Neisti að veiði

Rétt um það bil núna, þegar þessi grein kemur á síðuna er urriðinn hringinn í kringum landið að leggja grunninn að komandi kynslóð fiska sem við vonandi fáum að spreyta okkur við eftir nokkur ár. Við verðum helst vör við þetta þegar urriðinn gengur upp árnar og lækina, takast á um vænstu hrygnuna á ballinu. Víða er þetta slíkt sjónarspil að hver veiðimaður sem verður vitni að, lítur fiskinn örlítið öðrum augum þegar kemur að veiðinni. En það er sannanlega aðeins minnstur hluti þessa ferlis sem við getum orðið vitni að. Mest af þessu gerist í slíkri smæð að við sjáum akkúrat ekkert gerast.

Frá Öxará
Frá Öxará

Þegar hrygningin sjálf er um garð gengin er það aðeins náttúran og undirbúningur hrygnunnar sem ræður því hvernig til tekst. Í mölinni á hrygningarslóð leynast hundruð þúsunda frjóvgaðra eggja sem sannast sagna eru óskaplega viðkvæm fyrstu vikurnar. Óvarleg umferð manna á þessum slóðum getur orðið þúsundum að aldurtila, eitt fótspor getur hæglega drepið hundruð í einu skrefi. Á þessu skeiði er ekki um neina næringarupptöku að ræða hjá hrognunum, lífið snýst um súrefni og hreint vatn.

Hreint vatn er vatn sem ber aðeins hæfilegt magn snefilefna með sér. Gruggist vatn, jafnvel hundruðum metra ofan við hrygningarslóð, getur það haft ófyrirséðar afleiðingar yfir hrognin í mölinni í för með sér. Raunar er það fínasti framburðurinn sem getur haft afdrifaríkustu afleiðingarnar í för með sér. Landrof, mold og leir sem losna upp og berst að hrygningarslóð geta hæglega gert út af við heilan árgang af fiski áður en hann kemst á legg. Þetta á raunar við um allt tímabilið frá því hrogn hafa verið frjóvguð og þar til seiðin sleppa heimdraganum og fikra sig út í vatnið.

Það þarf ekki aðeins að gefa fiskinum frið til að hrygna, komandi kynslóð þarf líka frið og öryggi til að komast á legg og verða að þeim verðugu andstæðingum sem við viljum kynnast síðar meir. Göngum varlega um árnar og lækina okkar í vetur og fram á vorið, við viljum ekki slökkva þessa neista að stórkostlegri veiði áður en á þá reynir.

Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service
Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.