Það er mismunandi á hverju menn byrja þegar þeir koma að nýju vatni eða vel þekktu. Þær eru ekki ófáar sögurnar sem maður hefur heyrt og lesið af mönnum sem setja stangirnar saman á bílastæðinu, velja strax taum og flugu, smella sér síðan í vöðlurnar og arka eins og dýpið leyfir út í vatnið. Þessir veiðimenn skemmta sér eflaust alveg ágætlega og það er fyrir mestu. Þeir bögga mig ekki neitt, svo lengi sem þeir vaða ekki fyrir framan mig og böðla köstunum einmitt á staðinn sem ég er að reyna við.
Svo eru þeir til sem nálgast vatnið tiltölulega spakir og afslappaðir, alveg þangað til þeir sjá að á planinu er einn eða fleiri veiðimaður að gera sig kláran. Mér hefur stundum dottið í hvort eitthvað sé að nýrnahettunum í þessum aðilum (adrenalín er framleitt í nýrnahettunum) vegna þess að þeir virðast umturnast á einu augabragði þegar hætt er við að þeir verði ekki fyrsti að vatninu. Einkennilegasta dæmið um þetta var maðurinn sem ég sá rjúka út úr bílnum sínum með veiðitöskuna og stangarhólkinn undir hendinni, storma á sandölunum út á vatnsbakkann og stilla þar græjunum upp á veiðilegum tanga. Rólegri heldur en pakksaddur urriði snéri hann síðan til baka og fór að klæða sig í mestu makindum á stæðinu. Ég satt best að segja man ekki hvað ég gerði, annað en brosa út í annað og bjóða kurteislega góðan daginn.
Sjálfur er ég alltaf að hamast við að taka lífinu með ró þegar ég kem að vatni, hvort sem ég þekki til eða ekki. Skordýrin ættu auðvitað að gefa mér vísbendingu um hvaða flugu ég set fyrst undir, en auðvitað hafa sögusagnir áhrif á það sem verður fyrir valinu. Hafi maður heyrt af einhverri flugu sem gefið hefur á ákveðnum stað, er ansi hætt við að augljósar vísbendingar um að nota allt aðra flugu víki.
Auðvitað hefur reynsla manns af ákveðnu vatni líka alltaf töluvert að segja. Hafi maður alltaf náð fiski á ákveðna flugu á ákveðnum stað, þá eru yfirgnæfandi líkur á að sú fluga fari fyrst undir, eðlilega. En hafi maður ekki á neinu að byggja, þá fer þessi persónulega leitarfluga sem flestir veiðimenn eiga sér undir. Að vísu eru alls ekki allir veiðimenn sem gera sér grein fyrir því að þeir eiga sér uppáhalds fyrstu-flugu, en hjá flestum er það nú samt svo. Hjá mér er þessi fluga stuttur Nobbler í þremur litum; orange ef ég á von á urriða, bleikur ef ef bleikjan er á stjái og rauður ef ég er ekki viss. Sé farið að rökkva verður reyndar svartur Nobbler oftar en ekki fyrir valinu og ef sól skín í heiði þá er hann stundum gulur eða gyltur. Í gróskumiklu vatni eða úfnu verður sá olívu græni reyndar oftast fyrir valinu og svo hef ég líka fengið ágæt viðbrögð við blending, þessum gula/hvíta/svara eins og Black Ghost. Allt í lagi, ég veit hvað þú ert að hugsa. Uppáhalds leitarflugan mín er sem sagt Nobbler, allir litir.
En það er alls ekki þar með sagt að maður fái fisk á svona leitarflugu. Smá nart eða bylta á yfirborðinu er oft nóg til að segja manni hvort fiskur er til staðar og þá hvar. Þá getur maður farið að þrengja flugnavalið og bjóða flugur í takt við náttúruna.

Athugasemdir
13.11.2014 – Snævarr Örn (Urriði): Ég hnýti mína nobblera eins og þennan nema með rauðu vöfina fyrir aftan augun. Hnýti flestar straumflugurnar mínar þannig til að líkja eftir tálknum á litlum fiskum. Svo vil ég líka hafa „árásarblettinn“ framarlega á flugunni, þoli ekki þegar fiskarnir bara rétt grípa í skottið á nobblernum en festast ekki. Hef samt ekkert til að bakka það upp að þetta sé e-ð betra, bara sérviska í mér 🙂
Senda ábendingu