FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Ofmetið úthald

    10. apríl 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Svo virðist vera sem ég hafi teflt á tæpasta vaðið í síðustu greinum mínum þar sem ég hef sagt frá minni sýn á ‘veiða og sleppa’. Enn og aftur, þetta er mín sýn og ég nýt þess að geta tjáð skoðun mína hér án þess að eiga yfir höfði mér dónalegar tjásur (nýyrði yfir komment). Til að allri sanngirni sé nú gætt, þá hafa mér ekki borist neinar dónalegar athugasemdir við skrifum mínum í gegnum tíðina. Kannski finnst mönnum þau ekki svara verð, en vissulega eru ekki allir sammála mér og það er hið besta mál.

    Og enn bæti ég um betur og tefli því fram að meira úthald er ekkert endilega betra. Á öðrum vetvangi er eindregið mælt með meira úthaldi í gælum og knúsi svona eftir erfiðið, en það á bara alls ekki við um VMS (veiða – mynda – sleppa). Ef veiðimaður vill endilega fá mynd af sér með aflanum, þá er eins gott að vera snöggur að því og helst ekki vera að grautast með bæði fisk og myndavél í einu. Fiski skal aldrei lyft upp úr vatni með annarri hendinni. Fáðu þér þrífót undir myndavélina eða góðan veiðifélaga til að taka myndina.

    Það er svolítið misjafnt hvað líffræðingar telja hámark þess tíma sem fiskur þolir að vera lyft upp úr vatni. Sumir segja 5 sek. á meðan aðrir tala um 15. Fiskur er ekki með lungu (svona fyrir þá sem ekki vissu það fyrir) og hann hættir að anda um leið og hann er tekinn upp úr vatninu. Að vera lyft upp úr vatninu er því fyrir honum eins og ef okkur væri dýft niður í ískalt vatn í 15 sek. strax eftir að við höfum lokið 100 metra hlaupi á fullu gasi.

    Nokkrar myndir sem mér þykja góðar að öllu leiti. Til að skoða þær í fullri upplausn og í samhengi við texta, smellið á þær.

    cr_galatinriverguides cr_steve_piat cr_tom_chandler_1 Larry Javorsky

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Eftir varp

    8. apríl 2014
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Væntanlega er það í yfirgnæfandi tilfellum sem menn veiða vorfluguna sem púpu eða lirfu, þ.e. þegar hún er á botninum eða við það að brjótast upp úr vatninu. Þá erum við með Peacock eða einhverja þeirra ótal Caddis eftirlíkinga á taumi sem má finna í flugnaúrvalinu, má þar nefna húsnæðislausar vorflugur og Hérann.

    Á eftir púpu og lirfuveiðum eru alltaf einhverjir sem spreyta sig á að líkja eftir vorflugunni þennan stutta tíma sem hún situr á vatninu eftir að hafa brotið sér leið upp á yfirborðið. Þetta er tiltölulega stuttur tími, því vorflugan er kröftugt kvikindi sem staldrar ekki lengi við á yfirborðinu eftir að hafa tekið á sig mynd flugunnar. Þó ekki sé alveg komið að því að vorflugurnar fari að verpa næstu kynslóð, þá er vert að geta þess að fullorðin flugan er hlutfallslega miklu meira áberandi og staldrar lengur við þegar hún verpir heldur en þegar hún brýst upp á yfirborðið. Eftir mökun, snýr flugan aftur út á vatnið til að verpa og er nokkuð áberandi á yfirborðinu á meðan að á því stendur og fiskurinn oft nokkuð agressífur í flugunni.

    Fljótlega eftir varpið deyr flugan og það er eins og hún hverfi þá sjónum veiðimanna, en ekki fisksins. Það getur verið erfitt fyrir okkur að greina fluguna þegar hún flýtur á vatninu, en fiskurinn sér hana tiltölulega vel og oft eru það stærri fiskarnir sem týna þær í sig af yfirborðinu. Verðum við varir við uppitökur að loknu varpi flugunnar, þá væri e.t.v. ekki úr vegi að bregða Elk Hair Caddis undir og sjá hvort við náum ekki einhverjum stórum, svöngum fiski.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þar sem rennur

    3. apríl 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Vor?
    Vor?

    Öll vötn renna til sjávar, segir máltækið. Það gerist jú á endanum, en fyrst þarf nú eitthvað vatn að safnast saman og á vorin er einmitt fyrsti tími söfnunar. Vorleysingar og bráð safnast saman í vötnunum okkar, misjafnlega mikið og misjafnlega hratt. Fyrsta bráð vorsins í ám og lækjum ber oft með sér óttalega drullu. Vötnin verða grá- brúnleit langt út frá árósa og ekkert sérstaklega árennileg að sjá. En þarna leynist oft ágætt tækifæri til veiði. Hver, hér í grennd við Reykjavík, hefur ekki séð vaðfuglana í Elliðavatni á vorin sem spóka sig lengst úti á Engjum eða meðfram strönd vatnsins frá ós Bugðu í átt að stíflunni? Sumir fylgja gamla farvegi árinnar meðfram bakkanum en það er ekki endilega áin sjálf sem er áhugaverð, heldur staðirnir þar sem hún er alveg við það að blandast vatninu, skilin. Svo má ekki gleyma því að rennandi vatn, jafnvel þótt skítugt sé, ber með sér súrefni sem fiskurinn sækir í.

    En það þarf ekki heila á til að fríska aðeins upp á vötnin. Í þennan árstíma verða oft til smá sprænur og gamlir lækir ganga í endurnýjun lífdaga þegar leysingavatn leitar í vötnin okkar. Meira að segja smávægilegt dripp, dropp fram af kletti eða vatnsbakka laðar að sér fisk. Það þarf því ekki alltaf að leita langt yfir skammt að fiski sem sækir í nýtt vatn og súrefni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ekki á fullu gasi

    1. apríl 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Halló
    Halló

    Það eru alls ekki nýjar fréttir að fiskur sé í rólegri kantinum á vorin, en góð vísa…. of oft….. o.s.frv. Í púpuveiðinni hægjum við á okkur snemma vors og veiðum mjög rólega, næstum dautt. En hvað með viðbragðið okkar? Hvernig högum við okkur þegar svo fiskurinn tekur fluguna? Mér finnst raunar svo langt síðan að ég upplifði töku að ég er ekki viss um hvernig ég á að haga mér. Jú, ég get lesið aðeins um viðbragð og horft á fjölda veiðimynda þar sem menn virðast fá fisk á 2ja. mín. fresti, non-stop í 50 mín. en það er alls ekki víst að ég græði neitt á því.

    Ég gæti líka lesið pistla og bækur manna eins og Kirk Deeter og Charlie Meyers þar sem hvatt er til þess að svara fiskinum formlega í viðbragðinu á vorin. Sem sagt; láttu eins og þú sért að taka upp símann þegar fiskurinn tekur. Notaðu sama viðbragð, afl og hraða þegar fiskur tekur að vori eins og þegar þú tekur upp símann. Eins og þeir félagar klykktu út með; Taktu upp símann og segðu halló við fleiri fiska.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fyrstu fyrst, eða….

    27. mars 2014
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Það getur kostað mig töluverða sjálfsstjórn að láta ekki vaða á fyrsta fiskinn sem ég kem auga á, hvort sem það er uppitaka, skvetta eða bara skuggi á botni. Þegar ég blaða í gegnum minningarbunkann minn, þá finn ég samt ekki eitt einasta tilfelli þar sem ég hef komið að vatni, séð fisk, kastað og fengið töku um leið. Þetta eitt ætti að kenna mér að taka mér meiri tíma þegar ég kem að vatninu. Þetta á ekki hvað síst við á vorin og snemma sumars þegar fiskurinn er ekki komin alveg í gang.

    Ég las í vetur sem leið grein frá nágrönnum okkar í vestri, Kanadamönnum, þar sem vísindamenn höfðu kortlagt hvaða fiskur vaknar fyrst til lífsins á vorin, verður fyrst mest áberandi í vötnunum. Í stuttu máli, það eru stubbarnir sem skvetta sér mest og leita í það litla klak sem hefst snemma vors. Stóru drjólarnir halda sig mun lengur á botninum og fara sér rólegar, koma upp þegar sólin hefur yljað vatnið aðeins síðari hluta dags og eru þá gjarnan í síli rétt utan við og á grynningunum.

    Fyrstir á fætur eru sem sagt stubbarnir sem geta ekki hamið sig, kíkja aðeins í sólina og láta öllum illum látum í þeirri flugu sem asnast til að klekjast snemma dags eða um hádegið. Fram að þeim tíma liggja þeir stærri og feitari aðeins lengur í bólinu og hafa auga með þeim litlu. Bíddu aðeins, þetta er nú bara ekkert ósvipað því hvernig ég hagaði mér um helgar hér um árið þegar guttarnir mínir ruku á fætur með látum áður en ég hafði einu sinni rænu til að opna annað augað.

    Glaðbeittur fiskur
    Glaðbeittur fiskur

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sleppingar

    25. mars 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Fiskur í hendi
    Fiskur í hendi

    Nú síðla vetrar hafa verið nokkrar umræður um ‚veiða og sleppa‘ á viðkvæmum fiskistofnum í Íslenskum vötnum, með sérstakri áherslu á Þingvallavatn og urriða þess. Öll umræða um sleppiskyldu í ám og vötnum er góðra gjalda verð, en engin stefna er svo góð að ekki megi ræða hana opinskátt án skætings.

    Í gegnum tíðina hef ég alltaf tekið þann pól í hæðina að velja út frá eigin forsendum hvort ég sleppi fiski sem ég hef náð í. Sjálfum þykir mér óþægilegt að veiða undir þeirri kvöð að ég þurfi að sleppa öllum fiski eða af ákveðinni stærð sem hefur tekið flugu hjá mér. Ég einfaldlega trúi því ekki að fiskur geti fari óskaddaður frá öngli hvort sem hann sé fiðraður eða hangi aftan í málmspjaldi. Ég hef aldrei geta tekið neinum þeim rökum sem segja að fiskurinn finni ekki eða verði ekki fyrir neinum óþægindum ef hann aðeins tekur agnið með ákveðnum hætti eða á ákveðnum stað í kjaftinum, alveg sama hvort öngull sé með agnhaldi eða ekki. Reyndir veiðimenn og náttúrutalentar í veiði hafa bent á þann annmarka agnahaldslausra öngla að þeir geta stungist oft og mörgu sinnum í hold fisksins í sömu tökunni og því skaðað hann meira heldur en þeir með agnhaldi.

    Sem sagt; ég hef valið að sneiða hjá þeim stöðum þar sem er sleppiskylda, annað hvort alfarið eða þá þeim stöðum sem ákveðinn fiskur heldur sig á. En það er ekki þar með sagt að ég geti ekki sleppi ekki, langt því frá. Ég sleppi stórum hluta þess fisks sem ég veiði, en ég sleppi á mínum forsendum og eftir minni sannfæringu, ég hef ekki á neinu öðru að byggja. Ég hef verið svo lukkulegur að halda á mörgum fiski í greip mér í gegnum tíðina. Fyrst fór ég nokkuð grimmt í þá með hendinni og skeytti litlu um það hvar og hvernig ég tók á þeim, ég vildi bara vera alveg öruggur um að missa hann ekki. Þetta háttarlag slípast nú yfirleitt af mönnum og með tíð og tíma fór ég að vanda mig meira, slakaði aðeins á því það þarf alls ekki að kyrkja fiskinn til að halda honum.

    Í dag tek ég ekki á fiski öðruvísi en í gegnum bómullarnetið í háfnum mínum og með höndina vel vota. Og þegar ég segi, tek á þá er það meira svona að halda við heldur en taka á. Fyrsta sem ég geri er að skyggnast eftir því hvar í fiskinum flugan er staðsett. Ef hún stendur vel út úr munnviki hans þá er ég ekkert að eyða tíma í að fálma eftir tönginni, ég nota fingurna og er oftar en ekki búinn að losa fluguna á skemmri tíma heldur en það tekur mig að finna töngina og munda hana rétt.

    Og nei, ég er ekki með stöngina í kjaftinum þannig að öll vörumerki snúi fram, rekandi fiskinn upp í linsu aðvífandi myndavélar. Stöngin er einfaldlega klemmd undir handlegg og fiskurinn er enn í vatninu og fer ekkert þaðan ef mér sýnist sem svo að sleppa honum. En hann verður að sýna þess merki að hann sé klár í sleppingu. Það er kannski einhver ímyndum í mér, en mér finnst að maður geti mælt lífsmörk fisks svolítið í gegnum fingurgómana. Heilbrigður fiskur sendir frá sé ákveðin skilboð sem veiðimenn læra að lesa í með tímanum, skilboð sem segja; Já, takk. Ég er nægjanlega hress og til í frelsið mitt.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 92 93 94 95 96 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar