Næstum því þurr fluga

Þurrfluguveiði hefur ekki alltaf verið að gera sig hjá mér, þar er veiðifélagi minn mér miklu fremri. Þetta ástand hefur varað í nokkur ár og ég get engum um kennt nema sjálfum mér. Þegar kemur að þurrfluguveiðinni þá er ég svolítið eins og unglingurinn sem svarar ‚Já‘ þegar hann er spurður hvort hann sé búinn að taka til í herberginu. ‚Já‘ er ekki beint ósatt en segir heldur ekki alla söguna. Að fara með tvær tómar gosdósir í endurvinnsludallinn er ekki það saman og að hafa tekið til í herberginu. hef ég prófað þurrfluguveiði? ‚Já‘, en eflaust hefði ég mátt gefa henni betri tíma og ….. ekki vanda mig svona mikið.

Fyrir einhverju síðan hnýtti ég nokkrar þurrflugur út frá eigin sýn á flugurnar sem ég hafði séð hingað og þangað á vötnunum okkar. Ég notaði það hráefni sem hendi var næst, fikraði mig áfram með ýmsar útfærslur, fínpússaði notkun á þráð og öðru efni þangað til ég var sáttur. Veiðifélagi minn hélt aftur á móti áfram að kaupa sínar þurrflugur, hefur greinilega ekkert litist á mínar.

Þurrflugufæri
Þurrflugufæri

Í sumar sem leið upplifði ég síðan þær aðstæður að ekki var um neitt annað að ræða heldur en setja þurrfluguna undir og halda sig við hana. Mér hefur lærst það með aldrinum að geta staldrað örlítið við og ráða ráðum mínum áður en ég veð af stað í verkefnið. Í þetta skiptið notaði ég smá tíma til að virða fyrir mér aðferðir frúarinnar. Jú, þetta leit nú ekkert svo flókið út hjá henni. Tvö til þrjú falsköst og svo lagðist þessi pínu litla þurrfluga snyrtilega út á vatnið og lá þar í mestu makindum þangað til einhver gráðug bleikjan saup hana ofur nett niður í gegnum filmuna á vatninu. Ég var nú ekkert svo viss um að mér tækist að leggja mína svona snyrtilega út, hvað þá að láta hana bara liggja þarna, fullkomlega aðgerðarlausa.

Ég lét slag standa og reyndi af fremsta megni að hemja mig í köstunum og leggja fluguna smekklega út á vatnið. O, jæja. Sum köstin heppnuðust betur en önnur, á meðan nokkur báru þess óræk merki að veiðimaðurinn væri vanari að leggja fram þyngdar púpur heldur en þyngdarlausar þurrflugur. Þær sem tókst að leggja snyrtilega út var svo sem ekkert erfitt að koma auga á, þær bara lágu þarna og geispuðu í blíðunni. Það var miklu erfiðara að láta þær bara vera þarna. En, þær sem fengu frið fyrir mér voru greinilega girnilega því tökurnar voru óstöðvandi.

Þá var bara komið að því að ná tökunni. Eftir nokkrar allt of seinar tilraunir gerðist ég djarfur og reiknaði einfaldlega með því að hve einasta gára í grennd við fluguna væri fiskur og ég reisti stöngina. Og viti menn, bleikjurnar fóru að tínast inn, ein og ein, eða öllu heldur tugur og tugur því þegar upp var staðið voru þetta einhverjar 20 sem ég náði á þurrflugu þennan morgun. Meira að segja náði ég nokkrum eftir að við höfðum fært okkur þangað sem klakið og uppitökurnar var alls ekki eins áberandi. Þá leyfði ég mér að hreyfa fluguna, meira að segja þannig að hún færi undir yfirborðið, trúlega þetta eina til tvær tommur. Þar sveimaði bleikjan og hámaði í sig púpur og uppgefnar flugur sem ekki höfðu náð upp á yfirborðið.

Þarna sannaðist það fyrir mér að það er hægt að veiða næstum því þurra flugu líka.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com