Eflaust hef ég ýjað að þessu atriði áður, en þetta er þá bara ein af þessum vísum sem má kveða oftar en einu sinni. Við veiðifélagarnir vorum að velta því fyrir okkur í sumar, hve orðspor vatna eða veiðistaða hefur mikið að segja þegar við veljum okkur stað. Hversu oft hefur maður, vegna neikvæðra frétta, látið undir höfuð leggjast að reyna staði?
Þannig var að á samfélagsmiðli nokkrum birtist falleg mynd af ákveðnum veiðistað og mönnum bent á að nú væri aðkoma að þessum stað fær öllum sem vildu. Áður hafði verið þar lélegur slóði sem við hjónin höfðum fikrað okkur á 4×4 bíl nokkrum sinnum og þótt í lagi, en ekki mikið meira en það. Þessar fréttir og fagrar lýsingar urðu til þess að við lögðum leið okkar á staðinn næstu helgi. Fallegur staður og nokkrir mjög veiðilegir staðir þar við en hingað til höfum við alltaf farið fisklaus heim af þessum slóðum.
Þegar við vorum að renna í hlað, mættum við nokkrum veiðimönnum sem voru nýbúnir að taka sig saman og aðspurðir fengum við þá kveðju að þarna væri enginn fiskur og ekkert hefði veiðst. Svo mörg voru þau orð, en áfram héldum við og væntanlega reyndum við fyrir okkur á sömu stöðum og þeir höfðu reynt og með sama árangri. Við vorum svo sem ekki með háar væntingar til þessa staðar, þá helst af eigin reynslu, en vitaskuld hafði kveðja forvera okkar einhver áhrif á mann. Eftir stendur að þessi veiðistaður er mikið stundaður, hann ber þess merki og mér þykir enn ólíklegt að veiðimenn fari ítrekað á sömu slóðir ef aldrei neitt fiskast. Ég ætla í það minnsta að leggja leið mína á þennan stað aftur á komandi sumri, sama hvað hver segir.
Svona til að hnýta endahnútinn á þessa grein, þá mættum við tveimur veiðimönnum rétt í þann mund að við vorum að taka okkur saman þennan dag. Vinsamlegri fyrirspurn um afla svöruðum við eins jákvætt og okkur var unnt og sögðumst ekki hafa orðið vör, en það væri örugglega fiskur þarna, rétt eins og í vatninu öllu að meira eða minna leiti. Vonandi hafa þessir veiðimenn verið heldur heppnari en við en eitt er víst, næst prófa ég síðar dags og þá mögulega á miðju sumri, það eru tímasetningarnar sem ég hef ekki enn reynt á þessum slóðum.

Senda ábendingu