FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Í upphafi

    4. nóvember 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það er mismunandi á hverju menn byrja þegar þeir koma að nýju vatni eða vel þekktu. Þær eru ekki ófáar sögurnar sem maður hefur heyrt og lesið af mönnum sem setja stangirnar saman á bílastæðinu, velja strax taum og flugu, smella sér síðan í vöðlurnar og arka eins og dýpið leyfir út í vatnið. Þessir veiðimenn skemmta sér eflaust alveg ágætlega og það er fyrir mestu. Þeir bögga mig ekki neitt, svo lengi sem þeir vaða ekki fyrir framan mig og böðla köstunum einmitt á staðinn sem ég er að reyna við.

    Svo eru þeir til sem nálgast vatnið tiltölulega spakir og afslappaðir, alveg þangað til þeir sjá að á planinu er einn eða fleiri veiðimaður að gera sig kláran. Mér hefur stundum dottið í hvort eitthvað sé að nýrnahettunum í þessum aðilum (adrenalín er framleitt í nýrnahettunum) vegna þess að þeir virðast umturnast á einu augabragði þegar hætt er við að þeir verði ekki fyrsti að vatninu. Einkennilegasta dæmið um þetta var maðurinn sem ég sá rjúka út úr bílnum sínum með veiðitöskuna og stangarhólkinn undir hendinni, storma á sandölunum út á vatnsbakkann og stilla þar græjunum upp á veiðilegum tanga. Rólegri heldur en pakksaddur urriði snéri hann síðan til baka og fór að klæða sig í mestu makindum á stæðinu. Ég satt best að segja man ekki hvað ég gerði, annað en brosa út í annað og bjóða kurteislega góðan daginn.

    Sjálfur er ég alltaf að hamast við að taka lífinu með ró þegar ég kem að vatni, hvort sem ég þekki til eða ekki. Skordýrin ættu auðvitað að gefa mér vísbendingu um hvaða flugu ég set fyrst undir, en auðvitað hafa sögusagnir áhrif á það sem verður fyrir valinu. Hafi maður heyrt af einhverri flugu sem gefið hefur á ákveðnum stað, er ansi hætt við að augljósar vísbendingar um að nota allt aðra flugu víki.

    Auðvitað hefur reynsla manns af ákveðnu vatni líka alltaf töluvert að segja. Hafi maður alltaf náð fiski á ákveðna flugu á ákveðnum stað, þá eru yfirgnæfandi líkur á að sú fluga fari fyrst undir, eðlilega. En hafi maður ekki á neinu að byggja, þá fer þessi persónulega leitarfluga sem flestir veiðimenn eiga sér undir. Að vísu eru alls ekki allir veiðimenn sem gera sér grein fyrir því að þeir eiga sér uppáhalds fyrstu-flugu, en hjá flestum er það nú samt svo. Hjá mér er þessi fluga stuttur Nobbler í þremur litum; orange ef ég á von á urriða, bleikur ef ef bleikjan er á stjái og rauður ef ég er ekki viss. Sé farið að rökkva verður reyndar svartur Nobbler oftar en ekki fyrir valinu og ef sól skín í heiði þá er hann stundum gulur eða gyltur. Í gróskumiklu vatni eða úfnu verður sá olívu græni reyndar oftast fyrir valinu og svo hef ég líka fengið ágæt viðbrögð við blending, þessum gula/hvíta/svara eins og Black Ghost. Allt í lagi, ég veit hvað þú ert að hugsa. Uppáhalds leitarflugan mín er sem sagt Nobbler, allir litir.

    En það er alls ekki þar með sagt að maður fái fisk á svona leitarflugu. Smá nart eða bylta á yfirborðinu er oft nóg til að segja manni hvort fiskur er til staðar og þá hvar. Þá getur maður farið að þrengja flugnavalið og bjóða flugur í takt við náttúruna.

    Nobbler
    Nobbler

    Athugasemdir

    13.11.2014 – Snævarr Örn (Urriði): Ég hnýti mína nobblera eins og þennan nema með rauðu vöfina fyrir aftan augun. Hnýti flestar straumflugurnar mínar þannig til að líkja eftir tálknum á litlum fiskum. Svo vil ég líka hafa „árásarblettinn“ framarlega á flugunni, þoli ekki þegar fiskarnir bara rétt grípa í skottið á nobblernum en festast ekki. Hef samt ekkert til að bakka það upp að þetta sé e-ð betra, bara sérviska í mér 🙂

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Flotefni

    28. október 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég var svolítinn tíma að sætta mig við það að fæstar þurrflugurnar mínar flutu einar og óstuddar. Til að byrja með voru þær flestar ekkert nema hástæðar votflugur sem ég gat í skásta falli veitt fjögur til fimm köst áður en þær beinlínis sóttu á botninn. Með tíð og tíma náði ég að fækka vöfunum með hnýtingarþráðinn og skerða efniviðinn eins og kostur var og þannig urðu þær léttari. Eftir sat að það var hreint ekki víst að þær flytu á vatnsfilmunni þegar til átti að taka.

    Hughreystandi félagar á netinu stöppuðu í mig stálinu og bentu á ýmsar gerðir flotefna sem fengust í veiðivöruverslunum og gerðu næstum hverja klessu að þurrflugu. Efnin eru ýmiskonar og ansi mörg og auðvitað þótti hverjum sinn fugl fagur. Veiðifélagi minn lumaði t.d. á lítilli dollu af óræðu en rándýru kremi sem ég held að hafi samanstaðið að mestu úr vel hreinsuðu vaseline sem smurt var á fluguna og látið þorna í smá tíma.

    Ray Bergman gaf lesendum bókar sinnar; Trout aftur á móti upp formúlu að flotefni á bls.168 sem hann notaði. Þar sem hann blandaði parafínolíu og bensíni saman í hlutföllunum 1:8 og notaði sem flotefni. Verð reyndar að játa að mér finnst ekki aðlaðandi að nýta bensín, toluene eða xylene (þynningarefni fyrir hnýtingarlakk) til þessara nota þar sem allt þetta er lyktarsterkt og hreint ekki umhverfisvænt í vatni, en kannski er það allt í lagi í litlu magni þegar mest af því gufað upp í fyrstu falsköstunum áður en flugan er lögð fram. Annars er aðferðin við að útbúa þetta flotefni frekar einföld; skafðu bara æskilegt magn utan af kertisstubb í krús og helltu þynningarefninu saman við í smáum skömmtum. Um leið og vaxið hefur leysts upp ert þú komin með flotefnið sem þú getur sett á lítinn brúsa. Gættu þess bara að nota ílát með góðu loki og umfram allt nógu víðum stút þannig að þú getir dýft flugunni í.

    Forsíða Trout eftir Ray Bergman
    Forsíða Trout eftir Ray Bergman

    Ef þú hefur áhuga á samanburðartilraun Grant Holzworth á nokkrum flotefnum og lausn Ray Bergman,  þá getur þú lesið allt um hana hér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Neisti að veiði

    21. október 2014
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Rétt um það bil núna, þegar þessi grein kemur á síðuna er urriðinn hringinn í kringum landið að leggja grunninn að komandi kynslóð fiska sem við vonandi fáum að spreyta okkur við eftir nokkur ár. Við verðum helst vör við þetta þegar urriðinn gengur upp árnar og lækina, takast á um vænstu hrygnuna á ballinu. Víða er þetta slíkt sjónarspil að hver veiðimaður sem verður vitni að, lítur fiskinn örlítið öðrum augum þegar kemur að veiðinni. En það er sannanlega aðeins minnstur hluti þessa ferlis sem við getum orðið vitni að. Mest af þessu gerist í slíkri smæð að við sjáum akkúrat ekkert gerast.

    Frá Öxará
    Frá Öxará

    Þegar hrygningin sjálf er um garð gengin er það aðeins náttúran og undirbúningur hrygnunnar sem ræður því hvernig til tekst. Í mölinni á hrygningarslóð leynast hundruð þúsunda frjóvgaðra eggja sem sannast sagna eru óskaplega viðkvæm fyrstu vikurnar. Óvarleg umferð manna á þessum slóðum getur orðið þúsundum að aldurtila, eitt fótspor getur hæglega drepið hundruð í einu skrefi. Á þessu skeiði er ekki um neina næringarupptöku að ræða hjá hrognunum, lífið snýst um súrefni og hreint vatn.

    Hreint vatn er vatn sem ber aðeins hæfilegt magn snefilefna með sér. Gruggist vatn, jafnvel hundruðum metra ofan við hrygningarslóð, getur það haft ófyrirséðar afleiðingar yfir hrognin í mölinni í för með sér. Raunar er það fínasti framburðurinn sem getur haft afdrifaríkustu afleiðingarnar í för með sér. Landrof, mold og leir sem losna upp og berst að hrygningarslóð geta hæglega gert út af við heilan árgang af fiski áður en hann kemst á legg. Þetta á raunar við um allt tímabilið frá því hrogn hafa verið frjóvguð og þar til seiðin sleppa heimdraganum og fikra sig út í vatnið.

    Það þarf ekki aðeins að gefa fiskinum frið til að hrygna, komandi kynslóð þarf líka frið og öryggi til að komast á legg og verða að þeim verðugu andstæðingum sem við viljum kynnast síðar meir. Göngum varlega um árnar og lækina okkar í vetur og fram á vorið, við viljum ekki slökkva þessa neista að stórkostlegri veiði áður en á þá reynir.

    Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service
    Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Geðsleg veiði

    14. október 2014
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Hversu öflug tenging ætli sé að milli veiðimanns og fisks? Auðvitað vill veiðimaðurinn að það sé nokkuð örugg tenging, helst lína, taumur og fluga sem er vel föst í fiskinum. En, getur verið að það sé einhver önnur tenging til staðar sem veiðimenn gera sér endilega ekki alltaf grein fyrir? Eitthvað sem fiskurinn skynjar en við ekki.

    Ég er væntanlega ekki sá eini sem hef orðið fyrir því að vera eitthvað illa stemmdur þegar ég er komin í veiðina. Stundum er vinnan eitthvað að naga mann eftir daginn eða það örlar á einhverjum pirringi út af einu eða öðru þegar komið er að vatninu. Þegar best lætur undir þessum kringumstæðum þá fjarar vinnan og pirringurinn út eftir nokkur köst og maður slakar á og fer að njóta þess að bara vera og hlutirnir fara að ganga upp. En stundum nær maður bara alls ekki að losa sig við vinnuna eða pirringinn og þá er eins og fiskurinn verði var við það og ekkert gengur upp. Það er alveg saman hvar maður ber niður, hvaða flugu maður notar, stuttur taumur eða langur, ekkert gerist. Mest áberandi er þetta þegar maður fer í félagi við annan og hann veiðir og veiðir á nákvæmlega sömu stöðunum. Undir þessum kringumstæðum hefur mér reynst einna best að láta mig hverfa, rölta eitthvað út eða inn með vatninu, baða eina og eina flugu og sjá til hvort ekki rofar til í kollinum.

    Engin veiði hér
    Engin veiði hér

    Svo eru þeir sem mæta til veiði á kolröngum forsendum. Veðrið er ómögulegt, enginn fiskur í þessu bévítans vatni og síðustu sögur af veiði tómt skrök. „Veiddir þú á þetta? Það getur ekki verið, ég prófaði og fékk ekki högg“ „Fiskur hérna? Nei, ekki séð einn einasta“, „Veiðist hérna? Nei, aldrei veitt neitt hérna“, „Það er ENGINN fiskur í þessu vatni, þetta er bara eitt stórt hrun“. Að veiða með sól í sinni er ef til vill ekki minna um vert heldur en með sól í heiði. Ekki draga dumbundinn með þér í veiði.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Næstum því þurr fluga

    9. október 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Þurrfluguveiði hefur ekki alltaf verið að gera sig hjá mér, þar er veiðifélagi minn mér miklu fremri. Þetta ástand hefur varað í nokkur ár og ég get engum um kennt nema sjálfum mér. Þegar kemur að þurrfluguveiðinni þá er ég svolítið eins og unglingurinn sem svarar ‚Já‘ þegar hann er spurður hvort hann sé búinn að taka til í herberginu. ‚Já‘ er ekki beint ósatt en segir heldur ekki alla söguna. Að fara með tvær tómar gosdósir í endurvinnsludallinn er ekki það saman og að hafa tekið til í herberginu. hef ég prófað þurrfluguveiði? ‚Já‘, en eflaust hefði ég mátt gefa henni betri tíma og ….. ekki vanda mig svona mikið.

    Fyrir einhverju síðan hnýtti ég nokkrar þurrflugur út frá eigin sýn á flugurnar sem ég hafði séð hingað og þangað á vötnunum okkar. Ég notaði það hráefni sem hendi var næst, fikraði mig áfram með ýmsar útfærslur, fínpússaði notkun á þráð og öðru efni þangað til ég var sáttur. Veiðifélagi minn hélt aftur á móti áfram að kaupa sínar þurrflugur, hefur greinilega ekkert litist á mínar.

    Þurrflugufæri
    Þurrflugufæri

    Í sumar sem leið upplifði ég síðan þær aðstæður að ekki var um neitt annað að ræða heldur en setja þurrfluguna undir og halda sig við hana. Mér hefur lærst það með aldrinum að geta staldrað örlítið við og ráða ráðum mínum áður en ég veð af stað í verkefnið. Í þetta skiptið notaði ég smá tíma til að virða fyrir mér aðferðir frúarinnar. Jú, þetta leit nú ekkert svo flókið út hjá henni. Tvö til þrjú falsköst og svo lagðist þessi pínu litla þurrfluga snyrtilega út á vatnið og lá þar í mestu makindum þangað til einhver gráðug bleikjan saup hana ofur nett niður í gegnum filmuna á vatninu. Ég var nú ekkert svo viss um að mér tækist að leggja mína svona snyrtilega út, hvað þá að láta hana bara liggja þarna, fullkomlega aðgerðarlausa.

    Ég lét slag standa og reyndi af fremsta megni að hemja mig í köstunum og leggja fluguna smekklega út á vatnið. O, jæja. Sum köstin heppnuðust betur en önnur, á meðan nokkur báru þess óræk merki að veiðimaðurinn væri vanari að leggja fram þyngdar púpur heldur en þyngdarlausar þurrflugur. Þær sem tókst að leggja snyrtilega út var svo sem ekkert erfitt að koma auga á, þær bara lágu þarna og geispuðu í blíðunni. Það var miklu erfiðara að láta þær bara vera þarna. En, þær sem fengu frið fyrir mér voru greinilega girnilega því tökurnar voru óstöðvandi.

    Þá var bara komið að því að ná tökunni. Eftir nokkrar allt of seinar tilraunir gerðist ég djarfur og reiknaði einfaldlega með því að hve einasta gára í grennd við fluguna væri fiskur og ég reisti stöngina. Og viti menn, bleikjurnar fóru að tínast inn, ein og ein, eða öllu heldur tugur og tugur því þegar upp var staðið voru þetta einhverjar 20 sem ég náði á þurrflugu þennan morgun. Meira að segja náði ég nokkrum eftir að við höfðum fært okkur þangað sem klakið og uppitökurnar var alls ekki eins áberandi. Þá leyfði ég mér að hreyfa fluguna, meira að segja þannig að hún færi undir yfirborðið, trúlega þetta eina til tvær tommur. Þar sveimaði bleikjan og hámaði í sig púpur og uppgefnar flugur sem ekki höfðu náð upp á yfirborðið.

    Þarna sannaðist það fyrir mér að það er hægt að veiða næstum því þurra flugu líka.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Altari urriðans

    1. maí 2014
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Hann er oft vandrataður vegur hófsemdarinnar og það á við um ýmislegt veiðitengt þessa dagana. Það hefur tíðkast löngu fyrir tíð Jesús Kr. Jósepssonar að fórnað sé saklausum lömbum um páskana og væntanlega hafa þau ekki öll verið sátt við það sbr. þessa frétt á Vísi. Húsfreyjur ríkisjarða ausa úr viskubrunni sínum um urriðasleppingar í Þingvallavatni og krydda lýsingar sínar á veiðimönnum með nokkuð hressilegum athugasemdum og gífuryrðum, örfáar alhæfingar hér á ferð. Veiðimenn og náttúruunnendur svara síðan fullum hálsi og láta vanþóknun sína í ljós á samfélagsmiðlum, sumir hressilegar en aðrir. Svo eru þeir sem hafa til þess burði að víkja tilfinningum til hliðar og nálgast málið út frá rannsóknum og eigin reynslu eins og Jóhannes Sturlaugsson í grein sinni á Laxfiskar.is

    Því er nú sjaldnast þannig farið að allir hafi 100% rétt fyrir sér og finna má sannleikskorn í öllu, sama hversu ótrúlegt sumt virðist vera. Sjálfur hef ég ekki trú á að margir, ef þá nokkrir 35 punda urriðar liggir dauðir á botni Þingvallavatns, nema þá þeir sem hafa til þess aldur og hafa drepist í hárri elli. Eins finnst mér ólíklegt að margir liggir þeir dauðir með svöðusár eftir fluguveiði frístundaveiðimanna. En hitt er svo annað mál að sumir geta drepist eftir sleppingar sé óvarlega á þeim tekið við VMS (veiða – mynda – sleppa) og sjálfsagt mál að menn athugi hvernig þeir taka á fiskinum og hve lengi. Það eru til margar, ágætar og vel studdar rökum, greinarnar á netinu um meðhöndlun fisks, þar á meðal þessi frá Bish & Fish sem vert er að lesa.

    Tökum okkur tak, en höfum það laust, og leyfum urriðanum á Þingvöllum að njóta vafans í öllu vatninu eins og Halldór Gunnarsson gerir á þessari mynd í frétt á vef Veiðikortsins, fagmennska hér á ferðinni.

    Af vef Veiðikortsins
    Af vef Veiðikortsins

    Ummæli

    05.05.2014 – Halldór Gunnarsson: Flott grein og takk fyrir fögur orð um kallinn 🙂

    Svar: Takk fyrir og sömuleiðis Halldór. Þeir eiga hrós skilið sem veiða eins og menn og bera virðingu fyrir fiskinum. Ég hvet alla til að fylgjast með bloggi Halldórs, http://veidiflugan.wordpress.com/ þar sem kennir ýmissa grasa og skemmtilegra frásagna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 91 92 93 94 95 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar