær ekki fram í fluguna, nær ekki að flytja hana út á vatnið. Of langur taumur eða úr of grönnu efni er oftast skýringin á þessu. Sverari og/eða styttri taumur flytur meiri orku úr línunni og fram í fluguna.

    Fluga í bakfalli
    Fluga í bakfalli

    Ummæli

    26.12.2013 – Stefán B Hjaltested: Nr 1. Undirstaða er ákveðið gott bakkast nr 2 . Að réttur úlnliðshnikkur komi á hárnákvæmum stað,kl.10,30 -11,00 með ákveðnu stopp. Ég nota oft snöggann þrýsting með þumalfingri á korkinn í stað þess að nota hnikkinn. Með jólakastkveðju, Stefán B Hjaltested.

    Stefán

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 95 96 97 98 99 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar