Hversu öflug tenging ætli sé að milli veiðimanns og fisks? Auðvitað vill veiðimaðurinn að það sé nokkuð örugg tenging, helst lína, taumur og fluga sem er vel föst í fiskinum. En, getur verið að það sé einhver önnur tenging til staðar sem veiðimenn gera sér endilega ekki alltaf grein fyrir? Eitthvað sem fiskurinn skynjar en við ekki.
Ég er væntanlega ekki sá eini sem hef orðið fyrir því að vera eitthvað illa stemmdur þegar ég er komin í veiðina. Stundum er vinnan eitthvað að naga mann eftir daginn eða það örlar á einhverjum pirringi út af einu eða öðru þegar komið er að vatninu. Þegar best lætur undir þessum kringumstæðum þá fjarar vinnan og pirringurinn út eftir nokkur köst og maður slakar á og fer að njóta þess að bara vera og hlutirnir fara að ganga upp. En stundum nær maður bara alls ekki að losa sig við vinnuna eða pirringinn og þá er eins og fiskurinn verði var við það og ekkert gengur upp. Það er alveg saman hvar maður ber niður, hvaða flugu maður notar, stuttur taumur eða langur, ekkert gerist. Mest áberandi er þetta þegar maður fer í félagi við annan og hann veiðir og veiðir á nákvæmlega sömu stöðunum. Undir þessum kringumstæðum hefur mér reynst einna best að láta mig hverfa, rölta eitthvað út eða inn með vatninu, baða eina og eina flugu og sjá til hvort ekki rofar til í kollinum.

Svo eru þeir sem mæta til veiði á kolröngum forsendum. Veðrið er ómögulegt, enginn fiskur í þessu bévítans vatni og síðustu sögur af veiði tómt skrök. „Veiddir þú á þetta? Það getur ekki verið, ég prófaði og fékk ekki högg“ „Fiskur hérna? Nei, ekki séð einn einasta“, „Veiðist hérna? Nei, aldrei veitt neitt hérna“, „Það er ENGINN fiskur í þessu vatni, þetta er bara eitt stórt hrun“. Að veiða með sól í sinni er ef til vill ekki minna um vert heldur en með sól í heiði. Ekki draga dumbundinn með þér í veiði.
Senda ábendingu