Nú þegar veturinn er genginn í garð, þá horfir maður með söknuði til sumarsins sem leið. Einhverra hluta vegna er sumarið ein samfella blíðviðris í mínum huga og sjaldan jafn margir fiskar komið á land í eins góðu veðri. Nei, ég er ekki búsettur á norð-austurlandi og raunar fór ég ekkert norður yfir heiðar vegna annríkis hér fyrir sunnan og ekki austar en Klaustur.
En þar með er ekki sagt að allt sem ég upplifði s.l. sumar hafi verið mér byr í seglin. Nei, hreint ekki. Ég átti mínar fiskilausu stundir á meðan veiðifélagi minn setti í hvern fiskinn á fætur öðrum rétt við hlið mér. Ein slík stund kemur upp í huga mér; Langavatn í Veiðivötnum. Þarna stóðum við hjónin hlið við hlið í Langavatnskrika, bæði með stuttan bleikan nobble undir, hún með sægsökkvandi línu, ég með heldur hraðari. Ég tók svo sem fisk, en ég þurfti yfirleitt fimm köst áður en ég varð var, hún setti í fisk í hverju kasti. Þegar svo botninn datt endanlega úr veiðinni hjá mér, bauð frúin mér að reyna sína stöng og sinn stað. Þó það væru aðeins 4-5 metrar á milli okkar, lét ég til leiðast og setti mig bókstaflega í spor frúarinnar. Og viti menn, ekkert gerðist.
Í huga mér tók vísindaleg úttekt á aðstæðum og aðferðum við. Köstin okkar voru svipuð að lengd, stefnan sú sama, stóðum í sömu sporum og köstuðum til sömu áttar. Um mismun á búnaði var ekki að ræða þar sem ég var jú með hennar stöng, línu, taum og flugu. Hvað er þá eftir? Jú, inndrátturinn. Ég dró inn með mínum venjulega hætti sem hefur alveg dugað mér hingað til; miðlungs lengd með miðlungs hraða. Hún aftur á móti dró stutt, ótt og títt. Raunar má segja að á minn mælikvarða hafi hún verið að draga alveg brjálæðislega hratt.
Það er svo sem ekki hægt að segja að ég hafi misst svefn yfir þessari niðurstöðu minni, en mér var nokkuð oft hugsað til þessa þegar ég var á bleikjuslóð með bleikan nobbler undir það sem eftir lifði sumars. Svo kom aftur að því að ég fékk ekki fisk á meðan hún mokaði. Ég snéri mér örlítið undan og tók til við að herða töluvert á inndrættinum. Þegar ég var alveg við það að ná eigin þolmörkum var tekið með látum. Humm, jú kannski ég hafi alltaf dregið aðeins of hægt þegar bleikur er undir. Kannski má maður bara alls ekki gefa bleikjunni tíma til að virða þennan óskapnað fyrir sér sem bleikur nobbler er.

Ummæli
18.11.2014 – Þórarinn (silungsveidi.is): Já, maður hefur nú verið þarna. Veiddi með mági mínum í Þingvallavatni úti í eyju í Vatnskotinu, á meðan ég fékk 4-5 fiska fékk hann 20 kíló! Hann er jú reyndar veiðikló en við vorum sem sagt hlið við hlið, með flotlínur, langan taum og svartar litlar flugur.
Hef hugsað mikið um þetta og held að það hljóti í þessu tilfelli að vera mismunandi næmni og kannski sjötta skilningarvitið sem menn fá þegar þeir hafa veitt mikið. Hann hefur fundið tökurnar betur og fundið á sér hvenær hann ætti að reisa stöngina. Við höfum hugsanlega fengið jafn margar tökur en hann bara kippt í á réttum tíma.
Svar: Kannski er þetta einmitt það sem gerir stangveiðina svona skemmtilega og ekki hve síst að vera á tánum og fylgjst með öðrum, hvernig þeir bera sig að og hvað þeir gera.
Senda ábendingu